Ferill 438. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 898  —  438. mál.




Svar



viðskiptaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um sparifé landsmanna í bönkum og sparisjóðum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu mikið af innstæðum banka og sparisjóða var í eigu einstaklinga 31. janúar sl.?
     2.      Hversu mikið af sparifé landsmanna í bönkum og sparisjóðum var á innlánsreikningum með 1% vöxtum, 2% vöxtum o.s.frv., flokkað eftir vaxtastigi, 31. janúar sl.?
     3.      Hversu mikið af sparifé í bönkum og sparisjóðum var í eigu fólks 65 ára og eldra, flokkað eftir vaxtaflokkum, og hvaða raunvextir voru af þessu sparifé sl. ár?
     4.      Hversu mikið sparifé einstaklinga í bönkum og sparisjóðum var á neikvæðum vöxtum undanfarið ár?


    Viðskiptaráðuneytið óskaði eftir upplýsingum frá Samtökum banka og verðbréfafyrirtækja (SBV) um svör við fyrirspurninni. Í svari sínu segja SBV að þar sem fyrirspurnin beinist að einkamálefnum viðkomandi félaga telji samtökin sig ekki vera í aðstöðu til að verða við beiðni ráðherra. Allar opinberar upplýsingar um félagsrekstur fjármálafyrirtækja sem heyri til SBV séu birtar í ársskýrslum þeirra á hefðbundinn hátt. Fjármálafyrirtæki veiti jafnframt Fjármálaeftirlitinu reglulega upplýsingar, eftir því sem óskað er lögum samkvæmt. Að öðru leyti hvíli ekki upplýsingaskylda á fjármálafyrirtækjum gagnvart öðrum en hluthöfum sínum.
    Ekki liggja ekki fyrir aðgengilegar opinberar upplýsingar sem nýst geta ráðuneytinu til svara við fyrirspurninni. Hagtölur sem Seðlabanki Íslands tekur saman og birtir opinberlega um innlánsstofnanir geta þó gefið vísbendingu um það efni sem spurt er um. Þar er m.a. að finna eftirfarandi flokkun innstæðna í innlánsstofnunum.

Innstæður í innlánsstofnunum 31. desember 2001.

Millj. kr. Hlutfall
Hlaupareikningar o.fl. 65.278 19,4%
Almennar bækur 8.985 2,7%
Annað óbundið sparifé 35.124 10,4%
Verðtryggðar innstæður 96.508 28,6%
Annað bundið sparifé 98.041 29,1%
Gjaldeyrisreikningar 31.229 9,3%
Gengisbundnir krónureikningar 26 0,0%
Innlán vegna lífeyrissparnaðar 1.825 0,5%
Innstæður alls 337.016 100,0%

    Til skýringar á hugtökum skal þess getið að:
          Almennar bækur eru hinar „gömlu“ hefðbundnu sparisjóðsbækur.
          Annað óbundið sparifé er innlánsform sem hefur engin ákvæði um bindingu eða uppsögn innstæðna en gera má ráð fyrir að það njóti hærri ávöxtunar en sparisjóðsbækur.
          Verðtryggðar innstæður eru bundnar í tiltekinn lágmarkstíma og breytast í samræmi við breytingar á lánskjaravísitölu.
          Annað bundið sparifé er háð uppsögn eða bundið í tiltekinn tíma en er ekki verðtryggt. Undir þennan lið falla t.d. svokallaðir peningamarkaðsreikningar.
          Innstæður á gjaldeyrisreikningum eru tilgreindar í erlendri mynt og krónufjárhæð þeirra breytist í samræmi við breytingar á gengi viðkomandi gjaldmiðils gagnvart krónunni.

    Samkvæmt upplýsingum Seðlabanka Íslands eru innlánsvextir nú sem hér segir:

Innlánsvextir banka og sparisjóða í %.

Landsbanki Íslandsbanki Búnaðarbanki Sparisjóðir
Almennar sparisjóðsbækur 1,50 1,10 1,10 1,50
Almennir tékkareikningar 0,75 0,35 0,80 1,00
Sértékkareikningar 1,50 0,70 1,10 1,50
Peningamarkaðsreikningar 9,55 10,36 9,70 10,00
Vísitölubundnir reikningar
36 mánaða 5,55 5,45 5,30 5,40
48 mánaða 5,90 5,90 5,90
60 mánaða 6,05 6,00 6,00
Orlofsreikningar 4,75 4,75 4,75 4,75
Viðbótarlífeyrissparnaður 6,40 6,35 6,25 6,40
Sérstakar verðbætur
Vísitölubundnir reikningar 2,00 1,00 6,00 2,00
Gengisbundnir reikningar 2,00 1,00 6,00 2,00
Innlendir óbundnir gjaldeyrisreikningar
Bandaríkjadalir (USD) 0,25 0,55 0,40 0,30
Sterlingspund (GBP) 2,00 2,05 2,15 2,25
Danskar krónur (DKK) 1,25 1,70 1,65 1,90
Norskar krónur (NOK) 5,00 4,55 5,00 5,25
Sænskar krónur (SEK) 2,00 1,90 1,85 2,00
Svissneskir frankar (CHF) 0,50 0,50 0,40 0,45
Japönsk jen (JPY) 0,05 0,05 0,05 0,05
Evrur (EUR) 1,00 1,50 1,35 1,60