Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 227  —  202. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998.

Flm.: Svanfríður Jónasdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,


Bryndís Hlöðversdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir.


1. gr.


    Í stað orðanna „danskir, finnskir, norskir og sænskir“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: erlendir.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Erlendir ríkisborgarar sem sest hafa að á Íslandi eða dvalist í landinu um nokkurt skeið hafa að norrænum mönnum undanteknum ekki rétt til þátttöku í kosningum. Eðlilegt er að slík þátttaka í landsmálum einskorðist við íslenska ríkisborgara, sem einir hafi kosningarrétt og kjörgengi í alþingiskosningum og forsetakosningum. Öðru máli gegnir um kosningar til sveitarstjórnar og atkvæðagreiðslur sem miðast við kjörskrá í sveitarstjórnarkosningum. Þótt erlendur ríkisborgari kjósi að halda ríkisfangi sínu á hann heima í íslenska sveitarfélaginu meðan hann dvelst hér.
    Þetta hafa norrænu ríkin viðurkennt og að frumkvæði Norðurlandaráðs var tekin upp sú skipan á árunum 1976–82 að norrænn ríkisborgari í öðru norrænu landi hefur kosningarrétt og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum (og í kjöri til amtsráðs í Danmörku og fylkisþings í Noregi og Svíþjóð). Íslendingar voru síðastir norrænna þjóða við þetta, árið 1982. Finnar og Svíar komu þessari skipan á 1976, Danir 1978, Norðmenn 1979.
    Rök sem í greinargerð með stjórnarfrumvarpinu 1982 voru talin mæla með kosningarrétti og kjörgengi norrænna manna um Norðurlönd öll voru „norrænn vinnumarkaður, hópar norrænna innflytjenda í löndunum, víðtækt norrænt samstarf og aukið jafnrétti norrænna innflytjenda á við borgara dvalarlandsins“. Þá var bent á að þessir menn greiddu skatta og skyldur til jafns við ríkisborgara landsins, og talið að kosningarréttur til sveitarstjórnar snerti ekki „fullveldis- eða þjóðernissjónarmið á sama hátt og ef um þingkosningar væri að ræða. Þá eru náin tengsl íbúa og sveitarstjórna.“ Engum mótmælum var hreyft við þessu ákvæði frumvarpsins á 104. löggjafarþinginu. Tveir þingmenn, Guðmundur Vésteinsson og Magnús H. Magnússon, töldu þó réttast að ákvæðið ætti við alla erlenda ríkisborgara, eins og nú er lagt til, en fluttu þó ekki um það formlega tillögu. Athyglisvert er að meginhluti þeirra raka sem fyrir um tveimur áratugum þóttu eiga við um Norðurlandabúa eiga nú við um ríkisborgara á EES-svæðinu, og raunar í síauknum mæli um heimsþorpið gjörvallt.     Síðan þessari skipan var komið á um Norðurlönd hafa Finnar, Danir, Norðmenn og Svíar gengið lengra. Í Danmörku og Svíþjóð er héraðskosningum svo háttað að þessu leyti að allir norrænir menn og borgarar ESB-landa hafa kosningarrétt og kjörgengi sem miðast við sömu búsetuskilyrði og við eiga um innlenda kjósendur. Aðrir erlendir ríkisborgarar verða að hafa dvalist í landinu í þrjú ár. Finnar hafa sömu skipan, en setja aðeins tveggja ára búsetuskilyrði. Þessi ríki eiga aðild að Evrópusambandinu og taka því sérstakt tillit til ESB-borgara, en um það er þó engin almenn regla eða samningar innan ESB. Í Noregi, sem hefur sömu stöðu og Ísland í Evrópumálum, er sú skipan að norrænir menn hafa í héraðskosningum sama rétt og Norðmenn en réttur allra annarra er bundinn þriggja ára búsetuskilyrði.
    Samkvæmt Frétt Þjóðhagsstofnunar nr. 8/2001 voru erlendir ríkisborgarar hér á landi 8.824, eða um 3,1% af íbúafjöldanum, í upphafi þessa árs og hefur hlutfallið hækkað töluvert á undanförnum árum. Þá kemur fram að um 8% kvenna á aldrinum 20–29 ára sem búsettar eru hér á landi eru erlendir ríkisborgarar.
    Erlendir ríkisborgarar eru mjög misdreifðir um landið. Flestir eru þeir á höfuðborgarsvæðinu en hlutfallið er hins vegar langhæst á Tálknafirði, 19%, og Bakkafirði, 16%. Fast á eftir koma síðan Ásahreppur með 11% og Þórshafnarhreppur með 10%. Hlutfall erlendra ríkisborgara er meira en tvöfalt landsmeðaltal, eða yfir 6,2%, í 25 sveitarfélögum. Í þessum sveitarfélögum búa nær 17.000 manns, þar af 1.236 erlendir ríkisborgarar. Þjóðhagsstofnun telur að ef spá stofnunarinnar um framvindu íbúaþróunar það sem eftir er af árinu gangi eftir muni erlendum ríkisborgurum á vinnumarkaði fjölga um 1.500.
    Framteljendur með erlent ríkisfang voru 7.057 á síðasta ári og erlendum ríkisborgurum með atvinnutekjur fjölgaði um 17,8% milli ára. Erlendir ríkisborgarar setja því sífellt meiri svip á atvinnulífið og eru mikilvægir útsvarsgreiðendur í mörgum sveitarfélögum. Því er eðlilegt að þeir hafi með kosningarrétti til sveitarstjórna áhrif á þróun sinna sveitarfélaga eins og aðrir íbúar.
    Frumvarp þetta var flutt af Merði Árnasyni á 126. löggjafarþingi en var ekki útrætt og er því endurflutt nú.