Ferill 473. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 897  —  473. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Kristjáns L. Möllers um flutning fjarvinnsluverkefna og starfa út á land.

Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvaða fjarvinnsluverkefni og hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins og stofnana og fyrirtækja í eigu ríkisins, sem heyra undir ráðuneytið, voru flutt út á land árið 2001, sundurliðað eftir ráðuneytinu, stofnunum og fyrirtækjum, svo og eftir stöðum sem verkefnin og störfin voru flutt til? Enn fremur er óskað eftir skilgreiningu á umræddum störfum.

    Árið 2001 voru engin störf eða fjarvinnsluverkefni á vegum utanríkisráðuneytisins flutt út á land. Ráðuneytið vann hins vegar að athugun á því hvort til greina gæti komið að færa hluta af starfsemi þýðingamiðstöðvar utanríkisráðuneytisins út á land eða gefa fólki úti á landi færi á að vinna að þýðingum á vegum ráðuneytisins. Iðntæknistofnun var fengin til að kanna þetta. Niðurstaða hennar var á þá leið að til greina gæti komið að fá einstaklinga úti á landi til að vinna að þýðingum en forsenda þess væri að þýðingamiðstöðin færi að nota svokallað þýðingaminni, hugbúnað sem stuðlar að samræmdum og vönduðum þýðingum. Þýðingamiðstöðin hefur undanfarið unnið að uppbyggingu gagnagrunns fyrir þýðingaminni og síðar á þessu ári verður hægt að meta að hve miklu leyti grunnurinn gæti nýst við fjarvinnslu þýðinga.