Ferill 146. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 146  —  146. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.


    Orðin „samfellt í a.m.k. fimm ár“ í 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, sbr. lög nr. 23/1991, falla brott.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í dómsmálaráðuneytinu. Með frumvarpinu er lögð til breyting á lögum um eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966, að því er varðar heimild útlendinga til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt að fasteignum hér á landi.
    Samkvæmt 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna, eins og henni var breytt með 8. gr. laga nr. 23/1991, má enginn öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi nema hann sé íslenskur ríkisborgari eða hafi verið með lögheimili hér á landi samfellt í a.m.k. fimm ár. Skv. 2. mgr. sömu greinar getur ráðherra veitt leyfi til að víkja frá þessu skilyrði. Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á lögunum að fallið verði frá áskilnaði um að útlendingur þurfi að hafa átt hér lögheimili í fimm ár til að geta eignast fasteign. Þannig verði nægjanlegt fyrir útlending að eiga lögheimili hér á landi og því þyrftu aðeins þeir útlendingar að sækja um leyfi sem ekki eiga lögheimili hér. Réttur útlendings sem öðlast eignarrétt yfir fasteign með þessum hætti er bundinn því að hann eigi hér áfram lögheimili. Útlendingur sem flytur af landi brott verður því að sækja um leyfi samkvæmt lögunum, sbr. 8. gr. laganna.
    Á undanförnum árum hefur mikill fjöldi útlendinga sótt um undanþágu frá skilyrðum 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Fjöldi slíkra mála í dómsmálaráðuneytinu á undanförnum árum var sem hér segir: Árið 1997 bárust 103 beiðnir, árið 1998 183 beiðnir, árið 1999 232 beiðnir og árið 2000 bárust ráðuneytinu 287 slíkar umsóknir. Langstærstur hluti þessara beiðna kemur frá útlendingum búsettum hér á landi sem ekki fullnægja skilyrðinu um að hafa haft hér lögheimili samfellt í fimm ár. Mjög margir þessara útlendinga eru makar íslenskra ríkisborgara. Á undanförnum áratugum hefur beiðni útlendings með lögheimili hér á landi um undanþágu frá skilyrðum 1. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna aldrei verið hafnað. Verði frumvarp þetta að lögum mun það létta umtalsverðu og vaxandi álagi af ráðuneytinu og bæta réttarstöðu þeirra útlendinga sem hér eiga lögheimili og vilja fjárfesta í fasteign.
    Ekki þykja nú efni til að leggja til frekari breytingar á lögunum. Þannig er ekki lagt til að breytt verði ákvæðum um heimild félaga sem útlendingar eiga hlut í til að eiga fasteign hér, sbr. 2.–4. tölul. 1. mgr. 1. gr. laganna. Það og önnur atriði laganna bíða frekari endurskoðunar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um
eignarrétt og afnotarétt fasteigna, nr. 19 6. apríl 1966.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á lagaákvæðum um heimildir útlendinga til að öðlast eignarrétt eða afnotarétt yfir fasteignum hér á landi. Ekki er gert ráð fyrir að lögfesting frumvarpsins leiði til aukinna útgjalda ríkissjóðs.