Ferill 307. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 381  —  307. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um könnun á stöðu öldungadeilda framhaldsskóla.

Flm.: Drífa Snædal, Gunnar Pálsson, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að gera könnun á stöðu kvöldnáms í öldungadeildum framhaldsskóla, meta þörfina fyrir slíkt nám og gera tillögur um hvernig nauðsynlegt námsframboð af þessu tagi verði tryggt til frambúðar um allt land.

Greinargerð.


    Í upphafi næsta árs verður öldungadeild Menntaskólans við Hamrahlíð þrjátíu ára. Þessi deild var sú fyrsta sinnar tegundar og strax í upphafi sannaði hún mikilvægi sitt. Aðsókn varð meiri en nokkurn grunaði og þróunin hefur orðið sú að öldungadeildir eru starfræktar í flestum framhaldsskólum á landinu. Deildirnar hafa sinnt mikilvægu hlutverki endur- og símenntunar enda er þetta eina tækifæri margra til að öðlast framhaldsskólamenntun. Í þeim hópi er ekki síst barnafólk sem hefur þarna tækifæri til að mennta sig jafnframt því að annast um börn og bú eða stunda aðra vinnu. Í þessum hópi hafa hingað til aðallega verið konur.
    Öldungadeildirnar eru góð viðbót við dagskólanámið en hafa lotið öðrum lögmálum. Þeir sem stunda nám í öldungadeildum framhaldsskólanna hafa gjarnan verið að bæta við sig menntun, öðlast innsýn í hin ýmsu fræði og ná færni í tungumálum. Það er því undir hælinn lagt hvort öldungadeildanemar ætli sér að taka próf að námskeiði loknu eða einungis sitja kennslustundir. Af þessum sökum er hæpið að þröngva öldungadeildunum inn í reiknilíkan um fjárframlög sem notað er til viðmiðunar í dagskólunum. Þar er reglan sú að greitt er fyrir þá nemendur sem þreyta próf en ekki þann fjölda sem skráður er. Skólunum sem bjóða upp á kvöldnám er heimilt að taka gjald af nemendum sem nemur einum þriðja af kennaralaunum og opinber framlög eru tveir þriðju hlutar kennaralauna. Þá er ekki tekið tillit til stjórnunarkostnaðar. Þetta hefur orðið til þess að margir skólar hafa gefist upp á því að reka öldungadeildir og aðrir sjá sér ekki fært að halda úti þeirri þjónustu öllu lengur. Ef ekki verða gerðar ráðstafanir til að öldungadeildirnar geti starfað á öðrum forsendum en dagskólarnir mun kostum til framhaldsskólanáms fyrir eldri nemendur fækka til muna, og jafnvel ekki vera í boði innan fárra ára.
    Frá því að tilraun var gerð með stofnun öldungadeildar fyrir 30 árum hefur aðsókn aukist jafnt og þétt og nýir hópar nýtt sér þennan kost. Þannig er algengt að þeir sem byrja í dagskóla ljúki námi í kvöldskóla og yngri nemar hafa sótt í kvöldskólana í auknum mæli. Þau vandræði sem öldungadeildirnar standa núna frammi fyrir geta því komið hart niður á mörgum nemendum. Nauðsynlegt er að gera úttekt á stöðu öldungadeildanna, hvaða spurn er eftir slíku námsframboði, og síðast en ekki síst, hvernig hægt er að tryggja að þessar lausnir verði í boði fyrir nemendur um allt land í framtíðinni.