Ferill 80. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 317  —  80. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um jafnréttisáætlun, stöðuveitingar og skipan í nefndir og ráð.

     1.      Hefur ráðuneytið gert sérstaka framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum til að tryggja jafnan hlut kvenna og karla í störfum innan ráðuneytisins og á vegum þess? Ef svo er, hvenær var það gert og hvað hefur verið gert til að framfylgja áætluninni?
    Í sjávarútvegsráðuneytinu hefur að undanförnu verið unnið að framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum en gerð hennar er ekki lokið. Hins vegar er samráðshópur að störfum sem er að leggja lokahönd á jafnréttisstefnu fyrir Stjórnarráðið í heild og mun þeirri vinnu vera því sem næst lokið. Þegar jafnréttisstefna Stjórnarráðsins liggur fyrir mun ráðuneytið útfæra sína framkvæmdaáætlun nánar í samræmi við hana. Við val á umsækjendum um störf í ráðuneytinu er hæfni umsækjenda fyrst og fremst lögð til grundvallar en hlutfall kynja við sambærilegar stöður í ráðuneytinu jafnan haft í huga.

     2.      Hversu margar stöður hafa verið auglýstar á vegum ráðuneytisins síðustu þrjú ár og um hvaða stöður er að ræða? Hversu margir umsækjendur voru um hverja stöðu og hversu margir þeirra voru metnir hæfir til að gegna henni, skipt eftir kyni í báðum tilvikum? Hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
    Á vegum ráðuneytisins hafa sex stöður verið auglýstar á sl. þremur árum. Um er að ræða tvær stöður sérfræðinga. Umsækjendur um þær voru alls 48, 34 karlar og 14 konur. Ráðnir voru karlar í báðar stöðurnar og við val á umsækjendum var m.a. tekið mið af kynjaskiptingu í sambærilegum störfum í ráðuneytinu. Ein staða sendils hefur verið auglýst tvisvar á sl. 3 árum. Í annað skiptið sóttu fjórir um starfið, allt karlar, en upplýsingar um fjölda umsókna í síðara skiptið liggja ekki fyrir í ráðuneytinu þar sem umsóknir fóru í gegnum ráðningarskrifstofu sem mat umsóknir eftir hæfnisskilyrðum. Þá var kona ráðin í starfið. Einnig hafa verið auglýstar tvær stöður ritara en fjöldi umsókna um þær stöður liggur ekki heldur fyrir þar sem umsóknir fóru í gegnum ráðningarstofu.

     3.      Hefur á síðustu þremur árum verið ráðið í stöður á vegum ráðuneytisins sem ekki voru auglýstar? Ef svo er, um hvaða stöður er að ræða og hvort var kona eða karl ráðinn í umræddar stöður?
    Alls hefur verið ráðið í eina stöðu sérfræðings án undangenginnar auglýsingar og eina stöðu sendils á tímabilinu. Ráðnir voru karlar í báðum tilvikum.

     4.      Hvaða nefndir og ráð eru starfandi á vegum ráðuneytisins? Hve margir fulltrúar eru í hverri nefnd eða ráði, hvernig skiptast þeir eftir kynjum og hvenær voru þeir skipaðir?

    Við ósk um tilnefningar í nefndir og ráð á vegum sjávarútvegsráðuneytisins er það starfsvenja að óska eftir tilnefningum af báðum kynjum. Varðandi svar við þessum lið að öðru leyti vísast til yfirlitsins hér á eftir.

Nefndir og ráð á vegum sjávarútvegsráðuneytisins.

Ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.
Samkvæmt 24. gr. laga nr. 64/1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna, skal ráðherra skipa ráðgjafarnefnd Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins til fjögurra ára. Forstjóri á sæti í nefndinni en nefndin kýs sér formann. Eftirgreindir eiga sæti í nefndinni samkvæmt tilnefningu tímabilið 1. janúar 1998 til 31. desember 2001:
    Pétur Bjarnason Fiskifélagi Íslands, Alda Möller Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Jón Reynir Magnússon Félagi íslenskra fiskmjölsframleiðenda, Tryggvi Finnsson Íslenskum sjávarafurðum hf., Guðmundur Stefánsson síldarútvegsnefnd, Sigurður Bogason Sölusambandi íslenskra fiskframleiðenda, Sævar Gunnarsson Sjómannasambandi Íslands, Björn Grétar Sveinsson Alþýðusambandi Íslands, Ágúst H. Elíasson Samtökum fiskvinnslustöðva og Benedikt Valsson Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands.

Stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar.
Samkvæmt lögum nr. 72/1984, um breyting á lögum nr. 64 21. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Stjórn stofnunarinnar er skipuð fimm mönnum sem skipaðir eru af sjávarútvegsráðherra til fjögurra ára í senn, þar af einn án tilnefningar, einn tilnefndur af Fiskifélagi Íslands, einn tilnefndur af Landssambandi íslenskra útvegsmanna, einn tilnefndur sameiginlega af Sjómannasambandi Íslands og Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og einn tilnefndur af starfsmönnum stofnunarinnar. Í stjórn Hafrannsóknastofnunarinnar eiga sæti skipunartímabilið 1. júlí 2000 til 30. júní 2004:
    Aðalmenn: Brynjólfur Bjarnason formaður, Pétur Bjarnason, Eiríkur Tómasson, Örn Einarsson og Konráð Þórisson. Varamenn: Ármann Kr. Ólafsson, Friðrik J. Arngrímsson, Brynhildur Benediktsdóttir, Sævar Gunnarsson og Einar Jónsson.

Stjórn Kvótaþings.
Samkvæmt 3. gr. laga nr. 11/1998, um Kvótaþing. Stjórnin er skipuð til fjögurra ára frá 20. maí 1998 til 20. maí 2002.
    Aðalmenn: Tómas Örn Kristinsson formaður, Kristín Haraldsdóttir og Þórir Skarphéðinsson. Varamenn: Kristján Skarphéðinsson og Páll Gunnar Pálsson.

Stjórn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins.
Samkvæmt 20. gr. laga nr. 64 21. maí 1965, um rannsóknir í þágu atvinnuveganna. Í stjórn Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins skulu vera þrír menn, skipaðir af sjávarútvegsráðherra til fjögurra ára í senn, þar af einn án tilnefningar, einn tilnefndur af stjórn Fiskifélags Íslands og einn tilnefndur af ráðgjafarnefnd stofnunarinnar. Sömu aðilar tilnefna varamenn. Ráðherra skipar formann stjórnar. Eftirgreindir sitja í stjórn stofnunarinnar frá 1. janúar 1998 til 31. desember 2001:
    Aðalmenn: Friðrik Friðriksson formaður, Alda Möller og Pétur Bjarnason. Varamenn: Teitur Stefánsson og Guðmundur Stefánsson.

Stjórn Þróunarsjóðs sjávarútvegsins.
Skipuð samkvæmt lögum nr. 92 24. maí 1994 til fjögurra ára, frá 1. júní 1998 til 31. maí 2002. Samkvæmt lögum nr. 152/1996 er stjórnin skipuð án tilnefningar.
    Nefndarmenn: Magnús Gunnarsson formaður, Pétur Bjarnason og Þorgeir Eyjólfsson.

Úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
Samkvæmt lögum nr. 13 27. mars 1998, um Verðlagsstofu skiptaverðs og úrskurðarnefnd sjómanna og útvegsmanna.
    Nefndarmenn frá Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands, aðalmaður: Grétar Mar Jónsson, varamaður: Benedikt Þór Valsson.
    Frá Sjómannasambandi Íslands, aðalmaður: Sævar Gunnarsson, varamaður: Hólmgeir Jónsson.
    Frá Vélstjórafélagi Íslands, aðalmaður: Helgi Laxdal, varamaður: Jóhanna Eyjólfsdóttir.
    Frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna, aðalmenn: Kristján Ragnarsson, Pétur Pálsson og Sturlaugur Sturlaugsson, varamenn: Ágúst H. Elíasson, Ólafur Marteinsson og Sveinn Hjörtur Hjartarson.
    Án tilnefningar: Skúli J. Pálmason formaður, varamaður: Valtýr Sigurðsson.

Úrskurðarnefnd vegna álagningar gjalds af ólöglegum sjávarafla.
Samkvæmt lögum nr. 37 27. maí 1992.
    Aðalmenn: Marteinn Másson formaður, Dögg Pálsdóttir og Stefán Tómasson. Varamenn: Þórunn Guðmundsdóttir og Andri Árnason.

Nefnd er gera skal samanburð á starfsumhverfi sjóvinnslu og landvinnslu.
Skipuð 24. ágúst 1999.
    Nefndarmenn: Dr. Gunnar Ingi Birgisson, Elínbjörg Magnúsdóttir og Guðrún Lárusdóttir.

Nefnd er safni upplýsingum um stöðu fiskvinnslunnar að því er varðar atvinnumöguleika kvenna og áhrif nýrrar tækni á atvinnugreinina og á atvinnumöguleika.
Skipuð 18. október 2000.
    Nefndarmenn: Ásgerður Halldórsdóttir formaður, Ármann Kr. Ólafsson og Hulda Lilliendahl.

Nefnd til að endurskoða fyrirkomulag eftirlits með framleiðslu og meðferð sjávarafurða.
Skipuð 19. nóvember 1999.
    Nefndarmenn: Magnús H. Guðjónsson formaður, framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja, Kristín Haraldsdóttir lögfræðingur, Gylfi Gautur Pétursson forstjóri, Þórður Ásgeirsson Fiskistofustjóri, Pétur Bjarnason, framkvæmdastjóri Fiskifélags Íslands, og Sigurrós Þorgrímsdóttir stjórnmálafræðingur.

Samráðshópur um samstarf ráðuneyta varðandi fiskveiðieftirlit.
Nefnd skipuð 5. febrúar 1998.
Nefndin hefur yfirumsjón með samstarfi dómsmála- og sjávarútvegsráðuneyta og stofnana á þeirra vegum, um eftirlit með fiskveiðum, innan og utan landhelgi.
    Nefndarmenn: Þorsteinn Geirsson, Björn Friðfinnsson, Þórður Ásgeirsson og Hafsteinn Hafsteinsson.

Samráðsnefnd um fiskveiðistjórn og eftirlit.
Skipuð 27. júní 1997.
Samráðsnefnd sjávarútvegsráðuneytis, Fiskistofu og Landssambands íslenskra útvegsmanna hefur það hlutverk að fjalla um framkvæmd gildandi laga um fiskveiðistjórn og veiðieftirlit og ræða álitaefni er upp kunna að koma.
    Nefndarmenn: Jón B. Jónasson formaður, Eiríkur Tómasson, Kristján Ragnarsson, Guðmundur Karlsson og Þórður Ásgeirsson.

Starfsfræðslunefnd fiskvinnslunnar.
Hlutverk nefndarinnar er að skipuleggja og halda námskeið fyrir fiskvinnslufólk um land allt.
    Nefndarmenn: Arnar Sigurmundsson formaður, sjávarútvegsráðuneyti, Svavar Svavarsson Samtökum atvinnulífsins, Ágúst H. Elíasson Samtökum atvinnulífsins, Elinbjörg Magnúsdóttir Starfsgreinasambandi Íslands, Guðrún Eyjólfsdóttir sjávarútvegsráðuneyti og Aðalsteinn Árni Baldursson Starfsgreinasambandi Íslands. Verkefnastjóri: Hulda Lilliendahl.

Starfshópur sem gera skal tillögu um framkvæmd reglna á samningssvæðum NEAFC og NAFO.
Nefnd skipuð 27. apríl 1999.
    Nefndarmenn: Þórður Eyþórsson formaður, Gylfi Geirsson og Guðmundur Kristmundsson.

Stjórn rekstrarfélags matvælaseturs Háskólans á Akureyri.
Skipuð 18. nóvember 1999.
    Nefndarmenn: Helgi Jóhannesson formaður, Kjötiðnaðarstöð KEA, Hjörleifur Einarsson, forstjóri Rf, Hallgrímur Jónasson, forstjóri Iðntæknistofnunar. Varamaður Hallgríms er Þorsteinn Tómasson.

Stjórn sjávarútvegshúss.
Yfirstjórn með rekstri sjávarútvegshússins að Skúlagötu 4.
    Nefndarmenn: Þorsteinn Geirsson, Arndís Ármann Steinþórsdóttir, Jóhann Sigurjónsson og Hjörleifur Einarsson.

Umgengnisnefnd um auðlindir sjávar.
Skipuð 26. maí 1994.
Tilgangur nefndarinnar er að fjalla um hvernig megi bæta umgengni um auðlindir sjávar.
    Nefndarmenn: Sævar Gunnarsson formaður, Sjómannasambandi Íslands, Kristján Þórarinsson Landssambandi íslenskra útvegsmanna, Þórður Eyþórsson sjávarútvegsráðuneyti, Guðmundur Karlsson Fiskistofu, Hrafnkell Eiríksson Hafrannsóknastofnuninni, Grétar Mar Jónsson Farmanna- og fiskimannasambandi Íslands og Helgi Laxdal Vélstjórafélagi Íslands.

Verkefnastjórn til að fylgja eftir áætlun um rannsóknir fyrir sjávarútveginn á mengandi eða varasömum efnum í sjávarafurðum og vistkerfi sjávar.
Skipuð 14. apríl 1999.
    Nefndarmenn: Dóróthea Jóhannsdóttir formaður, Guðjón Atli Auðunsson, Jón Ólafsson, Baldur Hjaltason og Friðrik Blomsterberg.

Verkefnastjórn sem skipuleggi og samræmi aðgerðir þeirra aðila sem koma að eftirliti á sjó og grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir brottkast.
Skipuð 7. júlí 2000.
    Nefndarmenn: Jón B. Jónasson formaður, Gunnar I. Birgisson, Guðmundur Karlsson, dr. Ólafur Karvel Pálsson og Halldór B. Nellet.

Verkefnastjórn um rekstur skólaskips.
Skipuð 13. mars 1998.
Verkefnastjórnin skal hafa yfirstjórn með rekstri skólaskipsins Drafnar.
    Nefndarmenn: Guðrún Eyjólfsdóttir formaður, Ólafur Ástþórsson líffræðingur, Kristján Pálsson alþingismaður, Ingvar Viktorsson, samkvæmt tilnefningu Samtaka sveitarfélaga, og Pétur Bjarnason Fiskifélagi Íslands.