Ferill 179. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 500  —  179. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Jóhanns Ársælssonar um greiðslur fyrir veiðiheimildir 1996/1997 til 2000/2001.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hverjar voru heildargreiðslur fyrirtækja og einstaklinga í einstökum sveitarfélögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 til 2000/2001 fyrir keyptar veiðiheimildir, annars vegar fyrir aflamark og hins vegar fyrir aflahlutdeildir?
     2.      Hverjar voru heildartekjur fyrirtækja og einstaklinga í einstökum sveitarfélögum á fiskveiðiárunum 1996/1997 til 2000/2001 af sölu veiðiheimilda, annars vegar aflamarks og hins vegar aflahlutdeilda?
     3.      Hverjar voru heildargreiðslur þeirra 50 fyrirtækja og einstaklinga á landinu öllu sem greiddu mest fyrir veiðiheimildir á fiskveiðiárunum 1996/1997 til 2000/2001, annars vegar fyrir aflamark og hins vegar fyrir aflahlutdeildir, sundurliðað eftir fyrirtækjum og einstaklingum?
     4.      Hverjar voru heildartekjur þeirra 50 fyrirtækja og einstaklinga á landinu öllu sem mestar tekjur höfðu af sölu veiðiheimilda á fiskveiðiárunum 1996/1997 til 2000/2001, annars vegar aflamarks og hins vegar aflahlutdeilda, sundurliðað eftir fyrirtækjum og einstaklingum?


    Svo sem sjá má er fyrirspurnin í tveimur meginhlutum. Annars vegar er spurt í tveimur fyrri töluliðunum um heildargreiðslur og heildartekjur fyrirtækja og einstaklinga vegna viðskipta með aflaheimildir, aflamark og aflahlutdeildir, á fiskveiðiárunum 1996/1997 til og með 2000/2001. Hins vegar er í síðari tveimur töluliðum spurt um sambærilegar upplýsingar um viðskipti 50 stærstu aðilanna á sama tímabili.
    Umtalsverð vinna var lögð í að rannsaka hvort hægt væri að svara fyrirspurninni á viðhlítandi hátt. Niðurstaðan er sú að svo sé ekki, sem nú skal skýrt:
     1.      Engar upplýsingar hafa verið skráðar um verð á aflahlutdeildum enda er ekki, né hefur verið, mælt fyrir um slíka skráningu í lögum.
     2.      Samræmdar upplýsingar um verð á aflamarki eru heldur ekki til nema á hluta þess tímabils sem hér um ræðir, eða þann tíma sem Kvótaþing starfaði (frá l. september 1998 til 31. mars 2001), sjá töflu. Í töflunni koma fram viðskipti á Kvótaþingi á milli óskildra aðila, þ.e. frá einni kennitölu til annarrar, tilgreint er magn, meðalverð og verðmæti á hverju fiskveiðiári fyrir sig. Alls skiptust aðilar á 239.639 tonna aflamarki á þeim 33 mánuðum sem hér um ræðir. Verðmæti þessa aflamarks var 11,7 milljarðar króna og meðalverð var 48,98 kr./kg. Aflamark í þorski vó langmest í viðskiptum á þinginu eða 75% af öllum viðskiptum. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að nokkrar fisktegundir voru undanskildar viðkiptaskyldu á Kvótaþingi og í ýmsum tilvikum var raunverulega verslað ítrekað með sama aflamarkið.
    Í ljósi þessa er ekki unnt á leysa frekar úr spurningum alþingismannsins.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.