Ferill 246. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 372  —  246. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um framhaldsdeildir.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvar á landinu eru nú starfræktar framhaldsdeildir sem útibú frá framhaldsskóla með skilgreinda hluta framhaldsskólanáms og hversu mikið
                  a.      greiðir ríkissjóður beint til einstakra framhaldsdeilda,
                  b.      greiða viðkomandi sveitarfélög?
     2.      Eftir hvaða reglum greiðir ríkissjóður fjárframlög til þeirra sem reka framhaldsdeildir utan höfuðstöðva sinna?
     3.      Hvaða sveitarfélög, sem ekki hafa eigin framhaldsskóla, hafa lagt fram beiðni um stofnun framhaldsdeilda?


    Tvær framhaldsdeildir eru starfræktar á landinu, önnur í Stykkishólmi og hin í Ólafsvík, báðar eru útibú frá Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ríkissjóður greiðir ekki beint til einstakra framhaldsdeilda. Sveitarfélög leggja út fyrir ýmsum kostnaði og endurkrefja síðan viðkomandi framhaldsskóla.
    Framhaldsdeildir eru samkvæmt fjárlögum sama rekstrareining og skólinn sem óskar eftir að reka þær og lúta þannig sömu reglum um fjárveitingar og annað framhaldsskólahald, þ.e. fjárframlög ráðast af nemendafjölda, tegund náms og stærð húsnæðis. Fjölbrautaskóli Vesturlands hefur fengið aukaframlag vegna stjórnunar þessara útibúa.
    Hólmavíkurhreppur hefur óskað eftir því við menntamálaráðuneytið að athugaðir verði möguleikar á framhaldsnámi á Hólmavík og í því efni litið til Grundarfjarðar sem fyrirmyndar, en þar hefur verið stundað skipulagt fjarnám á framhaldsskólastigi.