Stækkun Evrópusambandsins

Miðvikudaginn 17. október 2001, kl. 13:44:41 (651)

2001-10-17 13:44:41# 127. lþ. 13.1 fundur 82. mál: #A stækkun Evrópusambandsins# fsp. (til munnl.) frá utanrrh., ÞSveinb
[prenta uppsett í dálka] 13. fundur, 127. lþ.

[13:44]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Herra forseti. Hér er nokkuð viðamikið mál á ferðinni og ástæða er til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að vekja máls á því á hinu háa Alþingi. Mig langar til að inna hæstv. utanrrh. eftir því hvenær ráðgert sé að hefja viðræður við umsóknarlöndin, þ.e. þau sem sótt hafa um aðild að Evrópusambandinu. Hæstv. ráðherra sagði að viðræður væru ekki hafnar um aðlögun að EES-samningnum. Gott væri að hæstv. ráðherra gæti greint frá því hvenær þær gætu hugsanlega hafist, ef hann veit það, og hvernig undirbúningi þeirra verður háttað í utanrrn. og af hálfu íslenskra stjórnvalda og hvernig samstarfi við útflutningsfyrirtæki eða atvinnufyrirtæki á Íslandi verði háttað í þeim undirbúningi.