Ferill 584. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 913  —  584. mál.




Frumvarp til laga



um landgræðslu.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


I. KAFLI
Tilgangur, skilgreiningar
og yfirstjórn landgræðslumála.
1. gr.
Tilgangur laganna.

    Tilgangur laga þessara er að vernda, endurheimta og auka þær auðlindir þjóðarinnar sem fólgnar eru í jarðvegi og gróðri landsins og stuðla að sjálfbærri nýtingu þeirra.

2. gr.
Orðskýringar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Afréttur: Það skulu vera afréttir sem ákveðnir hafa verið í samræmi við lög nr. 6/1986 um afréttamálefni, fjallskil o.fl.
     2.      Ástand lands: Eiginleikar og samsetning gróðurs og jarðvegs í vistkerfi viðkomandi landsvæðis, í samanburði við það sem telja má eðlilegt miðað við náttúrulegar aðstæður og hóflega landnýtingu.
     3.      Gróðurvernd: Aðgerðir sem vernda og efla gróður og auka mótstöðuafl lands gegn eyðingu.
     4.      Jarðvegsrof: Losun og flutningur yfirborðsefna sem spillir gróðri eða dregur úr líkum á endurheimt vistkerfa, þ.m.t. vindrof og vatnsrof.
     5.      Landgræðsla: Samheiti yfir alla þá starfsemi og aðgerðir sem mælt er fyrir um í lögum þessum eða samræmast tilgangi laganna.
     6.      Landgræðslusvæði: Landsvæði þar sem unnið er að landgræðslu.
     7.      Landkostir: Auðlindir sem felast í gróðri, jarðvegi og vistkerfum landsins.
     8.      Landspjöll: Umtalsverð óæskileg áhrif á landkosti af manna völdum.
     9.      Sjálfbær landnýting: Nýting á gróðri eða jarðvegi sem hvorki gengur á höfuðstól náttúrunnar né hamlar eðlilegri gróðurframvindu til lengri tíma litið.
     10.      Umráðahafi lands: Sá telst umráðahafi lands sem hefur lögmætan rétt til að ráðstafa nýtingu þess. Á afréttum er viðkomandi sveitarfélag umráðahafi landsins í skilningi laga þessara. Sama á við um öll önnur beitilönd sem notuð eru, með líkum hætti og afréttir, til upprekstrar eða sem sameiginlegur bithagi.
     11.      Uppgræðsla: Framkvæmdir í þeim tilgangi að auka gróðurþekju eða flýta fyrir endurheimt landkosta.
     12.      Úrbótaáætlun: Bindandi gjörningur um bætta landnýtingu eða landbætur.
     13.      Vistheimt: Endurmyndun horfinna náttúrulegra vistkerfa.
     14.      Vöktun: Reglubundið eftirlit með ástandi gróðurs og jarðvegs.

3. gr.
Yfirstjórn landgræðslumála.

    Landbúnaðarráðherra fer með yfirstjórn landgræðslumála.
    Landgræðslan er ríkisstofnun sem fer með landgræðslumál samkvæmt lögum þessum. Höfuðstöðvar Landgræðslunnar eru í Gunnarsholti á Rangárvöllum.
    Yfirmaður Landgræðslunnar nefnist landgræðslustjóri. Hann er skipaður af landbúnaðarráðherra til fimm ára í senn. Landgræðslustjóri skal hafa háskólamenntun í landgræðslu.
    Landgræðslunni er heimilt að starfrækja héraðssetur eftir því sem tilefni eru til.

II. KAFLI
Landgræðsluverkefni.
4. gr.
Verkefni Landgræðslunnar.

    Verkefni Landgræðslunnar eru eftirfarandi:
     1.      Að vinna að verndun og endurheimt landkosta, þ.m.t. stöðvun jarðvegsrofs, gróðurvernd, uppgræðslu lands, vistheimt og sjálfbærri landnýtingu, á eigin vegum eða í samstarfi við aðra.
     2.      Að veita upplýsingar, fræðslu og ráðgjöf um landgræðslu.
     3.      Að meta ástand lands.
     4.      Að annast vöktun og eftirlit með ástandi og framvindu gróðurs og jarðvegs ásamt Náttúruvernd ríkisins, sbr. lög nr. 44/1999, og byggja upp gagnagrunn þar að lútandi.
     5.      Að hafa eftirlit með landnýtingu, staðfesta sjálfbæra landnýtingu og reyna að hindra ósjálfbæra landnýtingu.
     6.      Að gera landgræðsluáætlanir og veita ráðgjöf við gerð héraðsáætlana um landgræðslu.
     7.      Að taka þátt í og veita umsagnir við skipulagsgerð og veita umsagnir við mat á umhverfisáhrifum.
     8.      Að stunda rannsókna- og þróunarstarf í því skyni að efla landgræðslu og bæta landnýtingu.
     9.      Að taka þátt í innlendu og alþjóðlegu samstarfi á sviði landgræðslumála.
     10.      Að vinna önnur landgræðslustörf samkvæmt lögum þessum.

5. gr.
Verkefni sveitarfélaga.

    Sveitarfélög skulu stuðla að landgræðslu innan stjórnsýsluumdæma sinna og hafa eftirlit með að landnýting og ástand lands samrýmist lögum þessum. Sveitarstjórnir fara með réttindi og skyldur sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum.
    Sveitarstjórnir skulu fela nefnd á vegum sveitarfélagsins að fjalla um landgræðslumálefni. Sveitarstjórnir skulu senda Landgræðslunni skriflega tilkynningu um það hvaða nefnd í sveitarfélaginu fer með þau málefni.
    Sveitarstjórnum er heimilt að ráða, einar sér eða sameiginlega, landgræðslufulltrúa til að fylgja eftir verkefnum sveitarfélaga samkvæmt lögum þessum.
    Sveitarstjórnir skulu gera tillögur og áætlanir um landgræðsluverkefni í sveitarfélagi sínu og leita álits Landgræðslunnar á þeim. Sveitarstjórnir geta óskað þess að Landgræðslan sé þeim til faglegrar aðstoðar við landgræðslumálefni og er stofnuninni heimilt að veita slíka aðstoð. Landgræðsluverkefni á vegum sveitarfélaga greiðast úr sveitarsjóði nema annað sé ákveðið í lögum.
    Sveitarstjórnum er heimilt að annast vöktun á ástandi og nýtingu lands í samráði við Landgræðsluna, sbr. 8. gr. Sveitarstjórnir skulu fylgjast með notkun afrétta á starfssvæði sínu í samráði við stjórnir fjallskiladeilda, sbr. lög um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986.

6. gr.
Landgræðsluáætlun.

    Landgræðslan skal í samráði við landbúnaðarráðherra gera tillögu um landgræðsluáætlun til tólf ára í senn sem nær til landsins alls. Í áætluninni skal kveða á um helstu framkvæmdir og verkefni á sviði landgræðslu á tímabilinu og raða þeim í forgangsröð.
    Í landgræðsluáætlun skal m.a. fjalla um áform á sviði gróður- og jarðvegsverndar, landnýtingar, upplýsingaöflunar, ráðgjafar, fræðslu, kynningar, rannsókna og þróunar.
    Sveitarstjórnir skulu koma ábendingum til Landgræðslunnar um það hvaða landgræðsluverkefni þau telja mikilvægust innan sinna stjórnsýslumarka. Hafa skal hliðsjón af þeim ábendingum við gerð landgræðsluáætlunar.
    Landbúnaðarráðherra leggur tillögu um landgræðsluáætlun fyrir Alþingi í formi þingsályktunartillögu.
    Landgræðsluáætlun skal endurskoða á fjögurra ára fresti. Tillögu um endurskoðaða áætlun skal fylgja yfirlit yfir stöðu verkefna og árangur landgræðslustarfsins.

7. gr.
Héraðsáætlanir um landgræðslu.

    Sveitarstjórnir, hver um sig eða fleiri saman, skulu gera héraðsáætlanir um landgræðslu í sveitarfélögum sínum til fjögurra ára í senn. Héraðsáætlanir um landgræðslu skulu samrýmast landgræðsluáætlun, sbr. 6. gr.
    Landgræðslunni er heimilt að taka þátt í gerð héraðsáætlana um landgræðslu. Viðkomandi sveitarstjórn og Landgræðslan skulu þá semja um skiptingu kostnaðar við gerð héraðsáætlunar.

8. gr.
Vöktun.

    Landgræðslan annast vöktun á ástandi gróðurs og jarðvegs á landsvísu. Vöktunin skal ná til ástands lands og framvindu og nýtingar gróðurs og jarðvegs.
    Við vöktun samkvæmt þessari grein skal litið til laga nr. 44/1999, um náttúruvernd.
    Landgræðslunni er heimilt að fela sveitarstjórnum eða öðrum aðilum að annast vöktun á afmörkuðum svæðum. Um slíka vöktun skal gera skriflega samninga þar sem kveðið er á um greiðslur fyrir vöktunina, menntun starfsmanna, skýrslugerð og annað sem máli skiptir.
    Starfsmönnum vöktunaraðila og Landgræðslunnar er heimilt að fara um land til að sinna störfum sínum. Umráðahöfum lands skal tilkynnt um niðurstöður vöktunar.
    Gefi niðurstöður vöktunar tilefni til aðgerða ákveður Landgræðslan þær. Komi í ljós að landnýting sé ekki sjálfbær skal farið með þau mál skv. III. kafla.

9. gr.
Samstarfsverkefni.

    Landgræðslunni er heimilt að taka þátt í og styðja landgræðsluframkvæmdir eða -verkefni sem eru á ábyrgð bænda eða annarra einstaklinga, landgræðslufélaga, sveitarfélaga, fyrirtækja eða annarra. Landgræðslunni er heimilt að hafa frumkvæði að slíkum verkefnum og taka þátt í stofnun félaga í þeim tilgangi.
    Gera skal skriflega samninga um samstarfsverkefni samkvæmt þessari grein þar sem kveðið er á um gagnkvæmar skyldur og réttindi aðila. Þinglýsa skal slíkum samningum eftir atvikum.
    Þegar Landgræðslan hyggst fjármagna samstarfsverkefni, að heild eða hluta, skal stofnunin auglýsa á opinberum vettvangi eftir samstarfsaðilum og umsóknum um stuðning. Í auglýsingu skulu koma fram helstu reglur sem gilda um meðferð umsókna og skilyrði fyrir móttöku styrks eða annars framlags af hálfu Landgræðslunnar.

10. gr.
Samningar um friðun lands.

    Landgræðslunni er heimilt að taka landsvæði til uppgræðslu, friðunar eða annarra landgræðsluframkvæmda þegar það samrýmist tilgangi laga þessara.
    Þegar landgræðsla á vegum stofnunarinnar er fyrirhuguð á svæðum sem ekki eru í hennar umráðum skal Landgræðslan leitast við að ná samningum við umráðahafa viðkomandi landsvæðis um landgræðsluframkvæmdir.
    Landgræðslunni er heimilt að semja við umráðahafa lands um uppgræðslu lands, beitarfriðun eða aðrar landgræðsluframkvæmdir. Henni er m.a. heimilt að gera samninga við eigendur beitarréttar um friðun afrétta fyrir búfjárbeit.
    Þegar slíkir samningar eru gerðir um friðun lands er Landgræðslunni heimilt að kosta landgræðsluframkvæmdir á landinu án undangenginnar auglýsingar, þrátt fyrir 9. gr.
    Samningar um friðun lands skulu ávallt vera skriflegir og þeim skal þinglýst. Í samningunum, sem kveða á um umráð Landgræðslunnar yfir viðkomandi svæði, skulu tilgreind skilyrði fyrir því að fyrri umráðahafi fái landið afhent að nýju.
    Náist samningar um friðun lands ekki innan eðlilegra tímamarka og ástand landsins er með þeim hætti að Landgræðslan telur nauðsynlegt að landið sé friðað er stofnuninni heimilt að ákveða úrbætur, sbr. 20. gr., án frekara samráðs við umráðahafa, eða beita eignarnámi, sbr. 27. gr.

11. gr.
Afhending og sala landgræðslusvæða.

    Þegar land sem Landgræðslan hefur umráð yfir er svo vel gróið að mati stofnunarinnar að eigi er ástæða til frekari aðgerða af hendi Landgræðslunnar er heimilt að afhenda landið til nytja.
    Landgræðslunni er heimilt að binda afhendingu landsins skilyrðum um meðferð og nýtingu þess. Þegar landgræðslusvæði er afhent, í heild eða hluta, skal ávallt gerður skriflegur samningur milli Landgræðslunnar og viðtakanda landsins þar sem kveðið er á um endurgjald, uppsetningu og viðhald girðinga og um meðferð og nýtingu landsins. Slíkum samningum skal þinglýst.
    Við sölu landgræðslusvæða í eigu Landgræðslunnar er stofnuninni heimilt að láta þinglýsa kvöð á landið um meðferð þess eða takmarkanir á landnýtingu.

12. gr.
Forkaupsréttur að landgræðslusvæðum.

    Eigandi jarðar á forkaupsrétt að landgræðslusvæði sem selt er hafi það svæði verið hluti af viðkomandi jörð áður en Landgræðslan fékk umráð yfir svæðinu.

13. gr.
Skyldur viðtakenda landgræðslusvæða.

    Ef vanræksla umráðahafa lands sem Landgræðslan hefur afhent honum eða selt, sbr. 11. eða 12. gr., veldur því að gróðureyðing eða jarðvegsrof hefst að nýju á svæðinu er umráðahafa skylt að græða það aftur á sinn kostnað.
    Vanræki umráðahafi lands nauðsynlegar aðgerðir eftir aðvörun frá Landgræðslunni er stofnuninni heimilt að ákveða úrbætur, sbr. 21. gr., án frekara samráðs við hann. Heimilt er Landgræðslunni að láta vinna nauðsynlegar landgræðsluframkvæmdir á kostnað umráðahafa landsins.

14. gr.
Umferð um landgræðslusvæði.

    Ávallt þegar farið er um landgræðslusvæði skal þess gætt í hvívetna að spilla ekki gróðri eða landi.
    Öll umferð búfjár innan landgræðslusvæða er óheimil nema með leyfi Landgræðslunnar.
    Landgræðslunni er heimilt að takmarka eða banna umferð velknúinna ökutækja innan landgræðslusvæða í umráðum stofnunarinnar ef það er talið nauðsynlegt að hennar mati og landbúnaðarráðherra hefur veitt samþykki sitt. Ráðuneytið birtir þá auglýsingu þess efnis í B-deild Stjórnartíðinda og opinberum fjölmiðli með a.m.k. viku fyrirvara.

15. gr.
Friðun landgræðslusvæða fyrir búfjárbeit.

    Búfjárbeit er bönnuð innan landgræðslusvæða í umráðum Landgræðslunnar nema stofnunin ákveði annað. Girðingar umhverfis landgræðslusvæði skulu uppfylla ákvæði girðingarlaga, nr. 135/2001.
    Komist búfé inn á landgræðslusvæði er Landgræðslunni heimilt að fjarlægja féð. Ef landgræðslusvæðið er afgirt skal eigandi viðkomandi búfjár greiða kostnað sem til fellur vegna fjárins, bæði vegna smölunar þess og fóðrunar, svo og skaðabætur ef búféð hefur valdið tjóni innan landgræðslusvæðisins.
    Landgræðslan skal tilkynna eiganda um búfé sem smalað hefur verið af landgræðslusvæði, ef vitað er hver eigandinn er, og gefa honum kost á að leysa til sín búféð innan hæfilegs frests, gegn greiðslu kostnaðar og bóta fyrir tjón, sbr. 2. mgr.
    Sé ekki vitað hver eigandi búfjárins er eða hann lætur hjá líða að greiða kostnað af smölun og fóðrun fjárins er Landgræðslunni heimilt að krefjast nauðungarsölu á búfénu samkvæmt lögum um nauðungarsölu, nr. 90/1991. Kostnaði af smölun og fóðrun ásamt dráttarvöxtum, öðru vangreiðsluálagi og öllum innheimtukostnaði fylgir lögveðsréttur í viðkomandi búfé.

III. KAFLI
Landnýting og úrræði til verndar landkostum.
16. gr.
Ábyrgð á landnýtingu.

    Land skal nytja svo að eigi valdi rýrnun eða eyðingu landkosta. Umráðahafi lands ber ábyrgð á að landið sé nýtt með sjálfbærum hætti.
    Ef landnýting rýrir landkosti, hamlar umtalsvert framvindu gróðurs eða veldur landspjöllum að mati Landgræðslunnar er umráðahafa lands skylt að breyta landnýtingunni svo að hún samrýmist lögunum. Umráðahafa lands er skylt að kosta landbætur til að bæta fyrir landspjöll eða rýrnun landkosta af hans völdum.
    Sá sem landspjöllum veldur með mannvirkjagerð eða á annan hátt er skyldur að bæta þau. Landgræðslan metur hvað teljast hæfilegar bætur fyrir landspjöll. Stofnunin getur heimilað að landbætur eigi sér stað á öðrum stað en þeim er landspjöllin voru unnin á.

17. gr.
Fyrstu viðbrögð.

    Komi fram ábending til sveitarfélags um að landnýting samrýmist ekki lögum þessum skal viðkomandi sveitarstjórn láta kanna hvort tilefni er til afskipta af málinu.
    Eigi slík ábending við um landsvæði sem er í umráðum sveitarfélagsins sjálfs, þ.e. þegar sveitarstjórn telst umráðahafi landsins í skilningi laga þessara, skal ábendingin framsend til Landgræðslunnar og fer framhald málsins þá eftir ákvæðum 22. gr.

18. gr.
Farið fram á úrbætur.

    Telji sveitarstjórn athugun sína skv. 17. gr. gefa tilefni til frekari afskipta skal tilkynna umráðahafa lands um það skriflega, gefa honum kost á andmælum og óska eftir tillögu hans um aðgerðir til úrbóta. Í bréfinu skal umráðahafa bent á tilgang laga þessara og mikilvægi þess að landnýting sé sjálfbær. Sveitarstjórn skal samtímis senda afrit af tilkynningunni til Landgræðslunnar.
    Umráðahafi skal leggja fram skriflegar úrbótatillögur innan tveggja vikna frá því að tilkynningin var send honum, en fyrr ef sveitarstjórn telur brýnt að bregðast tafarlaust við.

19. gr.
Úrbótaáætlun.

    Berist úrbótatillaga frá umráðahafa lands innan tilskilins frests skal sveitarstjórn meta hvort hún sé viðunandi. Teljist svo vera skal umráðahafa lands og Landgræðslunni send tilkynning þess efnis og er þá komin á úrbótaáætlun.
    Komi ekki fram viðunandi úrbótatillaga frá umráðahafa lands innan tilskilins frests skal sveitarstjórn leggja fram skriflega tillögu til úrbóta innan viku frá því að frestur umráðahafa rann út.
    Úrbótatillaga af hálfu sveitarstjórnar skal send umráðahafa lands í ábyrgðarpósti. Umráðahafa landsins skal veittur viku frestur til að staðfesta úrbótatillöguna með undirskrift sinni og senda hana til sveitarstjórnar. Er þá komin á úrbótaáætlun.
    Í úrbótaáætlun sem samin er af hálfu sveitarfélags skulu vera skýr ákvæði um til hvaða aðgerða umráðahafi lands skuli grípa. Í áætluninni skal mælt fyrir um tímafresti og gildistíma. Einnig skal þar vera ákvæði um skyldu sveitarfélags til að tilkynna brot á úrbótaáætlun til Landgræðslunnar.
    Um leið og úrbótaáætlun samkvæmt þessari grein kemur fram skal viðkomandi sveitarstjórn senda afrit af úrbótaáætluninni til Landgræðslunnar.

20. gr.
Ákvörðun Landgræðslunnar um úrbætur.

    Berist staðfest úrbótaáætlun ekki frá umráðahafa lands innan tilskilins frests eða ef sveitarstjórn telur umráðahafa hafa brotið gegn úrbótaáætlun skal hún án tafar senda Landgræðslunni tilkynningu þar um. Skal þá Landgræðslan ákveða úrbætur og leggja fram skriflega úrbótaáætlun, sbr. nánar 21. gr.
    Úrbótaáætlun Landgræðslunnar tekur þegar gildi. Senda skal frumrit af úrbótaáætlun til umráðahafa lands í ábyrgðarpósti og afrit til viðkomandi sveitarstjórnar. Landgræðslan skal veita umráðahafa lands hæfilegan aðlögunartíma til að framfylgja úrbótaáætlun.
    Úrbótaáætlun sem Landgræðslan ákveður skal þinglýst.

21. gr.
Efni úrbótaáætlunar Landgræðslunnar.

    Í úrbótaáætlun Landgræðslunnar, sbr. 20. gr., skal koma fram með hvaða hætti Landgræðslan telur landnýtingu á viðkomandi landi ósamrýmanlega lögum þessum. Jafnframt skal í úrbótaáætlun lýst hvernig haga beri landnýtingu og vinna að landbótum.
    Úrbótaáætlun skal við það miðuð að land sé nýtt með sjálfbærum hætti og tekið tillit til áhættu vegna sveiflna í árferði. Heimilt er að í úrbótaáætlun sé kveðið á um tilteknar aðgerðir til landbóta af hálfu umráðahafa lands og að hún skuli framkvæmd innan tiltekinna tímamarka. Heimilt er að í úrbótaáætlun sé kveðið á um friðun lands fyrir beit.
    Í úrbótaáætlun skal ávallt koma fram að hún falli úr gildi í síðasta lagi tólf árum frá dagsetningu hennar.

22. gr.
Inngrip Landgræðslunnar.

    Telji Landgræðslan að sveitarfélag hafi ekki uppfyllt skyldur sínar samkvæmt lögum þessum ber stofnuninni að beina skriflegum athugasemdum til viðkomandi sveitarstjórnar þess efnis að hún virði lögin og ræki hlutverk sitt samkvæmt þeim. Athugasemdir skulu sendar í ábyrgðarpósti.
    Sveitarstjórn skal bregðast við athugasemdum Landgræðslunnar innan tveggja vikna frá því að þær voru sendar og skýra stofnuninni skriflega frá því hvernig verði staðið að úrbótum.
    Telji Landgræðslan sveitarfélag enn ekki hafa uppfyllt skyldur sínar að framangreindum tveggja vikna fresti liðnum er stofnuninni heimilt að ákveða úrbætur í samræmi við 20. og 21. gr. eða grípa til annarra viðeigandi aðgerða svo að tilgangi laga þessara verði náð, án frekara samráðs við sveitarfélagið. Heimild Landgræðslunnar til að ákveða úrbætur nær til alls lands sem sveitarstjórnir hafa umráð yfir, þar á meðal eignarlanda sveitarfélaga, afrétta og annarra sameiginlegra beitilanda.

23. gr.
Endurskoðun á úrbótaáætlun.

    Umráðahafa viðkomandi lands, viðkomandi sveitarstjórn eða Landgræðslunni er heimilt að fara fram á endurskoðun úrbótaáætlunar þegar liðin eru fjögur ár frá gildistöku hennar, enda séu fram komin rök fyrir slíkri endurskoðun. Úrbótaáætlun skal þá tekin til endurskoðunar.
    Úrbótaáætlun skal tekin til endurskoðunar ekki síðar en tólf árum frá því að hún tók gildi. Verði ekki af endurskoðun fellur úrbótaáætlun úr gildi.

24. gr.
Brot gegn úrbótaáætlun.

    Landgræðslan eða vöktunaraðili í hennar umboði skal fylgjast með því að umráðahafi lands fylgi úrbótaáætlun sem gerð hefur verið samkvæmt ákvæðum laga þessara. Brjóti umráðahafi lands gegn því sem í úrbótaáætlun segir varðar það refsingu, sbr. 31. gr.
    Telji Landgræðslan að brotið hafi verið gegn úrbótaáætlun ber stofnuninni að beina kæru þess efnis til viðkomandi lögreglustjóra. Landgræðslunni er þá einnig heimilt að beita dagsektum, sbr. 26. gr.

25. gr.
Kæra vegna ákvörðunar um úrbætur.

    Ef umráðahafi lands unir ekki ákvörðun Landgræðslunnar um úrbótaáætlun er honum heimilt að kæra ákvörðunina til landbúnaðarráðherra, sbr. 28. gr.
    Landbúnaðarráðherra getur endurskoðað eða fellt úr gildi hina kærðu úrbótaáætlun ef hann telur verulega formlega eða efnislega vankanta á henni. Að öðrum kosti staðfestir hann úrbótaáætlunina óbreytta.
    Kæra vegna úrbótaáætlunar frestar ekki gildistöku áætlunar nema Landgræðslan ákveði annað.

IV. KAFLI
Ýmis ákvæði.
26. gr.
Dagsektir.

    Landgræðslunni er heimilt að beita dagsektum í því skyni að knýja umráðahafa lands til að gera ráðstafanir sem honum ber skylda til að mati Landgræðslunnar samkvæmt lögum þessum eða til að láta af atferli sem Landgræðslan telur andstætt lögunum. Dagsektir geta numið frá 5.000–25.000 kr. á dag. Dagsektir samkvæmt þessari grein má innheimta með aðför, sbr. lög um aðför, nr. 90/1989, án undangengins dóms eða sáttar. Dagsektir skulu renna í ríkissjóð að frádregnum kostnaði við innheimtuna.

27. gr.
Eignarnám.

    Landgræðslunni er heimilt að taka land eignarnámi ef stofnunin álítur það nauðsynlegt með hliðsjón af tilgangi laga þessara. Um framkvæmd eignarnámsins fer eftir lögum um framkvæmd eignarnáms, nr. 11/1973.

28. gr.
Kærur.

    Landbúnaðarráðherra úrskurðar í ágreiningsefnum sem kunna að rísa á grundvelli laganna og kærð hafa verið.
    Kæra skal berast landbúnaðarráðuneytinu skriflega innan þriggja mánaða frá því að aðila máls var tilkynnt um ákvörðun.

29. gr.
Heimild til stofnunar hlutafélags.

    Landgræðslunni er heimilt að fengnu samþykki landbúnaðarráðherra að eiga aðild að og/eða stofna rannsóknar- og þróunarfyrirtæki er séu hlutafélög eða önnur félög með takmarkaðri ábyrgð er þrói hugmyndir og hagnýti niðurstöður rannsóknar- og þróunarverkefna sem stofnunin vinnur að hverju sinni.

30. gr.
Heimild til útgáfu reglugerða.

    Landbúnaðarráðherra getur í reglugerð sett nánari ákvæði um framkvæmd laga þessara.

31. gr.
Refsiábyrgð.

    Hver sem brýtur gegn ákvæðum laga þessara eða reglum settum samkvæmt þeim skal sæta sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum. Sektir skulu renna í ríkissjóð.
    Með brot á lögum þessum skal fara að hætti opinberra mála.

32. gr.
Kostnaður við framkvæmd laganna.

    Kostnaður við framkvæmd laga þessara skal greiddur úr ríkissjóði eftir því sem ákveðið er í fjárlögum.
    Landgræðslunni er heimilt að afla sér tekna með sölu á efni eða þjónustu vegna landgræðslu eða innheimtu eðlilegra þjónustugjalda fyrir afgreiðslu gagna. Gjöld skulu ákvörðuð í gjaldskrá sem landbúnaðarráðherra staðfestir og skal birta hana í B-deild Stjórnartíðinda. Gjaldskrá fyrir vörur, aðrar en þær sem njóta höfundar- eða einkaleyfaréttar, skal taka mið af kostnaði við þjónustu og framkvæmd einstakra verkefna og skal gjald þá ekki vera hærra en nemur þeim kostnaði. Sé um að ræða gjaldtöku þar sem Landgræðslan er í samkeppnisrekstri skal stofnunin gefa gjaldskrána út.

33. gr.
Gildistaka o.fl.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi lög um landgræðslu, nr. 17/1965, með síðari breytingum.

Ákvæði til bráðabirgða.

    Allir samningar sem Landgræðsla ríkisins og áður Sandgræðsla Íslands hafa gert fyrir gildistöku laganna skulu að fullu halda gildi sínu og tekur Landgræðslan við réttindum og skyldum Landgræðslu ríkisins og Sandgræðslu Íslands samkvæmt slíkum samningum. Sama á við um samninga sem landbúnaðarráðherra hefur gert vegna Landgræðslu ríkisins eða Sandgræðslu Íslands.
    Ákvarðanir um ítölu, sem í gildi eru, falla úr gildi þegar fjögur ár eru liðin frá gildistöku laga þessara.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Núverandi landgræðslulög eru að stofni til frá árinu 1965. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar og löngu er orðið tímabært að endurskoða landgræðslulöggjöfina. Íslendingar voru meðal fyrstu þjóða sem gerðu sér grein fyrir mikilvægi þess að löggjafinn fjallaði um verndun auðlinda sem felast í gróðri og jarðvegi. Upphaf landgræðslulöggjafar hér á landi má rekja allt aftur til ársins 1907, en þá áttu enn eftir að líða áratugir þar til aðrar þjóðir tóku að setja sér slíka löggjöf. Á þeim tæpu fjórum áratugum sem Landgræðsla ríkins hefur starfað, sbr. lög um landgræðslu, nr. 17/1965, hafa orðið gríðarlegar breytingar á öllum sviðum starfseminnar.
    Landgræðsla er samheiti yfir aðgerðir til að vernda og bæta gróður og jarðveg. Tilgangur landgræðslu getur verið mismunandi. Sums staðar hefur þurft að stöðva öra landeyðingu, sem hefur ógnað forsendum byggðar. Annars staðar er markmið landgræðslu að gróður verði öflugri en hann hefur verið, en víða er framleiðsla vistkerfa langtum minni en náttúrufar gefur tilefni til. Enn annar tilgangur landgræðslu er að stefna að tilteknu gróðurfari á landsvæðum, allt eftir því til hvers á að nota þau. Þar getur verið um að ræða tún eða beitiland til landbúnaðar, útivistarsvæði ýmiss konar eða varðveislu fágæts náttúrufars.
    Landgræðsla undanfarinna áratuga hefur tvímælalaust skilað miklum árangri. Stórar landspildur sem áður voru örfoka eru nú þaktar gróðri. Fjölmargir vinna að því að bæta landkosti. Enn er þó langt í að náðst hafi markmið gildandi landgræðslulaga um að stöðva jarðvegseyðingu og koma í veg fyrir að gróður eyðist. Til að þau megi nást er m.a. nauðsynlegt að efla rannsóknir á landgræðslu, virkja betur landnotendur og umráðahafa lands og koma á skilvirkara eftirliti með landnýtingu. Landeyðing og uppblástur verður enn þá víða um land og það allt of víða. Þrátt fyrir árangursríka landgræðslu og mikinn áhuga landsmanna á henni eru gríðarleg vandamál tengd jarðvegsrofi og gróðureyðingu. Ofbeit er enn vandamál og skort hefur úrræði til að bregðast við þessari alvarlegu orsök gróður- og jarðvegseyðingar. Þau úrræði sem hafa verið fyrir hendi hafa verið meingölluð og af þeim sökum óvirk. Þetta hefur m.a. mjög neikvæð áhrif á möguleika á fæðuframleiðslu. Mikilvægt er að lagaramminn um landgræðsluna og fjárlög miðist við að tryggja enn betri árangur í landgræðslustarfinu og taki mið af breyttum vinnubrögðum í stjórnsýslunni á síðustu árum.
    Í kjölfar ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna um umhverfi og þróun, árið 1992, var samþykktur alþjóðlegur samningur um baráttu gegn eyðimerkurmyndun og nú er unnið að sérstökum samningi um jarðvegsvernd. Ýmsar þjóðir hafa á síðustu árum stigið stór skref í þá átt að bæta árangur af landgræðslu og endurskoða löggjöf um hana. Þar má t.d. nefna Bandaríkin, Ástralíu og Nýja-Sjáland. Hér á landi hefur þróunin á sviði umhverfismála og bættrar landnýtingar m.a. leitt af sér ný lög um náttúruvernd, nýja skipulagslöggjöf og lög um mat á umhverfisáhrifum. Það er ekki síður mikilvægt að endurskoða landgræðslulöggjöfina. Mikilvægt er að efla ný viðhorf um sjálfbæra nýtingu náttúruauðlinda sem felast í jarðvegi og gróðri. Enda þótt starf Landgræðslunnar hafi haft sjálfbæra nýtingu landsins að leiðarljósi frá upphafi var það hugtak ekki til þegar núgildandi lög um þennan málaflokk voru samin. Í dag eru flestir sammála um að þennan hugsunarhátt eigi að taka upp í allri umgengni við landið og auðlindir jarðar.
    Meðfylgjandi frumvarp er að stofni til samið af nefnd sem Guðmundur Bjarnason, þáverandi landbúnaðarráðherra, skipaði síðla árs 1998 til að gera tillögur um langtímastefnu í landgræðslu og gróðurvernd. Í nefndinni sátu Sigurður Guðmundsson skipulagsfræðingur, formaður, Gunnar Sæmundsson, bóndi í Hrútatungu, Hugi Ólafsson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, Níels Árni Lund, deildarstjóri í landbúnaðarráðuneytinu, Snorri Björn Sigurðsson, sveitarstjóri í Skagafirði, og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri. Nefndin skilaði skýrslu sinni til landbúnaðarráðherra í október 1999 og hefur ráðuneytið gefið hana út undir nafninu „Í sátt við landið“. Frumvarpið hefur þó tekið allnokkrum breytingum í meðförum ráðuneytisins samkvæmt tillögum frá Landgræðslu ríkisins.
    Enda þótt frumvarpið sé að verulegu leyti í anda gildandi landgræðslulaga er ýmis nýmæli að finna í því. Þar má nefna að skýrar er kveðið á um verkaskiptingu en nú og það á að vera alveg ljóst hver ber ábyrgð á landi. Frumvarpið mun leiða til skýrari stefnumótunar í landgræðslu og felur í sér úrræðaferli sem á að stuðla betur að sjálfbærri landnýtingu en núverandi lög gera. Því er ætlað að endurspegla þá þróun sem orðið hefur í umhverfismálum á síðustu áratugum og efla landgræðslu á Íslandi. Leitast var við að hafa frumvarpið stutt, hnitmiðað og auðskiljanlegt. Það er samtals 33 greinar auk bráðabirgðaákvæða og er skipt niður í fjóra kafla:
          Í I. kafla (1.–3. gr.) er fjallað um tilgang laganna og helstu hugtök skilgreind sem notuð eru í frumvarpinu og talin er ástæða til að skýra sérstaklega. Þar er einnig mælt fyrir um skipulag landgræðslumála innan stjórnsýslunnar.
          Í II. kafla (4.–15. gr.) er fjallað um landgræðsluverkefni. Þar er að finna yfirlit yfir verkefni Landgræðslunnar og nánari lýsingu á þeim helstu. Einnig er fjallað um hlutverk sveitarfélaga í landgræðslu og hvernig einkaaðilar geta komið að landgræðsluverkefnum í samstarfi við hið opinbera.
          Í III. kafla (16.–25. gr.) er fjallað um ábyrgð á landnýtingu og því lýst hvernig unnt sé að bregðast við illri meðferð á landi. Einn helsti gallinn við núgildandi lög um landgræðslu, nr. 17/1965, er að í þeim eru ekki nægjanlega skýr lagaleg úrræði til að hægt sé að bregðast við þegar land hefur verið ofbeitt og umráðahafi landsins hefur ekki viljað draga úr beitarálaginu. Lögin hafa heldur ekki veitt viðunandi úrræði til að bregðast við þegar búfé hefur ítrekað verið sleppt inn á afgirt landgræðslusvæði með tilheyrandi tjóni. Þó svo að umrædd tilvik séu ekki mjög mörg eru þau engu að síður alvarleg. Skortur á úrræðum hefur m.a. leitt til þess að Landgræðsla ríkisins hefur ekki getað sinnt gróðurverndarhlutverki sínu sem skyldi. Einnig er bagalegt að þeir landnotendur sem leggja metnað í bætta landnýtingu, en staðhættir valda því að erfitt er að setja upp gripheldar girðingar, hafa orðið fyrir miklum ágangi búfjár af ofbeittu landi. Eðlilega leitar búfénaður af ofbeittu landi yfir á grösugri svæði. Við þessum vandamálum, þ.e. ofbeitinni eða ósjálfbærri landnýtingu, er brugðist í III. kafla frumvarpsins. Þess er vænst að það muni nánast heyra til undantekninga að beita þurfi úrræðaákvæðunum. En þau þurfa engu að síður að vera fyrir hendi og kveða á um ferli sem er eins skýrt og mögulegt er til þess að leysa megi þau vandamál sem upp kunna að koma vegna ofbeitar eða annarrar slæmrar meðferðar á landi. Ástæða kann að vera til að huga að endurskoðun lagaákvæða um ágang búfjár í lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl., en um það er ekki fjallað í þessu frumvarpi. Ekki er heldur í þessu frumvarpi hróflað við vörsluákvæðum laga um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991.
          Í IV. kafla (26.–33. gr.) eru tekin saman ýmis ákvæði. Þar er m.a. að finna ákvæði um kostnað við framkvæmd laganna, um útgáfu reglugerða og um stjórnsýslukæru til landbúnaðarráðherra. Síðast en ekki síst er þarna að finna heimildir fyrir Landgræðsluna til að leggja á dagsektir og til eignarnáms. Þetta eru úrræði sem nauðsynlegt er að kveða á um í lögunum, þótt ólíklegt sé að oft þurfi að grípa til þeirra.
          Aftast eru bráðabirgðaákvæði vegna samninga sem Landgræðsla ríkisins (og áður Sandgræðsla Íslands) hafa gert og ákvæði vegna ákvarðana um ítölu sem kunna að vera í gildi.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin fjallar um tilgang laganna. Þar er að meginstefnu haldið í þann tilgang sem kveðið er á um í gildandi lögum um landgræðslu (sjá 1. gr. laga nr. 17/1965). Tilgangur laganna samkvæmt frumvarpinu er fjórþættur:
     1.      vernda gróður og jarðveg. Þetta vísar til þess gróðurs og jarðvegs sem er til staðar hverju sinni.
     2.      Að e ndurheimta gróður og jarðveg. Átt er við að endurheimta skuli eftir föngum þann gróður og jarðveg sem eyðst hefur, með öðrum orðum að græða upp eydd svæði.
     3.      auka gróður og jarðveg. Það gerist t.d. með uppgræðslu vangróinna svæða.
     4.      stuðla að sjálfbærri landnýtingu. Sjálfbær landnýting er ávallt lykilatriði til að unnt sé að vernda og auka gróður og jarðveg.
    Byggt er á því meginsjónarmiði að gróður og jarðvegur séu meðal helstu náttúruauðlinda þjóðarinnar. Hafa ber í huga hversu náið samspil er milli gróðurs og jarðvegs. Gróður hindrar jarðvegsrof og jarðvegsrof (þ.m.t. uppblástur) veldur gróðureyðingu. Tilgangi laganna verður ekki náð nema bæði sé lögð áhersla á gróðurvernd og jarðvegsvernd.
    Við framkvæmd laganna skal ávallt höfð hliðsjón af tilgangi þeirra. Stefnt skal að því að gróðurfar sé í sem bestu samræmi við náttúruleg skilyrði og fjölþætta þörf þjóðarinnar fyrir land til ýmissa nota.

Um 2. gr.

    Í greininni eru skilgreind ýmis mikilvæg hugtök sem notuð eru í frumvarpinu. Hugtakaskilgreiningarnar skýra sig að mestu sjálfar og um fæstar er ástæða til að fjalla sérstaklega. Þess skal getið að um vöktun er fjallað sérstaklega í athugasemdum um 8. gr. frumvarpsins.
    Hugtakið „afréttur“ er skilgreint með hliðsjón af skilgreiningu afrétta í lögum nr. 6/1986, um afréttamálefni, fjallskil o.fl. Afréttir eru ekki alltaf landsvæði utan byggðar sem að staðaldri hafa verið notuð til sumarbeitar fyrir búfé því oft er landsvæði sem ekki er afréttur notað þannig og því er of víðtækt að skilgreina afrétti á þá vegu. Hins vegar hafa afréttalönd tekið breytingum í gegnum tíðina og því er lagt til að fellt verði út „sem að fornu hafa verið“, sem er í skilgreiningu afrétta í lögum nr. 6/1986.
    Hugtakið „ástand lands“ hefur mikla þýðingu. Til að unnt sé að meta hvernig tekst að ná tilgangi laganna þarf t.d. að meta hvort land sé í góðu eða slæmu ástandi. Með samanburði á núverandi eiginleikum landsvæðis við mögulega og æskilega eiginleika er unnt að lýsa ástandi landsins. Skal þá einkum litið til gróðurþekju og plöntusamfélaga á viðkomandi svæði, jarðvegseiginleika, umfangs jarðvegsrofs og fjölbreytileika lífríkis á svæðinu. Þetta eru þeir þættir sem fyrst og fremst hafa áhrif á ástand lands. Til að leggja mat á þá þarf að koma til sérfræðiþekking og mikilvægt er að matið sé ávallt byggt á bestu fyrirliggjandi gögnum hverju sinni. Eðlilegt er að við það sé tekið tillit til svokallaðrar varúðarreglu umhverfisréttar.
    Hugtakið „sjálfbær landnýting“ hefur til þessa ekki verið að finna í íslenskum lögum. Þótt orðið landnýting sé auðskilið er ekki augljóst hvað átt er við með sjálfbærri landnýtingu. Í lögfræðilegri merkingu felast í þessu hugtaki takmarkanir á rétti eigenda eða annarra umráðahafa lands til að nýta viðkomandi landsvæði hvernig sem er. Samkvæmt alþjóðlegum umhverfisrétti merkir sjálfbær nýting þjóðréttarlega skyldu ríkis til að sjá til þess að hver kynslóð umgangist vistkerfi landsins þannig að komandi kynslóðir geti einnig notið þeirra líffræðilegu auðlinda sem í vistkerfunum felast. Mat á því hvort landnýting telst sjálfbær eða ekki er samkvæmt frumvarpinu í höndum Landgræðslunnar.
    Hugtakið „umráðahafi lands“ er einnig mjög þýðingarmikið, t.d. ber umráðahafi lands ábyrgð á landnýtingunni, sbr. 16. gr. frumvarpsins. Umráðahafinn er sá sem hefur lögmætan rétt til að ráðstafa nýtingu landsins. Hann getur t.d. verið eigandi þess, ábúandi, leigutaki eða handhafi beitarréttar. Þegar um afrétti er að ræða er viðkomandi sveitarfélag umráðahafi landsins. Eftir því sem við getur átt skal sama skipan eiga við um önnur beitilönd sem notuð eru með líkum hætti og afréttir, svo og um sameiginlega bithaga. Sveitarfélög eru því umráðahafar slíkra landsvæða. Þetta er sams konar skipan og nú þegar er mælt fyrir um í 12. gr. laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Sveitarfélög eru einnig umráðahafar allra almenninga innan stjórnsýslumarka viðkomandi sveitarfélaga.
    Hugtakið „úrbótaáætlun“ merkir bindandi gjörning um bætta landnýtingu og landbætur eins og nánar er skilgreint í III. kafla frumvarpsins. Úrbótaáætlun kemur til vegna ófullnægjandi landnýtingar, annaðhvort vegna aðkomu sveitarfélags eða vegna aðkomu Landgræðslunnar. Úrbótaáætlun er skuldbindandi löggerningur sem miðar að því að landnýting á því svæði, sem áætlunin tekur til, verði sjálfbær.

Um 3. gr.

    Þessi grein fjallar um yfirstjórn landgræðslumála innan stjórnkerfis ríkisins.
    Samkvæmt. 1. mgr. er landbúnaðarráðherra æðsta stjórnvald í þeim málefnum sem snúa að landgræðslu á vegum ríkisins.
    Samkvæmt 2. mgr. skal ríkið starfrækja stofnun (Landgræðsluna) til þess að annast landgræðslumál líkt og verið hefur um margra áratuga skeið. Nafni Landgræðslu ríkisins er breytt í „Landgræðslan“. Í greininni er fastsett að höfuðstöðvar Landgræðslunnar skuli vera í Gunnarsholti á Rangárvöllum og staðsetningunni verður því ekki breytt nema með lögum. Þess má geta að höfuðstöðvar landgræðslu hér á landi hafa frá upphafi verið í Gunnarsholti.
    Samkvæmt 3. mgr. nefnist yfirmaður Landgræðslunnar landgræðslustjóri. Landbúnaðarráðherra ræður landgræðslustjóra til fimm ára í senn sem er í samræmi við lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr. 70/1996. Gert er ráð fyrir að þetta komi fyrst til framkvæmda þegar núverandi landgræðslustjóri lætur af störfum.
    Greinin setur það skilyrði að landgræðslustjóri hafi háskólamenntun í landgræðslu, enda mikilvægt að landgræðslustjóri sé nægjanlega sérfróður um hana. Landgræðslustjóri stjórnar Landgræðslunni, ber ábyrgð á rekstri hennar og ræður til hennar starfsfólk.
    Í 4. mgr. er Landgræðslunni heimilað að reka héraðssetur þar sem tilefni er til. Nú eru nokkur héraðssetur starfrækt á vegum Landgræðslu ríkisins og ætla má að fjöldi þeirra breytist lítið á næstu árum. Þótt ekki sé nauðsynlegt að mæla fyrir um þessa heimild til að reka héraðssetur í lögum, er það gert til að árétta mikilvægi þess að Landgræðslan haldi góðu sambandi við fólk í héraði.

Um 4. gr.

    Í greininni eru verkefni Landgræðslunnar talin upp en þeim er svo lýst nánar síðar í frumvarpinu. Athuga ber að eitt mikilvægasta hlutverk Landgræðslunnar er fyrirbyggjandi starf, sbr. ákvæði í 2. tölulið greinarinnar um upplýsingagjöf, fræðslu og ráðgjöf. Lýtur þetta m.a. að landnýtingu og beitarstýringu.
    Meðal verkefna Landgræðslunnar er að meta ástand lands og ákveða hvort landnýting telst sjálfbær. Landgræðsla ríkisins hefur þróað flokkunarkerfi sem nýtist við þetta mat og gert er ráð fyrir því að Landgræðslan haldi áfram að þróa það.
    Tekið skal fram að Náttúruvernd ríkisins hefur ásamt Landgræðslunni hlutverki að gegna við gróðureftirlit, sbr. lög um náttúruvernd, nr. 44/1999. Einnig ber hér að geta laga um heftingu landbrots og varnir gegn ágangi vatna, nr. 43/1975. Með frumvarpinu er ekki hróflað við þessum lögum en þau skulu skýrð til samræmis við frumvarp þetta verði það að lögum.

Um 5. gr.

    Þessi grein fjallar um skipan landgræðslumála á vettvangi sveitarfélaga. Sveitarfélögum er hér falið mikilvægt hlutverk enda æskilegt að heimamenn hafi sem mest frumkvæði að landgræðslu í héraði. Sveitarfélögum er þó að mestu í sjálfsvald sett hversu mikla áherslu þau leggja á landgræðsluhlutverk sitt. Sveitarfélög eru mjög misstór og misjafnt er hversu mikla burði þau hafa til að sinna landgræðslu.
    Í 1. mgr. er áhersla lögð á mikilvægi þess að sveitarfélög stuðli af fremsta megni að landgræðslu og hafi eftirlit með því að landnýting innan sinna stjórnsýslumarka sé í samræmi við lögin. Eðlilega eru það sveitarstjórnir sem eru fulltrúar sveitarfélaga og framfylgja verkefnum þeirra. Þær geta að sjálfsögðu falið starfsfólki sínu að sinna þeim samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998.
    Í 2. mgr. kemur fram að sveitarfélög ákveða sjálf hvar þau skipa landgræðslu innan stjórnkerfis síns, en gert er ráð fyrir þeirri skyldu að sérstök nefnd á vegum sveitarfélagsins fjalli um þau málefni. Þetta getur verið sérstök landgræðslunefnd en einnig má hugsa sér að t.d. umhverfisnefnd sinni þessu. Ávallt skal tilkynna Landgræðslunni hvaða nefnd fer með málefni landgræðslu og ber sveitarstjórn ábyrgð á að koma slíkri tilkynningu til skila. Vitneskja Landgræðslunnar um þetta er mikilvæg svo að stofnunin geti ræktað gott samstarf við sveitarfélög.
    Í 3. mgr. er mælt fyrir um heimild sveitarstjórna til að ráða landgræðslufulltrúa til að fylgja eftir landgræðslustarfi á vegum sveitarfélaga. Þótt ekki sé nauðsynlegt að taka þetta fram í lögum er það talið æskilegt, þó ekki sé til annars en benda sveitarstjórnum á þetta. Vel má hugsa sér að starf landgræðslufulltrúa sé samræmt starfi búfjáreftirlitsmanns, sbr. lög um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991.
    Í 4. mgr. er kveðið á um skyldu sveitarstjórna til að vinna tillögur og áætlanir um landgræðsluverkefni. Þetta ákvæði ber að skoða í samhengi við 7. gr. frumvarpsins.
    Í 5. mgr. er ákvæði sem ætlað er að minna sveitarstjórnir á eftirlitsskyldu þeirra vegna landnýtingar á afréttum, sem fjallað er um í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Einnig er í þessari málsgrein ákvæði um heimild sveitarstjórna til að annast vöktun, en um hana er nánar fjallað í 8. gr. frumvarpsins. Með því að taka þetta fram er lögð áhersla á að árangur landgræðslustarfs ræðst mjög af áhuga heimamanna. Mikilvægt er að sveitarfélög sýni gott fordæmi og eigi farsælt samstarf við Landgræðsluna.

Um 6. gr.

    Í þessari grein er fjallað um landgræðsluáætlun, sem er áætlun á landsvísu, sbr. 1. mgr. Það er hlutverk Landgræðslunnar að gera landgræðsluáætlun, en hafa skal samráð við landbúnaðarráðherra (landbúnaðarráðuneytið), enda er það landbúnaðarráðherra sem leggur áætlunina fyrir Alþingi. Landgræðslan leggur m.a. tillögur fyrir ráðherra um helstu verkefni og forgangsröðun. Þar á meðal geta verið tillögur um þau landsvæði sem að mati Landgræðslunnar er talið nauðsynlegt að friða fyrir búfjárbeit. Athuga ber að landgræðsluáætlanir munu þó ekki fela í sér tæmandi upptalningu á fyrirhuguðum verkefnum. Nauðsynlegt er að Landgræðslan grípi til landgræðsluframkvæmda þegar mikið liggur við þó svo ekki sé sérstaklega mælt fyrir um framkvæmdirnar í gildandi landgræðsluáætlun.
    Um innihald landgræðsluáætlunar segir nánar í 2. mgr. Eðlilegt er að við gerð landgræðsluáætlunar sé tekið tillit til ábendinga sveitarfélaga um hvaða landgræðsluverkefni þau telja mikilvægust innan sinna stjórnsýslumarka, sbr. 3. mgr.
    Landgræðsluáætlun skal hverju sinni gerð til tólf ára og vera endurskoðuð á fjögurra ára fresti. Alþingi mun því á fjögurra ára fresti fá til umfjöllunar greinargerð um stöðu landgræðslumála og framtíðaráform stjórnvalda á þessu sviði næstu tólf árin.

Um 7. gr.

    Í þessari grein er sveitarfélögum gert skylt að gera héraðsáætlanir um landgræðslu til fjögurra ára í senn. Þeim er heimilt að sameinast um gerð héraðsáætlana og Landgræðslunni er heimilt að taka þátt í gerð þeirra, en þá skal stofnunin semja við viðkomandi sveitarfélag um skiptingu kostnaðarins. Gert er ráð fyrir að héraðsáætlanir verði fremur einfaldar í sniðum, en hvetji sveitarfélög til að sinna landgræðsluhlutverki sínu, sem kveðið er á um í upphafi 5. gr.
    Í greininni er tekið fram að þessum áætlunum er ætlað að falla að landsáætlun á sviði landgræðslu, sbr. 6. gr., enda mikilvægt að samræmi sé þarna á milli.
    Sveitarfélag þarf svigrúm til að gera fyrstu héraðsáætlun sína. Það ræðst af afgreiðslu þessa frumvarps hvenær héraðsáætlanir samkvæmt þessari grein verða tilbúnar.

Um 8. gr.

    Í þessari grein er fjallað um þann þátt í eftirliti Landgræðslunnar með ástandi gróðurs og jarðvegs sem nefndur er vöktun. Munurinn á vöktun og almennu eftirliti Landgræðslunnar með landnýtingu felst í því að með vöktun er átt við reglubundna skoðun á afmörkuðum landsvæðum. Gert er ráð fyrir að niðurstöðurnar séu skráðar skipulega þannig að vöktunin nýtist í rannsókna- og þróunarstarfi. Almennt eftirlit felst aftur á móti fremur í daglegri starfsemi með heimsóknum til umráðahafa lands, ráðgjöf og þess háttar.
    Við vöktunina skal tekið eðlilegt tillit til 2. mgr. 39. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999, en þar er mælt fyrir um gróðureftirlit Náttúruverndar ríkisins og Landgræðslu ríkisins.
    Samkvæmt 3. mgr. er Landgræðslunni heimilt að semja við sveitarfélög eða aðra um að sinna vöktun. Þótt óþarft kunni að vera að taka þetta fram í lögum er það talið æskilegt til að alveg ljóst sé að þessi heimild er fyrir hendi.
    Í greininni er vöktunaraðila gefin afdráttarlaus heimild til að fara um land til að sinna störfum sínum. Umráðahöfum lands er því skylt að leyfa starfsmönnum Landgræðslunnar eða annars vöktunaraðila að fara um land sitt. Eðlilega skulu viðkomandi forðast í hvívetna að valda spjöllum á landinu eða óþarfa truflunum.
    Samkvæmt 5. mgr. er gert ráð fyrir því að Landgræðslan ákveði aðgerðir ef niðurstöður vöktunar gefa tilefni til og að þær skuli vera skv. III. kafla laganna.

Um 9. gr.

    Í þessari grein er að finna ákvæði um landgræðsluverkefni sem Landgræðslan tekur þátt í. Miðað er við að þessi þáttur starfseminnar fari vaxandi. Greinin leggur engar hömlur á það með hverjum stofnunin vinnur og frumkvæðið má bæði koma frá stofnuninni sjálfri og utanaðkomandi aðilum.
    Þegar fyrirhuguð eru samstarfsverkefni, sem fela í sér útgjöld af hálfu Landgræðslunnar, skal Landgræðslan almennt auglýsa opinberlega eftir umsóknum um þátttöku í þeim, sbr. 3. mgr. Þetta ákvæði er áminning um að gæta jafnræðis í samræmi við almennar reglur stjórnsýsluréttarins. Einnig ber að hafa í huga að mikilvægt er að kostnaðaráætlun liggi fyrir áður en ráðist er í samstarfsverkefni af þessu tagi.
    Samkvæmt greininni er Landgræðslunni heimilt að styðja landgræðslu á vegum bænda, enda eru verkefnin „Bændur græða landið“ og „Betra bú“ einhver árangursríkustu samstarfsverkefni sem Landgræðsla ríkisins hefur tekið þátt í. Landgræðslunni er einnig heimilt að taka þátt í samstarfsverkefnum sem eru þess eðlis að fyrirtæki eða einstaklingar styrkja stofnunina gegn því að mega t.d. vísa til hennar í markaðssetningu. „Græðum landið með OLÍS“ er dæmi um slíkt verkefni. Samstarfsverkefni geta einnig falist í þátttöku eða styrkjum frá Landgræðslunni vegna girðinga eða sáninga, svo dæmi séu nefnd. Landgræðslan verður þó, sem fyrr segir, að gæta þess að virða jafnræðisreglu. Sem dæmi um samstarfsverkefni má einnig nefna að Landgræðslan getur samið við eigendur beitarréttar um friðun afrétta fyrir búfjárbeit. Landgræðslunni er heimilt að láta þá sem fengið hafa staðfestingu á sjálfbærri landnýtingu njóta forgangs að samstarfsverkefnum. Í greininni er gert ráð fyrir að samningum um samstarfsverkefni sé eftir atvikum þinglýst.
    Í núgildandi landgræðslulögum, nr. 17/1965, eru ítarleg ákvæði um landgræðslufélög. Reynslan hefur sýnt að algerlega óþarft er að löggjafinn setji svo nákvæmar reglur. Aðalatriðið er að þau samstarfsverkefni sem Landgræðslan tekur þátt í séu í samræmi við heildarmarkmið í landgræðslu.

Um 10. gr.

    Í þessari grein segir að Landgræðslunni sé ávallt heimilt að taka landsvæði til uppgræðslu, friðunar eða annarra landgræðsluframkvæmda þegar það samrýmist tilgangi laganna, sbr. 1. mgr. Landgræðslunni er líka ávallt heimilt að semja við umráðahafa lands um beitarfriðun eða aðrar landgræðsluaðgerðir, sbr. 3. mgr., og hafa slíkir samningar m.a. verið gerðir um friðun afrétta. Almennt geta slíkir samningar fallið undir 9. gr. frumvarpsins, en athuga ber að skv. 4. mgr. má Landgræðslan semja um friðun lands án undangenginnar auglýsingar.
    Heimild Landgræðslunnar til að taka land til uppgræðslu eða annarra landgræðsluframkvæmda, sbr. 1. mgr., er allvíðtæk. Athuga ber að alltaf þegar landsvæði, sem landgræðsla er fyrirhuguð á, er í umráðum annarra en Landgræðslunnar skal stofnunin leitast við að ná samningum um landgræðsluna við umráðahafa landsins. Þetta er áréttað í 2. mgr. Í viðkomandi samningi skal mælt fyrir um tiltekin skilyrði sem þurfa að vera uppfyllt áður en umráðahafi landsins fær það afhent að nýju, sbr. 5. mgr. Samningar af þessu tagi skulu vera skriflegir og þeim skal þinglýst, en það er mjög mikilvægt ef aðilaskipti verða að landinu.
    Þegar samningar nást ekki við umráðahafa landsins og um er að ræða landsvæði sem brýnt er að græða upp, þarf Landgræðslan að geta tekið landið til landgræðslu þrátt fyrir ónógan samstarfsvilja umráðahafa. Því er í 6. mgr. mælt fyrir um heimild Landgræðslunnar til að ákveða úrbætur eða gera eignarnám. Komi til þess reynir eftir atvikum á 20. gr. eða 27. gr. frumvarpsins. Ákvæði 6. mgr. er til komið af illri nauðsyn; ekki er gert ráð fyrir að á það reyni nema í undantekningartilvikum.

Um 11. gr.

    Þegar landgræðslu er lokið af hálfu Landgræðslunnar er almennt ekki ástæða til að stofnunin hafi lengur umráð yfir landgræðslusvæðinu. Í greininni er henni heimilað að afhenda slík svæði til nytja sem getur t.d. gerst með leigu eða sölu. Tekið er fram að í þess konar samningum skuli ávallt kveðið á um endurgjald (leigu), uppsetningu og viðhald girðinga, meðferð og nýtingu landsins. Þetta er m.a. nauðsynlegt svo að unnt sé að rifta leigusamningi ef leigutakinn spillir landinu með ofnýtingu eða illri meðferð. Þinglýsa skal samningum um afhendingu lands.
    Til að fyrirbyggja að gróðri taki aftur að hnigna á landsvæði, sem Landgræðslan hefur haft umráð yfir en selur, er heimilt að ráðstafa landinu með kvöðum um meðferð þess eða nýtingu. Landgræðslan skal mæla fyrir um slíkar kvaðir. Að sjálfsögðu skulu þær samrýmast tilgangi laganna.

Um 12. gr.

    Talið er eðlilegt að þegar landgræðslusvæði í eigu Landgræðslunnar er selt eigi eigandi þeirrar jarðar, sem svæðið var áður hluti af, forkaupsrétt að því. Honum skal boðið að neyta forkaupsréttar með sannanlegum hætti, t.d. með ábyrgðarbréfi.

Um 13. gr.

    Þegar Landgræðslan afhendir land sem hefur verið grætt upp er mikilvægt að viðtakandinn viðhaldi árangrinum og forðist að ofnýta landið. Því er í þessari grein mælt fyrir um skyldu hans til að græða landið upp að nýju ef vanræksla hans veldur því að gróðureyðing eða jarðvegsrof hefst á ný. Greinin er sambærileg við 14. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965.

Um 14. gr.

    Í greininni er fjallað um umferð um landgræðslusvæði sem eru í umráðum Landgræðslunnar. Umferð um önnur landgræðslusvæði fer eftir ákvörðun umráðahafa og viðkomandi löggjöf (sbr. einkum lög um náttúruvernd, nr. 44/1999).
    Gangandi fólki er ávallt heimilt að fara um landgræðslusvæði í umráðum Landgræðslunnar. Sama á almennt við um vélknúin ökutæki, en þau verða ávallt að halda sig á vegum, sbr. 17. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Þegar Landgræðslan telur nauðsynlegt að takmarka eða banna umferð vélknúinna ökutækja um landgræðslusvæði skal hún leggja það til við landbúnaðarráðuneytið, sem auglýsir það í B-deild Stjórnartíðinda og opinberum fjölmiðli. Með „opinberum fjölmiðli“ er í frumvarpinu átt við fjölmiðil sem rekinn er af ríkinu og hefur landsútbreiðslu, sbr. Ríkisútvarpið nú, hvort heldur er Rás 1, Rás 2 eða Sjónvarpið, og eftir atvikum aðra fjölmiðla.

Um 15. gr.

    Í greininni er fjallað um friðun landgræðslusvæða fyrir búfé, þ.e. svæða sem eru í umráðum Landgræðslunnar. Öll umferð búfjár er þar bönnuð innan afgirtra landgræðslusvæða, nema Landgræðslan heimili beinlínis slíka umferð. Ekki er talið viðeigandi að kveða á um friðun landgræðslusvæða sem eru ekki í umráðum Landgræðslunnar. Ávallt þegar stofnunin á aðild að landgræðslu getur hún hlutast til um að svæðið sé friðað samkvæmt viðkomandi samstarfssamningi, sbr. 10. gr. frumvarpsins.
    Í íslenskum rétti eru almennt ekki lagðar ríkar skyldur á eigendur búfjár til að halda því í vörslu, enda landfræðilegar aðstæður oft þannig að slíkt er afar vandasamt. Um vörslu búfjár er nú fyrst og fremst mælt fyrir í lögum um búfjárhald, forðagæslu o.fl., nr. 46/1991, en einnig eru ákvæði sem þetta varða í lögum um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986. Samkvæmt þessari löggjöf, ásamt girðingarlögum nr. 135/2001, er almennt gengið út frá því meginsjónarmiði að sá sem ekki unir umferð búfjár á landi sínu þurfi að girða landið af. Í girðingarlögunum eru ákvæði um skiptingu girðingarkostnaðar þegar girðing er reist á landamerkjum. Umræða um lausagöngu búfjár undanfarin misseri og ár gefur vísbendingu um að í þjóðfélaginu sé farið að gera auknar kröfur um að umráðamaður búfjár skuli bera ríkari ábyrgð en nú og tryggja vörslu búfjárins. Í þessu frumvarpi er þó ekki hróflað við núverandi skipan mála.
    Landgræðslunni er að sjálfsögðu ávallt heimilt að reka búfé af landgræðslusvæði í umráðum stofnunarinnar. En til að stofnunin geti gripið til þeirra aðgerða sem lýst er í 2.–4. mgr. þarf viðkomandi landgræðslusvæði að hafa verið girt af í samræmi við ákvæði girðingarlaga, nr. 135/2001. Ákvæði greinarinnar um viðbrögð vegna búfjár sem komist hefur inn á afgirt landgræðslusvæði skýra sig að öðru leyti sjálf.

Um 16. gr.

    Í þessari grein er kveðið á um þá grundvallarreglu að við landnýtingu skuli þess ætíð gætt að valda ekki rýrnun eða eyðingu landkosta. Ekki er um nýmæli að ræða, ákvæðið er tekið orðrétt úr 17. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965.
    Ábyrgð á því að landnýting samræmist lögunum hvílir samkvæmt þessari grein á umráðahafa landsins. Honum ber því að sjá til þess að land í hans umráðum sé ekki nýtt með ósjálfbærum hætti. Nauðsynlegt er að kveða með skýrum hætti á um það hver ber þessa ábyrgð, til að unnt sé að ná tilgangi laganna um sjálfbæra landnýtingu.
    Komi í ljós að landnýting rýri landgæði, hamli umtalsvert eðlilegri eða æskilegri framvindu gróðurs eða valdi landspjöllum er umráðahafa lands skylt að breyta landnýtingunni svo að hún samrýmist lögunum. Þetta segir í 2. mgr. Umráðahafi skal einnig kosta landbætur til að bæta fyrir landspjöll eða rýrnun landkosta af hans völdum, sbr. 3. mgr. Þetta er í samræmi við ákvæði 17. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965. Landgræðslunni er falið að segja til um hvernig umráðahafi lands skuli bæta landspjöll, sem er í samræmi við 2. mgr. 18. gr. núgildandi laga um landgræðslu.

Um 17. gr.

    Í 17.–24. gr. er fjallað um þau úrræði sem eru til þess fallin að tryggja framkvæmd landnýtingarákvæðanna og stuðla þannig að sjálfbærri landnýtingu. Áður en fjallað er um greinarnar hverja fyrir sig skal úrræðaferlinu til hagræðis lýst í fáeinum orðum:
     1.      Ef ábending kemur um slæma landnýtingu skal málið kannað óformlega (sjá 17. gr.).
     2.      Ef talin er ástæða til afskipta, þ.e. fótur hefur reynst fyrir ábendingunni, skal eftirlitsaðili (sveitarstjórn eða Landgræðslan) gefa umráðahafa viðkomandi lands kost á að koma að andmælum og tillögu til úrbóta (sjá 18. gr.). Ef sveitarstjórn er umráðahafi landsins er það hlutverk Landgræðslunnar að leita eftir úrbótum (sjá 22. gr.).
     3.      Ef engin eða óviðunandi úrbótatillaga berst frá umráðahafa landsins skal sveitarstjórn gera tillögu um úrbætur og gefa umráðahafa landsins kost á að samþykkja hana (sjá 19. gr.). Geri hann það ekki skal sveitarfélagið fela Landgræðslunni að ákveða úrbætur (sjá 20. gr.).
     4.      Það er þó hlutverk Landgræðslunnar að ákveða úrbætur ef sveitarstjórn er umráðahafi viðkomandi landsvæðis (sjá 22. gr.).
     5.      Ákvörðun eða samningur um úrbætur nefnist úrbótaáætlun. Slíkar áætlanir skulu miðast við að land sé nýtt með sjálfbærum hætti og tillit sé tekið til sveiflna í árferði (sjá 21. gr.). Úrbótaáætlun kemur í stað ákvörðunar um ítölu, sem nú er mælt fyrir um í III. kafla laga um afréttamálefni, fjallskil o.fl., nr. 6/1986, sbr. einnig 23. gr. laga um landgræðslu, nr. 17/1965.
     6.      Ef sveitarfélag telur umráðahafa lands hafa brotið gegn úrbótaáætlun skal hún tilkynna Landgræðslunni það og skal Landgræðslan þá grípa til viðeigandi aðgerða (sjá 20. gr.).
     7.      Verði Landgræðslan vör við að brotið hafi verið gegn úrbótaáætlun skal hún ætíð kæra það til viðkomandi lögreglustjóra. Stofnuninni er þá einnig heimilt að grípa til dagsekta (sjá 24. gr.).
    Nú verður vikið að 17. gr. sérstaklega. Bæði Landgræðslan og sveitarfélög hafa eftirlitshlutverki að gegna og skulu fylgjast með hvort landnýting samrýmist lögunum. Aðrir geta komið ábendingum um slæma landnýtingu til annaðhvort Landgræðslunnar eða sveitarfélaga. Almennt er það þá hlutverk sveitarstjórnar að kanna hvort ábendingin eigi við rök að styðjast. Ef ábending berst Landgræðslunni framsendir stofnunin hana til viðkomandi sveitarfélags. Eigi ábendingin við um landsvæði sem er í umráðum sveitarfélagsins sjálfs, sbr. skilgreiningu frumvarpsins á umráðahafa lands, er það þó hlutverk Landgræðslunnar en ekki sveitarstjórnar, að fylgja málinu eftir (sbr. 22. gr.). Þannig er komið í veg fyrir að sveitarfélag hafi eftirlit með sjálfu sér.

Um 18. gr.

    Ákvæði þessarar greinar koma eftir atvikum til framkvæmda að undangenginni athugun þeirri sem mælt er fyrir um í 17. gr. frumvarpsins. Alltaf þegar ástæða þykir til skal viðkomandi sveitarfélag tilkynna umráðahafa lands að landnýting á viðkomandi svæði samrýmist ekki lögunum. Umráðahafa skal gefinn kostur á andmælum og jafnframt að gera tillögur um úrbætur. Hann getur óskað eftir aðstoð sveitarfélagsins og eftir atvikum landgræðslufulltrúa þess, sbr. 3. mgr. 5. gr., til að móta úrbótatillögur. Mikilvægt er að umráðahafi sjálfur fái tækifæri til að upplýsa hvernig hann ætlar að leysa vandann, og geti haft ákveðið frumkvæði að því, enda er nýting landsins á hans ábyrgð. Samkvæmt greininni fær hann almennt tvær vikur til að undirbúa tillögur og skulu þær vera skriflegar. Í undantekningartilvikum er sveitarstjórn heimilt að hafa þennan frest styttri, þ.e. ef mikið liggur við.

Um 19. gr.

    Samningur eða ákvörðun um úrbætur nefnist úrbótaáætlun. Í þessari grein er fjallað um úrbótaáætlun sem verður til fyrir tilverknað sveitarstjórnar. Þær hafa allfrjálsar hendur við gerð úrbótaáætlana, en skulu þó ávallt hafa hliðsjón af tilgangi laga þessara og sjá til þess að úrbótaáætlun stuðli að sjálfbærri landnýtingu.

Um 20. gr.

    Hér er fjallað um þá tegund úrbótaáætlana sem eru tilkomnar vegna ákvörðunar Landgræðslunnar. Þær er hægt að gera ef:
          umráðahafi hefur brotið gegn úrbótaáætlun sem samþykkt hefur verið fyrir tilstilli sveitarstjórnar,
          engin úrbótaáætlun hefur verið samþykkt þrátt fyrir afskipti sveitarstjórnar, eða
          Landgræðslan telur sveitarstjórn hafa vanrækt skyldur sínar samkvæmt lögunum og tilefni er til úrbóta (sjá nánar 22. gr. frumvarpsins).
    Úrbótaáætlunum sem ákveðnar eru af Landgræðslunni skal þinglýst, enda er það mikilvægt ef aðilaskipti verða að viðkomandi jörð/landsvæði.

Um 21. gr.

    Greinin fjallar um það hvað skal koma fram í úrbótaáætlun sem Landgræðslan ákveður. Helsta viðmiðunin sem Landgræðslan lítur til við ákvörðun úrbóta er að landnýting verði sjálfbær. Gildistími slíkrar áætlunar er að hámarki tólf ár. Tekið skal fram að úrbótaáætlun getur t.d. gilt fyrir afmörkuð beitarsvæði, heilar jarðir, afrétti og önnur sameiginleg beitarlönd.

Um 22. gr.

    Greinin þarfnast ekki sérstakra skýringa. Þó skal tekið fram að Landgræðslan getur alltaf að eigin frumkvæði farið fram á úrbætur vegna landnýtingar, sem hún telur ekki samrýmast lögunum, og gerist þetta almennt þegar Landgræðslan sinnir óformlegu eftirliti og ráðgjafarhlutverki sínu.

Um 23. gr.

    Í þessari grein er fjallað um endurskoðun úrbótaáætlunar. Samkvæmt henni skal taka úrbótaáætlun til endurskoðunar ef krafa um það kemur fram frá þar til bærum aðila eftir að fjögur ár eru liðin frá gildistöku áætlunarinnar. Engu að síður geta málsaðilar alltaf komið sér saman um breytingar á úrbótaáætlun. Úrbótaáætlun gildir aldrei lengur en tólf ár.

Um 24. gr.

    Í þessari grein er fjallað um viðbrögð við broti gegn úrbótaáætlun. Það er Landgræðslan sem á að fylgjast með hvort umráðahafi lands framfylgir úrbótaáætlun. Nær þetta bæði til úrbótaáætlana sem sveitarstjórn á aðild að og úrbótaáætlana sem Landgræðslan hefur ákveðið. Telji stofnunin hafa verið brotið gegn úrbótaáætlun ber henni að kæra það til viðkomandi lögreglustjóra. Í greininni eru tekin af öll tvímæli um að brot gegn úrbótaáætlun jafngildi broti gegn lögunum.

Um 25. gr.

    Í þessari grein segir til um það hvað getur gerst þegar umráðahafi lands unir ekki ákvörðun Landgræðslunnar um úrbætur. Landbúnaðarráðherra úrskurðar í kærumálum sem kunna að rísa á grundvelli laganna, en um kærur er fjallað nánar í 28. gr. frumvarpsins.

Um 26. gr.

    Greinin fjallar um heimild Landgræðslunnar til að ákveða dagsektir í því skyni að lögin séu virt. Á síðustu árum hefur færst í vöxt að í lögum séu dagsektarákvæði af þessu tagi.

Um 27. gr.

    Greinin felur í sér lagaheimild til eignarnáms, sbr. ákvæði 72. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, nr. 33/1944.

Um 28. gr.

    Greinin fjallar um stjórnsýslukærur sem kunna að rísa á grundvelli laganna.

Um 29. gr.

    Samkvæmt greininni er Landgræðslunni heimilt að eiga aðild að og/eða stofna hlutafélag. Er þessi heimild í samræmi við heimildir sem veittar hafa verið á síðustu árum til handa Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknastofnuninni, sbr. lög nr. 64/1965, ásamt síðari breytingum, Háskóla Íslands, sbr. lög nr. 8/1985, Iðntæknistofnun Íslands, sbr. lög nr. 77/1986, og Orkustofnun, sbr. lög nr. 53/1985.

Um 30. gr.

    Greinin fjallar um heimild til útgáfu reglugerða og þarfnast ekki skýringa.

Um 31. gr.

    Greinin fjallar um refsiábyrgð. Eðlilegt er að brot á lögunum varði sektum. Fjárhæð sekta ræðst af almennum hegningarlögum, nr. 19/1940, og dómvenju.

Um 32.–33. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.

    Landgræðsla ríkisins og áður Sandgræðsla Íslands hafa gert fjölda samninga á sviði landgræðslu og skulu þeir halda gildi sínu þrátt fyrir ný lög um landgræðslu. Landgræðslan yfirtekur réttindi og skyldur Landgræðslu ríkisins samkvæmt slíkum samningum. Sama á við um aðra samninga Landgræðslu ríkisins, þar á meðal samninga vegna starfsfólks.




Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um landgræðslu.

    Frumvarpið er lagt fram með það að markmiði að lögfesta tilgang, reglur og ábyrgðarsvið landgræðslu á Íslandi.
    Frekari stefnumótun og forgangsröðun verkefna má sjá í landgræðsluáætlun frá 2003– 2014 sem ætlað er að leggja fram til næstu 12 ára samhliða frumvarpinu, en gerð landgræðsluáætlana er lögfest skv. 6. gr. frumvarpsins. Framlög til áætlunar ákvarðast í fjárlögum hverju sinni.