Ferill 479. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 896  —  479. mál.




Svar



sjávarútvegsráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Árið 2001 voru engin störf í ráðuneytinu eða stofnunum sem undir það heyra flutt út á land. Hafrannsóknastofnunin hefur á hinn bóginn fjölgað starfsmönnum tveggja útibúa á landsbyggðinni í því skyni að efla starfsemi stofnunarinnar þar en ekki var um eiginlegan flutning starfa eða verkefna að ræða. Þannig var stöðugildum útibúsins í Ólafsvík fjölgað úr 1,5 í 2,5 á árinu en störf starfsmanna þar felast í gagnasöfnun, þátttöku í ýmsum leiðöngrum stofnunarinnar, fiskmerkingum, rannsóknum á göngum og atferli skarkola, sjófuglarannsóknum, rannsóknum á skelfiski og kynningu á starfsemi stofnunarinnar.
    Hjá útibúi Hafrannsóknastofnunarinnar á Ísafirði var starfsmönnum fjölgað úr einum í tvo. Störf þeirra felast í eftirliti og gagnasöfnun vegna stofnstærðarmats nytjafiska auk ýmissa tilraunaveiða, til dæmis á skrápflúru og langlúru í Ísafjarðardjúpi. Vikulega eru útbúin aflayfirlit yfir rækjuveiðar í Ísafjarðardjúpi og þeim miðlað til vinnslustöðva og sjómanna.