Ferill 321. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 406  —  321. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001 frá 18. maí 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999, um urðun úrgangs.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 56/2001 frá 18. maí 2001, um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999, um urðun úrgangs.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES-nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar tilskipunar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES-samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES-nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES-samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.

3. Tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999, um urðun úrgangs.
    Tilskipunin fjallar um rekstrarlegar og tæknilegar kröfur varðandi úrgang og urðun hans, og kveður á um ráðstafanir, aðferðir og leiðbeiningar til að koma í veg fyrir eða minnka eins og unnt er neikvæð áhrif á umhverfið, sérstaklega mengun yfirborðsvatns, grunnvatns, jarðvegs og lofts. Tilskipunin tekur til urðunar spilliefna, venjulegs úrgangs og óvirks úrgangs.
    Tilskipunin kveður á um flokkun urðunarstaða í þrjá skilgreinda flokka. Gera skal áætlun um að minnka verulega, í ákveðnum áföngum, lífrænan úrgang sem fer til urðunar. Ekki er heimilt að urða fljótandi úrgang, eld- eða sprengifiman úrgang né sóttmengaðan úrgang. Frá og með 16. júlí 2003 er ekki heimilt að urða heila hjólbarða og frá og með 16. júlí 2006 er ekki heimilt að urða kurlaða hjólbarða. Aðeins er heimilt að urða úrgang sem hefur verið meðhöndlaður, t.d. flokkaður og rúmmálsminnkaður. Auk þess eru ákvæði um hvaða úrgang er heimilt að urða í hverjum flokki urðunarstaða, vöktun, tilkynningarskyldu og innra eftirlit meðan urðunarstaður er í rekstri. Í tilskipuninni eru jafnframt ítarleg ákvæði varðandi umsóknir og skilyrði starfsleyfis fyrir urðunarstaði.
    Rekstraraðilum urðunarstaða sem eru í rekstri við gildistöku tilskipunarinnar er gert að laga sig að ákvæðum hennar innan 8 ára frá lögleiðingu tilskipunarinnar sbr. nánari reglur þar um.
    Tilskipunin hefur það í för með sér að rekstraraðila urðunarstaðar ber að vakta urðunarstað gagnvart mengun í a.m.k. 30 ár frá lokun hans. Gjald fyrir urðun skal standa undir áætluðum kostnaði við þá vöktun sem og stofn- og rekstrarkostnaði urðunarstaðarins. Sveitarfélög bera ábyrgð á meðhöndlun úrgangs skv. 5. og 15. gr. reglugerðar um úrgang, nr. 805/1999. Sveitarfélögum er heimilt skv. 25. gr. laga um hollustuhætti og mengunarvarnir að setja gjaldskrá fyrir leyfi, leigu eða veitta þjónustu sem falla undir lögin. Gjöld mega aldrei vera hærri en sem nemur rökstuddum kostnaði við veitta þjónustu eða framkvæmd eftirlits með einstökum þáttum. Með vísan til þessa setja sveitarfélög sér gjaldskrár um sorphirðu í sveitarfélaginu.
    Í tilskipuninni eru einnig ákvæði um lokun urðunarstaðar og ábyrgð rekstraraðila. Rekstraraðili skal bera ábyrgð á viðhaldi, vöktun og umsjón urðunarstaðar svo lengi sem viðkomandi yfirvöld telja þörf á með hliðsjón af því hversu lengi hætta getur stafað af urðunarstöðum sem lokað hefur verið. Hann skal tilkynna eftirlitsaðila um veruleg umhverfisáhrif sem í ljós koma. Þá skal rekstraraðili vera ábyrgur fyrir vöktun og greiningu á hauggasi og sigvatni í nágrenni urðunarstaðarins svo lengi sem viðkomandi yfirvöld telja þörf á með hliðsjón af því hversu lengi hætta getur stafað af urðunarstöðum.
    Unnið er að undirbúningi nauðsynlegra lagabreytinga vegna þessa í umhverfisráðuneytinu, þar sem talið er nauðsynlegt að skilgreint verði í lögum hvað skuli felast í gjaldi fyrir urðun. Að mati umhverfisráðuneytisins fela ákvæði tilskipunarinnar jafnframt í sér hlutlæga ábyrgð rekstraraðila urðunarstaðar á mengunartjóni sem rakið verður til urðunarstaðarins. Í lögum um varnir gegn mengun sjávar, nr. 32/1986, eru ákvæði um hlutlæga ábyrgð vegna mengunartjóns. Önnur ákvæði um hlutlæga ábyrgð vegna mengunartjóns eru ekki í íslenskum lögum. Í Danmörku og Noregi hefur þegar verið skilgreint í lögum hvað skuli felast í urðunargjaldi og kveðið á um hlutlæga ábyrgð á mengunartjóni.
    Hafin er vinna við endurskoðun reglugerðar um úrgang, nr. 805/1999, með það fyrir augum að fella inn í reglugerðina þau atriði sem ekki þarfnast lagabreytinga.
    Samkvæmt tilskipuninni er gert ráð fyrir að efni hennar komi til framkvæmda á EES-svæðinu eigi síðar en 19. nóvember 2001.




Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 56/2001

frá 18. maí 2001

um breytingu á XX. viðauka (Umhverfismál) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, eins og hann var aðlagaður með bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir samningurinn, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      XX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 8/2001 frá 31. janúar 2001( 1 ).

     2)      Tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs( 2 ) skal felld inn í samninginn.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.

Eftirfarandi liður komi aftan við lið 32ca (ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 94/774/EB) í XX. viðauka við samninginn:

„32d.         399 L 0031: Tilskipun ráðsins 1999/31/EB frá 26. apríl 1999 um urðun úrgangs (Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1).“

2. gr.

Texti tilskipunar ráðsins 1999/31/EB á íslensku og norsku, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna, telst fullgiltur.

3. gr.

Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 19. maí 2001, að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi verið sendar sameiginlegu EES-nefndinni( * ).

4. gr.

Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild og EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópubandalaganna.

Gjört í Brussel 18. maí 2001.


     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    P. Westerlund


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    P. K. Mannes     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN RÁÐSINS 1999/31/EB

frá 26. apríl 1999

um urðun úrgangs


RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HEFUR,

með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 1. mgr. 130. gr. s,

með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),

með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),

í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 189. gr. c í sáttmálanum ( 3 ),

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

     1)      Í ályktun ráðsins frá 7. maí 1990 ( 4 ) um meðhöndlun úrgangs lýsir ráðið yfir velþóknun sinni og stuðningi við stefnuáætlun bandalagsins og hvetur framkvæmdastjórnina til þess að leggja fram tillögu um viðmiðanir og staðla um förgun úrgangs með urðun.

     2)      Í ályktun ráðsins frá 9. desember 1996 um meðhöndlun úrgangs segir að í framtíðinni skuli urðun úrgangs í öllu bandalaginu eingöngu fara fram við öruggar aðstæður og undir eftirliti.

     3)      Ýta ber undir aðgerðir til að draga úr úrgangi og stuðla að endurvinnslu hans og endurnýtingu, svo og notkun endurnýttra efna og endurnýttrar orku, í því skyni að standa vörð um náttúruauðlindir og koma í veg fyrir sóun á landrými.

     4)      Rétt er að rannsaka betur brennslu húsasorps og hættulítils sorps sem og myltingu, metanvinnslu og meðhöndlun efnis sem kemur upp við dýpkunarframkvæmdir (dýpkunarefnis).

     5)      Samkvæmt mengunarbótareglunni er meðal annars nauðsynlegt að taka tillit til hvers kyns umhverfisspjalla sem rekja má til urðunarstaðar.

     6)      Líkt og á við um sérhverja aðra meðhöndlun úrgangs ber að hafa eftirlit með urðun og stjórna henni í því skyni að koma í veg fyrir eða minnka hugsanleg skaðleg áhrif á umhverfið og koma í veg fyrir eða draga úr hættu sem steðjað gæti að heilbrigði manna.

     7)      Nauðsynlegt er að grípa til viðeigandi ráðstafana til þess að koma í veg fyrir að úrgangur sé skilinn eftir eða að honum sé kastað eða fargað eftirlitslaust. Af þessum sökum er nauðsynlegt að unnt sé að hafa eftirlit með urðunarstöðum að því er varðar þau efni sem urðaði úrgangurinn inniheldur. Menn skulu, að svo miklu leyti sem hægt er, geta séð efnahvörf þessara efna fyrir.

     8)      Draga ber bæði úr magni og hættulegum eiginleikum þess úrgangs sem urða skal þar sem við á. Auðvelda skal meðhöndlun úrgangs og stuðla að aukinni endurnýtingu hans. Því ber að hvetja til þess að úrgangurinn fái tiltekna meðhöndlun til þess að tryggja að urðunin samræmist markmiðunum sem sett eru fram í tilskipun þessari. Skilgreiningin á meðhöndlun nær einnig til flokkunar.

     9)      Aðildarríkin ættu að hafa tök á að beita nándarreglunni í tengslum við losun úrgangs og þeirri meginreglu að bandalagið sem heild og aðildarríkin geti sjálf losað sig við eigin úrgang, í samræmi við tilskipun ráðsins 75/442/EBE frá 15. júlí 1975 um úrgang ( 1 ). Framfylgja skal markmiðum þessarar tilskipunar með því að koma á fót fullnægjandi og samþættu neti förgunarstöðva sem grundvallaðar eru á víðtækri umhverfisvernd.

     10)      Ósamræmi milli tæknilegra staðla, sem varða förgun úrgangs með urðun, og lægri kostnaður henni tengdur, gæti orðið til þess að ýta undir förgun úrgangs í stöðvum þar sem ekki eru gerðar miklar kröfur um umhverfisvernd en það gæti skapað alvarlega umhverfisógn vegna flutnings úrgangs óþarflega langar leiðir og óheppilegra aðferða við förgun.

     11)      Sakir þessa er nauðsynlegt að mæla fyrir um tæknilega staðla, sem varða urðun úrgangs, á vettvangi bandalagsins í því skyni að vernda, varðveita og bæta gæði umhverfisins í bandalaginu.

     12)      Nauðsynlegt er að tilgreina nákvæmlega þær kröfur sem urðunarstaðir verða að uppfylla að því er varðar staðsetningu, tilhögun, stjórnun, eftirlit, lokun, fyrirbyggjandi aðgerðir og verndunaraðgerðir sem grípa þarf til gegn hvers kyns umhverfisógn sem steðjar að, hvort sem litið er til skamms eða langs tíma, og þó einkum gegn mengun grunnvatns sem verður vegna þess að sigvatn sígur út í jarðveginn.

     13)      Í ljósi þess sem kom fram hér að framan er nauðsynlegt að skilgreina nákvæmlega hvaða flokka urðunarstaða skal taka til skoðunar og hvers konar úrgangi megi taka við í hverjum flokki urðunarstaða.

     14)      Staðir, þar sem úrgangur er geymdur til bráðabirgða, skulu uppfylla viðeigandi kröfur í tilskipun 75/442/EBE.

     15)      Endurnýting, í samræmi við tilskipun 75/442/EBE, óvirks eða hættulítils úrgangs, sem hentar til að endurskapa eða endurbyggja land og nota til uppfyllingar eða í byggingar, telst ekki endilega urðunarstarfsemi.

     16)      Ráðstafanir skulu gerðar til þess að minnka myndun metangass á urðunarstöðum, meðal annars í því skyni að sporna gegn hnattrænni hlýnun, með því að draga úr urðun lífræns úrgangs og innleiða kröfur um að stjórn sé höfð á gasmyndun á urðunarstöðum.

     17)      Ráðstafanir, sem gripið er til í því skyni að draga úr urðun lífræns úrgangs, skulu jafnframt gerðar í því skyni að efla sérstaka söfnun lífræns úrgangs og efla flokkun almennt, endurnýtingu og endurvinnslu.

     18)      Sakir sérkenna þeirrar aðferðar við förgun úrgangs að urða hann er nauðsynlegt að innleiða sérstaka málsmeðferð við leyfisveitingu að því er varðar alla flokka urðunarstaða í samræmi við almennar kröfur um leyfisveitingu sem þegar hafa verið settar fram í tilskipun 75/442/EBE og almennu kröfurnar í tilskipun 96/61/EB um samþættar mengunarvarnir og eftirlit með mengun ( 1 ). Áður en urðunarstaður er tekinn í notkun skal lögbært yfirvald sannreyna, í tengslum við skoðun staðarins, að hann samræmist skilmálum leyfisins.

     19)      Í hverju tilviki skal ganga úr skugga um að unnt sé að koma úrganginum fyrir á þeim urðunarstað sem ætlað er að taka við honum, einkum ef um hættulegan úrgang er að ræða.

     20)      Svo að komast megi hjá því að umhverfinu sé ógnað er nauðsynlegt að taka upp samræmda aðferð við móttöku úrgangs á grundvelli aðferðar við flokkun úrgangs sem taka má á móti á urðunarstöðum í mismunandi flokkum, og við flokkunina skal einkum styðjast við sérstök, stöðluð viðmiðunargildi. Í þessu skyni verður að koma á fót samkvæmu og stöðluðu kerfi til að sanngreina úrganginn, taka sýni úr honum og greina þau og þetta þarf að gera nógu snemma til að auðvelda upptöku þessarar tilskipunar. Þær viðmiðanir, sem gilda um móttöku, skulu vera sérstaklega nákvæmar að því er varðar óvirkan úrgang.

     21)      Þar til slíkar greiningaraðferðir eða nauðsynleg viðmiðunargildi til sanngreiningar hafa verið fastsett geta aðildarríkin við beitingu þessarar tilskipunar haldið sig við innlendar skrár eða sett saman innlendar skrár yfir úrgang, sem er annars vegar tækur til urðunar og hins vegar ótækur, eða skilgreint viðmiðanir, þar á meðal viðmiðunargildi, sem eru áþekk þeim sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun um samræmda aðferð við móttöku.

     22)      Tækninefndinni ber að ákvarða þær viðmiðanir sem gilda um móttöku þegar um er að ræða tiltekinn hættulegan úrgang sem taka skal við á urðunarstöðum fyrir hættulítinn úrgang.

     23)      Nauðsynlegt er að koma á sameiginlegum aðferðum við vöktun meðan urðunarstaður er í notkun og í kjölfar lokunar hans til þess að kanna hvort vart verði einhverra skaðlegra áhrifa frá honum á umhverfið og grípa til viðeigandi ráðstafana til úrbóta.

     24)      Nauðsynlegt er að skilgreina hvenær og hvernig skuli loka urðunarstað svo og þær skyldur og ábyrgð sem rekstraraðili staðarins ber í kjölfar lokunarinnar.

     25)      Ákvæði þessarar tilskipunar um tilhögun við lokun gilda ekki fyrir þá urðunarstaði sem er lokað fyrir þann dag sem tilskipun þessi er lögleidd.

     26)      Binda ber í reglur þau skilyrði, sem gilda skulu um framtíðarrekstur núverandi urðunarstaða, í því skyni að innan tiltekins frests verði gerðar nauðsynlegar ráðstafanir sem varða aðlögun þeirra að tilskipun þessari á grundvelli sérstakrar áætlunar um breytingar fyrir hvern stað.

     27)      Rekstraraðilar núverandi urðunarstaða, sem hafa, í samræmi við bindandi, innlendar reglur sem jafngilda þeim sem um getur í 14. gr. þessarar tilskipunar, lagt fram þau skjöl, sem um getur í a-lið 14. gr. í þessari tilskipun, áður en hún tekur gildi og sem hafa fengið leyfi til áframhaldandi reksturs frá lögbæru yfirvaldi, þurfa ekki að leggja fram þessi skjöl að nýju og lögbært yfirvald þarf heldur ekki að gefa út nýtt leyfi.

     28)      Rekstraraðili skal gera ráðstafanir í formi fullnægjandi trygginga eða á annan jafngildan hátt til að tryggja að staðið verði við allar skuldbindingar, meðal annars þær sem lúta að framkvæmdum við lokun urðunarstaðarins og eftirlit í kjölfar lokunar hans.

     29)      Gera skal ráðstafanir til þess að tryggja að gjald, sem tekið er fyrir förgun úrgangs á urðunarstað, nægi fyrir öllum kostnaði sem tengist uppsetningu og starfrækslu stöðvarinnar, svo og, að svo miklu leyti sem hægt er, kostnaði sem fylgir því að setja fullnægjandi tryggingar eða jafngildi þeirra og sem rekstraraðila staðarins ber að gera, og áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegt eftirlit í kjölfar lokunarinnar.

     30)      Ef lögbært yfirvald telur að ólíklegt sé að umhverfinu stafi hætta af urðunarstað lengur en í tiltekinn tíma er heimilt að takmarka þann áætlaða kostnað, sem reikna ber með við gjaldtöku rekstraraðila, við það tiltekna tímabil.

     31)      Nauðsynlegt er að tryggja að ákvæðum um framkvæmd þessarar tilskipunar sé beitt á viðeigandi hátt í gjörvöllu bandalaginu og að rekstraraðilar og starfslið urðunarstaðanna hafi aflað sér þeirrar þekkingar og hlotið þá þjálfun sem tryggir nauðsynlega hæfni þeirra.

     32)      Framkvæmdastjórninni ber að fastsetja staðlaða aðferð við móttöku úrgangs og koma á staðlaðri flokkun úrgangs, sem taka má við á urðunarstað, í samræmi við nefndarmeðferðina sem mælt er fyrir um í 18. gr. tilskipunar 75/442/EBE.

     33)      Aðlögun viðaukanna við þessa tilskipun að framförum á sviði vísinda og tækni og stöðlun aðferða við vöktun, sýnatöku og greiningu skal fara fram samkvæmt sömu nefndarmeðferð.

     34)      Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni reglulegar skýrslur um framkvæmd þessarar tilskipunar og gefa sérstakan gaum innlendu áætlununum sem leggja skal fram samkvæmt 5. gr. Framkvæmdastjórninni ber að leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið á grundvelli þessara skýrslna.

SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

1. gr.

Heildarmarkmið

1.     Tilgangurinn með þessari tilskipun er, til að uppfylla kröfurnar sem settar eru fram í tilskipun 75/442/EBE, einkum 3. og 4. gr., og með því að setja strangar rekstrar- og tæknikröfur um úrgang og urðunarstaði, að kveða á um ráðstafanir, aðferðir og leiðbeiningar í því skyni að koma í veg fyrir eða draga, sem mest má verða, úr neikvæðum áhrifum á umhverfið, einkum mengun yfirborðs- og grunnvatns, jarðvegs og andrúmslofts, og á umhverfið í heild sinni, þar á meðal gróðurhúsaáhrifin, sem og að draga úr hvers kyns hættu, sem kynni að steðja að heilbrigði manna vegna urðunar úrgangs, allan þann tíma sem urðunarstaðurinn hefur áhrif á umhverfið.

2.     Í þessari tilskipun er að finna, fyrir þá urðunarstaði sem tilskipun 96/61/EB gildir um og að því er varðar tæknilega eiginleika urðunarstaða, viðeigandi tæknikröfur til þess að útfæra nánar viðeigandi skilmála fyrir almennar kröfur í þeirri tilskipun. Viðeigandi kröfur í tilskipun 96/61/EB teljast uppfylltar hafi kröfur, sem eru settar fram í þessari tilskipun, verið uppfylltar.

2. gr.

Skilgreiningar

Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:

a)      úrgangur“: hvers kyns efni eða hlutur sem tilskipun 75/442/EBE nær yfir.

b)      húsasorp“: úrgangur frá heimilishaldi, svo og annar úrgangur sem, vegna eðlis síns eða samsetningar, líkist úrgangi frá heimilishaldi.

c)      hættulegur úrgangur“: allur úrgangur sem fellur undir 4. mgr. 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/689/EBE frá 12. desember 1991 um hættulegan úrgang ( 1 ).

d)      hættulítill úrgangur“: úrgangur sem fellur ekki undir c-lið.

e)      óvirkur úrgangur“: úrgangur sem tekur ekki neinum umtalsverðum eðlis-, efna- eða líffræðilegum breytingum. Óvirkur úrgangur leysist ekki upp, brennur ekki eða hvarfast á annan eðlis- eða efnafræðilegan hátt, brotnar ekki niður í náttúrunni eða hefur skaðleg áhrif á annað efni sem hann kemst í snertingu við þannig að líklegt sé að það hafi í för með sér mengun umhverfis eða geti skaðað heilbrigði manna. Heildarútskolunin og heildarinnihald mengandi efna í úrganginum og visteiturhrif af völdum sigvatnsins skulu vera óveruleg og umfram allt skal ekki vera hætta á að gæði yfirborðs- eða grunnvatns spillist.

f)      neðanjarðargeymsla“: varanleg geymsluaðstaða fyrir úrgang í holrúmi djúpt í jarðlögum, til dæmis í salt- eða kalíumnámu;

g)      urðunarstaður“: staður þar sem tekið er við úrgangi til förgunar á eða í (þ.e. neðanjarðar) landi, þar á meðal:

    –        förgunarstaður eigin úrgangs (þ.e. urðunarstaður þar sem framleiðandi úrgangs fargar eigin úrgangi á framleiðslustað), og

    –        varanlegur staður (þ.e. sem er notaður lengur en eitt ár) þar sem úrgangur er geymdur tímabundið,

en ekki:

    –        aðstaða þar sem úrgangur er losaður og undirbúinn áður en hann er fluttur áfram til endurnýtingar, meðhöndlunar eða förgunar annars staðar, og

    –        geymsla úrgangs áður en hann er endurnýttur eða meðhöndlaður, að jafnaði skemur en þrjú ár, eða

    –        geymsla úrgangs áður en honum er fargað, að jafnaði skemur en eitt ár;

h)      meðhöndlun“: eðlisræn, varmatengd, efnafræðileg eða líffræðileg ferli, meðal annars flokkun, sem breyta eiginleikum úrgangsins þannig að umfang hans minnkar, af honum stafar síður hætta, hann verður auðveldari í meðförum eða möguleikar á endurnýtingu hans aukast;

i)      sigvatn“: allur vökvi sem seytlar gegnum fargaða úrganginn og rennur frá urðunarstaðnum eða helst innan hans;

j)      hauggas“: allar lofttegundir sem myndast í urðaða úrganginum;

k)      síuvökvi“: sú lausn sem fæst við útskolunarprófun á rannsóknarstofu;

l)      rekstraraðili“: einstaklingur eða lögpersóna sem ber ábyrgð á urðunarstað í samræmi við innlend lög þess aðildarríkis þar sem urðunarstaðurinn er. Þessi aðili þarf ekki að vera hinn sami allt frá undirbúningi til eftirlitsskeiðs í kjölfar lokunar.

m)      lífbrjótanlegur úrgangur“: allur úrgangur sem getur brotnað niður á loftfirrtan eða loftháðan hátt, svo sem matar- og garðaúrgangur og pappír og pappi;

n)      úrgangshafi“: framleiðandi úrgangs eða einstaklingurinn eða lögpersónan sem hefur hann í vörslu sinni;

o)      umsækjandi“: sá sem sækir um leyfi fyrir urðunarstað samkvæmt tilskipun þessari;

p)      lögbært yfirvald“: yfirvald sem aðildarríkin tilnefna og bera skal ábyrgð á að staðið sé við þær skuldbindingar sem af þessari tilskipun leiðir;

q)      fljótandi úrgangur“: allur úrgangur í vökvaformi, þar á meðal skolp en ekki leðja;

r)      afskekkt byggð“: landsvæði þar sem:

    –        búa ekki fleiri en 500 íbúar í hverju sveitarfélagi eða byggð og íbúar á ferkílómetra eru ekki fleiri en fimm og,

    –        fjarlægð til næsta þéttbýliskjarna, þar sem búa minnst 250 íbúar á hvern ferkílómetra, er ekki undir 50 km eða þar sem vegasamgöngur til næsta þéttbýlisstaðar eru torveldar talsverðan hluta ársins sakir erfiðra veðurskilyrða.

3. gr.

Gildissvið

1.     Aðildarríkin skulu láta þessa tilskipun gilda um sérhvern urðunarstað sem fellur undir skilgreininguna í g-lið 2. gr.

2.     Með fyrirvara um núgildandi löggjöf bandalagsins skal eftirfarandi undanþegið gildissviði tilskipunar þessarar:

    –        dreifing leðju, meðal annars seyru, dýpkunarefnis og svipaðs efnis á land í því skyni að auðga jarðveginn eða bæta hann á annan hátt,

    –        notkun óvirks úrgangs, sem hentar til að endurskapa eða endurbyggja land og nota til uppfyllingar eða í uppbyggingu, á urðunarstöðum,

    –        það að koma hættulitlu efni, sem kemur upp við dýpkun lítilla vatnsfalla, fyrir á bökkunum meðfram þeim og það að koma hættulítilli leðju fyrir í yfirborðsvatni, þar á meðal á botni og í jarðvegsgrunni,

    –        það að koma fyrir ómenguðum jarðvegi eða hættulitlum, óvirkum úrgangi sem fellur til við leit, nám, meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna, svo og við starfrækslu grjótnáma.

3.     Með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 75/442/EBE geta aðildarríkin, að eigin vali, lýst yfir því að veita megi undanþágu frá ákvæðunum í 2. lið og liðum 3.1, 3.2 og 3.3 í I. viðauka við þessa tilskipun þegar hættulitlum úrgangi, sem verður skilgreindur af nefndinni sem komið er á fót samkvæmt 17. gr. þessarar tilskipunar, og er ekki óvirkur úrgangur en fellur til við leit, nám, meðhöndlun og geymslu verðmætra jarðefna svo og við starfrækslu grjótnáma, er komið fyrir þannig að ekki hljótist af mengun umhverfis eða heilbrigði manna bíði skaða af.

4.     Með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 75/442/EBE geta aðildarríkin, að eigin vali, lýst yfir því að 6. gr. (d-liður), 7. gr. (i-liður), 8. gr. (iv-liður a-liðar), 10. gr., 11. gr. (a-, b- og c-liður 1. mgr.), 12. gr. (a- og c-liður), I. viðauki (3. og 4. liður), II. viðauki (nema 3. þrep 3. liðar og 4. liður) og III. viðauki við þessa tilskipun (3. til 5. liður) gildi, að hluta eða í heild, ekki um:

a)      urðunarstaði fyrir hættulítinn eða óvirkan úrgang sem geta að hámarki tekið við 15 000 tonnum eða sem taka að hámarki við 1000 tonnum og þjóna eyjum svo fremi að viðkomandi urðunarstaður sé sá eini á eyjunni og ætlast sé til að hann taki til förgunar þann úrgang sem fellur til á viðkomandi eyju. Þegar urðunarstaðurinn hefur verið fullnýttur skal sérhver nýr urðunarstaður, sem komið er á fót á eyjunni, uppfylla þær kröfur sem settar eru fram í þessari tilskipun;

b)      urðunarstaði fyrir hættulítinn eða óvirkan úrgang í afskekktum byggðum ef viðkomandi urðunarstaður tekur eingöngu til förgunar úrgang sem fellur til í þessari afskekktu byggð.

Aðildarríkin skulu, eigi síðar en tveimur árum frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., birta skrá yfir eyjar og afskekktar byggðir sem hafa fengið undanþágu. Framkvæmdastjórnin skal gefa út skrána yfir eyjarnar og afskekktu byggðirnar.

5.     Með fyrirvara um ákvæði tilskipunar 75/442/EBE geta aðildarríkin, að eigin vali, lýst yfir því að neðanjarðargeymslur, eins og þær eru skilgreindar í f-lið 2. gr. í þessari tilskipun, geti verið undanþegnar ákvæðunum í d-lið 13. gr. og í 2. lið, að undanskildum fyrsta undirlið, og 3. til 5. lið I. viðauka og í 2., 3. og 5. lið III. viðauka við þessa tilskipun.

4. gr.

Flokkar urðunarstaða

Urðunarstaðir skulu falla undir einhvern eftirfarandi flokka:

    –        urðunarstaðir fyrir hættulegan úrgang,

    –        urðunarstaðir fyrir hættulítinn úrgang,

    –        urðunarstaðir fyrir óvirkan úrgang.

5. gr.

Ótækur úrgangur og óviðunandi meðhöndlun úrgangs á urðunarstöðum

1.     Aðildarríkin skulu hvert um sig og eigi síðar en tveimur árum eftir þann dag, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., setja fram áætlun sem miðar að því að minnka magn þess lífræna úrgangs sem berst til urðunarstaða og tilkynna framkvæmdastjórninni um þá áætlun. Í þessari áætlun skulu vera ráðstafanir til að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í 2. mgr., einkum með endurvinnslu, moltugerð, framleiðslu gass eða endurnýtingu efna/orku.

Framkvæmdastjórnin skal, innan 30 mánaða frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu sem er samantekt á áætlunum aðildarríkjanna.

2.     Með þessari áætlun ber að tryggja eftirfarandi:

a)      eigi síðar en fimm árum eftir þann dag, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., skal lífrænt húsasorp, sem berst til urðunarstaða, hafa minnkað niður í 75% af heildarmagni (miðað við þyngd) þess lífræna húsasorps sem féll til árið 1995 eða á því síðasta ári fyrir 1995 sem stöðluð gögn frá Hagstofu Evrópubandalaganna liggja fyrir um;

b)      eigi síðar en átta árum eftir þann dag, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., skal lífrænt húsasorp, sem berst til urðunarstaða, hafa minnkað niður í 50% af heildarmagni (miðað við þyngd) þess lífræna húsasorps sem féll til árið 1995 eða á því síðasta ári fyrir 1995 sem stöðluð gögn frá Hagstofu Evrópubandalaganna liggja fyrir um;

c)      eigi síðar en 15 árum eftir þann dag, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., skal lífrænt húsasorp, sem berst til urðunarstaða, hafa minnkað niður í 35% af heildarmagni (miðað við þyngd) þess lífræna húsasorps sem féll til árið 1995 eða á því síðasta ári fyrir 1995 sem stöðluð gögn frá Hagstofu Evrópubandalaganna liggja fyrir um.

Tveimur árum fyrir þann dag, sem um getur í c-lið, skal ráðið endurmeta framangreint markmið á grundvelli skýrslu framkvæmdastjórnarinnar um þá hagnýtu reynslu sem aðildarríkin hafa aflað sér í viðleitni sinni til að ná þeim markmiðum sem mælt var fyrir um í a- og b-lið, ásamt tillögu, ef við á, um staðfestingu eða breytingu á þessu markmiði til þess að tryggja víðtæka vernd umhverfisins.

Þeim aðildarríkjum sem, árið 1995 eða á því síðasta ári fyrir 1995 sem stöðluð gögn frá Hagstofu Evrópubandalaganna liggja fyrir um, fluttu yfir 80% af því húsasorpi, sem safnað var, til urðunar, er heimilt að fresta því að ná þeim markmiðum sem sett eru fram í a-, b- eða c-lið, þó eigi lengur en um fjögur ár. Aðildarríki, sem hyggjast beita þessu ákvæði, skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um ákvörðun sína fyrir fram. Framkvæmdastjórninni ber að tilkynna öðrum aðildarríkjum og Evrópuþinginu um þessar ákvarðanir.

Beiting þeirra ákvæða, sem eru sett fram í undirgreininni hér að framan, má ekki undir neinum kringumstæðum verða til þess að markmiðið, sem er sett fram í c-lið, náist síðar en fjórum árum eftir þann dag sem mælt er fyrir um í c-lið.

3.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að ekki verði tekið á móti eftirfarandi úrgangi á urðunarstað:

a)      fljótandi úrgangi;

b)      úrgangi sem er, við þau skilyrði sem ríkja á urðunarstað og samkvæmt skilgreiningu í III. viðauka við tilskipun 91/689/EBE, sprengifimur, ætandi, eldnærandi, mjög eldfimur eða eldfimur;

c)      úrgangi frá sjúkrahúsum og öðrum klínískum úrgangi, sem fellur til á stofnunum lækna eða dýralækna og er smitandi samkvæmt skilgreiningu (eiginleiki H9 í III. viðauka) í tilskipun 91/689/EBE, og úrgangi sem fellur undir 14. flokk (I. viðauka A) í þeirri tilskipun;

d)      notuðum, heilum hjólbörðum að liðnum tveimur árum frá þeim degi, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., þó ekki hjólbörðum sem eru notaðir sem byggingarefni, og kurluðum, notuðum hjólbörðum að liðnum fimm árum frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr. (í báðum tilvikum að undanskildum hjólbörðum fyrir reiðhjól og hjólbörðum sem eru meira en 1400 mm að ytra þvermáli);

e)      neinum öðrum úrgangi sem fullnægir ekki þeim viðmiðunum um móttöku sem ákvarðaðar eru í samræmi við II. viðauka.

4.     Bannað er að þynna eða blanda úrgang í þeim eina tilgangi að hann fullnægi viðmiðunum um móttöku úrgangs.

6. gr.

Úrgangur sem taka má á móti á urðunarstöðum í mismunandi flokkum

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að:

a)      ekki sé urðaður annar en meðhöndlaður úrgangur. Þetta ákvæði þarf ekki að gilda um óvirkan úrgang, sem er ekki tæknilega gerlegt að meðhöndla, né um nokkurn annan úrgang ef slík meðhöndlun þjónar ekki markmiðunum með þessari tilskipun, eins og þau eru sett fram í 1. gr., um að minnka magn úrgangsins eða þá hættu sem steðjar að heilbrigði manna eða að umhverfinu;

b)      á urðunarstað fyrir hættulegan úrgang sé eingöngu urðaður hættulegur úrgangur sem fullnægir þeim viðmiðunum sem eru settar í samræmi við II. viðauka;

c)      á urðunarstöðum fyrir hættulítinn úrgang megi koma fyrir:

       i)          húsasorpi;

       ii)      hættulitlum úrgangi af öðru tagi sem fullnægir þeim viðmiðunum sem settar eru um móttöku úrgangs á urðunarstað fyrir hættulítinn úrgang í samræmi við II. viðauka;

       iii)      stöðugum, óvirkum, hættulegum úrgangi (sem hefur t.d. harðnað í fast efni eða umbreyst í gler) þar sem útskolunin er með svipuðum hætti og gerist í þeim hættulitla úrgangi sem um getur í ii-lið og sem fullnægir viðeigandi viðmiðunum um móttöku sem settar eru í samræmi við II. viðauka. Ekki skal koma þessum hættulega úrgangi fyrir í hólfum sem eru ætluð undir lífbrjótanlegan, hættulítinn úrgang;

d)      á urðunarstöðum fyrir óvirkan úrgang má eingöngu koma fyrir óvirkum úrgangi.

7. gr.

Umsókn um leyfi

Aðildarríkin skulu sjá til þess að í umsókn um leyfi fyrir urðunarstað komi að minnsta kosti fram eftirfarandi upplýsingar:

a)      deili á umsækjanda og á rekstraraðila ef þeir eru ekki einn og sami aðilinn;

b)      lýsing á tegund þess úrgangs, sem koma á fyrir, og heildarmagni hans;

c)      fyrirhuguð móttökugeta förgunarstaðarins;

d)      lýsing staðarins, þar á meðal lýsing á vatnajarðfræði- og jarðfræðilegum einkennum hans;

e)      fyrirhugaðar aðferðir í því skyni að fyrirbyggja og minnka mengun;

f)      fyrirhuguð áætlun um rekstur, vöktun og stjórnun;

g)      fyrirhuguð áætlun um lokun og aðgerðir í kjölfar lokunarinnar;

h)      ef mats á umhverfisáhrifum er krafist samkvæmt tilskipun ráðsins 85/337/EBE frá 27. júní 1985 um mat á áhrifum sem tilteknar framkvæmdir á vegum hins opinbera eða einkaaðila kunna að hafa á umhverfið ( 1 ), skulu koma fram þær upplýsingar sem framkvæmdaraðilinn veitir samkvæmt 5. gr. þeirrar tilskipunar;

i)      fullnægjandi trygging umsækjanda eða sérhver önnur jafngild ráðstöfun sem krafist er samkvæmt iv-lið a-liðar 8. gr. í þessari tilskipun.

Þegar umsókn um leyfi hefur verið samþykkt skulu þessar upplýsingar vera aðgengilegar lögbærum yfirvöldum á sviði hagskýrslna í aðildarríkinu eða bandalaginu ef nota þarf upplýsingarnar í tölfræðilegri vinnslu.

8. gr.

Skilyrði fyrir leyfi

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að:

a)      lögbært yfirvald veiti ekki leyfi fyrir urðunarstað nema það sé þess fullvisst að:

       i)          urðunin sé, með fyrirvara um 4. og 5. mgr. 3. gr., í samræmi við allar viðeigandi kröfur í þessari tilskipun, einnig þær sem eru settar fram í viðaukunum;
       ii)      urðunarstaðurinn lúti stjórn einstaklings sem er tæknilega fær um að annast stjórn hans og að rekstraraðilar og starfslið urðunarstaðarins hljóti faglega og tæknilega menntun og þjálfun;

       iii)      urðunarstaðurinn sé rekinn þannig að nauðsynlegar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir slys og draga úr afleiðingum slysa;

       iv)      umsækjandinn hafi, á grundvelli aðferða sem aðildarríkin skulu taka ákvörðun um áður en rekstur hefst, gert eða muni gera ráðstafanir í formi fullnægjandi trygginga eða á annan jafngildan hátt sem tryggja að staðið verði við þær skyldur (þeirra á meðal skyldur sem varða eftirlit í kjölfar lokunar), sem fylgja leyfinu sem veitt var í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, og að fylgt verði þeirri tilhögun við lokun sem krafist er samkvæmt 13. gr. Þessari tryggingu eða jafngildi hennar skal haldið svo lengi sem það er nauðsynlegt samkvæmt ákvæðum d-liðar 13. gr. um viðhald staðarins og eftirlit í kjölfar lokunar hans. Aðildarríkin geta lýst yfir því að eigin vali að þessi liður gildi ekki um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang;

b)      urðunin samræmist viðeigandi áætlun eða áætlunum um meðferð úrgangs sem um getur í 7. gr. tilskipunar 75/442/EBE;

c)      lögbært yfirvald skuli, áður en förgun hefst, skoða staðinn til þess að ganga úr skugga um að hann samræmist viðeigandi skilyrðum leyfisins. Þetta skerðir á engan hátt þá ábyrgð sem rekstraraðili ber samkvæmt skilyrðum leyfisins.

9. gr.

Inntak leyfisins

Til að kveða nánar á um og auka við ákvæðin sem sett eru fram í 9. gr. tilskipunar 75/442/EBE og 9. gr. tilskipunar 96/61/EB skulu að minnsta kosti eftirfarandi upplýsingar koma fram í leyfi fyrir urðunarstað:

a)      flokkur urðunarstaðarins;

b)      skrá yfir skilgreindar tegundir úrgangs, sem heimilt er að koma fyrir á urðunarstaðnum, og heildarmagni hans;

c)      kröfur sem varða undirbúning urðunarstaðarins og urðunarframkvæmdir og aðferðir við vöktun og stjórnun, þar á meðal neyðaráætlanir (B-liður 4. liðar í III. viðauka), sem og bráðabirgðakröfur sem varða aðgerðir við lokun og eftirlit í kjölfar hennar;

d)      sú skylda umsækjanda að leggja fyrir hið lögbæra yfirvald skýrslu hið minnsta einu sinni á ári hverju um tegundir úrgangs, sem fargað er, og heildarmagn hans og um árangurinn af vöktunaráætluninni sem krafist er samkvæmt 12. og 13. gr. III. viðauka.

10. gr.

Kostnaður við urðun úrgangs

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að tryggja að gjald, sem rekstraraðili tekur fyrir förgun hvers kyns úrgangs á urðunarstaðnum, nægi fyrir öllum kostnaði, sem tengist uppsetningu og starfrækslu urðunarstaðarins, og einnig, að svo miklu leyti sem hægt er, kostnaði sem fylgir því að setja fjárhagslega tryggingu eða jafngildi hennar, sem um getur í iv-lið a-liðar 8. gr., og áætluðum kostnaði við lokun staðarins og nauðsynlegt eftirlit í kjölfar lokunar hans í að minnsta kosti 30 ár. Með fyrirvara um kröfurnar, sem settar eru fram í tilskipun ráðsins 90/313/EBE frá 7. júní 1990 um frjálsan aðgang að upplýsingum um umhverfismál ( 1 ), skulu aðildarríkin tryggja gagnsæi í öflun og notkun hvers kyns nauðsynlegra upplýsinga um kostnað.

11. gr.

Aðferðir við móttöku úrgangs

1.     Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að, áður en tekið verður móti úrgangi á urðunarstað:

a)      geti úrgangshafi eða rekstraraðili sýnt fram á með viðeigandi gögnum og fyrir eða við afhendingu, eða við afhendingu í fyrsta sinn ef um áframhald verður að ræða, og svo fremi að tegund úrgangs sé hin sama, að umræddur úrgangur sé tækur til urðunar á staðnum samkvæmt þeim skilyrðum sem sett eru í leyfinu og að hann uppfylli þær viðmiðanir um móttöku sem settar eru fram í II. viðauka;

b)      beiti rekstraraðili eftirfarandi aðferðum við móttöku:

    –        könnuð verði þau skjöl sem fylgja úrganginum, meðal annars þau skjöl sem krafist er samkvæmt 3. mgr. 5. gr. í tilskipun 91/689/EBE, og, þar sem við á, þau sem krafist er samkvæmt reglugerð ráðsins (EBE) nr. 259/93 frá 1. febrúar 1993 um umsjón og eftirlit með flutningi úrgangs innan, til og út úr Evrópubandalaginu ( 2 );

    –        fram fari sjónræn skoðun úrgangsins við innkeyrsluhliðið og þar sem úrganginum er komið fyrir og, eftir því sem við á, sannprófun á að hann sé í samræmi við þá lýsingu sem finna má í þeim skjölum sem úrgangshafi leggur fram. Ef skylt er að taka dæmigerð sýni samkvæmt 3. þrepi 3. liðar í II. viðauka skal geyma niðurstöður greininganna og sýnatakan skal fara fram í samræmi við 5. lið í II. viðauka. Geyma skal þessi sýni í einn mánuð hið minnsta;

    –        haldin verði skrá yfir magn og einkenni þess úrgangs sem komið er fyrir þar sem sagt er til um upprunann, dagsetningu afhendingar, deili á framleiðanda eða þeim er safnar, ef um húsasorp er að ræða, og nákvæma staðsetningu á urðunarstaðnum ef um hættulegan úrgang er að ræða. Þessar upplýsingar skulu vera aðgengilegar lögbærum yfirvöldum á sviði hagskýrslna í aðildarríkinu eða bandalaginu ef nota þarf upplýsingarnar í tölfræðilegri vinnslu;

c)      rekstraraðili urðunarstaðarins skuli leggja fram skriflega móttökukvittun í hvert sinn sem tekið er móti sendingu úrgangs á staðnum;

d)      rekstraraðili skuli, ef ekki er unnt að taka móti úrgangi til urðunar, með fyrirvara um ákvæði reglugerðar (EBE) nr. 259/93, tilkynna lögbæru yfirvaldi án tafar um að ekki hafi verið unnt að taka móti úrganginum.

2.     Að því er varðar urðunarstaði sem hafa verið undanþegnir ákvæðum þessarar tilskipunar með skírskotun til 4. og 5. mgr. 3. gr. skulu aðildarríkin gera nauðsynlegar ráðstafanir til þess að tryggja:

    –        að fram fari regluleg sjónræn skoðun úrgangsins þar sem honum er komið fyrir til þess að ganga úr skugga um að eingöngu sé tekið við hættulitlum úrgangi frá eyjunni eða afskekktu byggðinni á staðnum, og

    –        að haldin sé skrá yfir magn úrgangsins sem er komið fyrir á staðnum.

Aðildarríkin skulu sjá til þess að upplýsingar um magn og, ef því verður við komið, tegund úrgangsins, sem berst slíkum undanþegnum stöðum, komi fram í reglulegu skýrslunum sem sendar eru framkvæmdastjórninni um beitingu þessarar tilskipunar.

12. gr.

Aðferðir við eftirlit og vöktun á rekstrarskeiði

Aðildarríkin skulu sjá til þess að aðferðir við eftirlit og vöktun á rekstrarskeiði fullnægi að minnsta kosti eftirfarandi kröfum:

a)      á rekstrarskeiði urðunarstaðar skal rekstraraðili fylgja áætlun um eftirlit og vöktun eins og tilgreint er í III. viðauka;

b)      rekstraraðili skal tilkynna lögbæru yfirvaldi um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið, sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og vöktun, og hlíta ákvörðun lögbærs yfirvalds um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til. Þær aðgerðir skulu vera á kostnað rekstraraðilans.

    Rekstraraðili skal, svo oft sem lögbært yfirvald ákveður og eigi sjaldnar en einu sinni á ári, gefa lögbærum yfirvöldum skýrslu á grundvelli fyrirliggjandi gagna, um allar niðurstöður af vöktuninni, svo að unnt sé að sýna fram á samræmi við skilyrði í leyfinu og auka þekkingu á hegðun úrgangsins á urðunarstað;

c)      gæðaeftirlit með þeim greiningum, sem gerðar eru vegna eftirlits og vöktunar og/eða greiningum sem um getur í b-lið 1. mgr. 11. gr., skal vera í höndum viðurkenndra rannsóknastofa.

13. gr.

Aðferðir við lokun og eftirlit í kjölfar lokunar

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til þess að eftirfarandi sé, eftir því sem við á, í samræmi við leyfið:

a)      lokunarferli skal hefja á urðunarstað eða hluta hans,

       i)          að uppfylltum viðeigandi skilyrðum sem sett eru fram í leyfinu, eða

       ii)      að fengnu leyfi lögbærs yfirvalds og að beiðni rekstraraðila, eða

       iii)      með rökstuddri ákvörðun lögbærs yfirvalds;

b)      lokun urðunarstaðar, eða hluta hans, telst ekki endanleg fyrr en lögbært yfirvald hefur látið fara fram lokaskoðun á vettvangi, metið allar skýrslur sem rekstraraðili hefur lagt fram og tilkynnt honum samþykki sitt fyrir lokuninni. Þetta skerðir á engan hátt þá ábyrgð sem rekstraraðili ber samkvæmt skilyrðum í leyfinu;

c)      þegar urðunarstað hefur verið lokað endanlega ber rekstraraðili ábyrgð á viðhaldi hans, vöktun og eftirliti í kjölfar lokunar hans svo lengi sem þess er krafist af hálfu lögbærs yfirvalds og með tilliti til þess hve lengi hætta getur stafað af urðunarstaðnum.

    Rekstraraðili skal tilkynna lögbæru yfirvaldi um sérhver skaðleg áhrif á umhverfið sem teljast veruleg og koma í ljós við eftirlit og hlíta ákvörðun lögbærs yfirvalds um eðli og tímasetningu þeirra aðgerða til úrbóta sem grípa ber til;

d)      með fyrirvara um bandalagslöggjöf eða innlenda löggjöf, að því er varðar bótaábyrgð úrgangshafa, ber rekstraraðili ábyrgð á vöktun og greiningum að því er varðar hauggas og sigvatn, sem berst frá staðnum, og grunnvatn í nágrenni staðarins, í samræmi við ákvæði III. viðauka, svo lengi sem lögbært yfirvald telur líklegt að umhverfinu stafi hætta af urðunarstaðnum.

14. gr.

Núverandi urðunarstaðir

Aðildarríkin skulu gera ráðstafanir til að tryggja að urðunarstaðir, sem hafa fengið leyfi eða eru þegar starfræktir við lögleiðingu þessarar tilskipunar, geti því aðeins haldið áfram starfrækslu að eftirfarandi áföngum sé lokið svo fljótt sem unnt er og eigi síðar en átta árum eftir daginn sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr.

a)      innan eins árs frá þeim degi, sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., ber rekstraraðila að semja og leggja fyrir lögbær yfirvöld til samþykktar áætlun um breytingar á staðnum, þar á meðal upplýsingar sem taka til þeirra atriða sem talin eru upp í 8. gr., og sérhverjar aðgerðir til úrbóta sem rekstraraðili telur nauðsynlegar til þess að uppfylla þær kröfur, sem settar eru fram í tilskipun þessari, að undanskildum kröfunum í 1. lið I. viðauka;

b)      að lokinni kynningu á breytingaáætluninni skulu lögbær yfirvöld taka endanlega ákvörðun um það hvort heimilt sé að halda rekstri áfram á grundvelli fyrrgreindrar breytingaáætlunar og þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að loka, svo fljótt sem við verður komið, í samræmi við g-lið 7. gr. og 13. gr., þeim stöðum sem hafa, í samræmi við 8. gr., ekki fengið leyfi til þess að halda rekstri áfram;

c)      á grundvelli samþykktu breytingaáætlunarinnar fyrir viðkomandi stað skal lögbært yfirvald heimila þá vinnu sem nauðsynleg er og mæla fyrir um aðlögunartíma til að ljúka framkvæmd áætlunarinnar. Allir núverandi urðunarstaðir skulu, innan átta ára frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., uppfylla kröfurnar í tilskipun þessari, að undanskildum kröfunum í 1. lið I. viðauka;

d)      i)        ákvæði 4., 5. og 11. gr. og II. viðauki skulu, innan eins árs frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., gilda um urðunarstaði fyrir hættulegan úrgang;

    ii)    ákvæði 6. gr. skulu, innan þriggja ára frá þeim degi sem mælt er fyrir um í 1. mgr. 18. gr., gilda um urðunarstaði fyrir hættulegan úrgang.

15. gr.

Tilkynningarskylda

Aðildarríkin skulu á þriggja ára fresti senda framkvæmdastjórninni skýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar og gefa sérstakan gaum innlendu áætlununum sem lagðar eru fram samkvæmt 5. gr. Skýrsluna ber að byggja á spurningalista eða fyrirmynd sem framkvæmdastjórnin tekur saman drög að í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 6. gr. tilskipunar 91/692/EBE ( 1 ). Senda ber aðildarríkjunum spurningalistann eða fyrirmyndina sex mánuðum áður en það tímabil hefst sem skýrslan tekur til. Senda ber framkvæmdastjórninni skýrsluna eigi síðar en níu mánuðum frá lokum þess þriggja ára tímabils sem hún tekur til.

Framkvæmdastjórnin skal gefa út bandalagsskýrslu um framkvæmd þessarar tilskipunar eigi síðar en níu mánuðum eftir að skýrslur aðildarríkjanna hafa borist henni.

16. gr.

Nefnd

Allar breytingar, sem eru nauðsynlegar til að laga viðaukana við þessa tilskipun að framförum á sviði vísinda og tækni, og allar tillögur, sem varða stöðlun á aðferðum við eftirlit, sýnatöku og greiningu í tengslum við urðun úrgangs, skulu samþykktar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar með fulltingi nefndarinnar, sem komið var á fót samkvæmt 18. gr. tilskipunar 75/442/EBE, og í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 17. gr. þessarar tilskipunar. Breytingar á viðaukunum skulu einungis gerðar í samræmi við meginreglurnar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun eins og þær eru settar fram í viðaukunum. Að því er varðar II. viðauka skal nefndin skoða eftirfarandi í þessu skyni: að teknu tilliti til almennra meginreglna og almennra aðferða við prófun og viðmiðana við móttöku, sem fram koma í II. viðauka, skal ákvarða sértækar viðmiðanir og/eða prófunaraðferðir og tilheyrandi viðmiðunargildi fyrir hvern flokk urðunarstaða, einnig sértækar tegundir urðunarstaða innan hvers flokks ef nauðsyn krefur, þar á meðal vegna geymslu neðanjarðar. Tillögur, sem varða stöðlun aðferða við eftirlit, sýnatöku og greiningu í tengslum við viðaukana við þessa tilskipun, skulu samþykktar af hálfu framkvæmdastjórnarinnar, með fulltingi nefndarinnar, innan tveggja ára frá því að tilskipun þessi öðlast gildi.

Framkvæmdastjórnin samþykkir, með fulltingi nefndarinnar, ákvæðin um samhæfingu og reglulega sendingu þeirra tölfræðilegu gagna, sem um getur í 5., 7. og 11. gr. þessarar tilskipunar, innan tveggja ára frá því að tilskipun þessi öðlast gildi og, ef nauðsyn krefur, um breytingar á slíkum ákvæðum.

17. gr.

Nefndarmeðferð

Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar nefndar sem skipuð er fulltrúum aðildarríkjanna undir formennsku fulltrúa framkvæmdastjórnarinnar.

Fulltrúi framkvæmdastjórnarinnar leggur fyrir nefndina drög að þeim ráðstöfunum sem gera skal. Nefndin skal skila áliti sínu á drögunum innan þeirra tímamarka sem formaðurinn setur eftir því hversu brýnt málið er. Álitið skal samþykkt með þeim meirihluta sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 148. gr. sáttmálans þegar um er að ræða ákvarðanir sem ráðinu ber að samþykkja að tillögu framkvæmdastjórnarinnar. Atkvæði fulltrúa aðildarríkjanna í nefndinni vega eins og mælt er fyrir um í þeirri grein. Formaðurinn greiðir ekki atkvæði.

Framkvæmdastjórnin skal samþykkja fyrirhugaðar ráðstafanir séu þær í samræmi við álit nefndarinnar.

Séu fyrirhugaðar ráðstafanir ekki í samræmi við álit nefndarinnar eða skili nefndin ekki áliti ber framkvæmdastjórninni, án tafar, að leggja tillögu fyrir ráðið um þær ráðstafanir sem gera skal. Ráðið tekur ákvörðun með auknum meirihluta.

Hafi ráðið ekkert aðhafst innan þriggja mánaða frá því að tillagan var lögð fyrir það skal framkvæmdastjórnin samþykkja fyrirhugaðar ráðstafanir.

18. gr.

Lögleiðing

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en tveimur árum eftir að hún öðlast gildi. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.

Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni þau ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

19. gr.

Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópubandalaganna.

20. gr.

Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.

Gjört í Lúxemborg 26. apríl 1999.

Fyrir hönd ráðsins,

J. FISCHER

forseti.



I. VIÐAUKI

ALMENNAR KRÖFUR SEM GILDA UM ALLA FLOKKA URÐUNARSTAÐA

1.          Staðsetning

1.1.     Þegar staðsetning urðunarstaðar er ákveðin ber að taka tillit til krafna er varða:

        a)    fjarlægð frá ystu mörkum staðarins að íbúða- og útivistarsvæðum, vatnaleiðum, vatnasvæðum og öðrum stöðum þar sem landbúnaður er stundaður eða þéttbýlt er;

        b)    grunnvatn, strandsjó eða náttúruverndarsvæði á viðkomandi svæði;

        c)    jarðfræðileg og vatnajarðfræðileg skilyrði á svæðinu;

        d)    hættu á flóðum, landsigi, skriðuhlaupum eða snjóflóðum á staðnum;

        e)    verndun náttúrunnar eða menningarminja á svæðinu.

1.2.    Því aðeins er hægt að veita leyfi fyrir urðunarstað að einkenni hans, að því er varðar framangreindar kröfur eða þær ráðstafanir sem gerðar skulu til úrbóta, bendi til þess að urðunarstaðurinn skapi ekki alvarlega hættu fyrir umhverfið.

2.          Aðgerðir sem varða vatn og sigvatn

        Gera skal viðeigandi ráðstafanir, með tilliti til einkenna urðunarstaðarins og veðurfræðilegra skilyrða, í því skyni að:

        –        stjórna því hve mikið úrkomuvatn berst í urðunarhauginn,

        –        varna því að yfirborðs- og/eða grunnvatn komist í urðaða úrganginn,

        –        safna saman menguðu vatni og sigvatni. Lögbært yfirvald getur úrskurðað að þetta ákvæði eigi ekki við ef niðurstaða mats, sem byggist á staðsetningu urðunarstaðarins og þeim úrgangi sem tekið er við, er sú að umhverfinu stafi engin hætta af urðunarstaðnum,

        –        meðhöndla mengað vatn og sigvatn, sem safnað er frá urðunarstaðnum, þannig að það samræmist þeim stöðlum sem gilda um losun þess.

        Framangreind ákvæði þurfa ekki að gilda um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang.

3.          Verndun jarðvegs og vatns

3.1.    Urðunarstaður verður að vera þannig staðsettur og þannig úr garði gerður að hann uppfylli nauðsynleg skilyrði sem varna því að jarðvegur, grunnvatn eða yfirborðsvatn mengist og sem tryggja að sigvatni sé safnað á skilvirkan hátt í þeim tilvikum sem krafist er samkvæmt 2. lið og eins og kröfur þar segja til um. Jarðveg og grunn- og yfirborðsvatn skal vernda með því að nýta í senn jarðfræðilegan tálma og botnþéttingu meðan rekstrar-/virkniskeið varir og með því að nýta í senn jarðfræðilegan tálma og yfirborðsþéttingu meðan óvirka skeiðið varir/eftir lokun.

3.2.    Um jarðfræðilegan tálma er að ræða þegar jarðfræðilegar og vatnajarðfræðilegar aðstæður undir urðunarstaðnum og í nágrenni hans veita slíka fyrirstöðu að jarðvegi og grunnvatni stafar engin hætta af.

        Á botni og í hliðum urðunarstaðarins skal vera jarðlag sem uppfyllir þær kröfur, sem gerðar eru um lekt og þykkt, og verndar jarðveg og grunn- og yfirborðsvatn í heild að minnsta kosti á sambærilegan hátt og yrði að uppfylltum eftirfarandi kröfum:

        –        urðunarstaður fyrir hættulegan úrgang: K = 1,0 . 10 -9 m/s; þykkt = 5 m,

        –        urðunarstaður fyrir hættulítinn úrgang: K = 1,0 . 10 -9 m/s; þykkt = 1 m,

        –        urðunarstaður fyrir óvirkan úrgang: K = 1,0 . 10 -7 m/s; þykkt = 1 m,

        m/s: metrar á sekúndu.

        Uppfylli jarðfræðilegi tálminn ekki framangreind skilyrði frá náttúrunnar hendi má fullgera hann og styrkja á annan hátt þannig að hann veiti samsvarandi vörn. Tilbúinn jarðfræðilegur tálmi skal ekki vera minna en 0,5 metrar að þykkt.

3.3.    Til viðbótar þeim jarðfræðilega tálma, sem lýst var að framan, verður að koma kerfi til að safna sigvatni og þétta botninn í samræmi við eftirfarandi meginreglur í því skyni að tryggja að sem minnst sigvatn safnist fyrir á botni urðunarstaðarins:

Söfnun sigvatns og botnþétting
Flokkur urðunarstaðar hættulítill úrgangur hættulegur úrgangur
Tilbúin þétting nauðsynleg nauðsynleg
Hriplag = 0,5 m nauðsynlegt nauðsynlegt


        Aðildarríkjunum er heimilt að setja almennar eða sértækar kröfur sem gilda um urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang og um eiginleika framangreindra tæknilegra lausna.

        Lögbæru yfirvaldi er heimilt að mæla fyrir um yfirborðsþéttingu ef niðurstaðan, að lokinni athugun á því hvort umhverfinu sé hætta búin, er sú að nauðsynlegt sé að hindra myndun sigvatns. Mælt er með eftirfarandi yfirborðsþéttingu:

Flokkur urðunarstaðar hættulítill úrgangur hættulegur úrgangur
Gassöfnunarlag nauðsynlegt ekki nauðsynlegt
Tilbúin þétting ekki nauðsynleg nauðsynleg
Þétt jarðlag nauðsynlegt nauðsynlegt
Hriplag > 0,5 m nauðsynlegt nauðsynlegt
Þekjandi yfirborðsjarðlag > 1 m nauðsynlegt nauðsynlegt


3.4.    Hafi lögbært yfirvald ákveðið, í samræmi við 2. lið („Aðgerðir sem varða vatn og sigvatn“) og á grundvelli umhverfisáhættumats, einkum að teknu tilliti til tilskipunar 80/68/EBE ( 1 ), að söfnun og meðhöndlun sigvatns sé ekki nauðsynleg eða að staðfest hafi verið að jarðvegi og grunn- eða yfirborðsvatni stafi ekki hætta af urðuninni er heimilt að minnka þær kröfur, sem eru settar fram í liðum 3.2 og 3.3 hér að framan, til samræmis við það. Ef um er að ræða urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang má aðlaga þessar kröfur með innlendri löggjöf.

3.5.    Nefndinni, sem sett er á laggirnar samkvæmt 17. gr. þessarar tilskipunar, ber að þróa og samþykkja þá aðferð sem nota skal við ákvörðun á lektarstuðli fyrir urðunarstaði, bæði á staðnum og á öllu svæðinu.

4.         Aðgerðir sem varða gas

4.1.    Gera skal viðeigandi ráðstafanir til að hafa stjórn á því hauggasi sem safnast fyrir á urðunarstaðnum og berst frá honum (III. viðauki).

4.2.    Safna ber hauggasi á öllum urðunarstöðum sem taka móti lífrænum úrgangi og skylt er að meðhöndla og nýta gasið. Verði því ekki við komið að nota það gas, sem safnast, til orkuframleiðslu skal eyða því með bruna.

4.3.    Söfnun, meðhöndlun og nýting hauggassins samkvæmt lið 4.2 skal vera með þeim hætti að umhverfið verði fyrir sem minnstum skaða eða spjöllum og að sem minnst hætta steðji að heilbrigði manna.

5.         Óþægindi og hætta

        Gera skal ráðstafanir til að minnka, sem mest má verða, þau óþægindi og þá hættu sem stafar af urðunarstaðnum vegna:

        –        lyktar og ryks sem leggur frá staðnum,

        –        efna sem fjúka,

        –        hávaða og umferðar,

        –        fugla, meindýra og skordýra,

        –        myndun úðaefna,

        –        elda.

        Ganga skal þannig um urðunarstaðinn að óhreinindi berist ekki frá honum á opinbera vegi og landið umhverfis hann.

6.          Stöðugleiki

        Koma skal úrganginum þannig fyrir á urðunarstaðnum að haugurinn og tengd mannvirki verði sem stöðugust, einkum þannig að ekki verði um skrið að ræða. Hafi tilbúnum tálma verið komið fyrir skal gengið úr skugga um að hið jarðfræðilega undirlag sé svo stöðugt, með tilliti til staðhátta (formfræði) á urðunarstaðnum, að sig valdi ekki skemmdum á tálmanum.

7.          Takmörkun aðgangs

        Urðunarstaðurinn skal varinn þannig að ekki sé frjáls aðgangur að honum. Hlið skulu vera lokuð nema þann hluta dags sem starfsemi fer fram. Á hverjum urðunarstað skal eftirlits- og aðgangskerfi einnig fela í sér aðgerðir sem miða að því að koma upp um og sporna gegn ólöglegri losun á staðnum.



II. VIÐAUKI

VIÐMIÐANIR OG AÐFERÐIR VIÐ MÓTTÖKU ÚRGANGS

1.          Inngangur

        Í þessum viðauka er lýst:

        –        almennum meginreglum sem gilda um móttöku úrgangs á urðunarstöðum í mismunandi flokkum. Í framtíðinni skulu aðferðir við flokkun úrgangs byggjast á þessum meginreglum,

        –        viðmiðunarreglum um bráðabirgðaaðferðir við móttöku úrgangs sem fylgja ber þar til mótuð hefur verið samræmd aðferð við flokkun og móttöku úrgangs. Aðferðin verður, ásamt viðeigandi aðferðum við sýnatöku, mótuð af tækninefndinni sem um getur í 16. gr. þessarar tilskipunar. Tækninefndinni ber að móta viðmiðanir sem uppfylla þarf að því er varðar tiltekinn hættulegan úrgang sem taka á við á urðunarstöðum fyrir hættulítinn úrgang. Þessar viðmiðanir skulu einkum miðast við það hvernig útskolun úr slíkum úrgangi er háttað í bráð og lengd. Viðmiðanirnar skulu mótaðar innan tveggja ára frá gildistöku þessarar tilskipunar. Tækninefndinni ber einnig að móta viðmiðanir sem uppfylla þarf að því er varðar úrgang sem taka á til geymslu neðanjarðar. Þessar viðmiðanir skulu einkum miðast við að gert sé ráð fyrir því að úrgangurinn hvarfist hvorki innbyrðis né við berglögin.

        Starfi tækninefndarinnar, sem skal taka mið af þeim markmiðum sem sett eru í 1. gr. þessarar tilskipunar, skal lokið innan þriggja ára frá gildistöku þessarar tilskipunar, að undanskildu starfi við tillögur um stöðlun aðferða við eftirlit, sýnatöku og greiningar í tengslum við viðaukana við þessa tilskipun sem skulu samþykktar innan tveggja ára frá gildistöku þessarar tilskipunar.

2.          Almennar meginreglur

        Nauðsynlegt er að kunna sem nákvæmust skil á samsetningu, útskolun, langtímahegðun og almennum eiginleikum þess úrgangs sem urða skal. Móttaka úrgangs á urðunarstað getur grundvallast annaðhvort á skrá yfir tækan eða ótækan úrgang, samkvæmt skilgreiningu á eðli hans og uppruna, eða á greiningaraðferðum og viðmiðunargildum sem eiga við um eiginleika þess úrgangs sem taka á við. Þær aðferðir, sem nota á við móttöku úrgangs í framtíðinni og lýst er í þessari tilskipun, skulu, svo sem við verður komið, byggjast á stöðluðum greiningaraðferðum fyrir úrgang og viðmiðunargildum sem eiga við um eiginleika þess úrgangs sem taka á við.

        Áður en slíkar greiningaraðferðir og viðmiðunargildi verða skilgreind skulu aðildarríkin að minnsta kosti setja saman innlendar skrár yfir úrgang, sem telst tækur eða ótækur í hverjum flokki urðunarstaða, eða skilgreina þær viðmiðanir sem úrgangurinn þarf að uppfylla svo að hann verði tilgreindur í skránum. Úrgangur telst tækur á urðunarstað í tilteknum flokki ef viðkomandi tegund úrgangs finnst á viðeigandi innlendri skrá eða uppfyllir svipaðar viðmiðanir og gilda fyrir tilgreiningu í skránni. Þessar skrár, eða jafngildar viðmiðanir, ásamt greiningaraðferðum og viðmiðunargildum, skulu sendar framkvæmdastjórninni innan sex mánaða frá lögleiðingu þessarar tilskipunar eða þegar þær eru samþykktar á innlendum vettvangi.

        Þessar skrár eða viðmiðanir um móttöku skulu notaðar til þess að setja saman staðarsértækar skrár, þ.e. skrána yfir tækan úrgang sem tilgreindur er í leyfinu í samræmi við 9. gr. þessarar tilskipunar.

        Viðmiðanirnar, sem gilda um þann úrgang sem er tilgreindur á viðmiðunarskránum eða gilda um móttöku úrgangs fyrir hvern flokk urðunarstaða, geta byggst á annarri löggjöf og/eða eiginleikum úrgangsins.

        Viðmiðanir, sem gilda um móttöku úrgangs á urðunarstað í tilteknum flokki, skulu miðast við að eftirfarandi sé haft í huga:

        –        verndun næsta umhverfis (einkum grunn- og yfirborðsvatns),

        –        verndun þeirra kerfa sem ætlað er að vernda umhverfið (þ.e. þéttilaga og hreinsikerfa fyrir sigvatn),

        –        verndun þeirra æskilegu ferla sem eru að verki innan urðunarstaðarins og stuðla að stöðugleika úrgangsins,

        –        verndun gegn hvers kyns hættu sem steðjar að heilbrigði manna.

        Viðmiðanir, sem byggjast á eiginleikum úrgangs, eru til dæmis:

        –        kröfur um þekkingu á heildarsamsetningunni,

        –        takmarkanir á magni lífræns efnis í úrganginum,

        –        kröfur eða takmarkanir sem varða rotnanleika lífrænna efnisþátta í úrganginum,

        –        takmarkanir á magni tilgreindra efnisþátta sem geta verið skaðlegir/hættulegir (með tilliti til framangreindra viðmiðana um verndun),

        –        takmarkanir á hugsanlegri og áætlaðri útskolun tilgreindra efnisþátta sem geta verið skaðlegir/hættulegir (með tilliti til framangreindra viðmiðana um verndun),

        –        visteiturefnafræðilegir eiginleikar úrgangsins og þess sigvatns sem myndast.

        Þær viðmiðanir um móttöku úrgangs, sem byggjast á eiginleikum hans, verða að öllu jöfnu að vera nákvæmastar fyrir urðunarstaði fyrir óvirkan úrgang og mega vera ónákvæmari fyrir urðunarstaði fyrir hættulítinn úrgang og enn ónákvæmari fyrir urðunarstaði fyrir hættulegan úrgang, en það skýrist af víðtækari ákvæðum um verndun umhverfisins að því er varðar tvo síðastnefndu flokka urðunarstaða.

3.          Almennar aðferðir við prófun og móttöku úrgangs

        Almenn lýsing á eiginleikum úrgangsins og prófun hans verður að byggjast á eftirfarandi þriggja þrepa skiptingu:

         1. þrep:     Lýsing á grunneiginleikum. Hún felur í sér nákvæma ákvörðun, með beitingu staðlaðra greiningar- og hegðunarprófunaraðferða, þess hvernig útskolun er háttað í bráð og lengd og/eða sérkennandi eiginleika úrgangsins.

         2. þrep:     Samræmisprófun. Hún felur í sér reglubundna prófun með beitingu einfaldari staðlaðra greiningar- og hegðunarprófunaraðferða til að ganga úr skugga um það hvort úrgangurinn samræmist skilyrðum leyfisins og/eða sértækum viðmiðunum sem vísað er til. Prófanirnar beinast helst að þeim lykilbreytum og þeirri hegðun sem kemur fram í lýsingunni á grunneiginleikunum.

         3. þrep:     Sannprófun á staðnum. Hún felur í sér að fljótlegum prófunaraðferðum er beitt til að staðfesta að tiltekinn úrgangur sé sá sami og sá sem gekkst undir samræmisprófun og sem lýst er í fylgiskjölunum. Hún getur verið fólgin í því einu að skoða farm úrgangs sjónrænt fyrir og eftir að hann er losaður á urðunarstað.

        Að öllu jöfnu skal lýsa hverri tegund úrgangs samkvæmt 1. þrepi og hún þarf að uppfylla viðeigandi viðmiðanir eigi að tilgreina hana í viðmiðunarskránni. Prófa verður hverja tegund úrgangs með reglubundnum hætti (t.d. árlega) samkvæmt 2. þrepi og hún þarf að uppfylla viðeigandi viðmiðanir eigi hún að haldast á staðarsértækri skrá. Hver farmur úrgangs, sem kemur að hliði urðunarstaðar, verður að gangast undir sannprófun samkvæmt 3. þrepi.

        Heimilt er að tilteknar tegundir úrgangs séu undanþegnar prófun samkvæmt 1. þrepi til langframa eða um tiltekinn tíma. Slík undanþága getur byggst á því að prófun verði illa eða ekki við komið, heppilegar prófunaraðferðir eða viðmiðanir um móttöku séu ekki tiltækar eða önnur löggjöf gildi hvað þetta varðar.

4.          Viðmiðunarreglur um bráðabirgðaaðferðir við móttöku úrgangs

        Þar til þessi viðauki hefur verið fullgerður er eingöngu prófun samkvæmt 3. þrepi lögboðin en 1. og 2. þrep skulu notuð að því marki sem við verður komið. Á þessu bráðabirgðastigi skal sá úrgangur, sem tekið er á móti í tilteknum flokki urðunarstaða, annaðhvort finnast á takmarkandi innlendri skrá eða á staðarsértækri skrá yfir viðkomandi flokk urðunarstaða eða uppfylla svipaðar viðmiðanir og gilda um tilgreiningu í skránni.

        Eftirfarandi almennu viðmiðunarreglur má nota til þess að setja bráðabirgðaviðmiðanir um móttöku úrgangs á urðunarstöðum í meginflokkunum þremur eða um tilgreiningu úrgangs í samsvarandi skrám.

         Urðunarstaðir fyrir óvirkan úrgang: eingöngu er heimilt að tilgreina í skránni óvirkan úrgang eins og hann er skilgreindur í e-lið 2. gr.

         Urðunarstaðir fyrir hættulítinn úrgang: í skránni má ekki tilgreina úrgang sem fellur undir ákvæði tilskipunar 91/689/EBE.

         Urðunarstaðir fyrir hættulegan úrgang: bráðabirgðadrög að skrá fyrir urðunarstaði fyrir hættulegan úrgang skulu eingöngu ná til þeirra tegunda úrgangs sem falla undir ákvæði tilskipunar 91/689/EBE. Umræddar tegundir úrgangs skulu á hinn bóginn ekki tilgreindar í skránni án undangenginnar meðhöndlunar ef í ljós kemur að heildarinnihald eða útskolun meintra hættulegra efnisþátta geti valdið skammtímahættu fyrir starfsmenn eða umhverfið eða komið í veg fyrir að úrgangurinn nái nægilegum stöðugleika á fyrirhugðum líftíma urðunarstaðarins.

5.          Sýnataka úr úrgangi

        Sýnataka úr úrgangi getur skapað alvarlegan vanda að því er varðar sýnatökutækni og það hve dæmigerð sýnin verða, en það stafar af því hve sundurleitar að eðli margar tegundir úrgangs eru. Evrópskur staðall um sýnatöku úr úrgangi verður mótaður. Þar til þessi staðall hefur verið samþykktur af hálfu aðildarríkjanna í samræmi við 17 gr. þessarar tilskipunar er aðildarríkjunum heimilt að beita innlendum stöðlum og aðferðum.



III. VIÐAUKI

AÐFERÐIR VIÐ EFTIRLIT OG VÖKTUN Á REKSTRARSKEIÐI OG Í KJÖLFAR LOKUNAR

1.          Inngangur

        Tilgangurinn með þessum viðauka er að gera grein fyrir þeim lágmarksvöktunaraðferðum sem nota ber til að kanna:

        –        hvort úrgangur, sem tekið hefur verið við til förgunar, er í samræmi við viðmiðanirnar sem settar eru fyrir viðkomandi flokk urðunarstaða,

        –        hvort öll ferli á urðunarstaðnum verki eins og æskilegt er,

        –        hvort þau kerfi, sem ætlað er að vernda umhverfið, starfi að öllu leyti eins og til er ætlast,

        –        hvort skilyrði leyfisins fyrir urðunarstaðnum hafi verið uppfyllt.

2.          Veðurfræðileg gögn

        Samkvæmt upplýsingaskyldu, sem aðildarríkjunum er lögð á herðar (15. gr.), skulu þau leggja fram gögn um aðferðir sem eru notaðar við öflun veðurfræðilegra gagna. Það er á valdi aðildarríkjanna að ákveða hvernig gagnanna skuli aflað (á staðnum, með innlendu kerfi veðurathugana o.s.frv.).

        Ef aðildarríkin komast að þeirri niðurstöðu að meta megi með góðum árangri út frá vatnsjöfnuði hvort sigvatn safnist fyrir í urðaða úrganginum eða hvort leki berist frá staðnum er mælt með því að eftirfarandi upplýsinga sé aflað við vöktun á urðunarstaðnum eða frá næstu veðurathugunarstöð, svo lengi sem þess er þörf að mati lögbærs yfirvalds í samræmi við c-lið 13. gr. þessarar tilskipunar:

Í rekstri Í kjölfar lokunar
1.1 Magn úrkomu daglega daglega og mánaðarúrkoma
1.2 Hiti (lágmark, hámark, kl. 14.00 að Mið-Evróputíma) daglega meðalhiti mánaðar
1.3 Stefna og styrkur ríkjandi vindáttar daglega ekki nauðsynlegt
1.4. Uppgufun (hrip- og útskolunarmælir) (1) daglega daglega og mánaðaruppgufun
1.5 Loftraki (kl. 14.00 að Mið-Evróputíma) daglega meðalraki mánaðar
(1)     Eða með annarri nothæfri aðferð.

3.          Gögn um mengun: vatn, sigvatn og eftirlit með lofttegundum

        Taka ber sýni úr sigvatni og yfirborðsvatni á stöðum þar sem þau verða dæmigerð. Sýnataka og mælingar (rúmmál og samsetning) á sigvatni skulu gerðar sérstaklega fyrir hvern stað þar sem sigvatni er veitt frá staðnum. Tilvísun: almennar viðmiðunarreglur um sýnatökutækni, ISO-staðall nr. 5667-2 (1991).

        Vöktun yfirborðsvatns skal fara fram á ekki færri stöðum en tveimur, öðrum á stað þar sem vatnið streymir að urðunarstaðnum og hinum þar sem það streymir frá honum.

        Eftirlit með lofttegundum skal gefa rétta mynd af hverjum hluta urðunarstaðarins. Tíðni sýnatöku og greininga er tilgreind í eftirfarandi töflu. Vegna eftirlits ber að taka sýni af sigvatni og vatni á stöðum þar sem meðalsamsetningin er dæmigerð.

Í rekstri Í kjölfar lokunar (3)
2.1 Magn sigvatns mánaðarlega (1) (3) á sex mánaða fresti
2.2 Samsetning sigvatns (2) ársfjórðungslega (3) á sex mánaða fresti
2.3 Magn og samsetning yfirborðsvatns (7) ársfjórðungslega (3) á sex mánaða fresti
24 Möguleg losun lofttegunda og loftþrýstingur (4) (CH4, CO2, O2, H2S, H2 o.s.frv.) mánaðarlega (3) (5) á sex mánaða fresti (6)
(1) Haga má tíðni sýnatökunnar eftir því hvernig úrganginum er komið fyrir á urðunarstaðnum (haugur, grafinn o.s.frv.). Þetta verður að koma fram í leyfinu.
(2) Færibreyturnar, sem mæla skal, og þau efni, sem ber að greina, eru mismunandi eftir samsetningu þess úrgangs sem urðaður er; tilgreina skal færibreyturnar í leyfinu og þær eiga að endurspegla útskolunareiginleika úrgangsins.
(3) Ef mat á gögnum gefur til kynna að strjálla eftirlit gefi jafn góða raun er heimilt að breyta tilhöguninni. Að því er sigvatnið varðar skal í öllum tilvikum mæla leiðni þess einu sinni á ári hið minnsta.
(4) Þessar mælingar tengjast einkum innihaldi lífræns efnis í úrganginum.
(5) CH4, CO2, O2, reglulega; aðrar lofttegundir eftir þörfum í samræmi við samsetningu urðaða úrgangsins svo að útskolunareiginleikar hans verði ljósir.
(6) Fylgjast verður reglulega með virkni gassöfnunarkerfisins.
(7) Lögbært yfirvald getur kveðið upp þann úrskurð að vegna einkenna urðunarstaðarins séu þessar mælingar óþarfar og leggur þá fram skýrslu þar að lútandi svo sem mælt er fyrir um í 15. gr. tilskipunarinnar.
Liðir 2.1 og 2.2 gilda eingöngu þar sem sigvatni er safnað (sjá 2. lið I. viðauka).

4.          Verndun grunnvatns

        A.     Sýnataka

                Mælingarnar skulu veita upplýsingar um það grunnvatn sem líklegt er að verði fyrir áhrifum vegna losunar úrgangsins og skal að minnsta kosti einn mælipunktur vera á aðstreymissvæði grunnvatnsins og tveir á frástreymissvæði þess. Bæta má við mælipunktum á grundvelli sérstakrar vatnajarðfræðilegrar rannsóknar og ef það er nauðsynlegt í þeim tilgangi að greina snemma ef sigvatn berst út í grunnvatnið fyrir slysni.

                Taka ber sýni að minnsta kosti á þremur stöðum áður en urðun hefst svo að viðmiðunargildi séu handbær vegna sýnatöku síðar. Tilvísun: sýnataka úr grunnvatni, ISO-staðall nr. 5667, 11. hluti (1993).

        B.     Vöktun

                Þær færibreytur, sem greina skal í sýnum, skulu ákvarðaðar út frá þeirri efnasamsetningu sem búist er við að sigvatnið hafi og gæðum grunnvatnsins á svæðinu. Við val á færibreytum vegna greininga skal taka tillit til hreyfinga á grunnvatnssvæðinu. Færibreytur geta einnig verið vísifæribreytur svo að tryggt sé að breytingar á vatnsgæðum uppgötvist snemma ( 1 ).

Í rekstri Í kjölfar lokunar
Staða grunnvatns á sex mánaða fresti (1) á sex mánaða fresti (1)
Efnasamsetning grunnvatns staðarsértæk tíðni (2)(3) staðarsértæk tíðni(2)(3)
(1)    Auka verður tíðnina ef grunnvatnsstaðan er breytileg.
(2)    Tíðnin verður að grundvallast á því að á milli þess sem sýni eru tekin verði unnt að grípa til aðgerða til úrbóta ef viðbragðaþröskuldi er náð, tíðnina verður með öðrum orðum að ákvarða á grundvelli þekkingar og mats á rennslishraða grunnvatnsins.
(3)    Þegar viðbragðaþröskuldi er náð (sjá C-lið) er nauðsynlegt að sannprófa hann með því að taka sýni á ný. Ef þröskuldsgildin eru staðfest verður að fylgja neyðaráætlun (sem mælt er fyrir um í leyfinu).

        C.     Viðbragðaþröskuldur

                Um verulegan umhverfisskaða, sem um getur í 12. og 13. gr. þessarar tilskipunar, á grunnvatni er að ræða þegar greining á grunnvatnssýnum leiðir í ljós umtalsverða breytingu á gæðum vatnsins. Ákvarða ber viðbragðaþröskuld með hliðsjón af sértækum vatnajarðfræðilegum myndunum á urðunarstaðnum og gæðum grunnvatnsins. Ætíð skal tilgreina viðbragðaþröskuldinn í leyfinu ef því verður við komið.

                Niðurstöður mælinganna skal meta með hjálp eftirlitskorta og fastsettum eftirlitsreglum og viðmiðunarmörkum fyrir hverja borholu sem er undanstreymis. Viðmiðunarmörk vegna eftirlits skulu ákvörðuð út frá staðbundnum breytileika á gæðum grunnvatnsins.

5.          Svæðislýsing staðarins: gögn um urðaða úrganginn

Í rekstri Í kjölfar lokunar
5.1. Gerð og samsetning urðaða úrgangsins (1) árlega
5.2. Breyting á umfangi (sig) urðaða úrgangsins árlega árleg mæling
(1)    Gögn um stöðuna á viðkomandi urðunarstað: svæði undir úrgangi, magn og samsetning úrgangs, aðferðir við urðun, hvenær og hversu lengi er urðað og útreikningar á því urðunarrými sem eftir er á staðnum.

( 1) Stjtíð. EB L 66, 8.3.2001, bls. 50 og EES-viðbætir við Stjtíð. EB nr. 12, 8.3.2001, bls. 8.
( 2) Stjtíð. EB L 182, 16.7.1999, bls. 1.
( *) Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
( 1)    Stjtíð. EB C 156, 24.5.1997, bls. 10.
( 2)    Stjtíð. EB C 355, 21.11.1997, bls. 4.
( 3)    Álit Evrópuþingsins frá 19. febrúar 1998 (Stjtíð. EB C 80, 16.3.1998, bls. 196), sameiginleg afstaða ráðsins frá 4. júní 1998 (Stjtíð. EB C 333, 30.10.1998, bls. 15) og ákvörðun Evrópuþingsins frá 3. febrúar 1999 (Stjtíð. EB C 150, 28.5.1999, bls. 78).
( 4)    Stjtíð. EB C 122, 18.5.1990, bls. 2.
( 1)    Stjtíð. EB L 194, 25.7.1975, bls. 39. Tilskipuninni var síðast breytt með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 96/350/EB (Stjtíð. EB L 135, 6.6.1996, bls. 32).
( 1)    Stjtíð. EB L 257, 10.10.1996, bls. 26.
( 1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 20. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 94/31/EB (Stjtíð. EB L 168, 2.7.1994, bls. 28).
( 1)    Stjtíð. EB L 175, 5.7.1985, bls. 40. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 97/11/EB (Stjtíð. EB L 73, 14.3.1997, bls. 5).
( 1)    Stjtíð. EB L 158, 23.6.1990, bls. 56.
( 2)    Stjtíð. EB L 30, 6.2.1993, bls. 1. Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð (EB) nr. 120/97 (Stjtíð. EB L 22, 24.1.1997, bls. 14).
( 1)    Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48.
( 1)    Stjtíð. EB L 20, 26.1.1980, bls. 43. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 91/692/EBE (Stjtíð. EB L 377, 31.12.1991, bls. 48).
( 1)    Æskilegar færibreytur: sýrustig, heildarmagn lífræns kolefnis, fenól, þungmálmar, flúoríð, arsen, olía/vetniskolefni.