Ferill 67. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 293  —  67. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um endurgreiðslur fyrir tannlæknaþjónustu.

     1.      Hver voru árleg útgjöld Tryggingastofnunar og fjöldi þeirra sem fékk endurgreiðslu á tannlæknakostnaði sl. þrjú ár og hver hefðu þau orðið ef gjaldskrá Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar hefði fylgt verðlagsþróun? Útgjöld óskast aðgreind eftir hópum í samræmi við lög og reglur þar að lútandi.

Tafla 1. Útgjöld eftir hópum.
2000 1999 1998
Börn og unglingar 17 ára og yngri, 60–100% 500.138.424 479.900.032 457.848.463
Elli- og örorkulífeyrisþegar á stofnunum, 75–100% 32.799.215 33.006.906 22.669.761
Elli- og örorkulífeyrisþegar með tekjutryggingu, 50–75% 202.171.376 186.867.447 129.850.031
Elli- og örorkulífeyrisþegar án tekjutryggingar, 50% 46.349.732 37.988.505
Börn í umönnunarflokkum 1–3 og andlega þroskahamlaðir á vistheimilum og sambýlum, 90% 11.080.756 11.280.390 5.968.205
792.539.503 749.043.280 616.336.460
Tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla, sjúkdóma og slysa, skv. 33. gr. almannatryggingalaga
Tannréttingar 127.428.826 133.987.451 119.708.788
Aðrar tannlækningar en tannréttingar 42.018.179 43.643.983 40.926.678
169.447.005 176.631.434 160.635.466
961.986.508 925.674.714 776.971.926
Tafla 2. Fjöldi sjúklinga eftir hópum.
2000 1999 1998
Börn og unglingar 17 ára og yngri 47.497 46.784 46.103
Örorkulífeyrisþegar 4.208 3.443 2.935
Ellilífeyrisþegar 8.485 7.558 4.891
Börn í umönnunarflokkum 627 606 185
Andlega þroskahamlaðir á vistheimilum og sambýlum 274 263 277
61.091 58.654 54.418

Tafla3. Hækkanir verðlags, fjölda sjúklinga og útgjalda Tryggingastofnunar eftir árum í %.
Ár Verðlag Fjöldi sjúklinga Útgjöld Tryggingastofnunar vegna tannlækninga
1998 1,32
1999 5,79 7,78 19,13
2000 3,52 4,15 3,92

    Taflan sýnir hækkun verðlags um tæp 11% á tímabilinu, sjúklingum fjölgaði um 12,3% en útgjöld Tryggingastofnunar vegna tannlækninga jukust um 23,8% á sama tíma. Þannig séð má segja að í heild rúmist útgjöld Tryggingastofnunar innan verðbreytinga á þessu tímabili. Útgjaldaaukning stofnunarinnar á því tímabili sem spurt er um er meiri en sem nemur hækkun verðlags og fjölgun sjúklinga á sama tíma.
    Ef gjaldskrá Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins, sem í gildi var á árinu 1998, hefði fylgt verðlagsþróun allan þann tíma sem spurt er um hefði þurft að koma til gjaldskrárbreyting í upphafi ársins 2000 í samræmi við verðlagsbreytingar ársins á undan, sem urðu 5,79%.
    Í upphafi ársins 1999 var sett gjaldskrá ráðherra sem var í samræmi við síðustu verðlagsbreytingu á árinu 1998 en breytingar á gjaldskrá á því ári urðu samtals þrjár og námu rúmlega 3%, þótt vísitala neysluverðs hækkaði einungis um 1,32% á því ári. Gjaldskrárbreyting í upphafi árs 1999 var því ekki nauðsynleg til að fylgja verðlagi.
    Útgjaldatölur urðu sem hér segir, sbr. niðurstöður töflu 1 (uppreiknuð útgjaldatala ársins 2000 er til samanburðar innan sviga, sbr. töflu 4):
1998: 776.971.926 kr.
1999: 925.674.714 kr. (20. janúar 1999 var sett gjaldskrá ráðherra.)
2000: 961.986.508 kr. (1.010.306.321)

Tafla 4. Útgjöld vegna tannlæknakostnaðar árið 2000 í raun og miðað við verðlagsbreytingar:
Raunútgjöld Miðað við
verðlagsbreytingar
Börn og unglingar 17 ára og yngri, 60–100% 500.138.424 529.095.990
Elli- og örorkulífeyrisþegar á stofnunum, 75–100% 32.799.215 34.698.062
Elli- og örorkulífeyrisþegar með tekjutryggingu, 50–75% 202.171.376 213.876.700
Elli- og örorkulífeyrisþegar án tekjutryggingar, 50% 46.349.732 49.033.381
Börn í umönnunarflokkum 1–3 og andlega þroskahamlaðir á
vistheimilum og sambýlum, 90%
11.080.756 11.722.331
792.539.503 838.426.464
Tannlækningar vegna alvarlegra afleiðinga meðfæddra galla,
sjúkdóma og slysa, skv. 33. gr. almannatryggingalaga
Tannréttingar (ekki gjaldskráratriði) 127.428.826 127.428.826
Aðrar tannlækningar en tannréttingar 42.018.179 44.451.031
169.447.05 171.879.857
961.986.508 1.010.306.321

     2.      Hve mikil er hlutfallsleg lækkun, sbr. 1. tölul., árlega sl. þrjú ár skipt milli hópa? Hvað má ætla að sú lækkun sé mikil í fjárhæðum að raungildi í heild? Sérstaklega óskast sundurgreind lækkun endurgreiðslna á þessum tíma fyrir lífeyrisþega annars vegar og börn með umönnunargreiðslur og andlega þroskahamlaða einstaklinga 17 ára og eldri hins vegar miðað við endurgreiðslur Tryggingastofnunar til þessara hópa sl. þrjú ár.
    Ekki er gert ráð fyrir því að til gjaldskrárbreytinga vegna breytinga á verðlagi hefði þurft að koma fyrr en í ársbyrjun ársins 2000 og þá með tilliti til breytinga á verðlagi ársins 1999, sem var 5,79%. Hlutfallsleg lækkun endurgreiðslna á árinu 2000 er því í samræmi við það, eða tæp 5,5%. Skipting milli hópa samkvæmt því hlutfalli kemur fram aftari dálki í töflu 4.
    Lækkunin nemur 48.319.813 kr. á verðlagi ársins 2000 eða tæplega 52 millj. kr. á verðlagi ársins 2001.
    Ef gjaldskrá hefði hækkað samkvæmt verðlagsþróun hefðu greiðslur til lífeyrisþega á árinu 2000 orðið rúmum 16 millj. kr. hærri en þær urðu í raun og á sama hátt hefðu endurgreiðslur til umönnunar barna og þroskaheftra orðið rúmlega 600 þús. kr. hærri, sem er hvort tveggja lækkun á endurgreiðslum um tæp 5,5%.

     3.      Hvers vegna beitir ráðherra ekki ákvæðum 37. gr. almannatryggingalaga og setur einhliða gjaldskrá sem tekur mið af verðlagsþróun sl. þrjú ár?
    Vinna að nýrri og einfaldari gjaldskrá, sem er gegnsærri og skýrari og meira í samræmi við það sem viðgengst í nágrannalöndum okkar, hefur staðið yfir nú um nokkurt skeið. Gert er ráð fyrir að því verki ljúki á þessu hausti.
    Tillit verður tekið til verðlagsþróunar í hinni nýju gjaldskrá.

     4.      Hver er staðan núna í samningaviðræðum milli Tannlæknafélags Íslands og Tryggingastofnunar, hver eru helstu ágreiningsatriðin að mati ráðherra og hvað hyggst ráðherra gera til að leysa þann hnút sem samningamálin eru komin í? Mun ráðherra beita sér fyrir því að þeir sem hafa fengið skerta endurgreiðslu sl. þrjú ár fái mismun á nýrri og eldri gjaldskrá greiddan?
    Samningaviðræður Tryggingastofnunar ríkisins við Tannlæknafélags Íslands hafa staðið yfir með styttri eða lengri hléum frá því um haustið 1998. Á þeim tíma hefur samninganefnd Tryggingastofnunar lokið tugum kjarasamninga við allar þær aðrar heilbrigðisstéttir sem viðskipti hafa við stofnunina. Engum viðræðum samninganefnda hefur lokið án samnings. Tannlæknar hafa hins vegar verið nokkuð sér á parti og virðast ekki hafa haft skýr samningsmarkmið.
    Haustið 1998 lágu fyrir nánast fullgerð samningsdrög við samninganefnd tannlækna þegar stjórnarbreyting varð í Tannlæknafélagi Íslands. Samningsdrögin voru þá lögð til hliðar þar sem ný forusta Tannlæknafélagsins lýsti yfir áhuga sínum á að halda verðlagningu frjálsri og hafði því ekki áhuga á samningi við Tryggingastofnun um gjaldskrá.
    Engu síður fóru fram viðræður við forustu Tannlæknafélags Íslands í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og mikil vinna lögð í að ná samkomulagi sem lá fyrir í stórum dráttum þegar þeirri forustu var einnig hafnað af aðalfundi Tannlæknafélagsins og nýir menn komu til skjalanna. Allt þetta ár hafa farið fram gagnlegir fundir á vegum landlæknisembættisins með nýrri forustu Tannlæknafélagsins til að ná landi í samvinnu aðila og standa vonir til að fundirnir leiði til betra samkomulags.
    Þrátt fyrir áhugaleysi Tannlæknafélags Íslands um gjaldskrá hafa tannlæknar engu síður viljað hafa áhrif á uppsetningu ráðherragjaldskrárinnar og koma sjónarmiðum sínum á framfæri án nokkurra skuldbindinga. Að frátöldum fyrrgreindum erfiðleikum hafa viðræður einkum snúist um svokallaðan forvarnarpakka fyrir börn og samskiptareglur milli Tryggingastofnunar og Tannlæknafélagsins. Í reynd er ekki mikið sem skilur á milli aðila í því efni.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið leggur mikla áherslu á að ná samningi við Tannlæknafélag Íslands um forvarnarpakka fyrir börn, þ.e. að tannlæknar samþykki að veita börnum tiltekna þjónustu á föstu verði. Þannig verði tryggt að foreldrar fái fulla forvarnaþjónustu fyrir börn sín með endurgreiðslufyrirkomulagi eða beingreiðslum til tannlækna eftir því sem um semst.
    Stefnt er að því að samningafundir hefjist að nýju nú í þessum mánuði.
    Önnur leið, sem ekki hefur verið íhuguð nánar meðan enn er von til að samningar náist, er að bjóða einstökum tannlæknum sem það vilja samning um forvarnarpakka og gjaldskrá, svokallað útboð á þjónustu á grundvelli verktöku.
    Ráðherra mun ekki beita sér fyrir því að þeir sem hafa fengið skerta endurgreiðslu sl. þrjú ár fái mismun á nýrri og eldri gjaldskrá greiddan. Eins og áður kom fram hafa útgjöld vegna tannlækninga í heild verið í samræmi við verðlagsþróun og fjölgun sjúklinga.
    Á yfirstandandi ári hefur verðlag hækkað um 7,56% en útgjöld til tannlækninga hafa aukist um 11,2%.