Ferill 237. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 394  —  237. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Margrétar Frímannsdóttur um þriggja fasa rafmagn.

     1.      Hversu háar fjárhæðir er áætlað að fari í tengingu þriggja fasa rafmagns á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins á þessu ári, greint eftir umdæmi Rariks, og hver er áætluð fjárveiting næsta árs og hvar verður framkvæmt?
    Á þessu ári er áformað að verja um 205 millj. kr. til endurnýjunar og styrkingar dreifikerfa Rafmagnsveitna ríkisins til sveita utan sumarbústaðahverfa. Ætla má að um 40% eða 80 millj. kr. af þessari upphæð nýtist til þrífösunar hjá notendum sem ekki höfðu aðgang að þriggja fasa rafmagni áður. Önnur verkefni sem unnið er að fyrir ofangreindar 205 millj. kr. eru t.d.:
          Lagning þriggja fasa strengja í stað gamalla þriggja fasa lína til að auka rekstraröryggi og flutningsgetu.
          Lagning þriggja fasa strengja til að auka flutningsgetu.
          Lagning þriggja fasa strengja til nýrra notenda.
          Uppsetning þriggja fasa spennistöðva samfara lagningu strengja.
    Styrking og endurnýjun kerfisins er því nú nánast alfarið með þriggja fasa strengjum. Verulegur hluti af fjármagni fer hins vegar til endurnýjunar á þeim hluta kerfisins sem nú er þriggja fasa, enda eru þriggja fasa línurnar almennt eldri en einfasa línurnar auk þess sem þær eru meginstofnbrautir kerfisins og mikilvægar með tilliti til rekstraröryggis. Skipting fjármagns eftir landshlutum í ár er eftirfarandi í millj. kr.:

Vesturland
45,6
Norðurland vestra 29,6
Norðurland eystra 53,6
Austurland 28,7
Suðurland 47,9
Samtals 205,4

    Á næsta ári er áformað að verja 280 millj. kr. til nýframkvæmda og endurnýjunar í sveitakerfum. Endanleg ákvörðun um verkefni liggur ekki fyrir en ætla má að skipting milli landshluta verði áþekk því sem var í ár.

     2.      Hvaða landshlutar, sveitarfélög eða svæði, eru enn án þriggja fasa rafmagns?
    Þegar 11 og 19 kV dreifikerfið til sveita var byggt upp voru aðaldreifilínur út frá aðveitustöðvum að jafnaði hafðar þriggja fasa enda flutningur mestur um þær. Meginlínur út frá þeim þar sem byggð var strjálli og flutningur raforku minni svo og einstakar álmur voru hins vegar að jafnaði einfasa þar sem kostnaður við þær var verulega lægri og almennt engin þörf fyrir þriggja fasa rafmagn til almennrar notkunar. Í upphafi voru þannig innan við 25% af línum kerfisins þriggja fasa og nánast allir notendur með einfasa tengingu frá dreifispenni og heim í hús og nánast allir spennar í dreifbýli einfasa.
    Einfasa kerfið er því fyrir hendi í öllum sveitum og landshlutum en eftir því sem byggðin er strjálli eru þær algengari og þar sem hún er strjálust er það nánast allsráðandi. Í dag eru tæp 40% dreifikerfis þriggja fasa og tæp 20% spennistöðva.

     3.      Hver er áætlaður kostnaður við að ljúka lagningu þriggja fasa rafmagns á landinu og hvenær er áætlað að ljúka því verki?
    Áætlaður kostnaður við að ljúka þrífösun á öllu 11 og 19 kV dreifikerfinu með strenglögn og uppsetningu þriggja fasa spennistöðva er í dag áætlaður um 10 milljarðar króna. Allar nýjar framkvæmdir eru nú þriggja fasa þannig að þegar endurnýjun kerfisins lýkur verður það nánast alfarið þriggja fasa. Við óbreyttar fjárveitingar verður því þess langt að bíða að öll landsbyggðin búi við þriggja fasa rafmagn. Vandinn er því sá að forgangsraða þarf þrífösun landsbyggðarinnar með hliðsjón af þörfinni, en allvíða er lítil sem engin þörf fyrir þrífösun, en annars staðar og þá sérstaklega vegna stærri býla og atvinnurekstrar er þörfin brýn. Sérstök nefnd er iðnaðarráðherra skipaði á sl. ári í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 10. mars 1999 vinnur nú að úttekt á þörf atvinnulífs landsbyggðarinnar fyrir þriggja fasa rafmagn á næstu árum. Hefur nefndin haft samband við allar sveitarstjórnir og óskað eftir upplýsingum um mestu þörf fyrir þriggja fasa rafmagn í hverju sveitarfélagi til að geta hugsanlega forgangsraðað framkvæmdum og gert markvissari áætlanir um endurnýjun dreifiveitna og þá um leið lagningu þriggja fasa rafmagns til þeirra aðila er mesta þörf hafa fyrir það. Nefndin mun væntanlega ljúka störfum fyrir næstu áramót.