Ferill 505. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 797  —  505. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, nr. 96/1997, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Í stað orðanna „allt að 2,50 kr.“ í 2. málsl. 2. mgr. 11. gr. laganna kemur: 3,46 kr.

2. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. júní 2002.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 96/1997, um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum, er lagt fram í því skyni að hækka fjárhæð gjalds sem innheimt er vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum í sláturhúsum.
    Heimildin til innheimtu gjaldsins varð fyrst til með lögum nr. 160/1994, um breytingu á 5. gr. laga nr. 30/1966, um meðferð, skoðun og mat á sláturafurðum. Fram að þeim tíma greiddu sláturleyfishafar eftirlitsaðila beint fyrir kostnaðinn við eftirlitið. Nauðsynlegt var talið að breyta lögunum á þann veg að eftirlit í sláturhúsum og þar með innheimta gjaldsins yrði framvegis á hendi opinberra aðila til þess að viðhalda heimild til útflutnings sláturafurða frá íslenskum sláturhúsum til Evrópusambandsins og Bandaríkja Norður-Ameríku.
    Gjaldinu er ætlað að standa straum af raunkostnaði við heilbrigðiseftirlit með sláturafurðum í sláturhúsum og greiðist af sláturleyfishöfum samkvæmt áætlun sem byggð er á innvegnu magni kjöts í afurðastöð. Endanlegt uppgjör gjaldsins fer síðan fram fyrir 20. febrúar ár hvert í samræmi við rauntölur innvegins magns kjöts í afurðastöð á gjaldárinu samkvæmt upplýsingum Bændasamtaka Íslands.
    Gjaldið rennur í svonefndan Eftirlitssjóð sem er í vörslu landbúnaðarráðuneytisins. Fjárhagsstaða sjóðsins er mjög erfið og hefur hann á undanförnum árum verið rekinn með miklum halla. Ástæður þess eru margar. T.d. hafa tekjur sjóðsins orðið minni en upphaflega mátti gera ráð fyrir. Í 2. mgr. 5. gr. laga nr. 30/1966, sbr. 1. gr. laga nr. 160/1994, var heimild til gjaldtökunnar miðuð við að innheimta mætti allt að 2,50 kr. á hvert kíló kjöts og skyldi sú fjárhæð hækka miðað við vísitölu framfærslukostnaðar í janúar 1995. Heimildin hefur hins vegar aldrei verið fullnýtt. Á árinu 1995 var innheimta gjaldsins miðuð við 2 kr. á hvert kíló kjöts, á árunum 1996–1997 við 2,25 kr. og á árinu 1998 við 2,40 kr. Í lögum nr. 96/1997, sem felldu úr gildi lög nr. 30/1966, með síðari breytingum, var fjárhæðin óbreytt, þ.e. 2,50 kr. á hvert kíló kjöts án vísitölutryggingar. Þá hafa útgjöld Eftirlitssjóðsins orðið mun meiri en gert hafði verið ráð fyrir og stafar það aðallega af hækkunum á gjaldskrá dýralækna fyrir eftirlitið en hún er staðfest af landbúnaðarráðuneytinu.
    Með vísan til framanritaðs er talið nauðsynlegt að hækka fjárhæð eftirlitsgjalds vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum í sláturhúsum skv. 2. mgr. 11. gr. laga nr. 96/1997. Einnig er nauðsynlegt að gera þá breytingu að ákveða fasta fjárhæð gjaldsins með lögum í stað þess að hún er nú valkvæð og miðast við allt að 2,50 kr.
    Í frumvarpinu er lagt til að gjald vegna heilbrigðiseftirlits með sláturafurðum hækki úr 2,50 kr. í 3,46 kr. Útreikningur á nýrri fjárhæð gjaldsins er miðaður við að unnt verði að mæta verðhækkun kostnaðarliða og öðrum fyrirsjáanlegum gjöldum vegna rekstrar og starfsemi sjóðsins. Fjárhæð gjaldsins er miðuð við kostnaðarverð og reiknuð með þeim hætti að miðað er við innvegið heildarmagn kjöts annars vegar og gjaldfærðan kostnað við kjötskoðun hins vegar á árinu 2000. Innvegið heildarmagn kjöts á árinu 2000 var alls 21.090.345 kíló en gjaldfærður kostnaður við kjötskoðun á árinu 2000 62.920.053 kr. Einnig er hér tekið tillit til þess að hluti starfa héraðsdýralækna er við kjötskoðun og miðað við 30% starfshlutfall hjá 10 héraðsdýralæknum sem eingöngu er reiknað af grunnlaunum og launatengdum gjöldum þeirra, samtals 10.000.000 kr. Enn fremur er hér miðað við að gjaldfjárhæðin sé föst fjárhæð í stað þess að hún var áður valkvæð og miðuð við allt að 2,50 kr. en með því er komið í veg fyrir að fjárhæð gjaldsins verði háð ákvörðunum stjórnvalda á hverjum tíma.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um eldi og heilbrigði sláturdýra, slátrun, vinnslu, heilbrigðisskoðun og gæðamat á sláturafurðum,
nr. 96/1997, með síðari breytingum.

    Tilgangur frumvarpsins er að hækka gjald vegna heilbrigðiseftirlits sláturafurða úr 2,50 kr. í 3,46 kr. fyrir hvert innvegið kíló kjöts í sláturhús. Miðað við sama innvegið heildarmagn kjöts og á árinu 2000 eykst álagning um 20 m.kr. Eftir hækkunina verður álagningin um 73 m.kr. sem innheimt verður af sláturleyfishöfum. Ástæða hækkunarinnar er aukinn kostnaður, en núverandi gjaldtaka stendur ekki undir kostnaði og hefur af þeim sökum myndast halli á liðnum.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það hafi að öðru leyti áhrif á ríkissjóð.