Ferill 79. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 223  —  79. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um stöðu jafnréttismála í utanríkisþjónustunni.

     1.      Hefur ráðuneytið gert sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að tryggja jafnan hlut kvenna og karla í störfum innan ráðuneytisins og á vegum þess erlendis? Ef svo er, hvenær var það gert og hvernig er áætluninni fylgt eftir?
    Utanríkisráðuneytið hefur ekki gert sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að tryggja jafnan hlut kvenna og karla í störfum innan ráðuneytisins og á vegum þess erlendis. Hins vegar er verið að leggja lokahönd á sameiginlega jafnréttisstefnu Stjórnarráðsins sem til stendur að birta í nýrri starfsmannahandbók Stjórnarráðsins. Það er yfirlýst stefna utanríkisráðuneytisins að auka hlut kvenna bæði í utanríkisþjónustunni og í nefndum og ráðum á vegum þess.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar á vegum ráðuneytisins síðustu þrjú ár og um hvaða stöður er að ræða? Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu og hversu margir þeirra voru metnir hæfir til að gegna henni, skipt eftir kyni í báðum tilvikum? Hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
    Á síðustu þremur árum hafa 43 störf verið auglýst á vegum ráðuneytisins. Um hefur verið að ræða stöður háskólamenntaðra fulltrúa, löglærðra fulltrúa, ritara, tölvumanna, vefstjóra, bókasafnsfræðings, þýðenda, starfsmanns í móttöku, rekstrarstjóra og verkefnisstjóra í viðskiptaþjónustu. Ekki eru til upplýsingar um hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu skipt eftir kynjum þar sem þeim er ekki safnað. Hæfustu umsækjendurnir eru valdir til að fara í viðtal, en að öðru leyti er ekki lagt mat á hvort umsækjendur eru hæfir til viðkomandi starfa. Í þær 43 stöður sem auglýstar voru á síðustu þremur árum voru ráðnir 14 karlar og 29 konur. Sex karlar voru ráðnir sem háskólamenntaðir fulltrúar, 2 tölvumenn, 4 þýðendur, 1 starfsmaður í móttöku og 1 rekstrarstjóri. Átta konur voru ráðnar sem háskólamenntaðir fulltrúar, 11 ritarar, 1 vefstjóri, 1 bókasafnsfræðingur, 7 þýðendur, og 1 verkefnisstjóri viðskiptaþjónustu. Fyrir utan þessar ráðningar hefur verið auglýst þrisvar sinnum eftir starfsmanni í tímabundna starfsþjálfun hjá fastanefndinni í Strassborg og hefur kona verið ráðin í öll skiptin.

     3.      Hefur á síðustu þremur árum verið ráðið í stöður á vegum ráðuneytisins sem ekki voru auglýstar? Ef svo er, um hvaða stöður er að ræða og hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
    Á síðustu þremur árum hafa þrír sendiherrar verið skipaðir í stöður sem ekki voru auglýstar, sbr. heimild í 2. mgr. 14. gr. laga um utanríkisþjónustu Íslands, nr. 39/1971, sbr. 156. gr. laga nr. 83/1997. Þeir voru allir karlmenn. Þá var einn karl, sem áður var lögreglumaður, ráðinn bílstjóri en þar var um að ræða flutning milli stofnana. Allar aðrar stöður í utanríkisráðuneytinu eru auglýstar nema þær falli undir undantekningarákvæði 2. mgr. 2. gr. reglna um auglýsingar á lausum störfum, nr. 464/1996. Þar falla undir stöður sem aðeins eiga að standa í tvo mánuði eða skemur, störf við afleysingar, svo sem vegna orlofs, veikinda, barnsburðarleyfis, námsleyfis, leyfis til starfa á vegum alþjóðastofnana og því um líkt, enda sé afleysingu ekki ætlað að standa lengur en 12 mánuði samfellt, og störf sem auglýst hafa verið innan síðustu sex mánaða og í þeirri auglýsingu hafi þess verið getið að umsóknin geti gilt í sex mánuði.

     4.      Hvaða nefndir og ráð eru starfandi á vegum ráðuneytisins? Hve margir fulltrúar eru í hverri nefnd eða ráði, hvernig skiptast þeir eftir kynjum og hvenær voru þeir skipaðir?
    Á vegum utanríkisráðuneytisins eru starfandi 9 nefndir. Í þessum nefndum eru samtals 37 nefndarmenn, 32 karlmenn og 5 konur. Fjöldi fulltrúa í hverri nefnd, skipt eftir kynjum, er eftirfarandi: Í varnarmálanefnd eru 7 nefndarmenn, allt karlmenn, og voru þeir skipaðir í febrúar 2001, janúar 1961, febrúar 1988, júní 1987, ágúst 1994, október 1995 og í október 1996. Í kaupskrárnefnd eru 3 nefndarmenn, 2 karlmenn og 1 kona, og var nefndin skipuð 1. júlí 2001. Í kærunefnd kaupskrárnefndar eru 3 nefndarmenn, allt karlmenn, og var nefndin skipuð 1. júlí 2001. Í skipulags-, byggingar- og umhverfisnefnd varnarsvæða eru 5 nefndarmenn, 4 karlmenn og 1 kona, og var nefndin skipuð í ágúst 1999, en einn nefndarmanna var skipaður 1. september 2000. Í kostnaðarlækkunarnefnd eru 3 nefndarmenn, 2 karlmenn og 1 kona, og var nefndin skipuð í ágúst 2000, en formaðurinn í febrúar 2001. Í forvalsnefnd eru 3 nefndarmenn, 2 karlmenn skipaðir 1995 og 1 kona skipuð 2001. Í skaðabótanefnd eru 3 nefndarmenn, 2 karlmenn og 1 kona, og var nefndin skipuð 5. janúar 2001. Í tengslanefnd eru 3 nefndarmenn, allt karlmenn, 2 skipaðir 7. ágúst 1996 og 1 skipaður 24. nóvember 2000. Í Íslandsnefnd Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (FAO) eru 6 nefndarmenn, allt karlmenn, og var nefndin skipuð 7. mars 2001.

     5.      Hversu margir
                  a.      starfa sem sendiráðsritarar,
                  b.      starfa sem sendiráðunautar,
                  c.      starfa sem sendifulltrúar,
                  d.      eru í starfi sendiherra
             og hvernig skiptast þeir eftir kynjum?

    Í íslensku utanríkisþjónustunni starfar 21 sendiráðsritari, 14 konur og 7 karlmenn. Sendiráðunautar eru samtals 18, þar af 1 í leyfi, 1 kona og 17 karlmenn. Sendifulltrúar eru samtals 17, þar af 3 í leyfi, 3 konur og 14 karlmenn. Sendiherrar í utanríkisþjónustunni eru samtals 29, þar af 2 í leyfi, 1 kona og 28 karlmenn. Starfsmenn sem eru í leyfi starfa nær allir hjá alþjóðastofnunum.
    Háskólamenntaðir sérfræðingar hefja að jafnaði feril sinn í utanríkisþjónustunni í stöðu sendiráðsritara, sem þeir gegna að jafnaði í 4–6 ár, áður en þeir fá hækkun í stöðu sendiráðunautar. Þær 14 konur, sem nú starfa sem sendiráðsritarar hafa verið ráðnar til starfa í utanríkisráðuneytinu á síðustu fjórum árum og er því augljóst að stórt skref hefur verið stigið í að jafna stöðu karla og kvenna á stuttum tíma. Haldi þessi þróun áfram bendir flest til að með tímanum verði jafnvægi milli fjölda kvenna og karla í utanríkisþjónustunni. Á meðfylgjandi töflu má sjá fjölda kvenna í stöðum háskólamenntaðra sérfræðinga og embættismanna í utanríkisþjónustunni 1991–2001.
    Þá má bæta því við að af fimm konum sem voru embættismenn árið 1991 eru tvær hættar og ein í leyfi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     6.      Fara þeir einstaklingar sem gegna þessum stöðum í sérstök hæfnisróf áður en stöðurnar eru veittar?
    Starfsfólk utanríkisþjónustunnar fer ekki í sérstök hæfnispróf áður en stöður eru veittar eða tekin er ákvörðun um framgang í starfi. Þegar um nýráðningar er að ræða er menntun, starfsreynsla og þarfir utanríkisþjónustunnar lagðar til grundvallar, en við framgang í starfi er einkum horft til frammistöðu í starfi og starfsreynslu.