Ferill 188. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 199  —  188. mál.




Fyrirspurn



til viðskiptaráðherra um bifreiðatryggingar.

Frá Jóhönnu Sigurðardóttur.



     1.      Hefur Fjármálaeftirlitið lagt mat á hvort tilefni sé til lækkunar á lögboðnum bifreiðatryggingum í ljósi afkomu tryggingafélaganna og stöðu bótasjóða, í samræmi við tilmæli þess árið 1999 um að vátryggingafélögin taki forsendur iðgjaldaákvörðunar til endurskoðunar? Ef svo er ekki, verður það þá gert og hvenær má vænta niðurstöðu?
     2.      Hvernig hefur eigið fé, hagnaður, sjóðir og bankainnstæður tryggingafélaganna vaxið samanborið við vátryggingabætur á árunum 1999 og 2000 og fyrstu sex mánuði yfirstandandi árs? Hverjar voru arðgreiðslur á þessu tímabili?
     3.      Hefur Fjármálaeftirlitið upplýsingar um tekjur vátryggingafélaganna af lögboðnum bifreiðatryggingum árin 1999 og 2000 og áætlaðar tekjur yfirstandandi árs auk tjónaskuldar vegna þeirra á sama tíma?
     4.      Hefur verið staðið eðlilega að skattgreiðslum af hagnaði tryggingafélaganna með tilliti til framlaga í bótasjóði og hafa framlög í sjóðina verið eðlileg og í samræmi við áætlaðar tjónaskuldir á hverjum tíma að mati Fjármálaeftirlitsins?
     5.      Hver hafa vísitöluáhrif iðgjaldahækkana á bifreiðatryggingum verið síðastliðin þrjú ár?
     6.      Hvað líður skoðun Samkeppnisstofnunar á meintu samráði tryggingafélaga og fákeppni á tryggingamarkaði og hvenær er að vænta niðurstöðu?
     7.      Hvað má áætla að mikið fé hjá tryggingafélögunum losni úr tjónaskuld fyrir árin 1997–2000 að mati Fjármálaeftirlitsins?


Skriflegt svar óskast.












Prentað upp.