Ferill 171. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 281  —  171. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Drífu Hjartardóttur um Lífeyrissjóð bænda.

     1.      Hve margir sjóðfélagar fá nú greitt úr Lífeyrissjóði bænda?
    Samkvæmt upplýsingum frá Lífeyrissjóði bænda fengu 3.618 einstaklingar greiddan lífeyri úr sjóðnum í októbermánuði 2001.

     2.      Hve margir sjóðfélagar greiða í sjóðinn?
    Samkvæmt ársuppgjörum sjóðsins voru virkir sjóðfélagar 4.812 á árinu 2000 og 5.122 á árinu 1999. Ekki eru enn forsendur til að telja virka sjóðfélaga á árinu 2001. Gera má ráð fyrir að virkum sjóðfélögum ársins 2000 fjölgi þegar upplýsingar berast frá embætti ríkisskattstjóra vegna eftirlits þess með greiðslum landsmanna í lífeyrissjóði og enn er verið að innheimta iðgjöld vegna ársins 1999.

     3.      Hve margir sjóðfélagar, sundurliðað eftir kyni, fá nú mánaðarlega greiddar: 0–10 þús. kr., 10–20 þús. kr., 20–30 þús. kr., 30–40 þús. kr., 40–50 þús. kr., meira en 50 þús. kr.?


     Yfirlit yfir lífeyrisþega sem fá greitt vegna áunninna réttinda (uppbót vegna
búskapartíma þeirra sem fæddir eru 1914 og fyrr þá meðtalin).

Karlar Meðaltal Konur Meðaltal Samtals Meðaltals-greiðsla
Elli- 0–10 þús. 436 5.960 585 4.418 1021 5.092
lífeyrir: 10–20 þús. 712 14.889 264 14.033 976 14.642
20–30 þús. 346 24.043 50 23.933 396 24.029
30–40 þús. 86 32.560 1 30.671 87 32.538
Yfir 50 þús. 0 0 0
Heildarfjöldi og meðaltal ellilífeyris: 2.480 12.837
Maka- 0–10 þús. 47 3.574 457 4.907 504 4.783
lífeyrir: 10–20 þús. 11 13.662 222 13.682 233 13.681
20–30 þús. 1 24.165 8 21.688 9 21.963
Yfir 30 þús. 0 0 0
Heildarfjöldi og meðaltal makalífeyris: 746 7.769

Karlar Meðaltal Konur Meðaltal Samtals Meðaltals-greiðsla
Örorku- 0–10 þús. 45 6.227 60 6.064 105 6.134
lífeyrir: 10–20 þús. 34 14.780 76 15.528 110 15.296
20–30 þús. 35 25.125 47 25.031 82 25.071
30–40 þús. 23 34.391 23 34.131 46 33.602
40–50 þús. 14 43.188 8 44.229 22 43.566
Yfir 50 þús. 0 0 0
Heildarfjöldi og meðaltal örorkulífeyris: 365 18.868


Yfirlit yfir lífeyrisþega sem fá eingöngu greiddan lífeyri vegna
búskapartíma (þ.e. greitt að fullu af ríkissjóði).

Karlar Meðaltal Konur Meðaltal Samtals Meðaltals-greiðsla
Elli- 0–10 þús. 9 6.811 5 6.912 14 6.847
lífeyrir: 10–20 þús. 26 15.704 8 15.425 34 15.638
20–30 þús. 4 22.597 0 4 22.597
Yfir 30 þús. 0 0 0
Heildarfjöldi og meðaltal ellilífeyris: 52 13.807
Maka- 0–10 þús. 0 56 6.130 56 6.130
lífeyrir: 10–20 þús. 0 167 13.784 167 13.784
Yfir 20 þús. 0 0 0
Heildarfjöldi og meðaltal makalífeyris: 223 11.862

4. Eru réttindi sjóðfélaga sambærileg við réttindi hjá hliðstæðum sjóðum?
    Ávinnsla lífeyrisréttinda hjá Lífeyrissjóði bænda (þ.e. elli-, örorku-, maka- og barnalífeyrir) byggist á samþykktum fyrir sjóðinn sem staðfestar voru af fjármálaráðherra 15. júní 2001. Ákvæði samþykktanna um lífeyrisréttindi eru með svipuðum hætti og hjá almennu lífeyrissjóðunum sem byggja réttindakerfi sín á samningi Alþýðusambands Íslands og Vinnuveitendasambands Íslands um lífeyrismál frá 1995 og III. kafla laga nr. 129/1997, um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.
    Með lögum nr. 122/1997, um breytingu á lögum nr. 50/1984, um lífeyrissjóð bænda, var afnumið lögbundið hámark iðgjaldagreiðslna í Lífeyrissjóð bænda. Iðgjaldsstofninn var ekki lengur búvöruverð, þ.e. ákveðið hlutfall af verði til framleiðanda heldur reiknuð laun eða greidd laun í landbúnaði þar sem búrekstrarformi væri þannig háttað. Lágar lífeyrisgreiðslur úr sjóðnum til sumra bænda má því skýra með því að þeir höfðu ekki með höndum það mikla framleiðslu að þeir næðu hámarksiðgjaldi eða þá að þeir höfðu stundað búskap í fá ár eftir stofnun sjóðsins en Lífeyrissjóður bænda var stofnaður með lögum nr. 101/1970 og tók til starfa 1. janúar 1971.
    Lífeyrissjóður bænda starfar nú eftir lögum nr. 12/1999. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna skal iðgjald vera 4% af iðgjaldsstofni sem er reiknuð laun eða greidd laun í landbúnaði. Mótframlagið er 50% hærra en iðgjaldið og er það að jafnaði greitt úr ríkissjóði. Bændur hafa þá samið um greiðslu þess úr ríkissjóði, sbr. 2. málsl. 3. gr. laganna. Að öðrum kosti verða þeir að greiða mótframlagið sjálfir. Meginreglan varðandi menn í eigin atvinnurekstri er að þeir greiða mótframlag í lífeyrissjóð sjálfir. Þegar kemur að því að greiða lífeyri út úr sjóðnum þá veltur fjárhæð hans til hvers einstaks sjóðfélaga á því hversu hátt endurgjald eða hversu há laun sjóðfélaginn ákvarðaði sér á meðan hann var í búrekstri.
    Í 2. mgr. 6. gr. laga nr. 12/1999, um lífeyrissjóð bænda, er kveðið á um að iðgjöldin skuli umreiknuð í stig er mynda grundvöll til lífeyrisréttinda. Í 3. mgr. greinarinnar kemur síðan fram hver sé grundvöllur stigaútreiknings. Í greinargerð með ákvæði 3. mgr. 6. gr. er tekið fram að með lögunum verði ákveðinn nýr grundvöllur stigaútreiknings í samræmi við grundvöll lífeyrissjóða innan Sambands almennra lífeyrissjóða, nú Landssamtaka lífeyrissjóða. Í dag ávinna bændur sér því sömu réttindastig fyrir sömu iðgjöld og gerist í öðrum lífeyrissjóðum.