Ferill 236. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 263  —  236. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Flm.: Sigríður Jóhannesdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Ögmundur Jónasson,
Steingrímur J. Sigfússon, Guðjón A. Kristjánsson.


1. gr.


    Við 28. gr. laganna bætist nýr töluliður, 9. tölul., er orðast svo: Framlög sem greidd eru til launþega úr kjaradeilusjóði verkalýðsfélags meðan á kjaradeilu stendur.

2. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Á undanförnum missirum hefur nokkuð borið á því að einstaklingar sem fengið hafa framlög úr kjaradeilusjóðum leituðu réttar síns fyrir dómstólum vegna meintrar tvísköttunar þeirra. Ljóst er að framlög launþega í kjaradeilusjóði eru hluti af félagsgjöldum viðkomandi og eru meðhöndluð sem laun og skattlögð samkvæmt því. Þegar launþegi fær framlag úr kjaradeilusjóði sem hann hefur áður greitt í af launum sínum er það framlag skattlagt eins og launatekjur og er það því tvískattað.
    Flutningsmenn telja þetta mikið óréttlæti og leggja til að lögum um tekjuskatt og eignarskatt verði breytt á þann veg að framlög til launþega verði undanþegin skattlagningu. Breyting var gerð á skattlagningu framlaga í lífeyrissjóð til að koma í veg fyrir tvísköttun lífeyrisgreiðslna og virðist eðlilegt að líta á framlög úr kjaradeilusjóðnum á sama hátt.
    Til viðbótar þá setti fjármálaráðuneytið í ágúst sl. reglugerð þar sem framlög úr kjaradeilusjóðum eru ekki lengur undanþegin staðgreiðslu þannig að þau framlög sem t.d. tónlistarkennarar fá væntanlega á þessu hausti úr þeim sjóði sem þeir sjálfir hafa safnað í verða staðgreiðsluskyld. Þetta upplifa þeir sem við þetta búa sem hámark óréttlætisins og er mjög brýnt að stjórnvöld athugi sinn gang í þessu máli því hér er að mati flutningsmanna tvímælalaust um tvísköttun að ræða.