Ferill 118. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 545  —  118. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um nauðgunarmál.

    Fyrirspurn þessi er víðtæk og var víða leitað fanga til að afla svara við henni, m.a. hjá ríkissaksóknara, Neyðarmóttöku vegna nauðgana, ríkislögreglustjóra, landlæknis o.s.frv. Hægt er að fullyrða að möguleikar til söfnunar og úrvinnslu á tölfræði um afbrot hafa aukist verulega á undanförnum árum þannig að unnt er að svara slíkum fyrirspurnum með litlum fyrirvara. Sú var hins vegar ekki raunin þegar óskað var upplýsinga um nauðgunarmál 24 ár aftur í tímann þótt reynt væri að afla þeirra eftir föngum. Svo sem kunnugt er hófst tölvuskráning mála hjá lögreglu fyrst 1988, hjá rannsóknarlögreglu ríkisins, en síðar og í áföngum hjá öðrum lögregluembættum allt til ársins 1997 að öll embættin tengdust sömu skrá, nema á embættið á Keflavíkurflugvelli sem tengdist árið 1998. Svör ráðherra við þeim atriðum í fyrirspurninni sem lúta að lögreglunni byggjast á færslum í málaskrá eins og hún var færð hjá rannsóknarlögreglu ríkisins (RLR). Má enda segja að flest nauðgunarmál hafi komið til kasta RLR með því að annaðhvort heyrðu málin undir embættið eða önnur embætti leituðu aðstoðar við úrlausn þeirra á rannsóknarstigi.
    Til að svara út í hörgul framkomnum spurningum þyrfti að fara í gegnum handfærðar skrár frá árunum 1977–1988, sem nú eru í vörslu Þjóðskjalasafns Íslands að því er varðar RLR, og fletta hverri blaðsíðu í leit að viðeigandi málsnúmerum. Í kjölfarið þyrfti að skoða hvert mál fyrir sig til þess að fá úr því skorið hvort um var að ræða nauðgun eða hvort rannsókn leiddi í ljós brot á öðrum ákvæðum kynferðisbrotakafla hegningarlaganna. Á þetta er bent vegna reynslu af því að þótt mál hafi verið kært sem nauðgun gat rannsókn leitt í ljós að um annars konar kynferðisbrot var að ræða. Var þá allur gangur á því að upphaflegri skráningu væri breytt við rannsóknarlok. Upplýsingar byggðar á skráningarbókum frá þessum tíma gæfu ranga mynd af fjölda kærumála vegna nauðgana. Við athugun á skráningu mála í málaskrá lögreglunnar nú kemur í ljós að í flestöllum tilvikum eru málin skráð til rannsóknar. Samkvæmt upplýsingum frá embætti ríkislögreglustjóra virðist rannsókn þannig fara fram í málunum, með örfáum undantekningum sem helst skýrast af því að skýrsla er gerð um nauðgun en kæra ekki lögð fram.
    Að því er varðar heilbrigðisyfirvöld, þá liggur ekki fyrir nein heildstæð skráning til ársins 1977. Nauðganir eru ekki skráðar sem sjúkdómsgreining og því örðugt um vik að kanna sjúklingabókhald sjúkrastofnana eftir á. Eins og áður kom fram hefur engin heildstæð skráning á nauðgunum átt sér stað í heilbrigðiskerfinu fyrr en með tilkomu Neyðarmóttöku vegna nauðgana 1993. Samkvæmt upplýsingum frá embætti landlæknis er hugsanlegt að upplýsingar séu til hjá einstökum læknum fyrir og eftir 1993 en að mjög erfitt sé að vinna þær. Til þess þarf beina leit í mjög viðkvæmum sjúkragögnum, með öðrum orðum formlega faraldsfræðilega rannsókn. Komur skjólstæðinga til Neyðarmóttöku eru ekki tilkynntar en farið með mál allra sem þangað leita sem trúnaðarmál. Gögn um einstaklinga eru auðkennd með hlaupandi númeri en blandast ekki öðrum gögnum slysadeildar eða sjúkrahússins. Þau gögn yfirgefa ekki Neyðarmóttöku nema ef brotaþoli kærir, þá eru þau afhent lögreglu að beiðni brotaþola. Þær upplýsingar sem gefnar voru frá Neyðarmóttöku sýna heildarfjölda þeirra sem leitað hafa til hennar en um er að ræða kynferðislegt ofbeldi af ýmsu tagi. Samkvæmt áðurnefndum upplýsingum eru nauðganir þó langalgengasta tilefnið.
    Frá embætti ríkissaksóknara liggur fyrir samantekt vegna fyrirspurnarinnar á þeim málum sem komu til kasta embættisins frá 1977 til 2000.

     1.      Hversu margar nauðganir hafa verið tilkynntar til löggæslu- eða heilbrigðisyfirvalda á ári frá 1977 til 2000?
    Eins og fram kemur í formálanum er nær útilokað að svara þessum lið fyrirspurnarinnar aftur til ársins 1977. Í eftirfarandi töflu getur að líta tölur frá embætti ríkislögreglustjóra varðandi tilkynnt nauðgunarmál til lögreglu, frá árunum 1988–2000.

Ár Fjöldi tilvika
1988 30 (Ekki öll lögregluembættin)
1989 18 (Ekki öll lögregluembættin)
1990 14 (Ekki öll lögregluembættin)
1991 15 (Ekki öll lögregluembættin)
1992 16 (Ekki öll lögregluembættin)
1993 24 (Ekki öll lögregluembættin)
1994 26 (Ekki öll lögregluembættin)
1995 20 (Ekki öll lögregluembættin)
1996 24 (Ekki öll lögregluembættin)
1997 45
1998 44
1999 48
2000 36

    Sá fyrirvari er gerður varðandi þessar upplýsingar að á árunum 1988–96 var ekki komin miðlæg skráning afbrota. Fjöldi tilgreinda brota sýnir þannig ekki öll tilkynnt brot fyrir það tímabil. Eru tölurnar frá árunum 1988–96 byggðar á málaskrá RLR þar sem ekki er að finna heildstæða skráningu yfir landið allt. Ná tölurnar á því tímabili einkum til tilkynntra nauðgana á höfuðborgarsvæðinu þó að einstök embætti á landsbyggðinni hafi leitað til RLR við úrlausn þessara mála á rannsóknarstigi. Að öðru leyti er vísað til formálans hér að framan.
    Varðandi heilbrigðisyfirvöld er einnig vísað til formála þar sem fram koma skýringar á því hvers vegna þessar upplýsingar liggja ekki fyrir. Eftirfarandi tafla sýnir fjölda koma til Neyðarmóttöku á ári frá því hún tók til starfa 8. mars 1993.


Ár Fjöldi koma
1993 46
1994 66
1995 76
1996 79
1997 107
1998 102
1999 103
2000 96

    Sá fyrirvari er gerður varðandi framangreindar tölur að þær sýna kynferðislegt ofbeldi af ýmsu tagi en nauðgun er þar langalgengasta tilefnið. Samkvæmt upplýsingum frá Neyðarmóttöku voru af 386 málum frá 8. mars 1993 til 7. mars 1993 262 vegna fullframdra nauðgana. Önnur mál tengdust tilraunum til nauðgunar eða kynferðislegri áreitni af ýmsu tagi, líkamsárásum eða að óvíst var um atburð vegna ölvunar.

     2.      Hafa þessar nauðganir verið tilkynntar:
                  a.      til lögregluyfirvalda,
                  b.      til neyðarmóttöku (eftir 1993),
                  c.      til heilbrigðisyfirvalda annarra en neyðarmóttöku,
                  d.      annað (hvert)?

    Ekki er hægt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar nema að undangengnum víðtækum rannsóknum sem yrðu gífurlega umfangsmiklar og seinunnar og liggja ekki fyrir núna. Vísast að öðru leyti til þess sem fram kemur í formála þessa svars.

     3.      Hversu margar nauðganir hafa sætt lögreglurannsókn á ári frá 1977 til 2000?
    
Enn er vísað til þess sem greinir hér að framan varðandi málaskrá lögreglunnar og þess þá sérstaklega að hún varð ekki miðlæg fyrr en 1997. Það er meginregla að rannsókn fari fram í þeim tilvikum þar sem tilkynning berst um nauðgun. Rannsókn virðist þannig fara fram í málunum, með örfáum undantekningum sem helst skýrast af því að skýrsla er gerð um nauðgun en kæra ekki lögð fram. Í þessu tilliti vísast til samantektartöflu í svari við 1. lið fyrirspurnarinnar varðandi tilkynnt nauðgunarmál til lögreglu á árunum 1988–2000. Af þeim málum sem þar eru tilgreind voru einungis fimm mál sem ekki hlutu rannsókn.

     4.      Hversu mörg nauðgunarmál hafa lögregluyfirvöld sent ríkissaksóknara á ári frá 1977 til 2000?
    Í töflunni getur að líta samantekt ríkissaksóknara vegna nauðgunarmála. Í dálkinum „fjöldi mála“ kemur fram heildarfjöldi þeirra mála sem lögregluyfirvöld hafa sent ríkissaksóknara. Samtala nauðgunarmálanna yfir þetta tímabil er 376 mál.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



     5.      Hversu margar ákærur hefur ríkissaksóknari gefið út í nauðgunarmálum á ári frá 1977 til 2000?

    Fjöldi ákæra sem ríkissaksóknari hefur gefið út vegna nauðgunarmála á þessu tímabili kemur fram í töflunni í svari við 4. lið fyrirspurnarinnar. Heildarfjöldi útgefinna ákæra á þessu tímabili er 144 ákærur. Þar af var ein afturkölluð. Kærandi afturkallaði kæru sína eftir útgáfu ákæru og lýsti sig ófáanlegan til að mæta fyrir dómi.

     6.      Hversu mörg nauðgunarmál hafa komið fyrir dóm á ári frá 1977 til 2000?

    Öll nauðgunarmál koma fyrir dóm eftir að gefin hefur verið út ákæra, með þeirri undantekningu þar sem ákæran var afturkölluð. Heildarfjöldi þeirra nauðgunarmála sem komið hafa fyrir dóm á umræddu tímabili eru því 143 mál. Að öðru leyti er vísað til samantektartöflunnar sem er að finna í svari við 4. lið.

     7.      Hversu mörgum nauðgunarmálum hefur lokið með dómi á ári frá 1977 til 2000?
    Öllum þeim nauðgunarmálum sem komið hafa fyrir dóm á umræddu tímabili hefur lokið með dómi. Að öðru leyti er vísað til samantektartöflunar sem er að finna í svari við 4. lið.

     8.      Hversu margir sýknudómar hafa verið kveðnir upp í nauðgunarmálum á ári frá 1977 til 2000?
     9.      Hversu margir dómar hafa fallið í nauðgunarmálum þar sem sakfellt hefur verið fyrir nauðgun eða tilraun til nauðgunar á ári frá 1977 til 2000?

    Svör við þessum liðum fyrirspurnarinnar er að finna í samantektartöflu í svari við 4. lið og vísast til hennar.

     10.      Hversu mörgum dómum í nauðgunarmálum hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar og hvernig hafa dómar í þeim málum falið?

    Hér er einnig hægt að vísa til samantektartöflu í svari við 4. lið en alls hefur 46 nauðgunarmálum verið áfrýjað til Hæstaréttar á þessu tímabili. Af þeim hefur Hæstiréttur sakfellt í 37 málum, sýknað í sjö, eitt mál er ódæmt og einu sinni hefur verið fallið frá áfrýjun.

     11.      Er um þessar mundir unnið að sértækum aðgerðum á vegum dómsmálaráðuneytisins til að bregðast við ástandinu í þessum málaflokki eða stemma stigu við brotum af þessu tagi?

    Mikil vinna hefur verið lögð í úrbætur á lagaumgjörð og málsmeðferð. Dómsmálaráðherra hefur lagt mikla áherslu á úrbætur á stöðu brotaþola í kynferðismálum og þá sérstaklega barna sem hafa orðið þolendur kynferðisbrota. Nefna má viðamiklar breytingar sem gerðar hafa verið á lögum um meðferð opinberra mála sem tryggja brotaþola í slíkum málum aðstoð réttargæslumanns í tengslum við rannsókn og rekstur sakamáls gegn meintum brotamanni. Enn fremur er þess að geta að á síðastliðnu ári var bætt inn í almenn hegningarlög ákvæði með það markmið að veita vitnum í sakamálum sérstaka refsivernd gegn hótunum og þvingunum. Ætla má að þessi réttarvernd eigi sérstaklega við í nauðgunarmálum. Þá má einnig geta nýlegra breytinga varðandi nálgunarbann sem meðal annars hefur það að markmiði að vernda fórnarlömb ofbeldisbrota og fyrirbyggja frekara ofbeldi. Kappkostað er að gera þessi mál sem best úr garði svo vel megi við una. Þótt verulega margt hafi áunnist á þessu sviði undanfarinn áratug er brýn þörf á að halda áfram þeirri vinnu að bæta stuðnings- og meðferðarúrræði fyrir fórnarlömb kynferðisbrota. Jafnframt er þarft að kanna hvernig betur er hægt að tryggja aðbúnað og aðstöðu þeirra sem leita réttar síns vegna kynferðisbrota, enda ljóst að hér er um mjög vandmeðfarin tilfinningamál að ræða. Þá má einnig geta þess að dómsmálaráðherra hefur átt mjög gott samstarf við Neyðarmóttökuna, Samtök um kvennaathvarf og Stígamót og verður því haldið áfram.
    Sönnunarstaða í þessum málum er oft erfið og því sérstaklega mikilvægt að vanda mjög til allrar málsmeðferðar. Lögreglan hefur lagt mikla áherslu að vanda sem best til rannsóknar slíkra mála og má sem dæmi nefna að í Lögregluskóla ríkisins er frumrannsókn kynferðisbrotamála sérstaklega skoðuð ofan í kjölinn. Er óhætt að fullyrða að mikill metnaður sé hjá lögreglumönnum að tryggja að rannsókn kynferðisbrotamála sé bæði skilvirk og nákvæm. Þá má einnig nefna að þessi mál hljóta sérstakan forgang hjá lögreglu. Hér má einnig geta þess að ríkissaksóknari hefur myndað starfshóp til að gera könnun á meðferð nauðgunarmála, rannsókn og saksókn, meðal annars vegna þeirrar umræðu í þjóðfélaginu að mikill hluti nauðgunarmála falli niður í meðferð lögreglu og ákæruvalds. Að þessu sögðu er óhætt að fullyrða að mál þessi séu í sífelldri skoðun í dómsmálaráðuneytinu, sem og í refsivörslukerfinu.