2001-11-19 19:59:38# 127. lþ. 31.9 fundur 287. mál: #A niðurstaða 7. aðildarríkjaþings Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar# skýrsl, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 31. fundur, 127. lþ.

[19:59]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. hóf mál sitt á því að kveða upp úr, að því er mér fannst með ótrúlega hrokafullum hætti, um það að stjórnarliðar hefðu gallaða framtíðarsýn þar sem þeir vilja nota orkuna til uppbyggingar stóriðju, til atvinnuuppbyggingar til hagsbóta fyrir efnahag þjóðarinnar. Ég vil biðja hv. þm. að útskýra þetta og jafnframt í leiðinni að útskýra hver framtíðarsýn hennar er. Svo spyr ég kannski í framhjáhlaupi: Sér hv. þm. ekkert jákvætt í þessu máli? Það væri gaman að heyra það. Hér hafa hv. þm. Vinstri grænna verið sérlega neikvæðir í dag sem kannski kemur ekki á óvart. En gaman væri að heyra hvort hv. þm. sjái ekkert jákvætt í þessu máli.