Ferill 137. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 428  —  137. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á iðnaðarlögum, nr. 42/1978, með síðari breytingum.

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Jón Ögmund Þormóðsson frá iðnaðarráðuneyti, Guðmund Eggertsson, Benedikt Sigurjónsson og Lúther Jónsson frá Iðnráði Reykjavíkur, Ólaf Helga Árnason frá Samtökum iðnaðarins og Baldur Gíslason og Jóhannes Einarsson frá Iðnmennt. Umsagnir bárust um málið frá Samiðn, Eyþingi, Samtökum iðnaðarins og Iðnráði Reykjavíkur.
    Frumvarpinu er ætlað að veita heimild til þess að iðnráð verði stofnuð í sveitarfélögum sem hafa yfir 5.000 íbúa, í stað þess að þau verði kosin í hverjum kaupstað eins og skylt hefur verið. Við meðferð málsins í nefndinni vöknuðu spurningar um hlutverk iðnráða og það ferli sem lögbundið hefur verið við útgáfu meistarabréfa. Sú umræða leiddi til þess að nefndin afréð að leggja til veigamiklar breytingar á frumvarpinu þess efnis að ákvæði um iðnráð verði með öllu felld úr iðnaðarlögum og öðrum lögum. Nefndin lítur svo á að ekki hafi verið nægilega vel búið að iðnráðum í gegnum tíðina og að heppilegast sé að einfalda það ferli sem umsækjandi þarf að ganga í gegnum til að fá meistarabréf útgefið. Telja má nægilega öruggt að lögreglustjórar kanni hvort skilyrðum iðnaðarlaga um útgáfu meistarabréfa sé fullnægt, þ.e. hvort sveinsbréf er fyrir hendi, meistaraskólanámi lokið og að sveinn hafi starfað tilskilinn tíma hjá meistara að loknu sveinsprófi. Í vafatilvikum gæti lögreglustjóri leitað álits t.d. landssamtaka meistara og sveina.
    Nefndin bendir einnig á að eðlilegt sé að fram fari á vegum umhverfisráðuneytis endurskoðun á ferli við löggildingu iðnmeistara á grundvelli skipulags- og byggingarlaga þannig að ferlið sem umsækjendur þurfa að ganga í gegnum verði einfaldara. Við þá endurskoðun væri eðlilegt að leita samráðs við fulltrúa launþega og atvinnurekenda.
    Hingað til hefur ekki aðeins verið unnt að leita til iðnráða sem umsagnaraðila um meistarabréf heldur einnig sem sáttaaðila, t.d. varðandi mörk iðngreina. Nefndin bendir á að þeim vandamálum sem upp kunna að koma megi vísa til menntamálaráðuneytisins sem setur námskrár þar sem innihald kennslu og mörk námsgreina, bein eða óbein, eru tilgreind. Ráðuneytið gæti síðan leitað umsagnar starfsgreinaráða. Þá stendur enn opin sú leið á grundvelli iðnaðarlaga að kæra til refsingar fyrir brot á lögunum, þ.e. ef talið er að einn iðnaðarmaður fari með ólögmætum hætti inn á starfssvið annars. Þá mundi dómstóll skera úr málinu.
    Jafnframt leggur nefndin til að iðnaðarráðherra verði veitt heimild til að fela öðrum aðilum að sjá um útgáfu sveinsbréfa. Í því sambandi bendir nefndin á að fræðslumiðstöðvar iðnaðarins hafa annast gagnaöflun varðandi vinnustaðanám til sveinsprófs og annast framkvæmd sveinsprófa. Því kemur til greina að þær annist einnig útgáfu sveinsprófsskírteina í umboði iðnaðarráðuneytis.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með framangreindum breytingum sem gerð er tillaga um í sérstöku þingskjali.
    Svanfríður Jónasdóttir var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 26. nóv. 2001.



Hjálmar Árnason,


form., frsm.


Guðjón Guðmundsson.


Bryndís Hlöðversdóttir.



Pétur H. Blöndal.


Árni R. Árnason.


Árni Steinar Jóhannsson.



Kjartan Ólafsson.


Ísólfur Gylfi Pálmason.