Lögreglan í Reykjavík

Miðvikudaginn 21. nóvember 2001, kl. 14:26:12 (1884)

2001-11-21 14:26:12# 127. lþ. 33.6 fundur 206. mál: #A lögreglan í Reykjavík# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi GÁS
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 127. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Árni Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svörin. Þau koma mér satt að segja dálítið á óvart, þægilega á óvart verð ég að segja. Ef rétt er að viðbragðsflýtir lögreglunnar vegna brýnnar aðstoðarbeiðni sé á bilinu 30 sekúndur til þrjár mínútur þá eru málin í prýðilegu lagi. En ég hlýt að hugsa mig um í þessu sambandi. Þegar því er haldið fram að lengstur útkallstími sé fimm til sjö mínútur vegna brýnnar neyðaraðstoðar þá hef ég mínar efasemdir.

Ég hef nefnilega upplýsingar um það, og það er ástæðan fyrir því að ég lagði þessa spurningu fram, að aðfararnóttina 20. október sl. fannst meðvitundarlaus maður í stigagangi húss í Breiðholti og því var beðið um aðstoð lögreglu. Það liðu 50 mínútur þar til aðstoð barst þannig að hér hefur ráðherra augljóslega rangar upplýsingar undir höndum. Því var svarað til af lögreglumönnum þegar þeir komu á staðinn að allir bílar hefðu verið uppteknir. Þeir vildu með öðrum orðum auðvitað veita þessa aðstoð en gátu það ekki sökum kringumstæðna, sökum fárra bíla á vakt og sökum mannfæðar. Því miður held ég, herra forseti, að hæstv. ráðherra hafi annaðhvort ekki gaumgæft þessi svör eða ekki gengið úr skugga um að þau væru rétt. Þau eru það ekki, því er verr og miður.

Maður hlýtur að hafa sínar efasemdir þegar dregin er upp sú mynd að allt sé hér í standi þegar raunveruleikinn sem við borgurunum blasir og lögreglumönnunum sjálfum er allt annar. Þá heldur þessi umræða áfram og við á hinu háa Alþingi munum kappkosta um að hið rétta og sanna komi í ljós og menn geri raunverulega bragarbót á ástandi sem er alls ekki viðunandi.