Ferill 217. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 369  —  217. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um stöðu banka og sparisjóða.

     1.      Hver er þróun á eiginfjárhlutfalli banka og sparisjóða á árunum 1999–2001 án víkjandi lána í samanburði við þróun útlána annars vegar og framlög í afskriftareikning hins vegar og uppfylla þeir lágmarksskilyrði um eiginfjárhlutfall? Telur ráðherra hlut víkjandi lána til að uppfylla lágmarksskilyrði eðlilegan og er að vænta breytinga á skilyrðum um eiginfjárhlutfall í samræmi við mat Fjármálaeftirlitsins þar að lútandi?
    Í töflu 1 er sýnd þróun á eiginfjárhlutfalli banka og sparisjóða í árslok 1999 og 2000 og í lok júní 2001, annars vegar samkvæmt lögum og hins vegar án víkjandi lána. Í lok júní 2001 er fyrrnefnda eiginfjárhlutfallið 10,6% og það síðarnefnda 7,0% fyrir þessar stofnanir í heild. Hlutföllin hafa hækkað frá árslokum 2000 þegar þau voru 9,7% og 6,6%. Í árslok 1999 voru hlutföllin hins vegar 10,3% og 8,0%. Lágmarkseiginfjárhlutfall samkvæmt lögum er 8% en ekki er um tiltekið lágmarkshlutfall að ræða varðandi eiginfjárhlutfall án víkjandi lána. Vissar takmarkanir eru þó á hlutdeild víkjandi lána í eigin fé í eiginfjárútreikningi.
    Samkvæmt fyrirliggjandi eiginfjárskýrslum frá viðskiptabönkum og sparisjóðum til Fjármálaeftirlitsins voru lágmarkskröfur um eiginfjárhlutfall uppfylltar. Eiginfjárstaða einstakra innlánsstofnana er þó til athugunar hjá Fjármálaeftirlitinu. Unnið er að endurskoðun laga um viðskiptabanka og sparisjóði af nefnd sem skipuð var af viðskiptaráðherra og fjallar nefndin um hvort rétt sé að leggja til breytingar á eiginfjárákvæðum laga um viðskiptabanka og sparisjóði.
    Í töflu 1 er m.a. sýnd þróun útlána og framlög í afskriftareikning á fyrrgreindu tímabili og hlutfall afskriftaframlaga af útlánum. Þar kemur fram að útlán jukust að nafnverði um 29,3% á árinu 2000 og 13,6% á fyrri helmingi ársins 2001. Afskriftaframlög námu 3,3 milljörðum kr. á árinu 1999, 4,1 milljörðum kr. árinu 2000 og 3,1 milljörðum kr. á fyrri helmingi ársins 2001. Sem hlutfall af meðalútlánum voru afskriftaframlögin fyrir sama tímabil 0,9%, 0,8% og 0,5% ( 1/ 2 ár).

Tafla 1.    Yfirlit yfir þróun eiginfjárhlutfalla, útlána og afskriftaframlaga hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.1)
Fjárhæðir í milljörðum króna 1999 2000 30.6.2001
Eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum 10 ,3% 9,7% 10,6%
Eiginfjárhlutfall án víkjandi lána2) 8,0% 6,6% 7,0%
Útlán í lok tímabils 459,8 594,7 675,5
Meðalútlán á tímabilinu 417,1 527,3 635,1
Gjaldfærð afskriftaframlög 3,7 4,1 3,1 (1/2ár)
Afskriftaframlög sem hlutfall af meðalútlánum 0,9% 0,8% 0,5% (1/2ár)
1)     Í töfluyfirlitinu er miðað við viðskiptabanka og sex stærstu sparisjóði sem ná til 96% af heildareignum viðskiptabanka og sparisjóða. Ástæðan er að talnaefni fyrir minni sparisjóði nær einungis til ársins 2000 og fyrri ára. Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er talinn með frá árinu 1999.
2)     Víkjandi lán samkvæmt eiginfjárþætti B og C.

     2.      Er eiginfjárstaða banka og sparisjóða nægjanlega sterk að mati ráðherra og Fjármálaeftirlitsins til að mæta hugsanlegum skakkaföllum eða telur ráðherra nauðsynlegt að grípa til fyrirbyggjandi aðgerða og þá hverra?
    Fjármálaeftirlitið hefur lýst því yfir að stærstu lánastofnanir hér á landi með virka áhættustýringu og innra eftirlit ættu að stefna að því að eiginfjárhlutfall samkvæmt lögum sé á hverjum tíma að lágmarki 10% og að margar lánastofnanir þurfi að setja sér enn hærri markmið um eigið fé í samræmi við áhættu í starfsemi þeirra. Sérstaklega hefur Fjármálaeftirlitið varað við því að víkjandi lán séu í ríkum mæli tekin til að fullnægja skilyrðum um eiginfjárhlutföll og þurfi lánastofnanir að stefna að því að eiginfjárhlutfall án víkjandi lána sé að lágmarki 8%.
    Ráðherra telur ástæðulaust að grípa til sértækra aðgerða í bankakerfinu þar sem fjármálastöðugleika er ekki ógnað að mati Fjármálaeftirlitsins, alþjóðastofnana og matsfyrirtækja. Hins vegar eru lög og reglur á fjármálamarkaði í örri þróun og er ástæða til að styrkja þau enn frekar á næstu missirum, t.d. með hliðsjón af ábendingum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

     3.      Hvernig hafa heildareignir banka og sparisjóða myndast á árunum 1998–2001 og hvernig hafa erlendar skuldir þeirra breyst á þessu tímabili? Hve mikið hefur tap þeirra verið á þessum árum vegna gengisbreytinga og hlutabréfaeignar, annars vegar í krónum talið og hins vegar í samanburði við vanskil einstaklinga á þessu tímabili? Telur ráðherra að breyta þurfi lögum og reglum til að bæta áhættustýringu innlánsstofnana?
    Í töflu 2 er sýnd þróun á heildareignum og samsetningu heildareigna viðskiptabanka og sparisjóða frá árslokum 1998 til miðs árs 2001. Þar kemur fram að heildareignir hafa aukist úr 528 milljörðum kr. í árslok 1998 í 939 milljarða kr. í lok júní 2001. Stærsti einstaki eignaliðurinn er útlán sem námu 374 milljörðum kr., eða tæplega 71% af heildareignum, í upphafi tímabilsins og 676 milljörðum kr. í lok þess, eða tæplega 72% af heildareignum. Í töflu 2 er einnig sýnd þróun erlendra skulda viðskiptabanka og sparisjóða. Í árslok 1998 námu þær 154 milljörðum kr. eða 29% af heildareignum en í lok júní 2001 420 milljörðum kr. eða tæplega 45% af heildareignum.
    Spurt er hversu mikið tap banka og sparisjóða hafi verið á árunum 1998–2001 vegna gengisbreytinga og hlutabréfaeignar, annars vegar í krónum talið og hins vegar í samanburði við vanskil einstaklinga. Ekki liggja fyrir upplýsingar um tap vegna gengisbreytinga og hlutabréfaeignar. Hins vegar liggja fyrir upplýsingar um gengishagnað/tap af fjármálastarfsemi og matsverðsbreytingar fjárfestingarverðbréfa og er þróun þessara rekstrarliða á tímabilinu 1998 til miðs árs 2001 kemur fram í töflu 2. Þar kemur fram að á árunum 1998 og 1999 sýna þessir rekstrarliðir jákvæða útkomu að fjárhæð 3,1 milljarðar kr. og 3,7 milljarðar kr. en á árinu 2000 varð útkoman neikvæð sem nam 2,5 milljörðum kr. og á fyrri hluta ársins 2001 neikvæð um 0,8 milljarða kr.
    Í töflu 2 er enn fremur sýndur samanburður við vanskil einstaklinga frá og með árslokum 2000 en sambærilegar upplýsingar um vanskil fyrir þann tíma liggja ekki fyrir. Vanskil einstaklinga sem staðið hafa lengur en einn mánuð námu 5,1 milljörðum kr. í árslok 2000 og 6,9 milljörðum kr. í lok júní 2001.
    Ráðherra telur ekki þörf á að breyta lagaákvæðum um áhættustýringu á þessu stigi. Vakin er athygli á því að af hálfu Fjármálaeftirlitsins er nú unnið að undirbúningi að útgáfu á leiðbeinandi tilmælum um innra eftirlit og áhættustýringu hjá fjármálafyrirtækjum og hefur í því sambandi verið gefið út umræðuskjal með drögum að slíkum tilmælum, sem sent hefur verið til umsagnar til eftirlitsskyldra aðila. Í þessum drögum er lögð sérstök áhersla á nauðsyn á yfirsýn og markmiðssetningu stjórnenda varðandi áhættutöku og öflugt innra eftirlit og ábyrgð stjórna og framkvæmdastjóra fjármálafyrirtækja í því sambandi.

Tafla 2.    Yfirlit yfir þróun og samsetningu heildareigna og erlendra lána hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.1)
Fjárhæðir í milljörðum króna 1998 1999 2000 30.6.2001
Heildareignir í lok tímabils 527 ,9 667,7 834,9 939,3
Sjóður, ríkisvíxlar og kröfur á lánastofnanir 58,9 82,9 98,3 109,2
Útlán 374,4 459,8 594,7 675,5
Markaðsskuldabréf 60,0 73,8 65,2 67,4
Hlutabréf 8,0 18,6 34,7 40,5
Hlutir í hlutdeildarfélögum og tengdum félögum 7,9 12,6 12,7 13,6
Rekstrarfjármunir 12,4 12,6 13,0 13,7
Aðrar eignir 6,3 7,4 16,3 19,4
Hlutföll af heildareignum
Sjóður, ríkisvíxlar og kröfur á lánastofnanir 11,2% 12,4% 11,8% 11,6%
Útlán 70,9% 68,9% 71,2% 71,9%
Markaðsskuldabréf 11,4% 11,1% 7,8% 7,2%
Hlutabréf 1,5% 2,8% 4,2% 4,3%
Hlutir í hlutdeildarfélögum og tengdum félögum 1,5% 1,9% 1,5% 1,4%
Rekstrarfjármunir 2,3% 1,9% 1,6% 1,5%
Aðrar eignir 1,2% 1,1% 2,0% 2,1%
Samtals 100,0% 100,0% 100,0% 100,0%
Erlendar skuldir í lok tímabils 153,8 224,3 348,7 419,6
Erlendar skuldir sem hlutfall af heildareigum 29,1% 33,6% 41,8% 44,7%
Gengishagnaður(-tap) af fjármálastarfsemi2) 3,1 3,7 -0,8 -0,8
Matsverðsbreyting fjárfestingarverðbréfa (-gjöld) 0,0 0,0 -1,7 0,0
Samtals 3,1 3,7 -2,5 -0,8
Vanskil einstaklinga >1 mánuður 5,1 6,9
1)     Í töfluyfirlitinu er miðað við viðskiptabanka og sex stærstu sparisjóði sem ná til 96% af heildareignum viðskiptabanka og sparisjóða. Ástæðan er að talnaefni fyrir minni sparisjóði nær einungis til ársins 2000.
    Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er talinn með frá árinu 1998.
2)     Þessi rekstrarliður er settur saman úr gengishagnaði/tapi af veltuskuldabréfum, veltuhlutabréfum, gjaldeyrisviðskiptum og öðrum fjármálaskjölum.

     4.      Hver hafa útlánatöp banka og sparisjóða verið árlega sl. fimm ár, annars vegar vegna einstaklinga og hins vegar vegna lögaðila?
    Í töflu 3 er yfirlit yfir þróun útlánatapa og afskriftaframlaga hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum á tímabilinu 1996–2000. Ekki liggur fyrir skipting milli einstaklinga og lögaðila á útlánatöpum. Fram kemur í yfirlitinu að gjaldfærð árleg afskriftaframlög námu frá 2,6 milljörðum kr. til 4,8 milljarða kr. á umræddu tímabili, lægst árið 1997 og hæst árið 2000. Sem hlutfall af meðalútlánum voru afskriftaframlögin 0,9%–1,2%, lægst árið 2000 og hæst árið 1996. Enn fremur er í töflu 3 sýnd þróun endanlega afskrifaðra útlána. Þar kemur fram að árlegar fjárhæðir endanlega afskrifaðra útlána námu á bilinu 2,4 milljörðum kr. til 4,7 milljarða kr., lægst á árinu 2000 og hæst á árinu 1997. Sem hlutfall af meðalútlánum námu endanlega afskrifuð útlán 0,4%–1,6%, lægst árið 2000 og hæst árið 1997. Til skýringar skal þess getið að endanlega afskrifuð útlán eru þau útlán sem færð eru út sem endanlega töpuð en áður hafði verið lagt til hliðar fyrir með afskriftaframlagi sem gjaldfærslu í rekstrarreikningi.

Tafla 3.     Yfirlit yfir þróun útlánatapa og afskriftaframlag hjá viðskiptabönkum og sparisjóðum.1)
Fjárhæðir í milljörðum króna 1996 1997 1998 1999 2000
Gjaldfærð framlög í afskriftareikning 3 ,2 2,6 3,4 4,3 4,8
–    sem hlutfall af meðalútlánum 1 ,2% 0,9% 1,0% 1,0% 0,9%
Endanlega afskrifuð útlán 3,6 4,7 3,6 2,6 2,4
–    sem hlutfall af meðalútlánum 1 ,4% 1,6% 1,0% 0,6% 0,4%
Meðalútlán 260,4 290,0 349,2 434,9 548,8
1)     Fjárfestingarbanki atvinnulífsins er meðtalinn í talnaefninu frá árinu 1998 og tveir forverar hans, þ.e. Fiskveiðasjóður og Iðnlánasjóður, fyrir árin þar á undan.
    Ekki liggur fyrir sundurliðun á útlánatöpum milli einstaklinga og lögaðila.