Ferill 264. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 395  —  264. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um rafgirðingar.

     1.      Hefur farið fram heildarúttekt á rafgirðingum á ákveðnum landsvæðum eða landshlutum m.a. með tilliti til fjarlægðar rafgirðinga frá háspennulínum og þverunar þessara lína, festinga rafgirðinga í háspennustaura, fjarlægðar rafgirðinga og jarðskauta þeirra frá fjarskiptalögnum, nálgunar annarra jarðskauta, svo sem frá háspennuvirkjum, útbreiðsluviðnáms rekstrarjarðskauta, merkinga og legu rafgirðinga, og ef ekki, er fyrirhugað að gera slíka úttekt?
    Löggildingarstofa hefur hvorki látið gera heildarúttekt á uppsetningu rafgirðinga í landinu né á einstökum landsvæðum. Árið 1998 gaf viðskiptaráðherra út reglugerð sem hefur að geyma reglur um uppsetningu rafgirðinga, búnað þeirra og frágang (reglugerð nr. 121/99). Tæknilegir þættir hennar voru unnir af Löggildingarstofu í samvinnu við Bændasamtök Íslands, Skógrækt ríkisins, Landgræðslu ríkisins, Bændaskólann á Hvanneyri, Landgræðslusjóð, Landssímann, Vegagerðina og Rafteikningu hf.
    Eftir gildistöku reglnanna voru þær kynntar fagmönnum á rafmagnssviði og hagsmunaaðilum í landbúnaði. Áður höfðu engar staðfestar reglur gilt um uppsetningu rafgirðinga. Aðeins voru fyrir hendi leiðbeiningar um uppsetningu og notkun rafgirðinga sem Rafmagnseftirlit ríkisins gaf út árið 1983.
    Þveri rafgirðingar háspennulínur eða liggi samsíða þeim ber eigendum rafgirðinga að sækja um sérstakt leyfi fyrir slíku til viðkomandi rafveitu eða eiganda háspennulínunnar, sbr. fyrrgreindar reglur um rafgirðingar. Jafnframt ber eigendum rafgirðinga að hafa samráð við eigendur fjarskiptavirkja séu rafgirðingar lagðar nálægt símaloftlínum.
    Haustið 2000 hóf Löggildingarstofa átaksverkefni sem felst í könnun á ástandi raflagna á sveitabýlum í landinu, svo sem raflögnum á bæjum, útihúsum, hlöðum, ástandi jarðskauta, rafgirðinga o.fl. Faggiltar skoðunarstofur skoða raflagnir hundruða sveitabýla um land allt samkvæmt skilgreindum skoðunarreglum. Gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki haustið 2002 og munu niðurstöður verða rækilega kynntar.

     2.      Hvernig er eftirliti með uppsetningu nýrra rafgirðinga háttað og hvaða faggiltir aðilar sjá um eftirlitið?
    Þurfi að fasttengja spennugjafa rafgirðinga við almenna veitukerfið skal það gert af löggiltum rafverktaka, sbr. reglur um rafgirðingar. Eigandi rafgirðingar getur að öðru leyti sjálfur annast uppsetningu hennar. Sé spennugjafi hins vegar með aðtaug og hefðbundinni kló þarf ekki að kalla til löggiltan rafverktaka.
    Samkvæmt þeim upplýsingum sem Löggildingarstofa hefur aflað sér eru flestir spennugjafar sem fluttir eru til landsins og ætlaðir eru til tengingar við almenna veitukerfið búnir aðtaug og kló.
    Löggildingarstofa telur að í flestum tilfellum sjái eigendur sjálfir um uppsetningu og tengingu rafgirðinga sinna enda hafa stofnuninni ekki borist neinar tilkynningar frá löggiltum rafverktökum um tengingu rafgirðinga síðustu árin. Berist stofnuninni slíkar tilkynningar munu faggiltar skoðunarstofur á rafmagnssviði, Frumherji hf. eða Rafskoðun ehf., skoða í samræmi við skilgreindar skoðunarreglur.

     3.      Er skylt að tilkynna um nýlagningu rafgirðinga, og ef svo er, hvernig og hvert á að tilkynna uppsetningu þeirra?
    Löggiltum rafverktökum er skylt að tilkynna um verk sem þeir hafa lokið til viðkomandi rafveitu sem sér um að koma tilkynningunum áfram til Löggildingarstofu. Löggildingarstofa velur síðan til úttektar úr þeim verkum sem rafverktakar hafa unnið við. Áætla má að um 30–50 % af verkum hvers rafverktaka séu árlega skoðuð. Þá ber einnig að hafa í huga að samkvæmt lögum eiga allir löggiltir rafverktakar að hafa komið sér upp innra öryggisstjórnunarkerfi (gæðakerfi) sem tryggir að öll þeirra verk séu unnin og yfirfarin (skoðuð) samkvæmt gildandi reglum.

     4.      Þurfa faggiltir aðilar að fylgjast með uppsetningu rafgirðinga?
    Faggiltar skoðunarstofur skoða rafgirðingar þegar Löggildingarstofa lætur skoða verk löggiltra rafverktaka eftir að þeim er lokið. Eigendum rafgirðinga er að sjálfsögðu heimilt að semja við skoðunarstofur um skoðun á rafgirðingum sínum.

     5.      Hve oft frá 1. janúar 1997 hafa verið gerðar athugasemdir við uppsetningu nýrra rafgirðinga og hvaða athugasemdir voru gerðar?
    Engar tilkynningar um uppsetningu rafgirðinga hafa borist frá löggiltum rafverktökum. Því hefur Löggildingarstofa ekki óskað eftir skoðun á nýjum rafgirðingum sem lið í úttekt á starfsemi rafverktaka. Skoðaðar hafa verið rafgirðingar í þeim tilfellum sem ábendingar hafa borist. Í þessum tilvikum hefur öryggi manna og dýra ekki verði stefnt í hættu heldur hafa viðkomandi rafgirðingar truflað fjarskiptavirki. Helstu athugasemdir sem gerðar hafa
verið lúta að einangrun girðinga og efnisvali, jarðskautum og aðtaugum.

     6.      Hvernig er eftirliti með eldri rafgirðingum háttað?
    Löggildingarstofa hefur ekki beint eftirliti sínu sérstaklega að rafgirðingum en benda má á átaksverkefni varðandi raflagnir í landbúnaði, sjá svar við 1. lið fyrirspurnarinnar. Á síðustu 30 árum er stofnuninni ekki kunnugt um neitt tjón er rekja má til rafgirðinga og á sama tímabili eru skráð tvö óhöpp sem óbeint má rekja má til slíks búnaðar. Fyrra atvikið átti sér stað árið 1995 er maður á göngu hrasaði á rafgirðingu við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum. Síðara atvikið átti sér stað á síðasta ári er starfsmaður rafveitu við línuskoðun ók á vír sem var strengdur á milli tveggja rafgirðinga. Vírinn hefði átt að vera sérstaklega merktur en var það ekki.
    Það skal sérstaklega tekið fram að áætlað er að um 140.000 húsveitur (neysluveitur) séu í landinu og að notkunarflokkar þeirra séu á annað hundrað. Ef skoða ætti eldri neysluveitur með þeirri tíðni sem eldri reglur kváðu á um, gæti árlegur kostnaður vegna slíks eftirlits numið 150 millj. kr. (sjá skýrslu um rafmagnsöryggismál, Árangur af breyttu skipulagi, gefin út af iðnaðar- og viðskiptaráðuneytum árið 1999). Löggildingarstofa hefur ekki yfir slíkum fjármunum að ráða. Þess í stað hefur stofnunin, í ríkari mæli, beitt sér fyrir sérstökum átaksverkefnum varðandi skoðanir á eldri húsveitum.
    Á síðasta ári voru t.d. kynntar niðurstöður skoðana á raflögnum hesthúsa. Skoðuð voru á annað hundrað hesthús á tímabilinu 1998–2000 um allt land. Niðurstöðurnar voru kynntar öllum hagsmunaaðilum og í fjölmiðlum. Nú er á vegum Löggildingarstofu verið að skoða raflagnir hótela og veitingahúsa og skemmtistaða um allt land. Þá er, eins og áður hefur komið fram, verið að kanna ástand raflagna á sveitabýlum.

     7.      Hverjir bera ábyrgð á rekstri og viðhaldi rafgirðinga?
    Eigendur rafgirðinga bera ábyrgð á rekstri og viðhaldi þeirra, sem og öðrum rafmagnstækjum og raflögnum sem eru í þeirra eigu.

     8.      Hver metur hvort rafgirðing er talin henta?
    Það gerir eigandi rafgirðingar. Það er þó háð ákveðnum skilyrðum, sbr. reglur um rafgirðingar.

     9.      Hvert geta bændur leitað eftir leiðbeiningum um uppsetningu og frágang rafgirðinga og annarra raforkuvirkja til notkunar við búrekstur?
    Bændur geta leitað eftir leiðbeiningum um uppsetningu og frágang rafgirðinga og annarra raforkuvirkja til Löggildingarstofu og löggiltra rafverktaka. Bændaskólinn á Hvanneyri og e.t.v. fleiri aðilar hafa staðið fyrir námskeiðum um uppsetningu og notkun rafgirðinga og fyrirtæki sem selja rafgirðingarefni hafa gefið út leiðbeiningar um uppsetningu og notkun.

     10.      Gilda sömu reglur um fimm víra rafgirðingu og þær sem hafa færri strengi?
    Í reglum um rafgirðingar er ekki gerður greinarmunur á fimm víra rafgirðingum og þeim sem hafa færri strengi.

     11.      Hve víða eru rafgirðingar ótryggar vegna fjarlægðar þeirra eða jarðskauta frá fjarskiptalögnum?
    Rafgirðingum er engin hætta búin af fjarskiptalögnum. Líklegra er að rafgirðingar geti truflað rekstur fjarskiptavirkja og fjarskiptalagna. Viðbrögð við slíku eru á hendi Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. lög um fjarskipti.

     12.      Hvaða aðgerðir eru í undirbúningi til þess að tryggja öryggi rafgirðinga með tilliti til fjarskiptalagna?
    Slíkar aðgerðir eru á hendi Póst- og fjarskiptastofnunar, sbr. svar við 11. lið fyrirspurnarinnar