Ferill 331. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 561  —  331. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um rafrænt upplýsingakerfi bókasafna.

     1.      Verður tekið tillit til þegar útlagðrar vinnu og kostnaðar við rafræna skráningu þeirra bókasafna sem skráð hafa söfn sín í gagnasafnið Feng við yfirfærslu skráninganna í nýstofnað Landskerfi bókasafna hf.?
    Eitt meginmarkmið með sameiginlegu bókasafnskerfi fyrir landið er samnýting rafrænnar skráningar. Þannig sparast mikil vinna þar sem í hinu nýja Landskerfi verður hver bók og annað efni bókasafna einungis skráð einu sinni. Skilyrði fyrir þátttöku í Landskerfi bókasafna er að söfnin leggi til sínar bókfræðifærslur til að byggja upp sameiginlegan gagnagrunn bókfræðifærslna. Afar erfitt er að meta þá vinnu og kostnað sem ýmis bókasöfn landsins hafa þegar lagt í rafræna skráningu bókakosts síns og því er ekki unnt að taka tillit til þess við yfirfærslu.

     2.      Verður kostnaður við undirbúning að samruna Fengs og Gegnis, bókasafns- og upplýsingakerfanna, styrktur úr ríkissjóði?

    Ríkissjóður hefur borið mestallan kostnað við val á hinu nýja kerfi sem staðið hefur yfir í þrjú ár. Hið nýja hlutafélag Landskerfi bókasafna hf., sem er í eigu ríkis og sveitarfélaga, hefur nú tekið við umsjón með kerfinu og mun standa straum af stofnkostnaði og rekstri þess. Félagið mun hafa umsjón með og greiða fyrir uppsetningu gagnagrunns, yfirfærslu gagna og þjálfun starfsfólks bókasafna. Bókasöfn bera ýmsan kostnað af því að fara yfir í nýtt kerfi en ekki er gert ráð fyrir styrkjum úr ríkissjóði vegna þess kostnaðar.

     3.      Hvaða tillit verður tekið til aukins rekstrarkostnaðar þeirra bókasafna sem hafa skráð í Feng og munu því reka tvöfalt skráningarkerfi eftir að Gegnir hefur verið yfirfærður í landskerfið og þar til Fengur er kominn yfir í það?

    Bókasöfn landsins nota í dag sex mismunandi skráningarkerfi. Gögnin úr þessum kerfum verða yfirfærð í mikilvægisröð þeirra. Gert er ráð fyrir að yfirfærsla úr öllum eldri kerfum muni taka allt að þremur árum. Áætlað er að Fengssöfn verði færð inn í kerfið hálfu ári síðar en Gegnissöfnin. Ætla má að töluverð hagræðing verði í rekstri bókasafna með hinu nýja kerfi og því óvíst hvort árlegur rekstrarkostnaður aukist þótt tvöfalt skráningarkerfi verði rekið í hálft ár í Fengssöfnum.

     4.      Hvernig verður gagnagrunnur Fengs metinn inn í Aleph 500 bókasafns- og upplýsingakerfið?

    Gagnagrunnur Fengs verður ekki metinn sérstaklega inn í kerfið frekar en grunnar annarra skráningarkerfa. Eftir að Fengur sameinast Gegni og hinum kerfunum hverfa einstakir gagnagrunnar til hagræðis fyrir landsmenn sem munu alltaf leita í sameiginlegum bókfræðigrunni allra safna landsins. Með sameiginlegum gagnagrunni næst þjóðhagsleg hagræðing þar sem margskráning bókfræðifærslna leggst af, hagkvæmni í innkaupum eykst því að dregið verður úr tvíkaupum og þar með er hægt að auka fjölbreytni safnkosts á landsvísu. Síðast en ekki síst verður aðgengi landsmanna að upplýsingum um bókakost jafnað og það verður óháð búsetu.

     5.      Verður farið að tillögu samstarfshóps um menningarmál um að komið verði á þróunarsjóði bókasafna með 8 millj. kr. fjárframlagi úr ríkissjóði árið 2002?

    Ekki er gert ráð fyrir þessari fjárveitingu í fjárlögum 2002.