Ferill 160. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 161  —  160. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjarvörur, nr. 52/1989.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



1. gr.

    4. mgr. 3. gr. laganna fellur brott.
    

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt 4. mgr. 3. gr. laganna ber Endurvinnslunni hf. að greiða 5% af árlegum tekjuafgangi sínum til Náttúruverndarráðs. Á grundvelli 2. gr. laganna var gerður samningur 7. júní 1989 á milli stjórnar Endurvinnslunnar hf. og iðnaðarráðherra þar sem Endurvinnslunni hf. var falið að taka að sér söfnun einnota drykkjarvöruumbúða sem falla undir lögin og umsýslu skilagjalds. Samningur þessi var gerður til 15 ára og hefur því Endurvinnslan hf. framangreint hlutverk í dag samkvæmt lögunum.
    Í frumvarpi til laga um breytingu á lögum um náttúruvernd, nr. 44/1999, sem lagt er fram samhliða þessu frumvarpi, er gerð tillaga um að Náttúruverndarráð verði lagt niður en eins og áður er rakið renna 5% af árlegum tekjuafgangi Endurvinnslunnar hf. til Náttúruverndarráðs, sbr. 2. mgr. 8. gr. laga um náttúruvernd. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð verði starfrækt áfram er gerð tillaga um framangreinda breytingu á lögunum.


Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um ráðstafanir gegn umhverfismengun af völdum einnota umbúða fyrir drykkjavörur, nr. 52/1989.

    Frumvarpið kveður á um brottfall 4. mgr. 3. gr. laganna, en þar er kveðið á um að félag það sem starfsleyfi hefur samkvæmt lögum þessum skuli greiða 5% af árlegum tekjuafgangi til Náttúruverndarráðs. Þar sem ekki er gert ráð fyrir að Náttúruverndarráð verði starfrækt áfram er lagt til að ákvæði þetta falli brott.
    Ekki verður séð að frumvarp þetta, verði það óbreytt að lögum, hafi í för með sér kostnað fyrir ríkissjóð.