Ferill 356. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 492  —  356. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um útsendingar sjónvarps og útvarps um gervitungl.

Flm.: Guðjón Guðmundsson, Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Blöndal,


Drífa Hjartardóttir, Einar K. Guðfinnsson.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að láta gera á vegum Ríkisútvarpsins áætlun um kostnað og tæknilega útfærslu á því að senda dagskrár útvarps og sjónvarps um gervitungl, svo og kostnað við búnað til að taka á móti þessum sendingum. Einnig komi fram áætlaður stofnkostnaður jarðstöðvar til að senda dagskrár til gervitungls og árlegur rekstrarkostnaður hennar.

Greinargerð.


    Mörg þúsund Íslendingar búa við þau skilyrði að hafa lélegan eða engan aðgang að útsendingum Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps. Það á við um fólk í dreifðum byggðum víða um land, þar sem móttökuskilyrði eru slæm, og Íslendinga erlendis, en stærsti hópurinn er sjómenn á farskipum og fiskiskipum. Móttökuskilyrði sjónvarps hafa verið mjög misjöfn á hafinu umhverfis landið. Þau hafa verið allgóð frá Faxaflóa austur að Ingólfshöfða, afleit út af Austurlandi og gloppótt fyrir Norðurlandi, Vestfjörðum og suður fyrir Snæfellsjökul. Skilyrðin eru skárri þegar háþrýstisvæði er yfir landinu. Sjómenn segja að móttökuskilyrðin hafi versnað á undanförnum árum.
    Móttökuskilyrði útvarps eru einnig misjöfn en bötnuðu mjög á hafinu með tilkomu langbylgjusendinga frá Gufuskálum og Eiðum, en um sendana þar er útvarpað blandaðri dagskrá Rásar 1 og Rásar 2. Þessar sendingar nást allt til Færeyja, eða u.þ.b. 500 sjómílur. Í sparnaðarskyni hafa langbylgjusendingar nýlega verið skertar og stuttbylgjusendingar aflagðar, en þær náðust um allan heim.
    Það er mikið öryggismál að bæta sendingar ljósvakamiðlanna til fiskimiða og farskipaleiða, t.d. til að fylgjast með aðvörunum um hættu, svo sem fárviðrisspám og tilkynningum um ís. Bent hefur verið á að engin veðurspá er gerð nema á Íslandi fyrir siglingaleiðina Bandaríkin-Nýfundnaland-Ísland.
    Meðan ríkið stendur fyrir rekstri sjónvarps og útvarps og skyldar landsmenn til að greiða afnotagjöld verður að leita allra leiða til að koma sendingum þessara fjölmiðla til sem flestra Íslendinga.