Ferill 440. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 707  —  440. mál.




Skýrsla



viðskiptaráðherra um áhrif laga nr. 31/1999 á íslenskt efnahagslíf.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Samkvæmt ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, skal viðskiptaráðherra fyrir árslok 2001 leggja fram skýrslu á Alþingi um áhrif laganna á íslenskt efnahagslíf.

1. Um starfsheimildir alþjóðlegra viðskiptafélaga.
    Samkvæmt lögum nr. 31/1999 er mönnum rétt að stofna alþjóðleg viðskiptafélög í því skyni að stunda viðskipti við erlenda aðila utan Íslands eða hafa milligöngu um slík viðskipti með vörur sem EES-samningurinn tekur ekki til og eiga ekki uppruna sinn hér á landi. Þá má alþjóðlegt viðskiptafélag hafa milligöngu um viðskipti með þjónustu milli erlendra aðila utan íslenskrar lögsögu. Það getur verið eignaraðili að atvinnufyrirtækjum erlendis og öðrum alþjóðlegum viðskiptafélögum.
    Alþjóðlegt viðskiptafélag má eiga eða hafa umráð yfir og skrá hér á landi flugvélar og skip önnur en fiskiskip, enda sinni slíkar flugvélar og skip einungis verkefnum sem alþjóðlegum viðskiptafélögum er heimilt að annast, þ.m.t. leigu til erlendra aðila til flutningastarfsemi. Loks er alþjóðlegu viðskiptafélagi heimilt að starfa eingöngu sem eignarhaldsfélag sem á, fjárfestir í og nýtur arðs af eignarhlut í atvinnufyrirtæki erlendis, eignarréttindum sem skráð eru opinberri skráningu utan Íslands, eða útgáfuréttindum erlendis.
    Alþjóðleg viðskiptafélög mega ekki stunda viðskipti í eigin nafni með vörur við aðila hér á landi eða við innlenda aðila utan Íslands eða hafa milligöngu um slík viðskipti. Þeim er þó heimilt að kaupa rekstrarvörur og þjónustu hér á landi til eigin nota í eðlilegu samhengi við starfsemi sína. Alþjóðlegu viðskiptafélagi er heimilt að eiga viðskipti við önnur alþjóðleg viðskiptafélög bæði hér á landi og erlendis. Því er heimilt að eiga peningalegar eignir hér á landi til nota í daglegum rekstri og taka lán hér á landi jafnt sem erlendis í eðlilegu samræmi við starfsemi sína.

2. Framkvæmd laganna hingað til og framtíðarhorfur.
    Lög nr. 31/1999, um alþjóðleg viðskiptafélög, voru samþykkt á Alþingi 19. mars 1999, og voru fyrstu starfsleyfi alþjóðlegra viðskiptafélaga gefin út í ágúst það ár. Frá því að lögin tóku gildi hafa borist 16 umsóknir um starfsleyfi viðskiptafélaga, þremur verið hafnað eða dregnar til baka, tólf samþykktar og ein er til meðferðar eins og stendur. Eitt starfsleyfi hefur verið lagt inn.

Ár Fjöldi
umsókna
1999 9
2000 4
2001 2
2002 1

    Í dag eru 11 starfsleyfi í gildi. Helstu athafnasvið leyfishafa eru sem hér segir (sum félög starfa á fleira en einu sviði):

Starfsemi Fjöldi
Fjárfestingar og eignarhald 9
Sjávarútvegur 4
Fjarskipti 3
Ýmis starfsemi 3

    Flest eru félög þessi nýlega stofnuð, og hefur full starfsemi ekki hafist í þeim öllum. Enn er því óvíst, hve umfangsmikil starfsemi þegar skráðra fyrirtækja kann að verða. Að líkindum er því of snemmt að segja til um, hver verði endanlegur ávinningur íslenska hagkerfisins af starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga. Skattgreiðslur af starfsemi félaganna námu um 3 millj. kr. vegna ársins 2000.
    Þó er rétt að hafa í huga, að hvað sem öðru líður er um að ræða starfsemi sem ella hefði ekki farið fram á Íslandi. Öll starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga er því hrein viðbót við íslenskt atvinnulíf. Alþjóðleg viðskiptafélög kaupa vöru og þjónustu af innlendum aðilum vegna starfsemi sinnar og greiða skatta og önnur opinber gjöld til ríkisins.

3. Athugun Eftirlitsstofnunar EFTA.
    Með bréfi Eftirlitsstofnunar EFTA, dags. 6. desember sl., var íslenskum stjórnvöldum tilkynnt að ákveðið hefði verið að taka skattalega meðferð alþjóðlegra viðskiptafélaga til athugunar. Byggist sú rannsókn á því að hugsanlega feli skattaumgjörð alþjóðlegra viðskiptafélaga í sér ríkisaðstoð í skilningi EES-samningsins. Tíminn verður að leiða í ljós, hvort þörf sé á að breyta skattareglum um alþjóðleg viðskiptafélög. Rétt er þó að taka fram, að íslensk stjórnvöld telja að ekki sé um að ræða ríkisaðstoð og hafa komið þeim skilningi á framfæri við Eftirlitsstofnun EFTA.

4. Niðurstaða.
    Af framansögðu er ljóst, að umfang starfsemi alþjóðlegra viðskiptafélaga er enn sem komið er minna en vonir stóðu til með setningu laga nr. 31/1999. Á það er þó að líta að atvinnulífið hefur haft skamman tíma til að reyna möguleika þessa félagsforms.