Ferill 406. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 663  —  406. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um fullgildingu alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að fullgilda fyrir Íslands hönd alþjóðasamning um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem samþykktur var var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 15. desember 1997 og alþjóðasamning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sem samþykktur var af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York 9. desember 1999.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.



I. Inngangur.
    Hryðjuverkaárásin á Bandaríkin 11. september 2001 hefur kallað á hörð viðbrögð ríkja heims og hvatt þau til að leita allra tiltækra leiða til þess að efla varnir gegn hryðjuverkum og tryggja öryggi borgara. Hryðjuverk þessi hafa vakið ríki til vitundar um að hryðjuverk og hryðjuverkastarfsemi eru orðin ein mesta ógn sem steðjar að friði í heiminum og um það gífurlega manntjón og eignatjón sem hryðjuverk geta valdið. Þær aðferðir sem hryðjuverkamenn beita hafa einnig vakið sérstakan ugg þar sem þeir virðast ekki hika við að tortíma sjálfum sér til þess að ná fram markmiðum sínum. Hefðbundin sjónarmið um varnaðaráhrif þess að leggja þungar refsingar við hryðjuverkum eiga því ekki við með sama hætti og áður. Enn fremur veldur áhyggjum að skipulögð starfsemi hryðjuverkahópa nær til margra ríkja í senn og mikið fjármagn streymir til hennar. Af framansögðu leiðir að brýnt hefur verið talið að kveða í alþjóðasamningum og innlendri refsilöggjöf á um markvissari úrræði í baráttunni gegn hryðjuverkum, ekki aðeins gagnvart gerendum sjálfum heldur einnig þeim sem leggja hryðjuverkastarfsemi lið, t.d. með fjármögnun hennar. Hefur m.a. verið talin rík þörf á að kveða skýrt á um að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé sjálfstæður refsiverður verknaður og setja reglur um skyldur fjármálastofnana þegar grunur leikur á fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum var öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kallað saman. Með ályktun öryggisráðsins nr. 1368 (2001) 12. september 2001 voru hryðjuverkin fordæmd og ríki heims hvött til að vinna saman að því að leita þá uppi sem stóðu á bak við þau og koma lögum yfir þá. Einnig voru ríki hvött til að fullgilda fyrirliggjandi alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum og hrinda ákvæðum þeirra í framkvæmd.
    Í II. kafla er gefið yfirlit yfir alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum, fjölda aðildarríkja þeirra miðað við 6. desember 2001 og stöðu Íslands gagnvart þessum samningum. Eins og þar kemur fram er Ísland þegar aðili að meiri hluta samninganna, en stefnt er að fullgildingu þeirra samninga sem Ísland er ekki aðili að fyrir vorið 2002. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar þeirra tveggja samninga sem telja verður mikilvægasta af þeim hryðjuverkasamningum sem Ísland er ekki þegar aðili að. Annars vegar er um að ræða alþjóðasamning um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar frá 15. desember 1997 og er fjallað um hann í III. kafla. Hins vegar er um að ræða alþjóðasamning um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi frá 9. desember 1999 og er fjallað um hann í IV. kafla.
    Fullgilding þessara tveggja alþjóðasamninga kallar á breytingar á lögum hér á landi. Dómsmálaráðuneytið hefur í undirbúningi frumvarp þar að lútandi sem dómsmálaráðherra mun leggja fyrir Alþingi á yfirstandandi löggjafarþingi. Í frumvarpinu verða lagðar til breytingar á ákvæðum almennra hegningarlaga, nr. 19/1940, og laga um refsiábyrgð lögaðila vegna mútugreiðslu til opinbers starfsmanns, nr. 144/1998.
    Þess ber að geta að 28. september 2001 samþykkti öryggisráð Sameinuðu þjóðanna ályktun nr. 1373 (2001) um aðgerðir til að hindra fjármögnun hryðjuverka o.fl. Ályktunin er samþykkt á grundvelli VII. kafla sáttmála Sameinuðu þjóðanna sem heimilar ráðinu að taka ákvarðanir vegna sérstakrar nauðsynjar til að tryggja frið þegar talið er að heimsfriði sé stefnt í hættu. Ályktunin er þjóðréttarlega skuldbindandi fyrir Ísland á sama hátt og alþjóðasamningur sem hefur verið fullgiltur af þess hálfu. Markmið ályktunarinnar er sambærilegt markmiði alþjóðasamnings um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi en ályktunin gengur þó að sumu leyti lengra. Á grundvelli 3. gr. laga nr. 5/1969, um framkvæmd fyrirmæla öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, var ályktuninni komið til framkvæmda hér á landi með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda nr. 867 hinn 14. nóvember 2001. Gert er ráð fyrir að áðurnefnt lagafrumvarp dómsmálaráðherra, auk lagafrumvarps sem er í undirbúningi í viðskiptaráðuneytinu til þess að koma í framkvæmd ákvæðum ályktunar nr. 1373 (2001) sem varða skyldur fjármálastofnana, muni leysa auglýsinguna af hólmi, enda verði frumvörpin að lögum.

II. Yfirlit um alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum.
     1.      Samningur varðandi lögbrot og aðra verknaði í loftförum/Convention on Offences and Certain Other Acts Committed on Board Aircraft, 14.9.1963.
        Fjöldi aðildarríkja: 172.
        Ísland gerðist aðili að samningnum 16. mars 1970 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 14. júní 1970, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 11/1970.
     2.      Samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara (Haag-samningur)/ Convention for the Suppression of Unlawful Seizure of Aircraft (Hague), 16.12.1970.
        Fjöldi aðildarríkja: 174.
        Ísland gerðist aðili að samningnum 29. júní 1973 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 30. júlí 1973, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 12/1973.
     3.      Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna/Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation, 23.9.1971.
        Fjöldi aðildarríkja: 175.
        Ísland gerðist aðili að samningnum 29. júní 1973 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 30. júlí 1973, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 13/1973.
     4.      Samningur um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum/Convention on the Prevention and Punishment of Crimes against Internationally Protected Persons, including Diplomatic Agents, 14.12.1973.
        Fjöldi aðildarríkja: 112.
        Ísland fullgilti samninginn 2. ágúst 1977 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 1. september 1977, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 15/1977.
     5.      Evrópusamningur um varnir gegn hryðjuverkum/European Convention on the Suppression of Terrorism, 27.1.1977.
        Fjöldi aðildarríkja: 36.
        Ísland fullgilti samninginn 11. júlí 1980 og öðlaðist hann gildi að því er Ísland varðar 12. október 1980, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 14/1980.
     6.      Alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla/International Convention against the Taking of Hostages, 17.12.1979.
        Fjöldi aðildarríkja: 102.
        Ísland fullgilti samninginn 6. júlí 1981 og öðlaðist hann gildi 3. júní 1983, sbr. auglýsingar í C-deild Stjórnartíðinda nr. 17/1981 og 3/1983.
     7.      Samningur um gæslu kjarnorkuefna/Convention on the Physical Protection of Nuclear Material, 3.3.1980.
        Fjöldi aðildarríkja: 69.
        Ísland er ekki aðili að samningnum, en stefnt er að aðild að honum fyrir vorið 2002.
     8.      Bókun við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, um að koma í veg fyrir ofbeldisverk á flugvöllum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð/Protocol for the Suppression of Unlawful Acts of Violence at Airports Serving International Civil Aviation, supplementary to the Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation, 24.2.1988.
        Fjöldi aðildarríkja: 107.
        Ísland fullgilti bókunina 9. maí 1990 og öðlaðist hún gildi að því er Ísland varðar 8. júní 1990, sbr. auglýsingu í C-deild Stjórnartíðinda nr. 9/1990.
     9.      Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó/ Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Maritime Navigation, 10.3.1988.
        Fjöldi aðildarríkja: 57.
        Ísland er ekki aðili að samningnum, en stefnt er að aðild að honum fyrir vorið 2002.
     10.      Bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu/Protocol for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Fixed Platforms Located on the Continental Shelf, 10.3.1988.
        Fjöldi aðildarríkja: 52.
        Ísland er ekki aðili að bókuninni, en stefnt er að aðild að henni fyrir vorið 2002.
     11.      Samningur um merkingar á plastsprengiefni til auðkenningar á því/Convention on the Marking of Plastic Explosives for the Purpose of Detection, 1.3.1991.
        Fjöldi aðildarríkja: 71.
        Ísland er ekki aðili að samningnum, en stefnt er að aðild að honum fyrir vorið 2002.
     12.      Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar/International Convention for the Suppression of Terrorist Bombings, 15.12.1997.
        Fjöldi aðildarríkja: 45.
        Ísland undirritaði samninginn 28. september 1998. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar samningsins.
     13.      Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi/ International Convention for the Suppression of the Financing of Terrorism, 9.12.1999.
        Fjöldi aðildarríkja: 15.
        Ísland undirritaði samninginn 1. október 2001. Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til fullgildingar samningsins.

III. Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. desember 1997. Samningurinn lá frammi til undirritunar frá 12. janúar 1998 til 31. desember 1999 og undirrituðu 58 ríki hann. Hann var undirritaður af Íslands hálfu 28. september 1998. Samningurinn öðlaðist gildi 23. maí 2001, þrjátíu dögum eftir afhendingu tuttugasta og annars fullgildingarskjalsins, en aðildarríki hans voru 6. desember 2001 orðin 45 talsins. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal I með þingsályktunartillögu þessari.
    Markmið samnings þessa er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkasprengingum. Samningurinn stefnir að því að refsiviðurlögum verði komið yfir þá sem fremja hryðjuverk með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum, t.d. útbreiðslu eiturefna eða smitandi sjúkdóma, geislavirkni og öðrum áþekkum aðferðum. Með því að gerast aðilar að samningnum skuldbinda ríki sig þess að fallast á ákveðnar skilgreiningar sem kveða á um að hryðjuverk sem framin eru með sprengingum eða öðrum lífshættulegum aðferðum séu refsiverður verknaður sem teljist til alvarlegustu brota samkvæmt refsilöggjöf þeirra. Að auki eru í samningnum reglur um refsilögsögu, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð til þess að greiða fyrir því að unnt sé að koma fram refsingu gagnvart brotamönnum án tillits til þess hvar brotið er framið eða þjóðernis eða dvalarstaðar brotamanns.
    Í 1. gr. samningsins, sem er eitt kjarnaákvæða hans, er að finna skilgreiningar hugtaka sem notuð eru í ákvæðum samningsins til afmörkunar á refsiábyrgð vegna hryðjuverka sem aðildarríkjum er skylt að mæla fyrir um í landslögum sínum. Hugtökin lúta einkum að þeim stöðum eða starfsemi sem hryðjuverk beinast að og þeim aðferðum sem hryðjuverkamenn nota til að valda tjóni. Í 1. mgr. greinarinnar er þannig skilgreind „aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“, en þar er átt við hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra. Í 2. mgr. er skilgreint hugtakið „almenningsmannvirki“, en með því er átt við öll mannvirki í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem veita eða dreifa þjónustu í þágu almennings, svo sem vatnsveitur, skolplagnir, orkuleiðslur, eldsneytisleiðslur eða samgöngumannvirki. Í 3. mgr. eru skilgreindar aðferðir hryðjuverkamanna sem aðildarríkjum er skylt að leggja refsingu við. Eru hugtökin „sprengja eða önnur lífshættuleg aðferð“ skilgreind í þessu skyni sem vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda mönnum bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með sprengingu eða íkveikju, ellegar vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með því að leysa frá sér eða dreifa eiturefnum, lífrænum efnum eða eitri eða áþekkum efnum, eða geislavirkni eða geislavirkum efnum.
    Í 4. mgr. 1. gr. samningsins er skilgreint hugtakið „her ríkis“, en með því er átt við her ríkis sem skipulagður er, þjálfaður og útbúinn samkvæmt landslögum þess fyrst og fremst í því skyni að halda uppi landvörnum og öryggi, og menn sem eru hernum til stuðnings og lúta formlegu skipunarvaldi hans og stjórn og starfa á ábyrgð hans. Loks kveða 5. og 6. mgr. á um skilgreiningu hugtakanna „almenningsstaðir“ og „almenningssamgöngukerfi“. Með almenningsstöðum er átt við þá hluta byggingar, landsvæðis, vegar, vatnaleiðar eða annars staðar sem aðgengilegir eru eða opnir almenningi, hvort sem það er alltaf, reglulega eða af og til, og falla þar undir staðir þar sem stunduð er verslun, atvinnurekstur eða menningarstarfsemi, sögustaðir, staðir til menntunar- eða trúariðkunar, opinberir stjórnarstaðir, skemmti- og frítímastaðir og áþekkir staðir sem eru aðgengilegir eða opnir almenningi. Með almenningssamgöngukerfi er átt við alla aðstöðu, samgöngutæki og búnað, hvort sem er í opinberri eigu eða í einkaeign, sem notuð eru til flutninga á fólki eða vörum og eru almenningi til afnota.
    Annað helsta kjarnaákvæði samningsins er 2. gr. hans þar sem fram kemur ítarleg skilgreining á þeirri háttsemi sem telst afbrot í skilningi samningsins. Samkvæmt 1. mgr. fremur sá afbrot í skilningi samningsins sem með ólögmætum hætti og af ásetningi fer með sprengju eða með annarri lífshættulegri aðferð inn á, inn í eða gegn almenningsstað, aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda, almenningssamgöngukerfi eða almenningsmannvirki, kemur henni þar fyrir, gerir hana virka eða sprengir hana í þeim ásetningi að valda bana eða alvarlegu líkamstjóni, eða að valda umfangsmikilli eyðileggingu á viðkomandi stað, aðstöðu eða kerfi, og eyðileggingin veldur eða er líkleg til að valda miklu efnahagslegu tjóni. Í 2. mgr. er kveðið á um að tilraun til brots skv. 1. mgr. skuli einnig vera refsiverð. Í 3. mgr. er síðan mælt fyrir um að hlutdeild í afbroti skv. 1. eða 2. mgr. skuli vera refsiverð, svo og skipulagning eða stjórn á framkvæmd þess. Loks segir í c-lið 3. mgr. að það skuli einnig talið afbrot í skilningi samningsins að stuðla með einhverjum öðrum hætti að því að hópur manna, sem starfar að sameiginlegu markmiði, fremji eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr., enda sé það gert af ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, eða gert með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja slík brot.
    Skoða verður skilgreiningar á refsiverðri háttsemi samkvæmt samningnum með hliðsjón af 4. gr. samningsins þar sem lýst er skyldum aðildarríkja til að gera afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hans refsiverð samkvæmt landslögum sínum og leggja viðeigandi refsingu við þeim, þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra. Einnig verður að skoða ákvæði 2. gr. samningsins í ljósi 5. gr. hans. Þar er kveðið svo á að hvert aðildarríki skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samninginn, einkum ef þeim er ætlað eða þau eru við það miðuð að leiða til ógnarástands meðal almennings, hópa eða einstaklinga, séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga, og að fyrir þau sé refsað í samræmi við alvarleika þeirra.
    Í 3. gr. samningsins er tekið fram að hann gildi ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður og fórnarlömb afbrotsins eru ríkisborgarar þess ríkis, hinn meinti brotamaður er á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu.
    Fjallað er um refsilögsögu í 6. gr. samningsins. Samkvæmt 1. mgr. skal hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar brotið er framið á yfirráðasvæði þess, brotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið, eða þegar brotið er framið af ríkisborgara þess. Samkvæmt 2. mgr. 6. gr. getur aðildarríki einnig aflað sér lögsögu vegna slíks afbrots þegar brotið er framið gegn ríkisborgara þess, brotið beinist gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldu sendiráði þess eða ræðisskrifstofu, brotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis, brotið er framið í viðleitni til að neyða viðkomandi ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert eða brotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis. Í framangreindum tilvikum er um að ræða heimild fyrir aðildarríki að samningnum til að afla sér lögsögu en ekki fortakslausa skyldu. Samkvæmt 3. mgr. ber hverju aðildarríki þegar það fullgildir samninginn að tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér að eigin landslögum í samræmi við 2. mgr. Í 4. mgr. 6. gr. er kveðið á um skyldu aðildarríkis til að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota skv. 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr.
    Í 7.–10. gr. samningsins, svo og 14. gr., eru ákvæði um rannsókn sakamáls vegna afbrota sem talin eru í samningnum, um framsal vegna slíkra brota og um alþjóðlega réttaraðstoð. Er hér um að ræða sambærileg ákvæði og eru í 6., 8., 10. og 11. gr. alþjóðasamnings um varnir gegn töku gísla frá 17. desember 1979, svo og 6.–10. gr. samnings um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, frá 14. desember 1973, en Ísland er eins og að framan greinir aðili að báðum þessum samningum.
    Í 13. gr. samningsins er kveðið á um heimild til að flytja mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis til annars aðildarríkis, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum, ef óskað er nærveru hans þar til vitnisburðar, persónugreiningar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem samningurinn tekur til. Er hér um að ræða sambærilegt ákvæði og í Evrópusamningi um gagnkvæma aðstoð í sakamálum frá 20. apríl 1959 sem Ísland er aðili að.
    Framangreind ákvæði um framsal og réttaraðstoð í alþjóðasamningnum um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar ber að skoða í ljósi 11. gr. hans sem fjallar um stjórnmálaafbrot. Samkvæmt þessu ákvæði má aðildarríki ekki líta á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli slíks afbrots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Bann þetta er fortakslaust og veitir aðildarríki ekki svigrúm til þess að meta hvort brot af þessu tagi geti talist stjórnmálaafbrot, eins og hefð er fyrir að unnt sé að gera fyrirvara um í alþjóðlegri samvinnu um framsal brotamanna.
    Þrátt fyrir fortakslausa framsalsskyldu skv. 11. gr. er aðildarríki kleift á grundvelli 12. gr. að synja um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð þótt um brot skv. 2. gr. sé að ræða ef það hefur ástæðu til að ætla að beiðni þar að lútandi sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.
    Í 15. gr. samningsins eru ákvæði um skyldu ríkja til að eiga samvinnu við önnur ríki til að koma í veg fyrir afbrot sem skilgreind eru í 2. gr. Sambærileg ákvæði er að finna í alþjóðasamningnum um varnir gegn töku gísla og samningnum um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum.
    Í 16.–18. gr. samningsins eru ýmis ákvæði varðandi innbyrðis samskipti aðildarríkja til að tryggja að framkvæmd þeirra samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og rétt ríkja til að ráða sínum innri málefnum.
    Í 19. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að samningurinn skuli engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum og meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannúðarlaga.
Loks eru ákvæði almenns eðlis í 20.–24. gr. samningsins um úrlausn deilumála varðandi túlkun eða beitingu samningsins og um undirritun, fullgildingu, gildistöku, uppsögn og frumtexta samningsins.

IV. Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.
    Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi var samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 9. desember 1999. Samningurinn var lagður fram til undirritunar 10. janúar 2000 og mun liggja frammi til og með 31. desember 2001. Hinn 6. desember 2001 höfðu 125 ríki undirritað hann. Samningurinn var undirritaður af Íslands hálfu 1. október 2001. Aðildarríki samningsins voru 15 talsins 6. desember 2001, en hann mun öðlast gildi þrjátíu dögum eftir afhendingu tuttugasta og annars fullgildingarskjalsins. Samningurinn er prentaður sem fylgiskjal II með þingsályktunartillögu þessari.
    Markmið samnings þessa er að efla alþjóðlega samvinnu um varnir gegn hryðjuverkum og fjölga úrræðum til þess að unnt verði að koma fram refsiviðurlögum gagnvart þeim sem fjármagna hryðjuverkastarfsemi. Með aðild að samningnum gangast ríki undir skuldbindingar um að fallast á ákveðnar skilgreiningar varðandi tilflutning og öflun fjármuna með vitneskju um að þá skuli nota til hryðjuverkastarfsemi, og að slík háttsemi teljist afbrot sem þungar refsingar verði lagðar við, bæði gagnvart einstaklingum og lögaðilum. Að auki leggur samningurinn þær skyldur á aðildarríki að skilgreina rúmt hlutdeild í fjármögnun hryðjuverkastarfsemi. Loks eru í samningnum ákvæði um refsilögsögu, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð sem stefna m.a. að því að unnt verði að koma fram refsiábyrgð án tillits til þess hvar brot er framið eða til þess hvar brotamaður dvelst.
    Í 1. gr. samningsins eru skilgreiningar hugtaka sem notuð eru í samningnum til þess að afmarka refsiábyrgð samkvæmt honum. Í 1. mgr. er hugtakið „fjármunir“ skilgreint, en með því er átt við eignir, hverjar sem er, áþreifanlegar eða óáþreifanlegar, fasteignir eða lausafé, hvernig sem þeirra hefur verið aflað, og lagaleg skjöl í hvaða formi sem er, þar með talið í rafrænu eða stafrænu formi, sem sýna fram á eignarrétt yfir þeim eða rétt til þeirra, svo sem yfirdráttarheimildir, ferðatékka, bankatékka, peningaávísanir, hlutabréf, verðbréf, skuldabréf, skuldaviðurkenningar og bankaábyrgðir. Í 2. mgr. er skilgreind „aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ en með henni er átt við hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra. Er hér um að ræða samhljóða skilgreiningu og í 1. mgr. 1. gr. alþjóðasamningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar. Loks er hugtakið „ávinningur“ skilgreint í 3. mgr. 1. gr. sem fjármunir sem renna frá eða er aflað, beint eða óbeint, með afbroti sem fjallað er um í 2. gr. samningsins.
    Kjarnaákvæði samningsins er í 2. gr. hans þar sem skilgreind er sú háttsemi sem aðildarríkjum er skylt að gera refsiverða en það er hvers konar fjárhagslegur stuðningur við hryðjuverkastarfsemi. Samkvæmt 1. mgr. 2. gr. fremur sá maður afbrot í skilningi samningsins sem með einhverjum hætti, beint eða óbeint, en með ólögmætum hætti og af ásetningi, útvegar eða safnar fjármunum í því skyni að þeir verði notaðir, eða í vitneskju um að þeir skuli notaðir, að einhverju leyti eða öllu til að vinna:
     a.      verk sem felur í sér afbrot samkvæmt efni einhvers þeirra þjóðréttarsamninga sem tilgreindir eru í viðauka við samninginn og eins og þar er skilgreint, eða
     b.      eitthvert annað verk sem ætlað er að valda almennum borgara, eða öðrum manni sem ekki tekur þátt í vopnaviðskiptum í ófriði, bana eða alvarlegu líkamstjóni, ef tilgangur verksins samkvæmt eðli þess eða samhengi er að ógna almenningi eða þvinga ríkisstjórn eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert.
Skilgreining refsiábyrgðar skv. 1. mgr. er tvíþætt. Annars vegar er í a-lið vísað til fjárhagslegs stuðnings við háttsemi sem skilgreind er í fyrri alþjóðasamningum á vegum Sameinuðu þjóðanna og taldir eru í viðauka við samninginn, en samninga þessara var allra getið í yfirlitinu um alþjóðasamninga gegn hryðjuverkum í II. kafla hér að framan. Hins vegar er í b-lið sett fram almenn skilgreining á hryðjuverki. Samkvæmt a-lið 2. mgr. getur aðildarríki að samningnum, sem ekki er aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum, lýst því yfir að við beitingu samnings þessa að því er það varðar skuli litið svo á að sá þjóðréttarsamningur sé ekki tilgreindur í viðauka þeim sem fjallað er um í a-lið 1. mgr. Yfirlýsingin skal falla úr gildi um leið og þjóðréttarsamningurinn öðlast gildi að því er viðkomandi aðildarríki varðar.
    Samkvæmt 3. mgr. 2. gr. er það ekki skilyrði refsiábyrgðar skv. 1. mgr. að fjármunir hafi í raun verið notaðir til að fremja afbrot sem fjallað er um í a- eða b-lið ákvæðisins. Er ásetningurinn eða vitneskjan um að nota eigi fjármunina í þessu skyni því nægileg. Í 4. mgr. er kveðið á um skyldu aðildarríkja til þess að gera refsiverða tilraun til að fremja afbrot skv. 1. mgr. Í 5. mgr. er lýst reglum um hlutdeild í brotum skv. 1. eða 4. mgr. Samkvæmt ákvæðinu skal það einnig teljast afbrot að eiga hlutdeild í broti skv. 1. eða 4. mgr., svo og að skipuleggja slíkt brot eða stjórna framkvæmd þess. Samkvæmt c-lið 5. mgr. telst það einnig vera brot að stuðla að því að hópur manna, er starfar að sameiginlegu markmiði, fremji eitt eða fleiri brot skv. 1. eða 4. mgr. Það skilyrði er sett að það sé gert með ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, enda feli starfsemin eða markmiðið í sér að framið sé afbrot skv. 1. mgr. þessarar greinar, ellegar með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja afbrot skv. 1. mgr.
    Ákvæði 2. gr. um skilgreiningu afbrots samkvæmt samningnum ber að skoða með hliðsjón af 4. gr. samningsins sem kveður á um að hvert aðildarríki skuli gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. refsiverð samkvæmt landslögum sínum og leggja viðeigandi refsingu við þeim brotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra. Einnig verður að skoða ákvæði 2. gr. í ljósi 5. gr. samningsins um ábyrgð lögaðila. Er í 1. mgr. 5. gr. kveðið á um að hvert aðildarríki skuli í samræmi við meginreglur landslaga sinna gera nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að gera lögaðila á yfirráðasvæði þess eða stofnsettan samkvæmt lögum þess ábyrgan ef maður sem stjórnar eða stýrir lögaðilanum hefur í þeim starfa sínum framið brot sem tilgreint er í 2. gr. Ábyrgðin getur verið á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar. Er tekið fram í 2. mgr. 5. gr. að slíkri ábyrgð skuli lögaðili sæta án þess að hún hafi áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem brotin fremja. Samkvæmt 3. mgr. 5. gr. skal hvert aðildarríki sérstaklega sjá til þess að lögaðilar sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við 1. mgr. séu beittir virkum viðurlögum á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar sem séu í samræmi við tilefni þeirra og feli í sér varnað, þar með töldum fjárhagslegum viðurlögum. Loks verður að skoða 2. gr. í ljósi 6. gr. samningsins sem kveður á um skyldur aðildarríkis til að tryggja að afbrot sem falla undir samninginn séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga.
    Samkvæmt 3. gr. samningsins gildir hann ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður er ríkisborgari þess, er staddur á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu.
    Ákvæði um refsilögsögu eru í 7. gr. samningsins. Aðildarríki ber skv. 1. mgr. skylda til að gera ráðstafanir svo að unnt sé að afla lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar brotið er framið á yfirráðasvæði þess, um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið eða það er framið af ríkisborgara þess. Samkvæmt 2. mgr. getur aðildarríki einnig aflað lögsögu vegna slíks brots í eftirfarandi tilvikum: brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. á yfirráðasvæði aðildarríkis eða gegn ríkisborgara þess; brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. og beinist gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldum sendiráðum þess eða ræðisskrifstofum; brotið er tilgreint í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. og er framið í því skyni að neyða viðkomandi ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert; brotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis; eða brotið er framið um borð í loftfari á vegum þess ríkis. Í framangreindum tilvikum er um að ræða heimild fyrir aðildarríki að samningnum til að afla sér lögsögu en ekki fortakslausa skyldu. Samkvæmt 3. mgr. ber hverju aðildarríki þegar það fullgildir samninginn að tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér í samræmi við 2. mgr. Ákvæði 4. mgr. leggur þá skyldu á aðildarríki að gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. Ef fleiri en eitt aðildarríki telja til lögsögu vegna slíkra brota skulu þau leitast við að samræma gerðir sínar á viðeigandi hátt, einkum hvað snertir skilyrði saksóknar og hvernig gagnkvæm réttaraðstoð skuli veitt, sbr. ákvæði 5. mgr. 7. gr. Loks er kveðið á um það í 6. mgr. 7. gr. að með fyrirvara um gildi almennra reglna þjóðaréttar útiloki samningurinn ekki að aðildarríki beiti hverri þeirri refsilögsögu sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.
    Í 8. gr. samningsins er fjallað um ráðstafanir sem aðildarríkjum ber að grípa til svo unnt verði að finna, greina og kyrrsetja eða leggja hald á fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja brot þau sem fjallað er um í 2. gr., svo og ávinning af slíkum brotum, með tilliti til hugsanlegrar upptöku síðar. Í 2. mgr. er kveðið á um að ríki skuli gera viðeigandi ráðstafanir til að gera upptæka slíka fjármuni og ávinning. Samkvæmt 4. mgr. greinarinnar skal hvert aðildarríki einnig taka til athugunar að koma á þeirri skipan að fjármagn, sem aflast hefur með upptöku, renni til þeirra sem hafa orðið fyrir brotum sem tilgreind eru í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr.
    Í 9.–12. gr. og 17. gr. samningsins eru ýmis ákvæði sem varða rannsókn mála, framsal og alþjóðlega réttaraðstoð. Er hér um að ræða ákvæði sambærileg 7.–10. og 14. gr. alþjóðasamningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar sem lýst er í III. kafla hér að framan, en þar er einnig vísað til ákvæða alþjóðasamnings um varnir gegn töku gísla og samnings um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum. Sú sérregla kemur þó fram í 2. mgr. 12. gr. að aðildarríki mega ekki hafna beiðni um gagnkvæma réttararaðstoð á grundvelli bankaleyndar.
    Einnig eru í 16. gr. samningsins heimildir til þess að flytja mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til persónugreiningar, vitnisburðar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr., ef hann gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja og viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjum samþykkja það. Sambærilegt ákvæði er í 13. gr. alþjóðasamningsins um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar og 11. gr. Evrópusamnings um gagnkvæma aðstoð í sakamálum.
    Ákvæði alþjóðasamningsins um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi um framsal og réttarastoð ber að skoða með hliðsjón af 13. og 14. gr. samningsins. Samkvæmt 13. gr. skal ekki litið á neitt það brot sem fjallað er um í 2. gr. sem skattabrot. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á þeirri forsendu einni að hún varði skattabrot. Eins segir í 14. gr. að ekki skuli litið á neitt það brot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli slíks brots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum.
    Þrátt fyrir framangreind ákvæði er aðildarríki kleift á grundvelli 15. gr. samningsins að synja um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð þótt um brot skv. 2. gr. sé að ræða ef það hefur ástæðu til að ætla að beiðni þar að lútandi sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.
    Í 18. gr. eru ákvæði um skyldu ríkja til að eiga samvinnu við önnur ríki um að koma í veg fyrir afbrot sem skilgreind eru í 2. gr. Sambærileg ákvæði er að finna í alþjóðasamningnum um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, alþjóðasamningi um varnir gegn töku gísla og samningi um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum. Þó gengur þetta ákvæði lengra að því leyti að skv. b-lið 1. mgr. skal ríki gera ráðstafanir þar sem þess er krafist af fjármálastofnunum og starfsgreinum þar sem fengist er við fjármálaviðskipti að beitt sé árangursríkustu aðferðum sem völ er á til að greina deili á reglulegum og tilfallandi viðskiptamönnum þeirra, svo og viðskiptamönnum sem fá reikninga opnaða í sína þágu, að sérstök athygli sé veitt óvenjulegum eða grunsamlegum viðskiptum og að tilkynnt sé um viðskipti sem grunur leikur á að eigi rætur að rekja til glæpastarfsemi. Í þessu skyni skulu aðildarríki taka til athugunar að setja reglur sem banna að reikningar séu opnaðir ef umráðamenn þeirra eða eigendur eru óþekktir eða ekki er unnt að greina hverjir þeir eru, og gera ráðstafanir til að tryggja að slíkar stofnanir sannreyni deili á raunverulegum eigendum. Eins skulu ríki krefjast þess af fjármálastofnunum, til að finna megi deili á lögaðilum, að þær geri þegar nauðsyn krefur ráðstafanir til að sannreyna að viðskiptaaðili sé til að lögum og hvert rekstrarform hans er með því að afla, annaðhvort úr opinberum skrám eða frá viðskiptaaðilanum eða hvort tveggja, sönnunar fyrir stofnun aðilans þar sem fram koma upplýsingar um nafn hans, rekstrarform og heimilisfang, hverjir stjórnendur hans eru og með hvaða hætti hann geti stofnað til skuldbindinga. Auk þess ber ríkjum að setja reglur sem leggja þá skyldu á fjármálastofnanir að tilkynna þegar í stað til viðeigandi yfirvalda um öll flókin, óvenjuleg og viðamikil viðskipti og óvenjuleg viðskiptamynstur sem ekki virðast hafa neinn efnahagslegan eða augljóslega löglegan tilgang og loks ber að gera fjármálastofnunum skylt að halda til haga öllum nauðsynlegum gögnum um viðskipti, innlend jafnt sem erlend, í að minnsta kosti fimm ár.
    Í 19., 20. og 22. gr. eru ýmis ákvæði varðandi innbyrðis samskipti aðildarríkja til að tryggja að framkvæmd þeirra samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra, og rétt ríkja til að ráða sínum innri málefnum.
    Í 21. gr. samningsins er ákvæði þess efnis að hann skuli engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannúðarlaga.
    Loks eru ákvæði almenns eðlis í 23.–28. gr. samningsins um breytingu á viðauka, úrlausn deilumála varðandi túlkun og beitingu samningsins, og um undirritun, fullgildingu, gildistöku, uppsögn og frumtexta samningsins.



Fylgiskjal I.


Alþjóðasamningur um að koma í veg
fyrir hryðjuverkasprengingar.


     Aðildarríki samnings þessa,
     hafa í huga tilgang og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að varðveita heimsfrið og öryggi og stuðla að velvild, vináttu og samvinnu meðal ríkja,

     hafa miklar áhyggjur af vaxandi hryðjuverkastarfsemi í heiminum í hverri mynd sem hún birtist,

     minnast yfirlýsingar í tilefni hálfrar aldar afmælis Sameinuðu þjóðanna hinn 24. október 1995,

     minnast einnig yfirlýsingar um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi er fylgdi ályktun allsherjarþingsins nr. 49/60 frá 9. desember 1994 þar sem því er meðal annars lýst yfir að „aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ítreka með alvöruþunga eindregna fordæmingu sína á öllum aðgerðum, aðferðum og atferli hryðjuverkamanna sem glæpsamlegu og óréttlætanlegu, hvar sem þau eru framin og af hverjum sem þau eru framin, þar á meðal aðgerðum, aðferðum og atferli sem stefna í hættu vinsamlegum samskiptum ríkja og þjóða og ógna friðhelgi og öryggi ríkja“,
     veita því athygli að í yfirlýsingunni eru aðildarríki einnig hvött til að „endurskoða án tafar umfang gildandi þjóðréttarreglna um varnir gegn hryðjuverkum, baráttu gegn þeim og útrýmingu þeirra, í hverri mynd sem þau birtast, í því skyni að tryggja að fyrir hendi sé lagalegur heildarrammi sem tekur til allra þátta málsins“,
     minnast einnig ályktunar allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996 og yfirlýsingar til viðbótar yfirlýsingunni frá 1994 um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi sem fylgir ályktuninni,
     veita því einnig athygli að árásir hryðjuverkamanna með sprengiefnum eða öðrum lífshættulegum aðferðum hafa orðið algengari,
     veita því enn fremur athygli að ekki er brugðist við þessum árásum á fullnægjandi hátt með núgildandi fjölhliða réttarreglum,
     eru sannfærð um að brýna nauðsyn beri til að auka samvinnu ríkja á milli við að móta og taka upp árangursríkar og hentugar ráðstafanir til að koma í veg fyrir slík hryðjuverk, sækja hryðjuverkamenn til saka og koma fram refsingu gagnvart þeim,
     telja að það sé öllu hinu alþjóðlega samfélagi mikið áhyggjuefni að slík verk skuli vera framin,

     veita því athygli að starfsemi herja ríkja lýtur reglum þjóðaréttar utan ramma þessa samnings og að þótt tilteknar aðgerðir falli ekki undir samning þennan leiðir ekki af því að aðgerðir, sem annars eru ólögmætar, séu umliðnar eða gerðar lögmætar, eða að ekki geti komið til saksóknar samkvæmt öðrum lögum,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Í samningi þessum merkir:
    1. „Aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra.
    2. „Almenningsmannvirki“ öll mannvirki í eigu opinberra aðila eða einkaaðila sem veita eða dreifa þjónustu í þágu almennings, svo sem vatnsveitur, skolplagnir, orkuleiðslur, eldsneytisleiðslur eða samgöngumannvirki.
    3. „Sprengja eða önnur lífshættuleg aðferð“:
     (a)      vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með sprengingu eða íkveikju; eða
     (b)      vopn eða aðferð sem ætlað er eða til þess er fallin að valda bana, alvarlegu líkamstjóni eða verulegu eignatjóni með því að leysa frá sér eða dreifa eiturefnum, lífrænum efnum eða eitri eða áþekkum efnum, eða geislavirkni eða geislavirkum efnum, eða blanda þessum efnum saman.
    4. „Her ríkis“ her ríkis sem skipulagður er, þjálfaður og útbúinn samkvæmt landslögum þess í því skyni fyrst og fremst að halda uppi landvörnum og öryggi, og menn sem eru hernum til stuðnings og lúta formlegu skipunarvaldi hans og stjórn og starfa á ábyrgð hans.
    5. „Almenningsstaðir“ þá hluta byggingar, landsvæðis, vegar, vatnaleiðar eða annars staðar sem aðgengilegir eru eða opnir almenningi, hvort sem það er alltaf, reglulega eða af og til, og falla þar undir staðir þar sem stunduð er verslun, atvinnurekstur eða menningarstarfsemi, sögustaðir, staðir til menntunar- eða trúariðkunar, opinberir stjórnarstaðir, skemmti- og frítímastaðir og áþekkir staðir sem aðgengilegir eru eða opnir almenningi.
    6. „Almenningssamgöngukerfi“ alla aðstöðu, samgöngutæki og búnað, hvort sem er í opinberri eigu eða í einkaeign, sem notuð eru til flutninga á fólki eða vörum og eru almenningi til afnota.


2. gr.

    1. Sá fremur afbrot í skilningi samnings þessa sem með ólögmætum hætti og af ásetningi fer með sprengju eða með annarri lífshættulegri aðferð inn á, inn í eða gegn almenningsstað, aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda, almenningssamgöngukerfi eða almenningsmannvirki, kemur henni þar fyrir, gerir hana virka eða sprengir hana:
     (a)      í þeim ásetningi að valda bana eða alvarlegu líkamstjóni; eða
     (b)      í þeim ásetningi að valda umfangsmikilli eyðileggingu á viðkomandi stað, aðstöðu eða kerfi, og eyðileggingin veldur eða er líkleg til að valda miklu efnahagslegu tjóni.
    2. Sá fremur einnig afbrot sem gerir tilraun til að fremja afbrot sem fjallað er um í 1. mgr.

    3. Sá fremur einnig afbrot sem:

     (a)      á hlutdeild í afbroti sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr.; eða
     (b)      skipuleggur afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr. eða stjórnar framkvæmd þess; eða
     (c)      stuðlar með einhverjum öðrum hætti að því að hópur manna, sem starfar að sameiginlegu markmiði, fremur eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 2. mgr., enda sé það gert af ásetningi og annaðhvort í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, eða gert með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja slík afbrot.

3. gr.

    Samningur þessi gildir ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður og þeir sem fyrir afbrotinu verða eru ríkisborgarar þess ríkis, hinn meinti brotamaður er á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr. samnings þessa fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu, en þó skulu ákvæði 10.–15. gr. gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við á.


4. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að:
     (a)      gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. samnings þessa refsiverð samkvæmt landslögum sínum;
     (b)      leggja viðeigandi refsingu við þeim afbrotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra.


5. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samning þennan, sérstaklega ef þeim er ætlað eða þau eru við það miðuð að leiða til ógnarástands meðal almennings, hópa eða einstaklinga, séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga, og að fyrir þau sé refsað í samræmi við alvarleika þeirra.

6. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar:
     (a)      afbrotið er framið á yfirráðasvæði þess; eða

     (b)      afbrotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið; eða

     (c)      afbrotið er framið af ríkisborgara þess.

    2. Aðildarríki getur einnig aflað sér lögsögu vegna slíks afbrots þegar:
     (a)      afbrotið er framið gegn ríkisborgara þess; eða

     (b)      afbrotið beinist gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldu sendiráði þess eða ræðisskrifstofu; eða

     (c)      afbrotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis; eða
     (d)      afbrotið er framið í viðleitni til að neyða það ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert; eða
     (e)      afbrotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis.

    3. Hvert aðildarríki skal, þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum, tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér að eigin landslögum í samræmi við 2. mgr. Verði einhver breyting þar á skal aðildarríkið þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóranum.
    4. Hvert aðildarríki skal á sama hátt gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr.

    5. Samningur þessi kemur ekki í veg fyrir að aðildarríki beiti hverri þeirri refsilögsögu sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.

7. gr.

    1. Er aðildarríki hafa borist upplýsingar um að maður, sem framið hefur afbrot sem fjallað er um í 2. gr. eða talinn er hafa gert það, kunni að vera staddur á yfirráðasvæði þess skal það gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera samkvæmt landslögum þess til að rannsaka þau atvik sem þar greinir.
    2. Ef brotamaður eða meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkis skal það, er það hefur gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt landslögum sínum til að tryggja nærveru hans með tilliti til saksóknar eða framsals.
    3. Hver sá sem ráðstafanir skv. 2. mgr. eru gerðar gagnvart á rétt á:

     (a)      að hafa tafarlaust samband við næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann á ríkisborgararétt eða þess ríkis sem á annan hátt er bært til að gæta réttinda hans, eða, sé hann ríkisfangslaus, þess ríkis sem yfirráðasvæði hefur þar sem hann dvelst að jafnaði;
     (b)      að fá vitjun fulltrúa þess ríkis;
     (c)      að vera skýrt frá réttindum sínum skv. a- og b-liðum.
    4. Með réttindi þau sem tilgreind eru í 3. mgr. skal farið í samræmi við lög og reglur í því ríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem brotamaður eða meintur brotamaður er staddur, þó með þeim fyrirvara að þau lög og reglur nái að fullu þeim tilgangi sem réttindum þeim, sem kveðið er á um í 3. mgr., er ætlað að ná.

    5. Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu í engu skerða rétt aðildarríkis sem krafist getur lögsögu skv. c-lið 1. mgr. eða c-lið 2. mgr. 6. gr. til að bjóða alþjóðanefnd Rauða krossins að hafa samband við hinn meinta brotamann og vitja hans.

    6. Þegar aðildarríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar, beint eða fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tilkynna þeim aðildarríkjum sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. 6. gr., og, ef það telur rétt að gera svo, öðrum aðildarríkjum sem láta sig það varða, um að maðurinn sé í gæslu og um þau atvik sem réttlæta gæslu hans. Ríkið sem annast þá rannsókn sem ráðgerð er í 1. mgr. skal þegar skýra þeim aðildarríkjum frá niðurstöðum sínum og taka fram hvort það hyggist beita lögsögu sinni.



8. gr.

    1. Í málum sem 6. gr. gildir um er því aðildarríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem meintur brotamaður er staddur skylt, undantekningarlaust og hvort sem afbrotið var framið á yfirráðasvæði þess eða ekki, að leggja málið án ástæðulausrar tafar fyrir viðeigandi yfirvöld sín til saksóknar með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þess, nema hann sé framseldur. Þau yfirvöld skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og í öðrum alvarlegum brotamálum samkvæmt lögum þess ríkis.

    2. Heimili landslög aðildarríkis því aðeins að framselja eða láta á annan hátt af hendi eigin ríkisborgara með því skilyrði að hann verði sendur til baka til þess ríkis til að afplána refsingu sem honum var ákvörðuð eftir þau réttarhöld eða þá málsmeðferð sem framsals eða afhendingar hans var óskað út af, og bæði það ríki og ríkið sem framsals óskar fallast á það skilyrði og aðra skilmála sem þau kunna telja við eiga, nægir slíkt skilyrt framsal eða afhending til að uppfylla skyldu þá sem kveðið er á um í 1. mgr.

9. gr.

    1. Litið skal svo á að afbrot sem fjallað er um í 2. gr. séu meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem í gildi eru milli aðildarríkja áður en samningur þessi öðlast gildi. Aðildarríki skuldbinda sig til að telja þau afbrot meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem síðar kunna að verða gerðir milli þeirra.
    2. Þegar aðildarríki, sem gerir framsalssamning að skilyrði fyrir framsali, tekur við framsalsbeiðni frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við getur það aðildarríki sem við beiðninni tekur að eigin ákvörðun litið svo á að samningur þessi sé lagalegur grunnur framsals varðandi afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. Framsal skal háð þeim skilyrðum öðrum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem beiðninni er beint til.
    3. Aðildarríki sem gera ekki framsalssamning að skilyrði fyrir framsali skulu viðurkenna þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem framsalsbrot sín á milli, með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til.
    4. Ef nauðsynlegt er skal hvað framsal milli aðildarríkja snertir farið með afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. eins og þau hefðu ekki einungis verið framin þar sem þau áttu sér stað, heldur einnig á yfirráðasvæði ríkja sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. og 2. mgr. 6. gr.

    5. Litið skal svo á að ákvæði allra framsalssamninga og tilhögunarreglna um framsal milli aðildarríkja hvað varðar afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hafi sætt breytingum þeirra á milli að því leyti sem þau samræmast ekki samningi þessum.

10. gr.

    1. Hvað snertir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. skulu aðildarríki veita hvert öðru sem mesta aðstoð í tengslum við rannsókn, saksókn og framsal, þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna í vörslu þeirra sem nauðsynleg eru til reksturs máls.

    2. Aðildarríki skulu framkvæma skuldbindingar sínar skv. 1. mgr. í samræmi við þjóðréttarsamninga eða aðra tilhögun varðandi gagnkvæma réttaraðstoð sem fyrir hendi kann að vera milli þeirra. Sé ekki slíkum samningum eða tilhögun fyrir að fara skulu aðildarríki veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög sín.

11. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Ekki má því hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíks afbrots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum.


12. gr.

    Ekkert í samningi þessum skal túlkað þannig að það leggi á framsalsskyldu eða skyldu til að veita gagnkvæma réttaraðstoð ef það aðildarríki, sem beiðni um framsal vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. eða um gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíkra afbrota er beint til, hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.


13. gr.

    1. Mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis má flytja til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til vitnisburðar, persónugreiningar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem samningur þessi tekur til, ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

     (a)      viðkomandi gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja; og
     (b)      viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjum samþykkja það, með þeim skilyrðum sem þau telja rétt að setja.
    2. Hvað þessa grein snertir:
     (a)      ber því ríki sem maðurinn er fluttur til réttur og skylda til að hafa hann í gæslu nema aðildarríkið sem hann var fluttur frá óski annars eða heimili það;

     (b)      skal það ríki sem maðurinn er fluttur til án tafar uppfylla þá skyldu sína að endursenda hann í gæslu þess ríkis sem hann var fluttur frá, eins og viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjunum hafa samið um fyrirfram eða komið sér saman um á annan hátt;
     (c)      skal það ríki sem viðkomandi er fluttur til ekki krefjast þess að það ríki sem hann var fluttur frá höfði framsalsmál til að fá hann endursendan;
     (d)      skal sá tími sem hinn flutti er í gæslu í því ríki sem hann er fluttur til koma til frádráttar afplánun refsingar í því ríki sem hann var fluttur frá.

    3. Hvert sem ríkisfang þess er sem flytja skal má ekki sækja hann til saka, setja hann í gæslu eða takmarka frelsi hans á nokkurn hátt á yfirráðasvæði þess ríkis sem hann er fluttur til, vegna verknaðar eða refsidóms frá því áður en hann fór frá yfirráðasvæði þess ríkis sem hann var fluttur frá, nema það aðildarríki samþykki sem hann skal fluttur frá samkvæmt þessari grein.


14. gr.

    Hverjum þeim, sem tekinn er í gæslu, aðrar ráðstafanir gerðar gagnvart eða málsmeðferð beinist að samkvæmt samningi þessum, skal tryggð réttlát meðferð, þar með talið að njóta allra þeirra réttinda og verndar sem kveðið er á um í landslögum þess aðildarríkis er hefur yfirráðasvæði þar sem viðkomandi er staddur og í viðeigandi reglum þjóðaréttar, þar með talið alþjóðlegum mannréttindalögum.

15. gr.

    Aðildarríki skulu eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., einkum:
     (a)      með því að gera allar raunhæfar ráðstafanir, þar með talin aðlögun á landslögum sínum ef nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir og bregðast við því að undirbúningur fari fram á yfirráðasvæði þeirra til að fremja slík afbrot innan þess eða utan, þar á meðal með því að banna á yfirráðasvæði þeirra ólöglegar athafnir manna, hópa og samtaka sem hvetja til afbrota sem fjallað er um í 2. gr., eiga frumkvæði að þeim eða skipuleggja þau, fjármagna þau vitandi vits eða taka þátt í að fremja þau;
     (b)      með því að skiptast á nákvæmum og sannreyndum upplýsingum í samræmi við landslög sín og samræma ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og á öðrum sviðum eftir því sem við á til að koma í veg fyrir afbrot sem fjallað er um í 2. gr.;
     (c)      eftir því sem við á með rannsóknum og þróun aðferða til að greina sprengiefni og önnur skaðleg efni sem valdið geta bana eða líkamstjóni, samráði um þróun staðla til að sérkenna sprengiefni svo að unnt sé að greina uppruna þeirra við rannsókn þar sem sprengingar hafa orðið, skiptum á upplýsingum um fyrirbyggjandi aðgerðir, og með samvinnu og miðlun á tækni, búnaði og tilheyrandi efnum.


16. gr.

    Aðildarríki þar sem meintur brotamaður er saksóttur skal, í samræmi við landslög sín eða viðeigandi málsmeðferðarreglur, skýra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá endanlegri niðurstöðu málsins, en hann skal senda öðrum aðildarríkjum þær upplýsingar.

17. gr.

    Aðildarríki skulu uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum þannig að það samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og grundvallarreglunni um bann við afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.

18. gr.

    Ekkert í samningi þessum veitir aðildarríki rétt til að fara með lögsögu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða sinna þar verkefnum er landslög þess ríkis fela yfirvöldum þess einum.


19. gr.

    1. Samningur þessi skal engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum og meginreglum sáttmála Sameinuðu þjóðanna og alþjóðlegra mannúðarlaga.
    2. Aðgerðir herja í hernaði, eins og þau hugtök eru skilin í alþjóðlegum mannúðarlögum, falla ekki undir samning þennan að því leyti sem alþjóðleg mannúðarlög gilda um þær, og samningur þessi gildir ekki um aðgerðir hers ríkis sem falla undir opinber skyldustörf, að því leyti sem aðrar reglur þjóðaréttar gilda um þær.


20. gr.

    1. Deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa, sem ekki er unnt að leysa með samkomulagi innan hæfilegs tíma, skal lögð í gerð að ósk annars eða eins þeirra. Geti þau ekki innan sex mánaða frá því að gerðar er óskað komið sér saman um hvernig henni skuli hagað getur hvert viðkomandi ríki vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með beiðni samkvæmt samþykktum hans.



    2. Hvert ríki getur við undirritun samnings þessa, eða þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3. Ríki sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. getur hvenær sem er afturkallað hann með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.


21. gr.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja frá 12. janúar 1998 til 31. desember 1999 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
    2. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3. Samningur þessi er opinn öllum ríkjum til aðildar. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.


22. gr.

    1. Samningur þessi skal öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

    2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

23. gr.

    1. Hvert aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna veitir tilkynningunni viðtöku.

24. gr.

    Frumriti samnings þessa, í jafngildum textum á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku, skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öllum ríkjum staðfest afrit þess.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan sem lagður var fram til undirritunar í New York 12. janúar 1998.

International Convention for the Suppression
of Terrorist Bombings

     The States Parties to this Convention,
     Having in mind the purposes and principles of the Charter of the United Nations concerning the maintenance of international peace and security and the promotion of good-neighbourliness and friendly relations and cooperation among States,
     Deeply concerned about the worldwide escalation of acts of terrorism in all its forms and manifestations,
     Recalling the Declaration on the Occasion of the Fiftieth Anniversary of the United Nations of 24 October 1995,
     Recalling also the Declaration on Measures to Eliminate International Terrorism, annexed to General Assembly resolution 49/60 of 9 December 1994, in which, inter alia, “the States Members of the United Nations solemnly reaffirm their unequivocal condemnation of all acts, methods and practices of terrorism as criminal and unjustifiable, wherever and by whomever committed, including those which jeopardize the friendly relations among States and peoples and threaten the territorial integrity and security of States”,

     Noting that the Declaration also encouraged States “to review urgently the scope of the existing international legal provisions on the prevention, repression and elimination of terrorism in all its forms and manifestations, with the aim of ensuring that there is a comprehensive legal framework covering all aspects of the matter”,
     Recalling further General Assembly resolution 51/210 of 17 December 1996 and the Declaration to Supplement the 1994 Declaration on Measures to Eliminate International Terrorism, annexed thereto,

     Noting also that terrorist attacks by means of explosives or other lethal devices have become increasingly widespread,
     Noting further that existing multilateral legal provisions do not adequately address these attacks,

     Being convinced of the urgent need to enhance international cooperation between States in devising and adopting effective and practical measures for the prevention of such acts of terrorism, and for the prosecution and punishment of their perpetrators,
     Considering that the occurrence of such acts is a matter of grave concern to the international community as a whole,
     Noting that the activities of military forces of States are governed by rules of international law outside the framework of this Convention and that the exclusion of certain actions from the coverage of this Convention does not condone or make lawful otherwise unlawful acts, or preclude prosecution under other laws,
     Have agreed as follows:

Article 1

    For the purposes of this Convention:
    1. “State or government facility” includes any permanent or temporary facility or conveyance that is used or occupied by representatives of a State, members of Government, the legislature or the judiciary or by officials or employees of a State or any other public authority or entity or by employees or officials of an intergovernmental organization in connection with their official duties.
    2. “Infrastructure facility” means any publicly or privately owned facility providing or distributing services for the benefit of the public, such as water, sewage, energy, fuel or communications.

    3. “Explosive or other lethal device” means:
     (a)      An explosive or incendiary weapon or device that is designed, or has the capability, to cause death, serious bodily injury or substantial material damage; or
     (b)      A weapon or device that is designed, or has the capability, to cause death, serious bodily injury or substantial material damage through the release, dissemination or impact of toxic chemicals, biological agents or toxins or similar substances or radiation or radioactive material.

    4. “Military forces of a State” means the armed forces of a State which are organized, trained and equipped under its internal law for the primary purpose of national defence or security, and persons acting in support of those armed forces who are under their formal command, control and responsibility.
    5. “Place of public use” means those parts of any building, land, street, waterway or other location that are accessible or open to members of the public, whether continuously, periodically or occasionally, and encompasses any commercial, business, cultural, historical, educational, religious, governmental, entertainment, recreational or similar place that is so accessible or open to the public.

    6. “Public transportation system” means all facilities, conveyances and instrumentalities, whether publicly or privately owned, that are used in or for publicly available services for the transportation of persons or cargo.


Article 2

    1. Any person commits an offence within the meaning of this Convention if that person unlawfully and intentionally delivers, places, discharges or detonates an explosive or other lethal device in, into or against a place of public use, a State or government facility, a public transportation system or an infrastructure facility:
     (a)      With the intent to cause death or serious bodily injury; or
     (b)      With the intent to cause extensive destruction of such a place, facility or system, where such destruction results in or is likely to result in major economic loss.
    2. Any person also commits an offence if that person attempts to commit an offence as set forth in paragraph 1.
    3. Any person also commits an offence if that person:
     (a)      Participates as an accomplice in an offence as set forth in paragraph 1 or 2; or
     (b)      Organizes or directs others to commit an offence as set forth in paragraph 1 or 2; or
     (c)      In any other way contributes to the commission of one or more offences as set forth in paragraph 1 or 2 by a group of persons acting with a common purpose; such contribution shall be intentional and either be made with the aim of furthering the general criminal activity or purpose of the group or be made in the knowledge of the intention of the group to commit the offence or offences concerned.

Article 3

    This Convention shall not apply where the offence is committed within a single State, the alleged offender and the victims are nationals of that State, the alleged offender is found in the territory of that State and no other State has a basis under article 6, paragraph 1, or article 6, paragraph 2, of this Convention to exercise jurisdiction, except that the provisions of articles 10 to 15 shall, as appropriate, apply in those cases.

Article 4

    Each State Party shall adopt such measures as may be necessary:
     (a)      To establish as criminal offences under its domestic law the offences set forth in article 2 of this Convention;
     (b)      To make those offences punishable by appropriate penalties which take into account the grave nature of those offences.

Article 5

    Each State Party shall adopt such measures as may be necessary, including, where appropriate, domestic legislation, to ensure that criminal acts within the scope of this Convention, in particular where they are intended or calculated to provoke a state of terror in the general public or in a group of persons or particular persons, are under no circumstances justifiable by considerations of a political, philosophical, ideological, racial, ethnic, religious or other similar nature and are punished by penalties consistent with their grave nature.

Article 6

    1. Each State Party shall take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences set forth in article 2 when:
     (a)      The offence is committed in the territory of that State; or
     (b)      The offence is committed on board a vessel flying the flag of that State or an aircraft which is registered under the laws of that State at the time the offence is committed; or
     (c)      The offence is committed by a national of that State.
    2. A State Party may also establish its jurisdiction over any such offence when:
     (a)      The offence is committed against a national of that State; or
     (b)      The offence is committed against a State or government facility of that State abroad, including an embassy or other diplomatic or consular premises of that State; or
     (c)      The offence is committed by a stateless person who has his or her habitual residence in the territory of that State; or
     (d)      The offence is committed in an attempt to compel that State to do or abstain from doing any act; or
     (e)      The offence is committed on board an aircraft which is operated by the Government of that State.
    3. Upon ratifying, accepting, approving or acceding to this Convention, each State Party shall notify the Secretary-General of the United Nations of the jurisdiction it has established in accordance with paragraph 2 under its domestic law. Should any change take place, the State Party concerned shall immediately notify the Secretary-General.
    4. Each State Party shall likewise take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences set forth in article 2 in cases where the alleged offender is present in its territory and it does not extradite that person to any of the States Parties which have established their jurisdiction in accordance with paragraph 1 or 2.
    5. This Convention does not exclude the exercise of any criminal jurisdiction established by a State Party in accordance with its domestic law.


Article 7

    1. Upon receiving information that a person who has committed or who is alleged to have committed an offence as set forth in article 2 may be present in its territory, the State Party concerned shall take such measures as may be necessary under its domestic law to investigate the facts contained in the information.
    2. Upon being satisfied that the circumstances so warrant, the State Party in whose territory the offender or alleged offender is present shall take the appropriate measures under its domestic law so as to ensure that person's presence for the purpose of prosecution or extradition.
    3. Any person regarding whom the measures referred to in paragraph 2 are being taken shall be entitled to:
     (a)      Communicate without delay with the nearest appropriate representative of the State of which that person is a national or which is otherwise entitled to protect that person's rights or, if that person is a stateless person, the State in the territory of which that person habitually resides;
     (b)      Be visited by a representative of that State;
     (c)      Be informed of that person's rights under subparagraphs (a) and (b).
    4. The rights referred to in paragraph 3 shall be exercised in conformity with the laws and regulations of the State in the territory of which the offender or alleged offender is present, subject to the provision that the said laws and regulations must enable full effect to be given to the purposes for which the rights accorded under paragraph 3 are intended.
    5. The provisions of paragraphs 3 and 4 shall be without prejudice to the right of any State Party having a claim to jurisdiction in accordance with article 6, subparagraph 1 (c) or 2 (c), to invite the International Committee of the Red Cross to communicate with and visit the alleged offender.
    6. When a State Party, pursuant to this article, has taken a person into custody, it shall immediately notify, directly or through the Secretary-General of the United Nations, the States Parties which have established jurisdiction in accordance with article 6, paragraphs 1 and 2, and, if it considers it advisable, any other interested States Parties, of the fact that such person is in custody and of the circumstances which warrant that person's detention. The State which makes the investigation contemplated in paragraph 1 shall promptly inform the said States Parties of its findings and shall indicate whether it intends to exercise jurisdiction.


Article 8

    1. The State Party in the territory of which the alleged offender is present shall, in cases to which article 6 applies, if it does not extradite that person, be obliged, without exception whatsoever and whether or not the offence was committed in its territory, to submit the case without undue delay to its competent authorities for the purpose of prosecution, through proceedings in accordance with the laws of that State. Those authorities shall take their decision in the same manner as in the case of any other offence of a grave nature under the law of that State.
    2. Whenever a State Party is permitted under its domestic law to extradite or otherwise surrender one of its nationals only upon the condition that the person will be returned to that State to serve the sentence imposed as a result of the trial or proceeding for which the extradition or surrender of the person was sought, and this State and the State seeking the extradition of the person agree with this option and other terms they may deem appropriate, such a conditional extradition or surrender shall be sufficient to discharge the obligation set forth in paragraph 1.


Article 9

    1. The offences set forth in article 2 shall be deemed to be included as extraditable offences in any extradition treaty existing between any of the States Parties before the entry into force of this Convention. States Parties undertake to include such offences as extraditable offences in every extradition treaty to be subsequently concluded between them.
    2. When a State Party which makes extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for extradition from another State Party with which it has no extradition treaty, the requested State Party may, at its option, consider this Convention as a legal basis for extradition in respect of the offences set forth in article 2. Extradition shall be subject to the other conditions provided by the law of the requested State.
    3. States Parties which do not make extradition conditional on the existence of a treaty shall recognize the offences set forth in article 2 as extraditable offences between themselves, subject to the conditions provided by the law of the requested State.
    4. If necessary, the offences set forth in article 2 shall be treated, for the purposes of extradition between States Parties, as if they had been committed not only in the place in which they occurred but also in the territory of the States that have established jurisdiction in accordance with article 6, paragraphs 1 and 2.
    5. The provisions of all extradition treaties and arrangements between States Parties with regard to offences set forth in article 2 shall be deemed to be modified as between State Parties to the extent that they are incompatible with this Convention.


Article 10

    1. States Parties shall afford one another the greatest measure of assistance in connection with investigations or criminal or extradition proceedings brought in respect of the offences set forth in article 2, including assistance in obtaining evidence at their disposal necessary for the proceedings.
    2. States Parties shall carry out their obligations under paragraph 1 in conformity with any treaties or other arrangements on mutual legal assistance that may exist between them. In the absence of such treaties or arrangements, States Parties shall afford one another assistance in accordance with their domestic law.


Article 11

    None of the offences set forth in article 2 shall be regarded, for the purposes of extradition or mutual legal assistance, as a political offence or as an offence connected with a political offence or as an offence inspired by political motives. Accordingly, a request for extradition or for mutual legal assistance based on such an offence may not be refused on the sole ground that it concerns a political offence or an offence connected with a political offence or an offence inspired by political motives.


Article 12

    Nothing in this Convention shall be interpreted as imposing an obligation to extradite or to afford mutual legal assistance, if the requested State Party has substantial grounds for believing that the request for extradition for offences set forth in article 2 or for mutual legal assistance with respect to such offences has been made for the purpose of prosecuting or punishing a person on account of that person's race, religion, nationality, ethnic origin or political opinion or that compliance with the request would cause prejudice to that person's position for any of these reasons.


Article 13

    1. A person who is being detained or is serving a sentence in the territory of one State Party whose presence in another State Party is requested for purposes of testimony, identification or otherwise providing assistance in obtaining evidence for the investigation or prosecution of offences under this Convention may be transferred if the following conditions are met:
     (a)      The person freely gives his or her informed consent; and
     (b)      The competent authorities of both States agree, subject to such conditions as those States may deem appropriate.
    2. For the purposes of this article:
     (a)      The State to which the person is transferred shall have the authority and obligation to keep the person transferred in custody, unless otherwise requested or authorized by the State from which the person was transferred;
     (b)      The State to which the person is transferred shall without delay implement its obligation to return the person to the custody of the State from which the person was transferred as agreed beforehand, or as otherwise agreed, by the competent authorities of both States;
     (c)      The State to which the person is transferred shall not require the State from which the person was transferred to initiate extradition proceedings for the return of the person;
     (d)      The person transferred shall receive credit for service of the sentence being served in the State from which he was transferred for time spent in the custody of the State to which he was transferred.
    3. Unless the State Party from which a person is to be transferred in accordance with this article so agrees, that person, whatever his or her nationality, shall not be prosecuted or detained or subjected to any other restriction of his or her personal liberty in the territory of the State to which that person is transferred in respect of acts or convictions anterior to his or her departure from the territory of the State from which such person was transferred.


Article 14

    Any person who is taken into custody or regarding whom any other measures are taken or proceedings are carried out pursuant to this Convention shall be guaranteed fair treatment, including enjoyment of all rights and guarantees in conformity with the law of the State in the territory of which that person is present and applicable provisions of international law, including international law of human rights.

Article 15

    States Parties shall cooperate in the prevention of the offences set forth in article 2, particularly:

     (a)      By taking all practicable measures, including, if necessary, adapting their domestic legislation, to prevent and counter preparations in their respective territories for the commission of those offences within or outside their territories, including measures to prohibit in their territories illegal activities of persons, groups and organizations that encourage, instigate, organize, knowingly finance or engage in the perpetration of offences as set forth in article 2;
     (b)      By exchanging accurate and verified information in accordance with their national law, and coordinating administrative and other measures taken as appropriate to prevent the commission of offences as set forth in article 2;

     (c)      Where appropriate, through research and development regarding methods of detection of explosives and other harmful substances that can cause death or bodily injury, consultations on the development of standards for marking explosives in order to identify their origin in post-blast investigations, exchange of information on preventive measures, cooperation and transfer of technology, equipment and related materials.


Article 16

    The State Party where the alleged offender is prosecuted shall, in accordance with its domestic law or applicable procedures, communicate the final outcome of the proceedings to the Secretary-General of the United Nations, who shall transmit the information to the other States Parties.

Article 17

    The States Parties shall carry out their obligations under this Convention in a manner consistent with the principles of sovereign equality and territorial integrity of States and that of non-intervention in the domestic affairs of other States.



Article 18

Nothing in this Convention entitles a State Party to undertake in the territory of another State Party the exercise of jurisdiction and performance of functions which are exclusively reserved for the authorities of that other State Party by its domestic law.

Article 19

    1. Nothing in this Convention shall affect other rights, obligations and responsibilities of States and individuals under international law, in particular the purposes and principles of the Charter of the United Nations and international humanitarian law.
    2. The activities of armed forces during an armed conflict, as those terms are understood under international humanitarian law, which are governed by that law, are not governed by this Convention, and the activities undertaken by military forces of a State in the exercise of their official duties, inasmuch as they are governed by other rules of international law, are not governed by this Convention.


Article 20

    1. Any dispute between two or more States Parties concerning the interpretation or application of this Convention which cannot be settled through negotiation within a reasonable time shall, at the request of one of them, be submitted to arbitration. If, within six months from the date of the request for arbitration, the parties are unable to agree on the organization of the arbitration, any one of those parties may refer the dispute to the International Court of Justice, by application, in conformity with the Statute of the Court.
    2. Each State may at the time of signature, ratification, acceptance or approval of this Convention or accession thereto declare that it does not consider itself bound by paragraph 1. The other States Parties shall not be bound by paragraph 1 with respect to any State Party which has made such a reservation.
    3. Any State which has made a reservation in accordance with paragraph 2 may at any time withdraw that reservation by notification to the Secretary-General of the United Nations.


Article 21

    1. This Convention shall be open for signature by all States from 12 January 1998 until 31 December 1999 at United Nations Headquarters in New York.

    2. This Convention is subject to ratification, acceptance or approval. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.
    3. This Convention shall be open to accession by any State. The instruments of accession shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.


Article 22

    1. This Convention shall enter into force on the thirtieth day following the date of the deposit of the twenty-second instrument of ratification, acceptance, approval or accession with the Secretary-General of the United Nations.
    2. For each State ratifying, accepting, approving or acceding to the Convention after the deposit of the twenty-second instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Convention shall enter into force on the thirtieth day after deposit by such State of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.


Article 23

    1. Any State Party may denounce this Convention by written notification to the Secretary-General of the United Nations.
    2. Denunciation shall take effect one year following the date on which notification is received by the Secretary-General of the United Nations.


Article 24

    The original of this Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations, who shall send certified copies thereof to all States.

    IN WITNESS WHEREOF, the undersigned, being duly authorized thereto by their respective Governments, have signed this Convention, opened for signature at New York on 12 January 1998.

Fylgiskjal II.


Alþjóðasamningur
um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi.


Inngangur.

     Aðildarríki samnings þessa,
     hafa í huga tilgang og meginreglur sáttmála Sameinuðu þjóðanna um að varðveita heimsfrið og öryggi og stuðla að velvild, vináttu og samvinnu meðal ríkja,

     hafa miklar áhyggjur af vaxandi hryðjuverkastarfsemi í heiminum í hverri mynd sem hún birtist,

     minnast yfirlýsingar í tilefni hálfrar aldar afmælis Sameinuðu þjóðanna í ályktun allsherjarþingsins nr. 50/6 frá 24. október 1995,

     minnast einnig allra viðeigandi ályktana allsherjarþingsins um þetta málefni, þar á meðal ályktunar nr. 49/60 frá 9. desember 1994 og viðauka við hana með yfirlýsingu um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi þar sem aðildarríki Sameinuðu þjóðanna ítrekuðu með alvöruþunga eindregna fordæmingu sína á öllum aðgerðum, aðferðum og atferli hryðjuverkamanna sem glæpsamlegu og óréttlætanlegu, hvar sem þau væru framin og af hverjum sem þau væru framin, þar á meðal aðgerðum, aðferðum og atferli sem stefna í hættu vinsamlegum samskiptum ríkja og þjóða og ógna friðhelgi og öryggi ríkja,
     vekja athygli á að í yfirlýsingunni um ráðstafanir til að útrýma alþjóðlegri hryðjuverkastarfsemi voru ríki einnig hvött til að endurskoða án tafar umfang gildandi þjóðréttarreglna um varnir gegn hryðjuverkum, baráttu gegn þeim og útrýmingu þeirra, í hverri mynd sem þau birtast, í því skyni að tryggja að fyrir hendi sé lagalegur heildarrammi sem tekur til allra þátta málsins,
     minnast ályktunar allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996, f-liðar 3. mgr., þar sem þingið skoraði á öll ríki að gera ráðstafanir til að koma með viðeigandi innanlandsaðgerðum í veg fyrir og sporna við því að fjármagn renni til hryðjuverkamanna og hryðjuverkasamtaka, hvort sem slík fjármögnun er bein eða óbein um hendur stofnana sem einnig hafa eða kveðast hafa mannúðleg, félagsleg eða menningarleg markmið, eða stofnana sem einnig stunda ólöglega starfsemi, svo sem vopnasmygl, eiturlyfjaverslun eða fjárkúgun, þar á meðal misnotkun á fólki til fjármögnunar hryðjuverkastarfsemi, og sérstaklega taka til athugunar, þar sem við á, að setja reglur til að koma í veg fyrir og sporna við tilflutningi á fjármagni sem grunur leikur á að sé ætlað til hryðjuverka án þess að skerða að neinu leyti frelsi til lögmætra fjármagnsflutninga, og að auka skipti á upplýsingum varðandi flutning slíks fjármagns milli landa,
     minnast einnig ályktunar allsherjarþingsins nr. 52/165 frá 15. desember 1997 þar sem þingið skoraði á ríki að taka til sérstakrar athugunar framkvæmd þeirra ráðstafana sem kveðið er á um í a- til f-liðum 3. mgr. ályktunar sinnar nr. 51/210 frá 17. desember 1996,
     minnist enn fremur ályktunar allsherjarþingsins nr. 53/108 frá 8. desember 1998 þar sem þingið fól sérnefndinni sem stofnuð var með ályktun allsherjarþingsins nr. 51/210 frá 17. desember 1996 að semja drög að alþjóðasamningi um að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi til viðbótar tengdum alþjóðlegum gerningum sem þegar eru fyrir hendi,

     telja að fjármögnun hryðjuverkastarfsemi sé hinu alþjóðlega samfélagi í heild sinni mikið áhyggjuefni,

     vekja athygli á að það fjármagn, sem hryðjuverkamenn geta útvegað sér, ræður því hve oft hryðjuverk eru framin og hversu alvarleg þau eru,
     vekja einnig athygli á að núgildandi fjölhliða lagalegir gerningar beinast ekki að slíkri fjármögnun með beinum hætti,
     eru sannfærð um að brýna nauðsyn beri til að auka samvinnu milli ríkja við að móta og taka upp árangursríkar ráðstafanir til að koma í veg fyrir fjármögnun hryðjuverkastarfsemi og til að bregðast við henni með því að sækja þá sem að henni vinna til saka og koma fram refsingu gagnvart þeim,
     og hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

1. gr.

    Í samningi þessum merkir:
    1. „Fjármunir“ eignir, hverjar sem er, áþreifanlegar eða óáþreifanlegar, fasteignir eða lausafé, hvernig sem þeirra hefur verið aflað, og lagaleg skjöl í hvaða formi sem er, þar með talið í rafrænu eða stafrænu formi, sem sýna fram á eignarrétt yfir þeim eða rétt til þeirra, svo sem yfirdráttarheimildir, ferðatékka, bankatékka, peningaávísanir, hlutabréf, verðbréf, skuldabréf, skuldaviðurkenningar og bankaábyrgðir.
    2. „Aðstaða á vegum ríkis eða stjórnvalda“ hverja þá aðstöðu eða samgöngutæki sem til frambúðar eða til bráðabirgða er nýtt eða notað af fulltrúum ríkis, embættismönnum ríkisstjórnar, handhöfum löggjafarvalds eða dómsvalds, embættismönnum eða starfsmönnum ríkis, opinbers stjórnvalds eða aðila, eða af starfsmönnum eða embættismönnum milliríkjastofnunar í tengslum við opinbert starf þeirra.
    3. „Ávinningur“ fjármuni sem renna frá eða er aflað, beint eða óbeint, með afbroti sem fjallað er um í 2. gr.

2. gr.

    1. Sá maður fremur afbrot í skilningi samnings þessa sem með einhverjum hætti, beint eða óbeint, en með ólögmætum hætti og af ásetningi, útvegar eða safnar fjármunum í því skyni að þeir verði notaðir, eða í vitneskju um að þeir skuli notaðir, að einhverju leyti eða öllu til að vinna:

     (a)      verk sem felur í sér afbrot samkvæmt efni einhvers þeirra þjóðréttarsamninga sem tilgreindir eru í viðaukanum og eins og þar er skilgreint; eða
     (b)      eitthvert annað verk sem ætlað er að valda almennum borgara, eða öðrum manni sem ekki tekur þátt í vopnaviðskiptum í ófriði, bana eða alvarlegu líkamstjóni, ef tilgangur verksins samkvæmt eðli þess eða samhengi er að ógna almenningi eða þvinga ríkisstjórn eða alþjóðastofnun til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert.

2. (a)    Aðildarríki sem ekki er aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum getur, þegar það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, lýst því yfir að við beitingu samnings þessa að því er það varðar skuli litið svo á að sá þjóðréttarsamningur sé ekki tilgreindur í viðauka þeim sem fjallað er um í a-lið 1. mgr. Yfirlýsingin skal falla úr gildi um leið og þjóðréttarsamningurinn öðlast gildi að því er viðkomandi aðildarríki varðar, en það skal tilkynna vörsluaðila um gildistökuna.
     (b)      Þegar aðildarríki hættir að vera aðili að þjóðréttarsamningi sem tilgreindur er í viðaukanum getur það gefið yfirlýsingu eins og kveðið er á um í þessari grein hvað þann samning varðar.
    3. Ekki er nauðsynlegt til að háttsemi skv. 1. mgr. teljist afbrot að fjármunirnir hafi í raun verið notaðir til að fremja afbrot sem fjallað er um í a- eða b-lið 1. mgr.
    4. Sá fremur einnig afbrot sem gerir tilraun til að fremja afbrot sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar.
    5. Sá fremur einnig afbrot sem:

     (a)      á hlutdeild í afbroti sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar;
     (b)      skipuleggur afbrot sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar eða stjórnar framkvæmd þess;
     (c)      stuðlar að því að hópur manna, sem starfar að sameiginlegu markmiði, fremur eitt eða fleiri afbrot sem fjallað er um í 1. eða 4. mgr. þessarar greinar. Skilyrði er að það sé gert af ásetningi og annaðhvort:
    (i)    í því skyni að veita afbrotastarfsemi hópsins eða hinu glæpsamlega markmiði hans framgang, enda feli starfsemin eða markmiðið í sér að framið sé afbrot sem fjallað er um í 1. mgr. þessarar greinar; eða
    (ii)    með vitneskju um þann ásetning hópsins að fremja afbrot sem fjallað er um 1. mgr. þessarar greinar.

3. gr.

    Samningur þessi gildir ekki um afbrot sem framið er innan eins ríkis ef meintur brotamaður er ríkisborgari þess, er staddur á yfirráðasvæði þess og ekki er grundvöllur skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. fyrir því að neitt annað ríki beiti lögsögu í málinu, en þó skulu ákvæði 12.–18. gr. gilda í slíkum tilvikum eftir því sem við á.


4. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að:
     (a)      gera þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. refsiverð samkvæmt landslögum sínum;
     (b)      leggja viðeigandi refsingu við þeim afbrotum þannig að tillit sé tekið til alvarleika þeirra.


5. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal í samræmi við meginreglur landslaga sinna gera nauðsynlegar ráðstafanir til að unnt sé að gera lögaðila á yfirráðasvæði þess eða stofnsettan samkvæmt lögum þess ábyrgan ef maður sem stjórnar eða stýrir lögaðilanum hefur í þeim starfa sínum framið afbrot sem fjallað er um í 2. gr. Ábyrgðin getur verið á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar.
    2. Slíkri ábyrgð skal sæta án þess að hún hafi áhrif á refsiábyrgð þeirra einstaklinga sem afbrotin fremja.
    3. Hvert aðildarríki skal sérstaklega sjá til þess að lögaðilar, sem gerðir eru ábyrgir í samræmi við 1. mgr., séu beittir virkum viðurlögum á sviði refsiréttar, skaðabótaréttar eða stjórnsýsluréttar sem séu í samræmi við tilefni þeirra og feli í sér varnað. Slík viðurlög geta m.a. verið fjárhagsleg.

6. gr.

    Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera, þar á meðal með lagasetningu þar sem við á, til að tryggja að afbrot er falla undir samning þennan séu aldrei talin réttlætanleg vegna sjónarmiða af stjórnmálalegum, heimspekilegum, hugmyndafræðilegum, kynþáttalegum, þjóðernislegum, trúarlegum eða öðrum svipuðum toga.

7. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera þær ráðstafanir sem kunna að vera nauðsynlegar til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar:
     (a)      afbrotið er framið á yfirráðasvæði þess;

     (b)      afbrotið er framið um borð í skipi er siglir undir fána þess eða í loftfari sem skráð er samkvæmt lögum þess þegar það er framið;

     (c)      afbrotið er framið af ríkisborgara þess.

    2. Aðildarríki getur einnig aflað lögsögu vegna slíks afbrots þegar:
     (a)      afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. á yfirráðasvæði þess eða gegn ríkisborgara þess, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;

     (b)      afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. gegn aðstöðu á vegum ríkis eða stjórnvalda þess ríkis erlendis, þar með töldum sendiráðum þess eða ræðisskrifstofum, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;
     (c)      afbrotið miðaði að því að fremja afbrot sem tilgreint er í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr. í viðleitni til að neyða það ríki til að gera eitthvað eða láta eitthvað ógert, eða leiddi til þess að slíkt afbrot var framið;
     (d)      afbrotið er framið af ríkisfangslausum manni sem að jafnaði dvelst á yfirráðasvæði þess ríkis;
     (e)      afbrotið er framið um borð í loftfari sem rekið er á vegum þess ríkis.

    3. Hvert aðildarríki skal, þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum, tilkynna aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna hverrar lögsögu það hefur aflað sér í samræmi við 2. mgr. Verði einhver breyting þar á skal aðildarríkið þegar tilkynna það aðalframkvæmdastjóranum.
    4. Hvert aðildarríki skal á sama hátt gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera til að afla sér lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. þegar meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði þess og það framselur hann ekki neinu því aðildarríki sem aflað hefur sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr.

    5. Ef fleiri en eitt aðildarríki telja til lögsögu vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. skulu þau leitast við að samræma gerðir sínar á viðeigandi hátt, einkum hvað snertir skilyrði saksóknar og hvernig gagnkvæm réttaraðstoð skuli veitt.

    6. Með fyrirvara um gildi almennra reglna þjóðaréttar útilokar samningur þessi ekki að aðildarríki beiti hverri þeirri refsilögsögu sem það hefur öðlast samkvæmt eigin landslögum.

8. gr.

    1. Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við meginreglur landslaga sinna til að finna, greina og kyrrsetja eða leggja hald á fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., svo og ávinning af slíkum afbrotum, með tilliti til hugsanlegrar upptöku síðar.
    2. Hvert aðildarríki skal gera viðeigandi ráðstafanir í samræmi við meginreglur landslaga sinna til að gera upptæka fjármuni sem notaðir eru eða varið skal til að fremja afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr., svo og ávinning af slíkum afbrotum.

    3. Hvert aðildarríki sem í hlut á getur tekið til athugunar gerð samninga um að skipta á milli sín og annarra aðildarríkja, með reglubundnum hætti eða í einstökum tilvikum, fjármunum sem aflast hafa með upptöku samkvæmt þessari grein.
    4. Hvert aðildarríki skal taka til athugunar að koma á skipan til að nota fjármagn, sem aflast hefur með upptöku samkvæmt þessari grein, til að greiða bætur til þeirra sem orðið hafa fyrir afbrotum sem tilgreind eru í a- eða b-lið 1. mgr. 2. gr., eða til fjölskyldna þeirra.
    5. Ákvæði þessarar greinar skulu framkvæmd þannig að þau skerði ekki réttindi þriðja manns í góðri trú.

9. gr.

    1. Er aðildarríki hafa borist upplýsingar um að maður, sem framið hefur afbrot sem fjallað er um í 2. gr. eða talinn er hafa gert það, kunni að vera staddur á yfirráðasvæði þess skal það gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar kunna að vera samkvæmt landslögum þess til að rannsaka þau atvik sem þar greinir.
    2. Ef brotamaður eða meintur brotamaður er staddur á yfirráðasvæði aðildarríkis skal það, er það hefur gengið úr skugga um að aðstæður réttlæti það, gera viðeigandi ráðstafanir samkvæmt landslögum sínum til að tryggja nærveru hans með tilliti til saksóknar eða framsals.
    3. Hver sá sem ráðstafanir skv. 2. mgr. eru gerðar gagnvart á rétt á:

     (a)      að hafa tafarlaust samband við næsta viðeigandi fulltrúa þess ríkis þar sem hann á ríkisborgararétt eða þess ríkis sem á annan hátt er bært til að gæta réttinda hans, eða, sé hann ríkisfangslaus, þess ríkis sem hefur yfirráðasvæði þar sem hann dvelst að jafnaði;
     (b)      að fá vitjun fulltrúa þess ríkis;
     (c)      að vera skýrt frá réttindum sínum skv. a- og b-liðum.
    4. Með réttindi þau sem tilgreind eru í 3. mgr. skal farið í samræmi við lög og reglur í því ríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem brotamaður eða meintur brotamaður er staddur, þó með þeim fyrirvara að þau lög og reglur geri kleift að ná að fullu þeim tilgangi sem réttindum þeim, sem kveðið er á um í 3. mgr., er ætlað að ná.
    5. Ákvæði 3. og 4. mgr. skulu í engu skerða rétt aðildarríkis sem krafist getur lögsögu skv. b-lið 1. mgr. eða b-lið 2. mgr. 7. gr. til að bjóða alþjóðanefnd Rauða krossins að hafa samband við hinn meinta brotamann og vitja hans.


    6. Þegar aðildarríki hefur tekið mann í gæslu samkvæmt þessari grein skal það þegar, beint eða fyrir milligöngu aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna, tilkynna þeim aðildarríkjum sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. eða 2. mgr. 7. gr. og, ef það telur rétt að gera svo, öðrum aðildarríkjum sem láta sig það varða, um að maðurinn sé í gæslu og um þau atvik sem réttlæta gæslu hans. Ríkið sem annast þá rannsókn sem ráðgerð er í 1. mgr. skal þegar skýra þeim aðildarríkjum frá niðurstöðum sínum og taka fram hvort það hyggist beita lögsögu sinni.



10. gr.

    1. Í málum sem 7. gr. gildir um er því aðildarríki sem hefur yfirráðasvæði þar sem meintur brotamaður er staddur skylt, undantekningarlaust og hvort sem afbrotið var framið á yfirráðasvæði þess eða ekki, að leggja málið án ástæðulausrar tafar fyrir viðeigandi yfirvöld sín til saksóknar með þeim hætti sem kveðið er á um í lögum þess, nema hann sé framseldur. Þau yfirvöld skulu taka ákvörðun sína á sama hátt og í öðrum alvarlegum brotamálum samkvæmt lögum þess ríkis.

    2. Heimili landslög aðildarríkis því aðeins að framselja eða láta á annan hátt af hendi eigin ríkisborgara með því skilyrði að hann verði sendur til baka til þess ríkis til að afplána refsingu sem honum var ákvörðuð eftir þau réttarhöld eða þá málsmeðferð sem framsals eða afhendingar hans var óskað út af, og bæði það ríki og ríkið sem framsals óskar fallast á það skilyrði og aðra skilmála sem þau kunna telja við eiga, nægir slíkt skilyrt framsal eða afhending til að uppfylla skyldu þá sem kveðið er á um í 1. mgr.


11. gr.

    1. Litið skal svo á að afbrot sem fjallað er um í 2. gr. séu meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem í gildi eru milli aðildarríkja áður en samningur þessi öðlast gildi. Aðildarríki skuldbinda sig til að telja þau afbrot meðal framsalsbrota í öllum framsalssamningum sem síðar kunna að verða gerðir milli þeirra.
    2. Þegar aðildarríki, sem gerir framsalssamning að skilyrði fyrir framsali, tekur við framsalsbeiðni frá öðru aðildarríki sem það hefur ekki framsalssamning við getur það aðildarríki sem við beiðninni tekur að eigin ákvörðun litið svo á að samningur þessi sé lagalegur grunnur framsals varðandi afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. Framsal skal háð þeim skilyrðum öðrum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem beiðninni er beint til.
    3. Aðildarríki sem gera ekki framsalssamning að skilyrði fyrir framsali skulu viðurkenna þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem framsalsbrot sín á milli, með þeim skilyrðum sem kveðið er á um í lögum þess ríkis sem framsalsbeiðni er beint til.
    4. Ef nauðsynlegt er skal hvað framsal milli aðildarríkja snertir farið með afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. eins og þau hefðu ekki einungis verið framin þar sem þau áttu sér stað, heldur einnig á yfirráðasvæði ríkja sem aflað hafa sér lögsögu skv. 1. og 2. mgr. 7. gr.

    5. Litið skal svo á að ákvæði allra framsalssamninga og tilhögunarreglna um framsal milli aðildarríkja hvað varðar afbrot sem fjallað er um í 2. gr. hafi sætt breytingum þeirra á milli að því leyti sem þau samræmast ekki samningi þessum.

12. gr.

    1. Hvað snertir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. skulu aðildarríki veita hvert öðru sem mesta aðstoð í tengslum við rannsókn, saksókn og framsal, þar á meðal aðstoð við að afla sönnunargagna í vörslu þeirra sem nauðsynleg eru til reksturs máls.

    2. Aðildarríki mega ekki hafna beiðni um gagnkvæma réttaraðstoð á grundvelli bankaleyndar.
    3. Aðildarríki sem leggur fram beiðni má ekki framsenda eða nota upplýsingar eða sönnunargögn sem látin eru í té af því aðildarríki sem beiðni er beint til við aðra rannsókn eða saksókn eða við önnur málaferli en tilgreint er í beiðninni, nema það aðildarríki sem henni er beint til hafi samþykkt það fyrir fram.
    4. Hvert aðildarríki getur tekið til athugunar að koma á tilhögun til að deila með öðrum ríkjum upplýsingum eða sönnunargögnum sem þörf er á til að koma fram ábyrgð að refsirétti, skaðabótarétti eða stjórnsýslurétti skv. 5. gr.
    5. Aðildarríki skulu framkvæma skuldbindingar sínar skv. 1. og 2. mgr. í samræmi við þjóðréttarsamninga eða aðra tilhögun varðandi gagnkvæma réttaraðstoð eða upplýsingaskipti sem fyrir hendi kann að vera milli þeirra. Sé ekki slíkum samningum eða tilhögun fyrir að fara skulu aðildarríki veita hvert öðru aðstoð í samræmi við landslög sín.

13. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem skattabrot. Aðildarríki mega því ekki hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð á þeirri forsendu einni að hún varði skattabrot.


14. gr.

    Hvað snertir framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð skal ekki litið á neitt það afbrot sem fjallað er um í 2. gr. sem stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum. Ekki má því hafna beiðni um framsal eða gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíks afbrots á þeirri forsendu einni að hún varði stjórnmálaafbrot, afbrot tengt stjórnmálaafbroti eða afbrot framið af stjórnmálalegum hvötum.


15. gr.

    Ekkert í samningi þessum skal túlkað þannig að það leggi á framsalsskyldu eða skyldu til að veita gagnkvæma réttaraðstoð ef það aðildarríki, sem beiðni um framsal vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr. eða um gagnkvæma réttaraðstoð vegna slíkra afbrota er beint til, hefur ástæðu til að ætla að beiðnin sé lögð fram til þess að sækja megi viðkomandi mann til saka eða refsa honum vegna kynþáttar hans, trúar, þjóðernis, þjóðernisuppruna eða stjórnmálaskoðana, eða að það mundi af einhverri þessara ástæðna stefna stöðu viðkomandi í hættu að fallast á beiðnina.

16. gr.

    1. Mann sem er í gæslu eða afplánar refsingu á yfirráðasvæði eins aðildarríkis má flytja til annars aðildarríkis ef óskað er nærveru hans þar til persónugreiningar, vitnisburðar eða annarrar aðstoðar við að afla sönnunargagna til rannsóknar eða saksóknar vegna afbrota sem fjallað er um í 2. gr., ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:

     (a)      viðkomandi gefur til þess upplýst samþykki sitt af fúsum og frjálsum vilja;
     (b)      viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjum samþykkja það, með þeim skilyrðum sem þau telja rétt að setja.
    2. Hvað þessa grein snertir:
     (a)      ber því ríki sem maðurinn er fluttur til réttur og skylda til að hafa hann í gæslu nema aðildarríkið sem hann var fluttur frá óski annars eða heimili það;

     (b)      skal það ríki sem maðurinn er fluttur til án tafar uppfylla þá skyldu sína að endursenda hann í gæslu þess ríkis sem hann var fluttur frá, eins og viðeigandi yfirvöld í báðum ríkjunum hafa samið um fyrirfram eða komið sér saman um á annan hátt;
     (c)      skal það ríki sem viðkomandi er fluttur til ekki krefjast þess að það ríki sem hann var fluttur frá höfði framsalsmál til að fá hann endursendan;
     (d)      skal sá tími sem hinn flutti er í gæslu í því ríki sem hann er fluttur til koma til frádráttar afplánun refsingar í því ríki sem hann var fluttur frá.

    3. Hvert sem ríkisfang þess er sem flytja skal má ekki sækja hann til saka, setja hann í gæslu eða takmarka frelsi hans á nokkurn hátt á yfirráðasvæði þess ríkis sem hann er fluttur til, vegna verknaðar eða refsidóms frá því áður en hann fór frá yfirráðasvæði þess ríkis sem hann var fluttur frá, nema það aðildarríki samþykki sem hann skal fluttur frá samkvæmt þessari grein.


17. gr.

    Hverjum þeim, sem tekinn er í gæslu, aðrar ráðstafanir gerðar gagnvart eða málsmeðferð beinist að samkvæmt samningi þessum, skal tryggð réttlát meðferð, þar með talið að njóta allra þeirra réttinda og verndar sem kveðið er á um í landslögum þess aðildarríkis er hefur yfirráðasvæði þar sem viðkomandi er staddur og í viðeigandi reglum þjóðaréttar, þar með talið alþjóðlegum mannréttindalögum.

18. gr.

    1. Aðildarríki skulu eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot þau sem fjallað er um í 2. gr. með því að gera allar raunhæfar ráðstafanir, þar með talin aðlögun á landslögum sínum ef nauðsynlegt er, til að koma í veg fyrir og bregðast við því að undirbúningur fari fram á yfirráðasvæði þeirra til að fremja slík afbrot innan þess eða utan, þar á meðal:
     (a)      ráðstafanir til að banna á yfirráðasvæði sínu ólöglegar athafnir manna og samtaka sem vitað er að hvetja til afbrota sem fjallað er um í 2. gr., eiga frumkvæði að þeim, skipuleggja þau eða fremja;
     (b)      ráðstafanir þar sem þess er krafist af fjármálastofnunum og starfsgreinum þar sem fengist er við fjármálaviðskipti að beitt sé árangursríkustu aðferðum sem völ er á til að greina deili á reglulegum og tilfallandi viðskiptamönnum þeirra, svo og viðskiptamönnum sem fá reikninga opnaða í sína þágu, að sérstök athygli sé veitt óvenjulegum eða grunsamlegum viðskiptum, og að tilkynnt sé um viðskipti sem grunur leikur á að eigi rætur að rekja til glæpastarfsemi. Í þessu skyni skulu aðildarríki taka til athugunar:
    (i)     að setja reglur sem banna að reikningar séu opnaðir ef umráðamenn þeirra eða eigendur eru óþekktir eða ekki er unnt að greina hverjir þeir eru, og gera ráðstafanir til að tryggja að slíkar stofnanir sannreyni deili á raunverulegum eigendum;
    (ii)     að krefjast þess af fjármálastofnunum, til að finna megi deili á lögaðilum, að þær geri þegar nauðsyn krefur ráðstafanir til að sannreyna að viðskiptaaðili sé til að lögum og hvert rekstrarform hans er með því að afla, annaðhvort úr opinberum skrám eða frá viðskiptaaðilanum eða hvort tveggja, sönnunar fyrir stofnun aðilans þar sem fram koma upplýsingar um nafn hans, rekstrarform og heimilisfang, hverjir stjórnendur hans eru og með hvaða hætti hann geti stofnað til skuldbindinga;
    (iii)     að setja reglur sem leggja þá skyldu á fjármálastofnanir að tilkynna þegar í stað til viðeigandi yfirvalda um öll flókin, óvenjuleg og viðamikil viðskipti og óvenjuleg viðskiptamynstur sem ekki virðast hafa neinn efnahagslegan eða augljóslega löglegan tilgang, án þess að þær þurfi að óttast refsiréttarlega eða skaðabótaréttarlega ábyrgð vegna brots gegn þagnarskyldu ef tilkynnt er um grunsemdirnar í góðri trú;
    (iv)     að krefjast þess af fjármálastofnunum að þær haldi til haga öllum nauðsynlegum gögnum um viðskipti, innlend jafnt sem erlend, í að minnsta kosti fimm ár.
    2. Aðildarríki skulu enn fremur eiga samvinnu sín á milli til að fyrirbyggja afbrot sem fjallað er um í 2. gr. með því að taka til athugunar:
     (a)      ráðstafanir til að hafa eftirlit með stofnunum sem annast fjármagnsflutninga, til dæmis með starfsleyfum;
     (b)      raunhæfar ráðstafanir til að uppgötva og fylgjast með efnislegum flutningi reiðufjár og handhafaviðskiptabréfa milli landa, þar sem strangar öryggisreglur eru viðhafðar til að tryggja réttmæta notkun upplýsinga og án þess að frelsi til fjármagnsflutninga sé á nokkurn hátt skert.
    3. Aðildarríki skulu enn fremur eiga með sér samvinnu við að koma í veg fyrir afbrot sem fjallað er um í 2. gr. með því að skiptast á nákvæmum og sannreyndum upplýsingum í samræmi við landslög sín og samræma ráðstafanir á sviði stjórnsýslu og á öðrum sviðum eftir því sem við á, svo sem með því að:
     (a)      koma á og halda við samskiptaleiðum milli viðeigandi stofnana sinna og embætta til að greiða fyrir öruggum og skjótum upplýsingaskiptum um öll atriði varðandi þau afbrot sem fjallað er um í 2. gr.;
     (b)      eiga samstarf sín á milli við athuganir á afbrotum sem fjallað er um í 2. gr. hvað snertir:

    (i)     deili á mönnum sem rökstuddur grunur leikur á að eigi aðild að slíkum afbrotum, hvar þeir eru og hvað þeir fást við;

    (ii)     tilflutning á fjármunum sem tengist framkvæmd slíkra afbrota.
    4. Aðildarríki geta skipst á upplýsingum fyrir milligöngu Alþjóðasamtaka sakamálalögreglu (Interpol).

19. gr.

    Aðildarríki þar sem meintur brotamaður er saksóttur skal, í samræmi við landslög sín eða viðeigandi málsmeðferðarreglur, skýra aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna frá endanlegri niðurstöðu málsins, en hann skal senda öðrum aðildarríkjum þær upplýsingar.

20. gr.

    Aðildarríki skulu uppfylla skuldbindingar sínar samkvæmt samningi þessum þannig að það samræmist grundvallarreglum um jafnrétti fullvalda ríkja og friðhelgi yfirráðasvæða þeirra og grundvallarreglunni um bann við afskiptum af innanríkismálum annarra ríkja.

21. gr.

    Samningur þessi skal engin áhrif hafa á önnur réttindi, skuldbindingar og skyldur ríkja og einstaklinga að þjóðarétti, einkum samkvæmt markmiðum sáttmála Sameinuðu þjóðanna, alþjóðlegra mannúðarlaga og annarra alþjóðasamninga sem við eiga.


22. gr.

    Ekkert í samningi þessum veitir aðildarríki rétt til að fara með lögsögu á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða sinna þar verkefnum er landslög þess ríkis fela yfirvöldum þess einum.


23. gr.

    1. Viðaukanum má breyta með því að bæta við viðeigandi þjóðréttarsamningum sem:
     (a)      eru opnir öllum ríkjum til aðildar;
     (b)      hafa öðlast gildi;
     (c)      að minnsta kosti tuttugu og tvö aðildarríki að samningi þessum hafa fullgilt, staðfest, samþykkt eða gerst aðilar að.
    2. Er samningur þessi hefur öðlast gildi getur hvaða aðildarríki sem er lagt slíka breytingu til. Skrifleg tillaga um breytingu skal send vörsluaðila. Vörsluaðili skal tilkynna öllum aðildarríkjum um tillögur sem fullnægja kröfum 1. mgr. og leita álits þeirra á því hvort samþykkja beri tillöguna.


    3. Breytingartillaga skal skoðast samþykkt nema þriðjungur aðildarríkja mótmæli henni með skriflegri tilkynningu eigi síðar en 180 dögum eftir að henni hefur verið dreift.
    4. Samþykkt breyting á viðaukanum skal öðlast gildi 30 dögum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki hennar er afhent til vörslu, að því er varðar öll ríki sem afhent hafa slíkt skjal til vörslu. Að því er varðar hvert aðildarríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir breytinguna eftir að tuttugasta og annað skjalið er afhent til vörslu skal hún öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki til vörslu.


24. gr.

    1. Deila milli tveggja eða fleiri aðildarríkja um túlkun eða beitingu samnings þessa, sem ekki er unnt að leysa með samkomulagi innan hæfilegs tíma, skal lögð í gerð að ósk annars eða eins þeirra. Geti þau ekki innan sex mánaða frá því að gerðar er óskað komið sér saman um hvernig henni skuli hagað getur hvert viðkomandi ríki vísað deilunni til Alþjóðadómstólsins með beiðni samkvæmt samþykktum hans.



    2. Hvert ríki getur við undirritun samnings þessa, eða þegar það fullgildir, staðfestir eða samþykkir samninginn eða gerist aðili að honum, lýst því yfir að það telji sig ekki bundið af 1. mgr. Önnur aðildarríki skulu ekki bundin af 1. mgr. gagnvart aðildarríki sem gert hefur slíkan fyrirvara.
    3. Ríki sem gert hefur fyrirvara skv. 2. mgr. getur hvenær sem er afturkallað hann með tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.


25. gr.

    1. Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar af hálfu allra ríkja frá 10. janúar 2000 til 31. desember 2001 í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York.
    2. Samningur þessi er háður fullgildingu, staðfestingu eða samþykki. Skjöl um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.
    3. Samningur þessi er opinn öllum ríkjum til aðildar. Aðildarskjöl skulu afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.


26. gr.

    1. Samningur þessi skal öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna til vörslu.

    2. Að því er varðar hvert ríki sem fullgildir, staðfestir eða samþykkir samning þennan eða gerist aðili að honum eftir að tuttugasta og annað skjalið um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild er afhent til vörslu skal samningur þessi öðlast gildi á þrítugasta degi eftir að það afhendir skjal sitt um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild til vörslu.

27. gr.

    1. Hvert aðildarríki getur sagt upp samningi þessum með skriflegri tilkynningu til aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna.
    2. Uppsögn skal öðlast gildi einu ári eftir þann dag er aðalframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna veitir tilkynningunni viðtöku.

28. gr.

    Frumriti samnings þessa, í jafngildum textum á arabísku, ensku, frönsku, kínversku, rússnesku og spænsku, skal koma í vörslu hjá aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og skal hann senda öllum ríkjum staðfest afrit þess.

    ÞESSU TIL STAÐFESTU hafa undirrituð, sem til þess hafa fullt umboð ríkisstjórna sinna, undirritað samning þennan sem lagður var fram til undirritunar í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í New York 10. janúar 2000.

Viðauki.

    1. Samningur um að koma í veg fyrir ólöglega töku loftfara, gerður í Haag 16. desember 1970.

    2. Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, gerður í Montreal 23. september 1971.
    3. Samningur um varnarráðstafanir og refsingar vegna glæpa gegn einstaklingum er njóta alþjóðlegrar verndar, þar á meðal sendierindrekum, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 14. desember 1973.
    4. Alþjóðasamningur um varnir gegn töku gísla, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 17. desember 1979.
    5. Samningur um gæslu kjarnorkuefna, samþykktur í Vínarborg 3. mars 1980.
    6. Bókun við samning um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi flugsamgangna, um að koma í veg fyrir ofbeldisverk á flugvöllum fyrir almenna alþjóðlega flugumferð, gerð í Montreal 24. febrúar 1988.

    7. Samningur um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi í siglingum á sjó, gerður í Róm 10. mars 1988.
    8. Bókun um að koma í veg fyrir ólögmætar aðgerðir gegn öryggi botnfastra mannvirkja á landgrunninu, gerð í Róm 10. mars 1988.
    9. Alþjóðasamningur um að koma í veg fyrir hryðjuverkasprengingar, samþykktur af allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna 15. desember 1997.

International Convention
for the Suppression of the Financing
of Terrorism


Preamble

     The States Parties to this Convention,
     Bearing in mind the purposes and principles of the Charter of the United Nations concerning the maintenance of international peace and security and the promotion of good-neighbourliness and friendly relations and cooperation among States,
     Deeply concerned about the worldwide escalation of acts of terrorism in all its forms and manifestations,
     Recalling the Declaration on the Occasion of the Fiftieth Anniversary of the United Nations, contained in General Assembly resolution 50/6 of 24 October 1995,
     Recalling also all the relevant General Assembly resolutions on the matter, including resolution 49/60 of 9 December 1994 and its annex on the Declaration on Measures to Eliminate International Terrorism, in which the States Members of the United Nations solemnly reaffirmed their unequivocal condemnation of all acts, methods and practices of terrorism as criminal and unjustifiable, wherever and by whomever committed, including those which jeopardize the friendly relations among States and peoples and threaten the territorial integrity and security of States,

     Noting that the Declaration on Measures to Eliminate International Terrorism also encouraged States to review urgently the scope of the existing international legal provisions on the prevention, repression and elimination of terrorism in all its forms and manifestations, with the aim of ensuring that there is a comprehensive legal framework covering all aspects of the matter,
     Recalling General Assembly resolution 51/210 of 17 December 1996, paragraph 3, subparagraph (f), in which the Assembly called upon all States to take steps to prevent and counteract, through appropriate domestic measures, the financing of terrorists and terrorist organizations, whether such financing is direct or indirect through organizations which also have or claim to have charitable, social or cultural goals or which are also engaged in unlawful activities such as illicit arms trafficking, drug dealing and racketeering, including the exploitation of persons for purposes of funding terrorist activities, and in particular to consider, where appropriate, adopting regulatory measures to prevent and counteract movements of funds suspected to be intended for terrorist purposes without impeding in any way the freedom of legitimate capital movements and to intensify the exchange of information concerning international movements of such funds,
     Recalling also General Assembly resolution 52/165 of 15 December 1997, in which the Assembly called upon States to consider, in particular, the implementation of the measures set out in paragraphs 3 (a) to (f) of its resolution 51/210 of 17 December 1996,
     Recalling further General Assembly resolution 53/108 of 8 December 1998, in which the Assembly decided that the Ad Hoc Committee established by General Assembly resolution 51/210 of 17 December 1996 should elaborate a draft international convention for the suppression of terrorist financing to supplement related existing international instruments,
    Considering that the financing of terrorism is a matter of grave concern to the international community as a whole,
     Noting that the number and seriousness of acts of international terrorism depend on the financing that terrorists may obtain,
     Noting also that existing multilateral legal instruments do not expressly address such financing,

     Being convinced the urgent need to enhance international cooperation among States in devising and adopting effective measures for the prevention of the financing of terrorism, as well as for its suppression through the prosecution and punishment of its perpetrators,
     Have agreed as follows:

Article 1

    For the purposes of this Convention:
    1. “Funds” means assets of every kind, whether tangible or intangible, movable or immovable, however acquired, and legal documents or instruments in any form, including electronic or digital, evidencing title to, or interest in, such assets, including, but not limited to, bank credits, travellers cheques, bank cheques, money orders, shares, securities, bonds, drafts and letters of credit.

    2. “State or government facility” means any permanent or temporary facility or conveyance that is used or occupied by representatives of a State, members of Government, the legislature or the judiciary or by officials or employees of a State or any other public authority or entity or by employees or officials of an intergovernmental organization in connection with their official duties.
    3. “Proceeds” means any funds derived from or obtained, directly or indirectly, through the commission of an offence set forth in article 2.

Article 2

    1. Any person commits an offence within the meaning of this Convention if that person by any means, directly or indirectly, unlawfully and wilfully, provides or collects funds with the intention that they should be used or in the knowledge that they are to be used, in full or in part, in order to carry out:
     (a)      An act which constitutes an offence within the scope of and as defined in one of the treaties listed in the annex; or

     (b)      Any other act intended to cause death or serious bodily injury to a civilian, or to any other person not taking an active part in the hostilities in a situation of armed conflict, when the purpose of such act, by its nature or context, is to intimidate a population, or to compel a government or an international organization to do or to abstain from doing any act.
2. (a)    On depositing its instrument of ratification, acceptance, approval or accession, a State Party which is not a party to a treaty listed in the annex may declare that, in the application of this Convention to the State Party, the treaty shall be deemed not to be included in the annex referred to in paragraph 1, subparagraph (a). The declaration shall cease to have effect as soon as the treaty enters into force for the State Party, which shall notify the depositary of this fact.

     (b)      When a State Party ceases to be a party to a treaty listed in the annex, it may make a declaration as provided for in this article, with respect to that treaty.
    3. For an act to constitute an offence set forth in paragraph 1, it shall not be necessary that the funds were actually used to carry out an offence referred to in paragraph 1, subparagraphs (a) or (b).
    4. Any person also commits an offence if that person attempts to commit an offence as set forth in paragraph 1 of this article.
    5. Any person also commits an offence if that person:
     (a)      Participates as an accomplice in an offence as set forth in paragraph 1 or 4 of this article;
     (b)      Organizes or directs others to commit an offence as set forth in paragraph 1 or 4 of this article;
     (c)      Contributes to the commission of one or more offences as set forth in paragraphs 1 or 4 of this article by a group of persons acting with a common purpose. Such contribution shall be intentional and shall either:
    (i)     Be made with the aim of furthering the criminal activity or criminal purpose of the group, where such activity or purpose involves the commission of an offence as set forth in paragraph 1 of this article; or
    (ii)     Be made in the knowledge of the intention of the group to commit an offence as set forth in paragraph 1 of this article.

Article 3

    This Convention shall not apply where the offence is committed within a single State, the alleged offender is a national of that State and is present in the territory of that State and no other State has a basis under article 7, paragraph 1, or article 7, paragraph 2, to exercise jurisdiction, except that the provisions of articles 12 to 18 shall, as appropriate, apply in those cases.


Article 4

    Each State Party shall adopt such measures as may be necessary:
     (a)      To establish as criminal offences under its domestic law the offences set forth in article 2;
     (b)      To make those offences punishable by appropriate penalties which take into account the grave nature of the offences.

Article 5

    1. Each State Party, in accordance with its domestic legal principles, shall take the necessary measures to enable a legal entity located in its territory or organized under its laws to be held liable when a person responsible for the management or control of that legal entity has, in that capacity, committed an offence set forth in article 2. Such liability may be criminal, civil or administrative.
    2. Such liability is incurred without prejudice to the criminal liability of individuals having committed the offences.
    3. Each State Party shall ensure, in particular, that legal entities liable in accordance with paragraph 1 above are subject to effective, proportionate and dissuasive criminal, civil or administrative sanctions. Such sanctions may include monetary sanctions.

Article 6

    Each State Party shall adopt such measures as may be necessary, including, where appropriate, domestic legislation, to ensure that criminal acts within the scope of this Convention are under no circumstances justifiable by considerations of a political, philosophical, ideological, racial, ethnic, religious or other similar nature.


Article 7

    1. Each State Party shall take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences set forth in article 2 when:
     (a)      The offence is committed in the territory of that State;
     (b)      The offence is committed on board a vessel flying the flag of that State or an aircraft registered under the laws of that State at the time the offence is committed;
     (c)      The offence is committed by a national of that State.
    2. A State Party may also establish its jurisdiction over any such offence when:
     (a)      The offence was directed towards or resulted in the carrying out of an offence referred to in article 2, paragraph 1, subparagraph (a) or (b), in the territory of or against a national of that State;
     (b)      The offence was directed towards or resulted in the carrying out of an offence referred to in article 2, paragraph 1, subparagraph (a) or (b), against a State or government facility of that State abroad, including diplomatic or consular premises of that State;
     (c)      The offence was directed towards or resulted in an offence referred to in article 2, paragraph 1, subparagraph (a) or (b), committed in an attempt to compel that State to do or abstain from doing any act;
     (d)      The offence is committed by a stateless person who has his or her habitual residence in the territory of that State;
     (e)      The offence is committed on board an aircraft which is operated by the Government of that State.
    3. Upon ratifying, accepting, approving or acceding to this Convention, each State Party shall notify the Secretary-General of the United Nations of the jurisdiction it has established in accordance with paragraph 2. Should any change take place, the State Party concerned shall immediately notify the Secretary-General.
    4. Each State Party shall likewise take such measures as may be necessary to establish its jurisdiction over the offences set forth in article 2 in cases where the alleged offender is present in its territory and it does not extradite that person to any of the States Parties that have established their jurisdiction in accordance with paragraphs 1 or 2.
    5. When more than one State Party claims jurisdiction over the offences set forth in article 2, the relevant States Parties shall strive to coordinate their actions appropriately, in particular concerning the conditions for prosecution and the modalities for mutual legal assistance.
    6. Without prejudice to the norms of general international law, this Convention does not exclude the exercise of any criminal jurisdiction established by a State Party in accordance with its domestic law.

Article 8

    1. Each State Party shall take appropriate measures, in accordance with its domestic legal principles, for the identification, detection and freezing or seizure of any funds used or allocated for the purpose of committing the offences set forth in article 2 as well as the proceeds derived from such offences, for purposes of possible forfeiture.
    2. Each State Party shall take appropriate measures, in accordance with its domestic legal principles, for the forfeiture of funds used or allocated for the purpose of committing the offences set forth in article 2 and the proceeds derived from such offences.
    3. Each State Party concerned may give consideration to concluding agreements on the sharing with other States Parties, on a regular or case-by-case basis, of the funds derived from the forfeitures referred to in this article.
    4. Each State Party shall consider establishing mechanisms whereby the funds derived from the forfeitures referred to in this article are utilized to compensate the victims of offences referred to in article 2, paragraph 1, subparagraph (a) or (b), or their families.
    5. The provisions of this article shall be implemented without prejudice to the rights of third parties acting in good faith.

Article 9

    1. Upon receiving information that a person who has committed or who is alleged to have committed an offence set forth in article 2 may be present in its territory, the State Party concerned shall take such measures as may be necessary under its domestic law to investigate the facts contained in the information.
    2. Upon being satisfied that the circumstances so warrant, the State Party in whose territory the offender or alleged offender is present shall take the appropriate measures under its domestic law so as to ensure that person's presence for the purpose of prosecution or extradition.
    3. Any person regarding whom the measures referred to in paragraph 2 are being taken shall be entitled to:
     (a)      Communicate without delay with the nearest appropriate representative of the State of which that person is a national or which is otherwise entitled to protect that person's rights or, if that person is a stateless person, the State in the territory of which that person habitually resides;
     (b)      Be visited by a representative of that State;
     (c)      Be informed of that person's rights under subparagraphs (a) and (b).
    4. The rights referred to in paragraph 3 shall be exercised in conformity with the laws and regulations of the State in the territory of which the offender or alleged offender is present, subject to the provision that the said laws and regulations must enable full effect to be given to the purposes for which the rights accorded under paragraph 3 are intended.
    5. The provisions of paragraphs 3 and 4 shall be without prejudice to the right of any State Party having a claim to jurisdiction in accordance with article 7, paragraph 1, subparagraph (b), or paragraph 2, subparagraph (b), to invite the International Committee of the Red Cross to communicate with and visit the alleged offender.
    6. When a State Party, pursuant to the present article, has taken a person into custody, it shall immediately notify, directly or through the Secretary-General of the United Nations, the States Parties which have established jurisdiction in accordance with article 7, paragraph 1 or 2, and, if it considers it advisable, any other interested States Parties, of the fact that such person is in custody and of the circumstances which warrant that person's detention. The State which makes the investigation contemplated in paragraph 1 shall promptly inform the said States Parties of its findings and shall indicate whether it intends to exercise jurisdiction.

Article 10

    1. The State Party in the territory of which the alleged offender is present shall, in cases to which article 7 applies, if it does not extradite that person, be obliged, without exception whatsoever and whether or not the offence was committed in its territory, to submit the case without undue delay to its competent authorities for the purpose of prosecution, through proceedings in accordance with the laws of that State. Those authorities shall take their decision in the same manner as in the case of any other offence of a grave nature under the law of that State.
    2. Whenever a State Party is permitted under its domestic law to extradite or otherwise surrender one of its nationals only upon the condition that the person will be returned to that State to serve the sentence imposed as a result of the trial or proceeding for which the extradition or surrender of the person was sought, and this State and the State seeking the extradition of the person agree with this option and other terms they may deem appropriate, such a conditional extradition or surrender shall be sufficient to discharge the obligation set forth in paragraph 1.

Article 11

    1. The offences set forth in article 2 shall be deemed to be included as extraditable offences in any extradition treaty existing between any of the States Parties before the entry into force of this Convention. States Parties undertake to include such offences as extraditable offences in every extradition treaty to be subsequently concluded between them.
    2. When a State Party which makes extradition conditional on the existence of a treaty receives a request for extradition from another State Party with which it has no extradition treaty, the requested State Party may, at its option, consider this Convention as a legal basis for extradition in respect of the offences set forth in article 2. Extradition shall be subject to the other conditions provided by the law of the requested State.
    3. States Parties which do not make extradition conditional on the existence of a treaty shall recognize the offences set forth in article 2 as extraditable offences between themselves, subject to the conditions provided by the law of the requested State.
    4. If necessary, the offences set forth in article 2 shall be treated, for the purposes of extradition between States Parties, as if they had been committed not only in the place in which they occurred but also in the territory of the States that have established jurisdiction in accordance with article 7, paragraphs 1 and 2.
    5. The provisions of all extradition treaties and arrangements between States Parties with regard to offences set forth in article 2 shall be deemed to be modified as between States Parties to the extent that they are incompatible with this Convention.


Article 12

    1. States Parties shall afford one another the greatest measure of assistance in connection with criminal investigations or criminal or extradition proceedings in respect of the offences set forth in article 2, including assistance in obtaining evidence in their possession necessary for the proceedings.
    2. States Parties may not refuse a request for mutual legal assistance on the ground of bank secrecy.
    3. The requesting Party shall not transmit or use information or evidence furnished by the requested Party for investigations, prosecutions or proceedings other than those stated in the request without the prior consent of the requested Party.


    4. Each State Party may give consideration to establishing mechanisms to share with other States Parties information or evidence needed to establish criminal, civil or administrative liability pursuant to article 5.
    5. States Parties shall carry out their obligations under paragraphs 1 and 2 in conformity with any treaties or other arrangements on mutual legal assistance or information exchange that may exist between them. In the absence of such treaties or arrangements, States Parties shall afford one another assistance in accordance with their domestic law.

Article 13

    None of the offences set forth in article 2 shall be regarded, for the purposes of extradition or mutual legal assistance, as a fiscal offence. Accordingly, States Parties may not refuse a request for extradition or for mutual legal assistance on the sole ground that it concerns a fiscal offence.

Article 14

    None of the offences set forth in article 2 shall be regarded for the purposes of extradition or mutual legal assistance as a political offence or as an offence connected with a political offence or as an offence inspired by political motives. Accordingly, a request for extradition or for mutual legal assistance based on such an offence may not be refused on the sole ground that it concerns a political offence or an offence connected with a political offence or an offence inspired by political motives.

Article 15

    Nothing in this Convention shall be interpreted as imposing an obligation to extradite or to afford mutual legal assistance, if the requested State Party has substantial grounds for believing that the request for extradition for offences set forth in article 2 or for mutual legal assistance with respect to such offences has been made for the purpose of prosecuting or punishing a person on account of that person's race, religion, nationality, ethnic origin or political opinion or that compliance with the request would cause prejudice to that person's position for any of these reasons.

Article 16

    1. A person who is being detained or is serving a sentence in the territory of one State Party whose presence in another State Party is requested for purposes of identification, testimony or otherwise providing assistance in obtaining evidence for the investigation or prosecution of offences set forth in article 2 may be transferred if the following conditions are met:
     (a)      The person freely gives his or her informed consent;
     (b)      The competent authorities of both States agree, subject to such conditions as those States may deem appropriate.
    2. For the purposes of the present article:
     (a)      The State to which the person is transferred shall have the authority and obligation to keep the person transferred in custody, unless otherwise requested or authorized by the State from which the person was transferred;
     (b)      The State to which the person is transferred shall without delay implement its obligation to return the person to the custody of the State from which the person was transferred as agreed beforehand, or as otherwise agreed, by the competent authorities of both States;
     (c)      The State to which the person is transferred shall not require the State from which the person was transferred to initiate extradition proceedings for the return of the person;
     (d)      The person transferred shall receive credit for service of the sentence being served in the State from which he or she was transferred for time spent in the custody of the State to which he or she was transferred.
    3. Unless the State Party from which a person is to be transferred in accordance with the present article so agrees, that person, whatever his or her nationality, shall not be prosecuted or detained or subjected to any other restriction of his or her personal liberty in the territory of the State to which that person is transferred in respect of acts or convictions anterior to his or her departure from the territory of the State from which such person was transferred.

Article 17

    Any person who is taken into custody or regarding whom any other measures are taken or proceedings are carried out pursuant to this Convention shall be guaranteed fair treatment, including enjoyment of all rights and guarantees in conformity with the law of the State in the territory of which that person is present and applicable provisions of international law, including international human rights law.


Article 18

    1. States Parties shall cooperate in the prevention of the offences set forth in article 2 by taking all practicable measures, inter alia, by adapting their domestic legislation, if necessary, to prevent and counter preparations in their respective territories for the commission of those offences within or outside their territories, including:
     (a)      Measures to prohibit in their territories illegal activities of persons and organizations that knowingly encourage, instigate, organize or engage in the commission of offences set forth in article 2;
     (b)      Measures requiring financial institutions and other professions involved in financial transactions to utilize the most efficient measures available for the identification of their usual or occasional customers, as well as customers in whose interest accounts are opened, and to pay special attention to unusual or suspicious transactions and report transactions suspected of stemming from a criminal activity. For this purpose, States Parties shall consider:


    (i)     Adopting regulations prohibiting the opening of accounts the holders or beneficiaries of which are unidentified or unidentifiable, and measures to ensure that such institutions verify the identity of the real owners of such transactions;
    (ii)     With respect to the identification of legal entities, requiring financial institutions, when necessary, to take measures to verify the legal existence and the structure of the customer by obtaining, either from a public register or from the customer or both, proof of incorporation, including information concerning the customer's name, legal form, address, directors and provisions regulating the power to bind the entity;


    (iii)     Adopting regulations imposing on financial institutions the obligation to report promptly to the competent authorities all complex, unusual large transactions and unusual patterns of transactions, which have no apparent economic or obviously lawful purpose, without fear of assuming criminal or civil liability for breach of any restriction on disclosure of information if they report their suspicions in good faith;
    (iv)     Requiring financial institutions to maintain, for at least five years, all necessary records on transactions, both domestic and international.
    2. States Parties shall further cooperate in the prevention of offences set forth in article 2 by considering:
     (a)      Measures for the supervision, including, for example, the licensing, of all money-transmission agencies;
     (b)      Feasible measures to detect or monitor the physical cross-border transportation of cash and bearer negotiable instruments, subject to strict safeguards to ensure proper use of information and without impeding in any way the freedom of capital movements.

    3. States Parties shall further cooperate in the prevention of the offences set forth in article 2 by exchanging accurate and verified information in accordance with their domestic law and coordinating administrative and other measures taken, as appropriate, to prevent the commission of offences set forth in article 2, in particular by:
     (a)      Establishing and maintaining channels of communication between their competent agencies and services to facilitate the secure and rapid exchange of information concerning all aspects of offences set forth in article 2;
     (b)      Cooperating with one another in conducting inquiries, with respect to the offences set forth in article 2, concerning:
    (i)     The identity, whereabouts and activities of persons in respect of whom reasonable suspicion exists that they are involved in such offences;
    (ii)     The movement of funds relating to the commission of such offences.
    4. States Parties may exchange information through the International Criminal Police Organization (Interpol).

Article 19

    The State Party where the alleged offender is prosecuted shall, in accordance with its domestic law or applicable procedures, communicate the final outcome of the proceedings to the Secretary-General of the United Nations, who shall transmit the information to the other States Parties.

Article 20

    The States Parties shall carry out their obligations under this Convention in a manner consistent with the principles of sovereign equality and territorial integrity of States and that of non-intervention in the domestic affairs of other States.


Article 21

    Nothing in this Convention shall affect other rights, obligations and responsibilities of States and individuals under international law, in particular the purposes of the Charter of the United Nations, international humanitarian law and other relevant conventions.

Article 22

    Nothing in this Convention entitles a State Party to undertake in the territory of another State Party the exercise of jurisdiction or performance of functions which are exclusively reserved for the authorities of that other State Party by its domestic law.

Article 23

    1. The annex may be amended by the addition of relevant treaties that:
     (a)      Are open to the participation of all States;
     (b)      Have entered into force;
     (c)      Have been ratified, accepted, approved or acceded to by at least twenty-two States Parties to the present Convention.
    2. After the entry into force of this Convention, any State Party may propose such an amendment. Any proposal for an amendment shall be communicated to the depositary in written form. The depositary shall notify proposals that meet the requirements of paragraph 1 to all States Parties and seek their views on whether the proposed amendment should be adopted.
    3. The proposed amendment shall be deemed adopted unless one third of the States Parties object to it by a written notification not later than 180 days after its circulation.
    4. The adopted amendment to the annex shall enter into force 30 days after the deposit of the twenty-second instrument of ratification, acceptance or approval of such amendment for all those States Parties having deposited such an instrument. For each State Party ratifying, accepting or approving the amendment after the deposit of the twenty-second instrument, the amendment shall enter into force on the thirtieth day after deposit by such State Party of its instrument of ratification, acceptance or approval.

Article 24

    1. Any dispute between two or more States Parties concerning the interpretation or application of this Convention which cannot be settled through negotiation within a reasonable time shall, at the request of one of them, be submitted to arbitration. If, within six months from the date of the request for arbitration, the parties are unable to agree on the organization of the arbitration, any one of those parties may refer the dispute to the International Court of Justice, by application, in conformity with the Statute of the Court.
    2. Each State may at the time of signature, ratification, acceptance or approval of this Convention or accession thereto declare that it does not consider itself bound by paragraph 1. The other States Parties shall not be bound by paragraph 1 with respect to any State Party which has made such a reservation.
    3. Any State which has made a reservation in accordance with paragraph 2 may at any time withdraw that reservation by notification to the Secretary-General of the United Nations.

Article 25

    1. This Convention shall be open for signature by all States from 10 January 2000 to 31 December 2001 at United Nations Headquarters in New York.

    2. This Convention is subject to ratification, acceptance or approval. The instruments of ratification, acceptance or approval shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.
    3. This Convention shall be open to accession by any State. The instruments of accession shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations.

Article 26

    1. This Convention shall enter into force on the thirtieth day following the date of the deposit of the twenty-second instrument of ratification, acceptance, approval or accession with the Secretary-General of the United Nations.
    2. For each State ratifying, accepting, approving or acceding to the Convention after the deposit of the twenty-second instrument of ratification, acceptance, approval or accession, the Convention shall enter into force on the thirtieth day after deposit by such State of its instrument of ratification, acceptance, approval or accession.


Article 27

    1. Any State Party may denounce this Convention by written notification to the Secretary-General of the United Nations.
    2. Denunciation shall take effect one year following the date on which notification is received by the Secretary-General of the United Nations.

Article 28

    The original of this Convention, of which the Arabic, Chinese, English, French, Russian and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited with the Secretary-General of the United Nations who shall send certified copies thereof to all States.

    IN WITNESS WHEREOF, the undersigned, being duly authorized thereto by their respective Governments, have signed this Convention, opened for signature at United Nations Headquarters in New York on 10 January 2000.

Annex

    1. Convention for the Suppression of Unlawful Seizure of Aircraft, done at The Hague on 16 December 1970.
    2. Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation, done at Montreal on 23 September 1971.
    3. Convention on the Prevention and Punishment of Crimes against Internationally Protected Persons, including Diplomatic Agents, adopted by the General Assembly of the United Nations on 14 December 1973.
    4. International Convention against the Taking of Hostages, adopted by the General Assembly of the United Nations on 17 December 1979.
    5. Convention on the Physical Protection of Nuclear Material, adopted at Vienna on 3 March 1980.
    6. Protocol for the Suppression of Unlawful Acts of Violence at Airports Serving International Civil Aviation, supplementary to the Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Civil Aviation, done at Montreal on 24 February 1988.
    7. Convention for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Maritime Navigation, done at Rome on 10 March 1988.
    8. Protocol for the Suppression of Unlawful Acts against the Safety of Fixed Platforms located on the Continental Shelf, done at Rome on 10 March 1988.
    9. International Convention for the Suppression of Terrorist Bombings, adopted by the General Assembly of the United Nations on 15 December 1997.