Ferill 87. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 217  —  87. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um greiðslur fyrir tjón af völdum jarðskjálfta.

     1.      Er lokið heildaruppgjöri á tjóni sem varð í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000? Ef svo er, hverjar voru heildargreiðslur vegna bótaskyldra tjóna og um hve margar eignir var að ræða?
    Samkvæmt upplýsingum Viðlagatryggingar Íslands er heildaruppgjöri vegna tjóna sem urðu af völdum jarðskjálftanna á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000 sem næst lokið. Enn er þó verið að tilkynna stök tjón á eignum sem menn telja að rekja megi til skjálftanna og nokkuð er um að frekari skemmdir komi í ljós á áður metnum eignum, t.d. við framkvæmd viðgerða, enda var við slíku búist við fyrri matsgerðir og uppgjör. Ekki eru þó líkur á að ótilkynnt tjón breyti verulega heildarupphæð tjónabóta. Bótaskylt tjón hefur orðið á 2.505 eignum (matshlutum) og heildargreiðslur námu 10. október sl. 2.215 millj. kr. samkvæmt sömu upplýsingum.

     2.      Hafa þeir einstaklingar og fjölskyldur sem áttu lágt metnar eignir fengið styrki til endurbóta eða til að eignast nýtt húsnæði? Ef svo er, um hvaða upphæðir er að ræða? Hversu margir einstaklingar eða fjölskyldur sóttu um slíkan stuðning og hversu margir fengu styrk?

    Að frumkvæði stjórnvalda öfluðu sveitarfélögin á tjónasvæðinu upplýsinga um tjónatilvik sem þau töldu ástæðu til að ræða sérstaklega á samráðsvetvangi stjórnvalda og sveitarfélaganna. Engar umsóknir í eiginlegum skilningi bárust stjórnvöldum, en öll tilvik sem sveitarfélögin óskuðu skoðunar á voru skoðuð og hlutu afgreiðslu.
    Samkvæmt tillögu nefndar ráðuneytisstjóra, sem komið hefur að eftirmálum jarðskjálftanna fyrir hönd stjórnvalda, lagði forsætisráðherra til við ríkisstjórn að veittur yrði styrkur til eigenda 15 íbúðarhúsa vegna tjóna á þeim. Síðan hefur bæst við eitt sambærilegt tjón og ekki er loku fyrir það skotið að fleiri muni bætast við. Ástæða þess að ríkisstjórnin ákvað að veita umrædda styrki var að nokkurs misræmis gætti varðandi bótafjárhæðir Viðlagatryggingar eftir því hvenær húseignirnar höfðu verið metnar til brunabóta, en brunabótamat, eins og það hafði verið reiknað fyrir hverja fasteign, ákvarðaði hámark bóta Viðlagatryggingar.
    Bætur Viðlagatryggingar vegna eigna sem urðu fyrir altjóni í jarðskjálftunum á Suðurlandi réðust því af brunabótamati þeirra, sem var ýmist ákvarðað samkvæmt eldra efnislegu brunabótamati eða samkvæmt nývirðisaðferð (nývirðismat), en Fasteignamat ríkisins hafði, þegar jarðskjálftarnir riðu yfir, endurmetið um helming eigna á tjónasvæðinu og fært brunabótamat þeirra til nývirðismats.
    Nývirðismat byggðist á lögum um brunatryggingar, nr. 48/1994, sem í gildi voru til ársins 1999. Árið 1999 voru gerðar breytingar á þessum lögum með lögum nr. 34/1999, en samkvæmt þeim skal tekið tillit til afskrifta við ákvörðun brunabótamats. Afskriftir af nývirðismati eru metnar í hverju tilviki fyrir sig og byggjast á aldri, ástandi, endurbótum, byggingarefni, notkun o.fl., sbr. reglugerð nr. 809/2000. Í samræmi við þetta svöruðu bætur Viðlagatryggingar til tjónaþola, sem áttu eignir sem færðar höfðu verið til nývirðismats, til afskrifaðs nývirðismats.
    Greiddar bætur Viðlagatryggingar samkvæmt afskrifuðu nývirðismati voru í nánast öllum tilvikum hærri en þær bætur sem greiddar voru samkvæmt eldra brunabótamati. Ákvörðun ríkisstjórnar fól í sér að þeim sem áttu húseignir í lægra (eldra) brunabótamati var veittur styrkur úr ríkissjóði sem nam mismuni á eldra mati (greiddum bótum Viðlagatryggingar) og afskrifuðu nývirðismati viðkomandi eignar. Var það m.a. gert með skírskotun til jafnræðis tjónaþola og þess sjónarmiðs að einstaklingar skyldu ekki þurfa að gjalda fyrir að ekki hafi verið lokið við að færa virði eigna þeirra til nývirðismats þegar jarðskjálftarnir riðu yfir.
    Alls hafa verið greiddar 29,7 millj. kr. til framangreindra 16 húseigenda. Ekki verður upplýst um styrki til einstakra tjónþola þar sem líta verður svo á að um upplýsingar um fjárhagsmálefni viðkomandi einstaklinga sé að ræða.

     3.      Voru eða verða veittir styrkir til þeirra fyrirtækja sem urðu fyrir verulegu tjóni í jarðskjálftunum sem ekki fæst bætt úr almennum tryggingum? Ef svo er, um hvaða upphæðir er að ræða? Hversu mörg fyrirtæki sóttu um styrk og hversu mörg fengu?
    Greiddar voru 18,5 millj. kr. vegna sjö tilvika þar sem rekstraraðilar urðu fyrir afurðatjóni, framleiðslutjóni eða rekstrarstöðvunartjóni. Í þessum tilvikum liggja fyrir greinargerðir Búnaðarsambands Suðurlands eða þriðja aðila á umfangi sérhvers tjóns.

     4.      Mun ráðherra beita sér fyrir því að fé verði veitt til heildarskoðunar á ástandi húsnæðis á jarðskjálftasvæðunum og ef svo er, hvenær mun slík úttekt fara fram?
    Samkvæmt gildandi lögum um Viðlagatryggingu Íslands skal stofnunin vátryggja gegn beinu tjóni af völdum eldgosa, jarðskjálfta, skriðufalla, snjóflóða og vatnsflóða. Á undanförnum árum hafa orðið umtalsverð bótaskyld tjón af völdum allra ofangreindra náttúruhamfara nema skriðufalla. Miðað við umfang þeirra náttúruhamfara sem kunna að dynja yfir landsmenn og sem kynnu að leiða til bótagreiðslna af hálfu Viðlagatryggingar Íslands má ljóst vera að það væri gagnlegt, bæði fyrir Viðlagatryggingu Íslands sem og fyrir þá aðila sem koma að almannavörnum hvers konar, að fyrir hendi væru á hverjum tíma upplýsingar um ástand þeirra eigna sem kunna að verða fyrir tjóni af völdum þeirra náttúruhamfara sem Viðlagatryggingu Íslands er ætlað að vátryggja gegn.
    Ef veita á fé til rannsókna á ástandi eigna og möguleikum þeirra til þess að standa af sér náttúruhamfarir er rétt að ákvörðun um slíkar rannsóknir sé tekin með heildarhagsmuni að leiðarljósi. Verulegum fjármunum er því varið til rannsókna á jarðskjálftum og annarri náttúruvá, sem og til fyrirbyggjandi aðgerða, m.a. gegn mögulegum afleiðingum jarðskjálfta.
    Á fjáraukalögum 2000 voru 40 millj. kr. veittar aukalega til rannsókna er tengjast jarðskjálftum og hættu á þeim, auk þess sem 25 millj. kr. var ráðstafað í sama tilgangi á yfirstandandi ári til viðbótar við regluleg framlög. Rúmar 7 millj. kr. af þeirri fjárveitingu runnu til byggingastaðlaráðs til að endurskoða þolhönnunarstaðla. Þá hafa sérstök framlög stjórnvalda til jarðskjálfta- og eldvirknirannsókna í fjár- og fjáraukalögum numið samtals 188 millj. kr. á árunum 1997–2001.
    Af þessu sést að stjórnvöld verja verulegum fjármunum til rannsókna á sviði náttúruhamfara.

     5.      Mun ráðherra skila skýrslu til Alþingis um jarðskjálftana sem urðu 17. og 21. júní 2000, afleiðingar og úrbætur, og ef svo er, hvenær?
    Hinn 23. ágúst sl. skipaði viðskiptaráðherra nefnd til að fara yfir framkvæmd tjónsuppgjöra vegna jarðskjáftanna sem urðu 17. og 21. júní 2000, þá verkferla sem Viðlagatrygging Íslands beitti í starfi sínu og þau helstu ágreiningsefni sem upp komu við úrvinnslu. Jafnframt skal nefndin benda á leiðir til úrbóta ef þurfa þykir. Þá var nefndinni falið að kanna tilhögun hamfaratrygginga í helstu nágrannalöndum og meta hvort slíkar tryggingar séu jafnvel eða betur komnar hjá hinum almennu vátryggingafélögum. Í nefndinni eiga sæti, auk fulltrúa úr viðskiptaráðuneytinu, fulltrúar tilnefndir af stjórn Viðlagatryggingar Íslands, Sambandi íslenskra tryggingafélaga, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Fasteignamati ríkisins, Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins og Fjármálaeftirlitinu.
    Að loknu nefndarstarfi verður tekin ákvörðun um það hvort skýrsla nefndarinnar verði lögð fyrir Alþingi. Þess er vænst að nefndin ljúki störfum síðari hluta vetrar.