Ferill 405. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 662  —  405. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um endurheimt Drekkingarhyls í Almannagjá.

Flm.: Mörður Árnason, Karl V. Matthíasson.



    Alþingi ályktar að fela Þingvallanefnd, sbr. 5. gr. laga nr. 59/1928, um friðun Þingvalla, að láta kanna hvernig Drekkingarhylur í Almannagjá getur heimt aftur sinn forna svip.

Greinargerð.


    Þingvellir eru einstæður staður að náttúru og sögu. Innan þinghelginnar fer víða ágætavel saman hin náttúrlega sköpun og framlag mannshandarinnar og má nú heita að hvorugt geti án annars verið.
    Nokkrar undantekningar eru þó á þessu fagurlega samræmi, og hafa áar okkar á stöku stað ekki gætt þess í framkvæmdagleði sinni að taka nægilegt tillit til umhverfisins og hinnar sögulegu arfleifðar.
    Svo er háttað um Drekkingarhyl nyrst í Almannagjá þar sem nú er grunnur pollur sem stendur illa undir nafni. Áður var hér djúpur hylur eða svelgur framan við þröngt klettahaft og féll áin yfir það í talsverðum fossi sem í heimildum er helst kallaður Neðrifoss. Konur sem fundnar voru brotlegar við ákvæði Stóradóms um óhæfu og fordæðuskap voru settar í hærusekk og drekkt í hylnum, sennilega kastað í hann austanmegin af klettunum, og sá svelgurinn um það með iðuköstum sínum að dauðastríð þeirra tæki fljótt af.
    Breytingar við Drekkingarhyl eiga sér þá sögu að árið 1911 var ákveðið að leggja steinbrú yfir Öxará framan hylsins í stað trébrúar sem þar hafði verið lögð 1897. Við brúarsmíðina var farið fram af allmiklum ákafa, enda komin sú öld að „þótt þjaki böl með þungum hramm / þrátt fyrir allt þú skalt, þú skalt samt fram“ og skipti þá minna máli hvað fyrir varð. Við brúargerðina var allmikið af gjárhaftinu sprengt í loft upp með dínamíti og var þá burtu í senn fossbrúnin og hylbarmurinn. Vatnsborð hylsins lækkaði og hinn fagri Neðrifoss breyttist í flúð. Við síðari endurbætur á brúnni hvarf enn meira af klettasnösinni, þar á meðal sú brík sem hinum gæfusnauðu konum var hrundið fram af.
    Mannvirkið sem þarna var reist kallar Björn Th. Björnsson listfræðingur „[einhverja] ófegurstu brú sem getur“ í bók sinni um Þingvelli sem hér er stuðst við ( Þingvellir, staðir og leiðir, Reykjavík 1984), en brúin er sögð bæði „smekklaus og klunnaleg“ í greinargerð með frumvarpi um friðun Þingvalla frá 1928. Þessi brú er í núverandi gerð orðin með öllu óþörf þar sem umferð bifreiða hefur fyrir alllöngu verið bægt frá Almannagjá.
    Ekki er hægt að endurskapa Drekkingarhyl og nágrenni hans í upphaflegri mynd. Unnt er þó að bæta að nokkru fyrir þá eyðilegging sem orðin er. Björn Th. Björnsson leggur í bók sinni fram þessa tillögu (bls. 73): „Brú þessa verður að fjarlægja, en leggja í stað yfir svipfallega göngubrú, og hækka þarf árhaftið, svo hvorttveggja, hylur og foss, heimti aftur sinn forna svip.“
    Þannig yrði þessu náttúruvætti innan þinghelginnar sýndur sá sómi sem við á, og væri við hæfi að helga þetta verk minningu þeirra kvenna sem hér mættu örlögum sínum. Í þessari tillögu til þingsályktunar er lagt til að kannað verði hvort hægt er með góðu móti að gera veruleika úr þessari tillögu — eða kröfu — Björns Th. Björnssonar og lagt fjárhagsmat á þá kosti sem til greina koma.