Ferill 491. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 778  —  491. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940 (reynslulausn).

Flm.: Einar K. Guðfinnsson, Össur Skarphéðinsson.



1. gr.

    2. málsl. 5. mgr. 40. gr. laganna orðast svo: Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar sem er styttri en 30 dagar.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Ákvæði um reynslulausn fanga getur að líta í 40. gr. almennu hegningarlaganna en þar segir m.a. að Fangelsismálastofnun ríkisins geti þegar fangi hefur afplánað 2/ 3 hluta refsitímans ákveðið að hann skuli látinn laus til reynslu. Ef sérstaklega stendur á má þó veita reynslulausn þegar liðinn er helmingur refsitímans. Reynslulausn verður hins vegar ekki veitt ef slíkt þykir óráðlegt vegna haga fangans, enda skal honum vís hentugur samastaður og vinna eða önnur kjör sem nægja honum til framfærslu. Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn eða þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar verður reynslulausn hins vegar ekki veitt.
    Af þessu má ráða að löggjafinn veitir allrúmar heimildir til þess að fangi geti fengið reynslulausn en auk þess hefur myndast sú venjuhelgaða framkvæmd að refsifangar fái nær undantekningarlaust reynslulausn eftir helming eða 2/ 3 hluta refsitímans svo framarlega sem skilyrðum laganna um reynslulausn er fullnægt. Reynslulausn verður þó ekki veitt þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn og þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar. Að öðru leyti hefur Fangelsismálastofnun rúmar heimildir til þess að veita fanga reynslulausn. Önnur ákvæði hegningarlaganna um reynslulausn kveða á um önnur þau atriði sem uppfylla þarf áður en reynslulausn er veitt.
    Umboðsmaður Alþingis hefur fjallað um þessi mál og kemst m.a. að þeirri niðurstöðu í máli nr. 2424/1998 að réttarstaða þeirra sem afpláni vararefsingu fésekta sé að öllu jöfnu sú sama og annarra fanga sem sviptir hafa verið frelsi sínu með refsivist. Tilgangur reynslulausnar sé að takmarka andfélagsleg áhrif frelsisskerðingar til lengri tíma og aðstoða fanga í þeim miklu aðlögunarerfiðleikum sem þeirra bíða við lok refsivistar og það geti jafnt átt við um þá menn sem afplána óskilorðsbundinn fangelsisdóm og þá sem sviptir eru frelsi sínu vegna ógreiddra fésekta. Þá telur umboðsmaður óeðlilegt að dómur, úrskurður eða sátt um greiðslu fésektar að viðlagðri vararefsingu reynist dómþolum þungbærari ákvörðun en óskilorðsbundin fangelsisrefsing þar sem fésektir séu vægasta tegund refsinga samkvæmt lögunum. Loks telur umboðsmaður verulegan vafa leika á því að fært sé að útiloka fanga sem afplánaði vararefsingu fésekta og fullnægði að öðru leyti skilyrðum laganna frá möguleika á reynslulausn sökum þess að hann gæti stytt afplánunartíma sinn ef hann hefði til þess fjárhagslegt bolmagn.
    Það er afar vandséð hvers vegna afplánun vararefsingar fésekta á að leiða til þess að mönnum sé meinuð reynslulausn. Ljóst er að eðli afbrotsins hefur ekkert með það að gera hvort menn fá reynslulausn samkvæmt lögunum. Afpláni fangi vararefsingu fésektar, t.d. vegna bágra fjárhagslegra aðstæðna, er fyrir það synjað að hann eigi möguleika á reynslulausn. Augljóst er að nær undantekningarlaust reyna menn að greiða sektina til þess að komast hjá fangelsisvist. Frelsi sitt meta menn ekki til fjár. Þeir sem ekki greiða sekt sína en afplána fangelsisvist gera það að jafnaði vegna þess að þeim eru sektargreiðslurnar ofviða. Þannig kveða lög á um svimandi háar sektargreiðslur vegna skattalagabrota eða vegna þess að vanhöld verða á skilum á vörslusköttum. Slíkar greiðslur geta í slíkum tilvikum og öðrum verið svo háar að viðkomandi einstaklingur getur engan veginn innt þær af hendi. Þá kemur jafnan til fangelsisvistar sem verður ekki stytt með reynslulausn. Hér er því í raun verið að mismuna mönnum að þessu leyti eftir efnahag. Sá sem fjáður er greiðir sína sekt og getur um frjálst höfuð strokið. Sá sem minna hefur á milli handanna verður að afplána fangelsisvist og það án minnsta möguleika á reynslulausn. Hér sker efnahagurinn því í raun úr um örlög manna að loknum dómi dómstólanna. Það getur alls ekki hafa verið ætlun löggjafans. Að mati flutningsmanna er þess vegna afar brýnt að breyta þessu ákvæði hegningarlaganna, treysta þannig í raun jafnræði þegnanna og afnema lög sem leiða til þess að efnahagur manna ræður því hvort þeir þurfa að afplána refsivist án minnsta möguleika á reynslulausn. Þar sem menn verða samkvæmt lögunum ekki dæmdir í fangelsi skemur en 30 daga er lagt til að reynslulausn vegna afplánunar vararefsingar fésekta komi ekki til skoðunar ef hún er styttri en 30 dagar.