Ferill 91. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 257  —  91. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Guðrúnar Ögmundsdóttur um rannsókn á ákvörðun refsinga við afbrotum.

     1.      Hvað líður rannsókninni á ákvörðun refsinga við líkamsárásum, kynferðisbrotum og fíkniefnabrotum sem Alþingi ályktaði á 122. löggjafarþingi (þskj. 940, 484. mál) að dómsmálaráðherra léti fara fram og hvenær er áætlað að henni ljúki?
    Hinn 8. apríl 1998 lagði ráðuneytið grundvöll að rannsókn þessari með því að skipa nefnd til að annast hana og gera tillögur um kerfisbundna skráningu tölfræðiupplýsinga um sakamál. Nefndin afmarkaði umfang rannsóknarinnar, skilgreindi rannsóknaraðferðir og gerði uppkast að uppbyggingu rannsóknarskýrslu. Einnig var gerð þarfagreining fyrir gagnagrunn sem upplýsingum yrði safnað í. Í kjölfarið var leitað til Tölvumynda hf. og fyrirtækinu falið að smíða gagnagrunnsforrit til að skrá í upplýsingar um sakamál, refsingar og refsiákvörðunarástæður sem lagðar eru til grundvallar í hverju máli. Í árslok 1998 voru ráðnir þrír laganemar til að leita í dómasafni Hæstaréttar og héraðsdómum frá árinu 1993 að málum þar sem fjallað var um þau brot sem rannsóknin tók til. Laganemarnir skráðu upplýsingar um málin í gagnagrunninn og unnu við verkið með hléum fram á haust 1999. Eftir það hóf nefndin að vinna úr gögnunum, en sú vinna gekk þó afar hægt á árinu 2000 vegna anna nefndarmanna við embættisstörf. Skriður komst á vinnuna árið 2001, eins og síðar verður vikið að.
    Viðfangsefni rannsóknarinnar er í raun þríþætt. Í fyrsta lagi kynferðisbrot, í öðru lagi önnur ofbeldisbrot og í þriðja lagi fíkniefnabrot. Grunnskráningu í gagnagrunninn er lokið í öllum þessum brotaflokkum. Nefndin ákvað að hefja úrvinnslu sína á gögnum um líkamsárárásarbrot, þ.m.t. manndráp, tilraun til manndráps og rán, og skila áfangaskýrslu um þessar brotategundir áður en ráðist yrði í úrvinnslu gagna um aðra brotaflokka. Töluleg greining hefur þó verið gerð á einstaka kynferðisbrotum en þær niðurstöður hafa þó ekki verið nægjanlega vel yfirfarnar til að teljast tilbúnar til birtingar. Þá var skráning fíkniefnabrota í gagnagrunn lögð til grundvallar í kandídatsritgerð Páls Egils Winkels lögfræðings um fíkniefnabrot.
    Úrvinnsla gagna um ofbeldisbrot hefur einkum falist í eftirfarandi:
          Allir dómar Hæstaréttar frá árunum 1951–2000 þar sem fjallað er um ofbeldisbrot hafa verið lesnir og rannsakaðir og gerður úr þeim útdráttur.
          Allir dómar héraðsdómstóla á þessu sviði hafa verið rannsakaðir og skráðar upplýsingar um þá.
          Kannað hefur verið hvaða refsiákvörðunarsjónarmið og refsiákvörðunarástæður hafa í hverju tilviki verið lagðar til grundvallar refsiákvörðun.
          Reynt hefur verið að meta með tölulegum samanburði hvaða refsiákvörðunarástæður vegi þyngst við ákvörðun refsingar fyrir hverja brotategund.
          Gerður hefur verið tölulegur samanburður á meðalrefsingum og miðgildi refsinga á tímabilunum 1951–1970, 1971–1990 og 1991–2000.
          Gerður var samanburður á aldri og kyni brotamanna á einstökum rannsóknartímabilum.
          Gerð var úttekt á því hversu hátt hlutfall þeirra sem frömdu brot í einstökum brotaflokkum var undir áhrifum áfengis eða annarra vímuefna.
          Reynt hefur verið að meta með tölulegum samanburði hvort breytingar á refsingum milli tímabila megi skýra með því að atriði sem varða brotamenn eða verknaðina hafi tekið breytingum milli tímabila eða hvort breyttar refsingar megi rekja til breytts refsimats dómara.
          Gerður hefur verið samanburður á refsingum í héraði og Hæstarétti í hverri brotategund.
          Í nokkrum tilvikum hafa verið bornar saman refsingar milli einstakra héraðsdómstóla.
          Notkun skilorðsbundinnar refsingar hefur verið könnuð.
          Reynt hefur verið að varpa ljósi á þróun í þyngd refsinga fyrir einstök brot í ljósi breytinga á íslensku samfélagi á síðari helmingi 20. aldar.
    Rannsókn á ofbeldisbrotum, öðrum en kynferðisofbeldisbrotum, tekur til 264 refsiákvarðana Hæstaréttar og hátt í 2.000 refsiákvarðana héraðsdómstóla. Rannsóknin hefur verið mjög viðamikil en ætlun nefndarinnar er að skila dóms- og kirkjumálaráðherra ítarlegri áfangaskýrslu um ofbeldisbrot, önnur en kynferðisbrot, fyrir næstu áramót. Ekki er fyllilega ljóst hvenær tekst að ljúka næsta áfanga í störfum nefndarinnar, en vinna við kynferðisbrotahlutann er nokkuð á veg komin og grunnur hefur verið lagður að rannsókn fíkniefnabrotanna.

     2.      Hvenær má vænta niðurstaðna úr rannsókninni?
    Með vísan til svars við 1. lið fyrirspurnarinnar má vænta áfangaskýrslu með niðurstöðum um ofbeldisbrot, önnur en kynferðisbrot, fyrir árslok 2001. Sem áður segir er ekki fyllilega ljóst hvenær tekst að ljúka næsta áfanga í störfum nefndarinnar, en vinna við kynferðisbrotahlutann er nokkuð á veg komin og grunnur hefur verið lagður að rannsókn fíkniefnabrotanna.

     3.      Hversu miklum fjármunum hefur verið varið til rannsóknarinnar og hvernig skiptast þeir milli einstakra þátta hennar?
    Sérstakar fjárveitingar fengust á fjárlögum til að standa undir kostnaði af rannsókninni þar sem ljóst var að hún yrði bæði tímafrek og vandasöm og ráða þyrfti sérstaka starfsmenn til að sinna ákveðnum þáttum í henni. Til rannsóknarinnar voru veittar 2,4 millj. kr. á fjárlögum áranna 1998, 1999 og 2000 alls 7,2 millj. kr. Formaður nefndarinnar, Sigurðar Tómas Magnússon héraðsdómari, var í leyfi frá dómarastörfum frá 15. janúar til 30 júní 2001 til að vinna að rannsókninni, en á þeim tíma fór stærsti hluti rannsóknarvinnunnar fram. Miðað var við að formaðurinn mundi ekki missa neins í launum. Formaðurinn hélt þó áfram störfum sínum sem formaður dómstólaráðs. Dómari var settur í hans stað við Héraðsdóm Reykjavíkur og hefur dómstólaráð nú óskað eftir millifærslu sem nemur rúmlega 3 millj. kr. vegna launa hans í 51/ 2 mánuð. Aðrir stórir kostnaðarþættir eru laun laganema á árinu 1999, kostnaður við gerð gagnagrunnsforrits og verklaun Hildigunnar Ólafsdóttur. Það skal tekið fram að formaðurinn mun ekki áskilja sér nein laun fyrir störf að rannsókninni fram til áramóta. Ekki er nein fjárveiting til þessa verkefnis á fjárlögum þessa árs né næsta árs en inneign frá fyrri árum að frátöldum útgjöldum á þessu ári er 5.814 þús. kr. Því hefur verið varið um 1,4 millj. kr. til rannsóknarinnar undanfarin þrjú ár, en sem áður segir verða 3 millj. kr. greiddar fyrir störf við rannsóknina síðar í þessum mánuði. Heildarkostnaður sem stofnast hefur vegna rannsóknarinnar nemur samkvæmt þessu samtals 4,4 millj. kr. og eru eftir fjárveitingar til að standa undir kostnaði við að ljúka rannsókninni.
    Í eftirfarandi töflu má sjá yfirlit yfir skiptingu útgjalda af fjárlagaliðnum.

06-190-1.73 Rannsókn á viðurlögum við afbrotum.



Teg. 1998 1999 2000 2001
5111 Grunnstörf 454.078
5112 Grunnstörf 19.189
5149 Aðrar aukagreiðslur 463
5181 Launatengd gjöld 77.907 29
5441 Lögfræðingar 149.400 -29.400 126.000
5444 Sálfræðingar o.fl. 186.750 186.750
54491 Önnur sérfræðistörf
162.000
5452 Hugbúnaðargerð
53.600
Samtals 149.400 575.374 313.242 348.750
Samtals, öll árin
1.386.766

     4.      Hverjir starfa við þessa rannsókn nú og hver er áætlaður heildarkostnaður við störf þeirra?
    Nefndina skipuðu upphaflega Sigurður Tómas Magnússon héraðsdómari, formaður, Hallgrímur Ásgeirsson lögfræðingur, Hildigunnur Ólafsdóttir afbrotafræðingur, Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari og Þorsteinn A. Jónsson, forstöðumaður Fangelsismálastofnunar. Hallgrímur hvarf til starfa erlendis á árinu 1998 og tók ekki þátt í störfum nefndarinnar. Nefndarmenn hafa allir komið nokkuð að rannsóknarstörfum. Þau Sigurður T. Magnússon og Hildigunnur Ólafsdóttir hafa þó borið hitann og þungann af rannsókninni og starfa þau að henni nú ásamt öðrum störfum sínum. Að öðru leyti er vísað til svars við 3. lið varðandi einstaka kostnaðarþætti.

     5.      Er forgangsröðun á brotaflokkum í rannsókninni og ef svo er, hver er hún?
    Ekki var forgangsraðað í grunnvinnunni, en þegar í ljós kom hversu viðamikið verkefnið yrði ákvað nefndin að skila áfangaskýrslu um þá brotaflokka sem minnst hefur verið fjallað um, þ.e. líkamsárásarbrot. Áfangaskýrslan mun því eingöngu fjalla um refsingar fyrir manndráp, tilraun til manndráps, rán, líkamsárásir skv. 1. og 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga og minni líkamsárásir skv. 217. gr. Talsverð vinna hefur þó verið lögð í aðra brotaflokka sem mun skila sér í næsta áfanga rannsóknarinnar.