Ferill 174. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 226  —  174. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Ólafar Guðnýjar Valdimarsdóttur um Árósasamninginn.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður staðfestingu Íslands á Árósasamningnum frá 25. júní 1998, um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og réttláta málsmeðferð í umhverfismálum?

    Á 126. löggjafarþingi lagði utanríkisráðherra fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um fullgildingu Árósasamnings um aðgang að upplýsingum, þátttöku almennings í ákvarðanatöku og aðgang að réttlátri málsmeðferð í umhverfismálum. Svo sem fram kemur í niðurlagsorðum í athugasemdum við þingsályktunartillöguna lá fyrir staðfesting umhverfisráðuneytisins á því að fullgilding samningsins kallaði ekki á lagabreytingar hér á landi.
    Við nánari skoðun umhverfisráðuneytisins og dóms- og kirkjumálaráðuneytisins kom hins vegar fram að líkur væru á því að fullgilding samningsins kallaði á breytingar á réttarfarslögum. Í ljósi þess var ákveðið að leita álits réttarfarsnefndar og því var þingsályktunartillagan ekki afgreidd á 126. löggjafarþingi.
    Nýverið skilaði réttarfarsnefnd áliti sínu og eru helstu niðurstöður hennar eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi telur nefndin að nokkur ákvæði samningsins, einkum 2. mgr. 9. gr., sbr. 5. mgr. 2. gr., stangist á við þá grundvallarreglu íslensks réttarfars að sá sem höfði dómsmál verði sjálfur að eiga lögvarða hagsmuni af því að fá leyst úr þeim kröfum sem hann gerir þar.
    Í öðru lagi telur nefndin að lög nr. 21/1993, um upplýsingamiðlun og aðgang að upplýsingum um umhverfismál, einkum 6. gr. laganna, tryggi ekki þá kröfu 1. mgr. 9. gr. samningsins að almenningur verði að getað leitað til annarrar sjálfstæðrar og óhlutdrægrar stofnunar en dómstóla, sér að kostnaðarlausu eða gegn óverulegu gjaldi.
    Í þriðja lagi telur nefndin að 4. og 5. mgr. 9. gr. samningsins stangist á við gildandi reglur um gjafsókn í XX. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, annars vegar og um lögbannstryggingu, sbr. 30. gr. laga nr. 31/1990, um kyrrsetningu, lögbann o.fl., hins vegar.
    Í ljósi framangreinds telur réttarfarsnefnd að fullgilding samningsins kalli óhjákvæmilega á lagabreytingar.
    Ljóst er að ekki getur orðið af fullgildingu Árósasamningsins af Íslands hálfu nema að undangengnum framangreindum lagabreytingum, en þar á meðal eru eins og áður segir grundvallarbreytingar á íslensku réttarfari. Utanríkisráðuneytið mun halda áfram athugun á málinu í ljósi álits réttarfarsnefndar og hafa frekara samráð við umhverfisráðuneytið og dóms- og kirkumálaráðuneytið um næstu skref í málinu. Utanríkisráðuneytið mun enn fremur hafa samráð við utanríkisráðuneyti hinna norrænu ríkjanna, en fram hefur komið að vafi leikur á um túlkun ýmissa ákvæða samningsins, m.a. þeirra sem nefnd eru hér að framan. Hefur finnska utanríkisráðuneytið, sem íhugar nú fullgildingu samningsins, t.d. sent spurningalista þar að lútandi til ýmissa ríkja, m.a. Íslands.