Ferill 355. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 491  —  355. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að fundargerðir stjórna og ráða á vegum ríkisvaldsins verði vistaðar á heimasíðum þeirra stofnana er undir þær heyra.

Flm.: Hjálmar Árnason, Jónína Bjartmarz, Magnús Stefánsson.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að fundargerðir stjórna, nefnda og ráða á vegum ríkisins verði vistaðar á heimasíðum þeirra stofnana er þær heyra undir þannig að almenningur hafi frjálsan aðgang að þeim.

Greinargerð.


    Á vegum ríkisvaldsins starfar fjöldi stofnana og ráða. Yfir þeim flestum eru stjórnir er halda reglulega fundi um málefni viðkomandi stofnunar eða ráðs. Upplýsingar, er þar koma fram, kunna í mörgum tilvikum að skipta máli fyrir almenning enda um opinberar þjónustustofnanir að ræða. Í einhverjum tilvikum kann almenningi að reynast snúið að nálgast upplýsingar af slíkum stjórnarfundum. Samkvæmt upplýsingalögum er hinu opinbera skylt að veita almennar upplýsingar um einstakar stofnanir. Til þess að opna stjórnsýsluna hvað þetta varðar leggja flutningsmenn til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir því að fundargerðir stjórna, nefnda og ráða einstakra stofnana hvers ráðuneytis verði birtar svo skjótt sem auðið er á heimasíðu viðkomandi ráðuneytis og þeirra stofnana er í hlut eiga hverju sinni. Samhliða má skoða þann möguleika að ríkisvaldið hafi sérstaka heimasíðu á netinu í því skyni að hýsa dagskrár og fundargerðir allra nefnda og ráða á vegum ríkisins. Með því móti má segja að hið opinbera sýni gott fordæmi um að opna stjórnsýsluna en veiti um leið almenningi aðgang að þeim upplýsingum er hann kanna að vanhaga um á einfaldan hátt.