Ferill 88. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 218  —  88. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um tjón á útihúsum af völdum jarðskjálfta.

     1.      Í hve mörgum tilvikum var um að ræða bótaskylt tjón á útihúsum í jarðskjálftunum á Suðurlandi 17. og 21. júní 2000? Í hve mörgum tilvikum var um altjón að ræða?
    Samkvæmt upplýsingum Viðlagatryggingar Íslands urðu bótaskyld tjón á 856 útihúsum, þar af urðu altjón 220.

     2.      Hverjar eru bótafjárhæðir viðlagatryggingar þegar um var að ræða altjón útihúsa, sundurliðað eftir eignum borið saman við þágildandi brunabótamat, endurstofnverð og áætlaðan endurbyggingarkostnað?
    Upplýsingar um endurstofnverð útihúsa eða áætlaðan endurbyggingarkostnað kunna að vera til hjá Fasteignamati ríkisins, en hvorki Viðlagatrygging Íslands né ráðuneytið hafa þær upplýsingar handbærar. Því er samanburður af því tagi sem beðið er um ekki mögulegur. Í þessu samhengi vill ráðuneytið minna á að skv. 9. gr. l. nr. 55/1992, um Viðlagatryggingu Íslands, sbr. og 12. gr. rg. nr. 83/1993, er vátryggingarfjárhæð, í þessu tilfelli brunabótamat, það hámark á hverjum tíma sem bætur geta numið.
    Samanlögð bótafjárhæð Viðlagatryggingar vegna altjónstilvika á útihúsum nemur 149 millj. kr. Sú tala svarar nánast undantekningarlaust til 95 hundraðshluta fjárhæðar brunabótamats, þ.e. matsfjárhæð að frádreginni 5% eigin áhættu, á tjónsdegi samkvæmt upplýsingum Viðlagatryggingar Íslands.
    Ekki verða veittar upplýsingar um bótafjárhæðir til einstakra tjónþola þar sem líta verður svo á að um upplýsingar um fjárhagsmálefni viðkomandi einstaklinga sé að ræða.

     3.      Var eða verður mismunur á útgreiddum bótum byggðum á brunabótamati útihúsa og raunverulegum endurbyggingarkostnaði sömu eigna greiddur þeim sem urðu fyrir tjóni?

    Viðlagatrygging Íslands bætir tjón á útihúsum með fjárhæð sem nemur áætluðum viðgerðarkostnaði, séu húsin á annað borð talin viðgerðarhæf.
    Vátryggingarfjárhæð, sem í þessu tilfelli er brunabótamat, myndar ávallt hámark þeirrar ábyrgðar sem miða skal við þegar tjónabætur eru ákveðnar. Ekki hefur verið um frekari greiðslur að ræða af hálfu Viðlagatryggingar Íslands. Ákvörðun var hins vegar tekin af hálfu stjórnvalda um að greiða sérstaka styrki til bænda sem illa var ástatt fyrir, sbr. svar við 4. lið.

     4.      Var eða verður þeim eigendum útihúsa þar sem um var að ræða bótaskylt tjón af völdum jarðskjálftanna bættur sá kostnaður sem hlaust af röskun og/eða breytingum á atvinnurekstri þeirra? Ef svo er, um hvaða fjárhæðir er að ræða?
    Til að svara þessari spurningu er rétt að gera greinarmun á ólíkum flokkum tjóna sem bætt voru með mismunandi hætti:
    a. Með vísun til svars við 3. lið skal nefnt að fulltrúar sveitarstjórna á jarðskjálftasvæðunum lögðu áherslu á að reynt yrði að aðstoða þá bændur sérstaklega sem urðu fyrir mestri röskun í búrekstri sínum vegna tjóna á útihúsum. Þau lögbýli sem voru sérstaklega tilgreind af hálfu fulltrúa sveitarstjórnanna eiga það sammerkt að brunabótamat þeirra útihúsa sem Viðlagatrygging Íslands greiddi altjónsbætur fyrir var afar lágt og ljóst var að kostnaður við að byggja ný útihús væri mun hærri en bætur Viðlagatryggingar, og að í einhverjum tilvikum væri það bændum ofviða að koma sér upp samsvarandi aðstöðu á ný án utanaðkomandi tilstyrks. Óskað var eftir því við Búnaðarsamband Suðurlands að það tæki að sér að meta kostnað við uppbyggingu húsakosts. Við mat þetta skyldi Búnaðarsambandið byggja á sömu meginforsendum um efni og gerð húsanna og upplýsingum um brúttórúmmál þeirra. Þegar mat á kostnaði fyrir hvert lögbýli lá fyrir var lagt til við ríkisstjórn að hún veitti hlutaðeigandi bændum styrki, og að styrkfjárhæð í hverju tilviki skyldi svara til 60% af mismuni reiknaðs stofnkostnaðar og greiddra bóta fyrir þau hús sem Viðlagatrygging greiddi altjónsbætur fyrir. Þessa tillögu lagði forsætisráðherra fyrir ríkisstjórn og var hún samþykkt. Heildarútgjöld vegna þessara styrkveitinga námu 15,5 millj. kr.
    b. Stjórnvöld fólu Búnaðarsambandi Suðurlands að meta tjón einstakra bænda vegna jarðrasks og tjóns á heimavatnsveitum, sem fékkst ekki bætt með öðrum hætti. Styrki hlutu alls 34 aðilar og nemur heildarfjárhæð styrkja 8,5 millj. kr.
    c. Greiddar voru 18,5 millj. kr. vegna sjö tilvika þar sem rekstraraðilar urðu fyrir afurðatjóni, framleiðslutjóni eða rekstrarstöðvunartjóni. Í þessum tilvikum liggja fyrir greinargerðir Búnaðarsambands Suðurlands eða þriðja aðila á umfangi sérhvers tjóns.
    d. Samkvæmt upplýsingum frá Bjargráðasjóði hefur sjóðurinn veitt styrki vegna sjö tjóna, samtals 11,4 millj. kr. Átta umsóknum hefur verið hafnað og tvær bíða afgreiðslu. Ekki verða veittar upplýsingar um styrkfjárhæðir til einstakra tjónþola þar sem líta verður svo á að um upplýsingar um fjárhagsmálefni viðkomandi tjónþola sé að ræða.
    Rétt er að taka fram að enn er þess að vænta að óskir berist stjórnvöldum um styrkveitingar af þeim toga sem að framan greinir. Þá bíða nokkur erindi afgreiðslu.