Ferill 615. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 963  —  615. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu breytinga á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd breytingar á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl sem samþykktar voru í Washington 17. nóvember 2000.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar breytinga á samningi um alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl (INTELSAT) sem samþykktar voru á 25. aukaþingi aðila stofnunarinnar í Washington 17. nóvember 2000. Samningurinn ásamt umræddum breytingum er prentaður sem fylgiskjal með tillögu þessari.
    Með breytingum á samningnum er alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl einkavædd og fyrirtækið INTELSAT sett á stofn, auk alþjóðlegrar eftirlitsstofnunar, ITSO.
    Samtökin INTELSAT voru stofnuð árið 1964 af ellefu ríkjum á grundvelli bráðabirgðasamkomulags þeirra. Við stofnun þeirra var höfð til hliðsjónar sú grundvallarregla sem er að finna í ályktun allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna nr. 1721 (XVI) að fjarskipti um gervitungl skuli vera aðgengileg þjóðum heims eins fljótt og við verður komið um allan heim án mismununar. Stofnsamningur INTELSAT var gerður á vettvangi Sameinuðu þjóðanna 20. ágúst 1971 og var hann fullgiltur af Íslands hálfu 7. febrúar 1975 að fenginni heimild Alþingis.
    Frá stofnun hefur INTELSAT verið í fararbroddi um notkun gervitungla fyrir alþjóðleg fjarskipti auk þess sem aðildarríki samtakanna hafa átt aðgang að gervihnöttunum fyrir innlend fjarskipti þegar það hefur hentað. Síaukin þörf fyrir fjarskipti hefur leitt til mikilla framfara í tækni við smíði fjarskiptatungla og eldflauga til þess að skjóta hnöttunum á braut. Samtímis hefur aukin flutningsgeta tunglanna og aukin notkun þeirra stuðlað að ört lækkandi gjöldum fyrir símtöl og aðra fjarskiptaþjónustu.
    Í kjölfar fullgildingar Íslands á INTELSAT-samningnum var árið 1978 hafist handa um byggingu jarðstöðvar á Íslandi til þess að landsmenn gætu notfært sér gervitungl INTELSAT, en þá var orðið ljóst að sæstrengir Stóra norræna ritsímafélagsins gætu ekki lengur annað þörf fyrir fjarskipti milli Íslands og annarra landa. Jarðstöðin var tekin í notkun í október 1980 og hafði í för með sér byltingu í samskiptum Íslands við útlönd. Til dæmis var þá í fyrsta sinn mögulegt að fá til landsins beinar sjónvarpssendingar frá öðrum löndum. Á næstu tíu árum tífaldaðist símaumferð til og frá útlöndum og fór þá alfarið um gervitungl INTELSAT. Eftir tilkomu ljósleiðara hefur mikilvægi INTELSAT fyrir Íslendinga minnkað en þó fer hluti símtala um gervitunglin og þjóna þau að auki sem varasambönd þegar sæstrengurinn CANTAT-3 slitnar eða bilar.
    Í stofnsamningi INTELSAT voru ákvæði um að aðildarríkin skyldu ekki efna til samkeppni við samtökin um framboð á alþjóðlegri fjarskiptaþjónustu um gervitungl nema ljóst væri að slík samkeppni skaðaði ekki INTELSAT. Upp úr 1985 jókst þrýstingur bandarískra fyrirtækja á þarlend stjórnvöld að afnema séréttindi INTELSAT. Þrýstingurinn leiddi til þess að reglur um mat á fjárhagslegu tjóni samtakanna af samkeppni voru í stöðugri endurskoðun. Í samræmi við þróun fjarskiptamarkaðarins á Vesturlöndum í átt til frjálsræðis urðu raddir þeirra sem kröfðust einkavæðingar INTELSAT sífellt háværari. Aðrir höfðu áhyggjur af þessari þróun vegna þess að fjarskipti margra ríkja þriðja heimsins hafa byggst á reglum INTELSAT um jafnræði til aðgengis að kerfinu og gjaldtöku fyrir notkun þess. Tekist hefur verið á um þessi gagnstæðu sjónarmið á undanförnum árum en á þingi aðildarríkjanna í nóvember 2000 náðist málamiðlun um breytingar á stofnsamningnum sem leiða til einkavæðingar samtakanna og endanlegs afnáms einkaréttar þeirra.
    Eftir breytingar á stofnsamningnum felast skuldbindingar fyrirtækisins INTELSAT í svonefndum meginreglum en samkvæmt þeim skal fyrirtækið:
     1.      viðhalda alheimstengingum og alheimsumfangi,
     2.      þjóna viðskiptavinum sem reiða sig á fjarskipti um INTELSAT,
     3.      veita aðgang að kerfi fyrirtækisins án mismununar.
    Meðal annars er kveðið á um að fyrirtækið INTELSAT taki á sig skuldbindingar gagnvart ríkjum með vanþróuð símkerfi.
    Til þess að fylgjast með því að fyrirtækið INTELSAT standi við skuldbindingar sínar er hluta af starfsemi samtakanna haldið við með alþjóðlegri eftirlitsstofnun, ITSO (International Telecommunications Satellite Organization). Samkvæmt samningnum er ráðgert að ITSO verði við lýði í minnst tólf ár en að þeim tíma liðnum er mögulegt að framlengja rekstur samtakanna.
    Hinn breytti stofnsamningur kveður á um skipulag og starfsemi ITSO sem hafa mun aðsetur í Washington. Stjórn ITSO verður í höndum þings aðila og framkvæmdastjórnar undir stjórn forstjóra sem er ábyrgur gagnvart þinginu. Öll aðildarríki eiga rétt til setu á þingi ITSO. Í viðauka A við hinn breytta samning eru ákvæði um lausn ágreiningsmála.
    Aðildarríki samningsins sem gerður var í Washington 20. ágúst 1971 voru 144 talsins 17. nóvember 2000. Breytingarnar á samningnum hafa ekki öðlast gildi, en samkvæmt ákvæðum hans öðlast þær gildi þegar vörsluaðili hans hefur móttekið tilkynningu um samþykki, staðfestingu eða fullgildingu á breytingunum frá tveimur þriðju hlutum þeirra ríkja sem voru aðilar þann dag er þing aðildarríkja samþykkti þær. Hinn 29. janúar 2002 höfðu 33 aðildarríkjanna staðfest umræddar breytingar á stofnsamningnum.
    Að mati samgönguráðuneytisins kallar staðfesting breytinganna á samningnum ekki á lagabreytingar hér á landi. Heimildar Alþingis er þó leitað til að staðfesta breytingarnar í ljósi þess að leitað var heimildar Alþingis til að fullgilda stofnsamning INTELSAT á sínum tíma og þess að um grundvallarbreytingar á samningnum er að ræða.

Fylgiskjal.


SAMNINGUR
UM ALÞJÓÐASTOFNUN
FJARSKIPTA UM GERVITUNGL.



Upphaflega gerður 20. ágúst 1971 í Washington og öðlaðist gildi 12. febrúar 1973. Felur í sér allar breytingar sem tengjast einkavæðingu INTELSAT eins og þær voru samþykktar af 25. aukaþingi aðila hinn 17. nóvember 2000 í Washington DC, USA.


Inngangur.


Aðildarríki samnings þessa,

    hafa í huga meginreglu ályktunar 1721 XVI. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna að þjóðir heims skulu allar og án mismununar eiga þess kost að nota gervitungl til fjarskipta svo fljótt sem verða má,



    hafa í huga viðeigandi ákvæði samnings um rannsóknir og not ríkja af himingeimnum, tungli og stjörnum, einkum 1. gr. hans þar sem segir að nýting himingeimsins skuli koma öllum löndum til góða og fara fram í þágu þeirra allra,



    viðurkenna að Alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl hafi, í samræmi við upphaflegan tilgang, komið á fót alheimskerfi fjarskipta um gervitungl til að veita öllum svæðum heims fjarskiptaþjónustu sem hefur átt þátt í að skapa heimsfrið og skilning,


    taka með í reikninginn að 24. þing aðildarríkja Alþjóðastofnunar fjarskipta um gervitungl tók ákvörðun um endurskipulag og einkavæðingu með því að koma á fót einkafyrirtæki undir eftirliti samtaka ríkisstjórna,

    viðurkenna að aukin samkeppni í framboði fjarskiptaþjónustu hefur gert það nauðsynlegt að Alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl framselji fyrirtækinu sem skilgreint er í d-lið 1. gr. samnings þessa geimskor sitt svo að geimskorið haldi áfram að vera rekið á árangursríkan og viðskiptalegan hátt,


    með fyrirætlun um að fyrirtækið skuli virða meginreglur sem settar eru fram í 3. gr. samnings þessa og bjóði fram á viðskiptalegum grundvelli geimskorið sem nauðsynlegt er fyrir hágæða áreiðanlega og alþjóðlega fjarskiptaþjónustu,

    hafa ákveðið að þörf sé fyrir eftirlitssamtök ríkisstjórna sem öll aðildarríki Sameinuðu þjóðanna eða Alþjóðafjarskiptasambandsins geta gerst aðilar að, til þess að tryggja að fyrirtækið virði áfram meginreglurnar,


    hafa orðið ásátt um eftirfarandi:

Skilgreiningar.

1. gr.

    Í samningi þessum merkir:
(a)    „samningur“ gildandi samning, þar á meðal fylgiskjal við hann, og allar breytingar á honum að undanþegnum fyrirsögnum einstakra greina, sem lagður var fram til undirritunar ríkisstjórna í Washington 20. ágúst 1971 og setti á stofn alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl;

(b)    „geimskor“ fjarskiptatunglin, ásamt sporun, fjarmælingu, skipunum, stýringu, eftirliti og annarri aðstöðu og búnaði sem þörf er á til að styrkja rekstur gervitunglanna;

(c)    „fjarskipti“ hvers konar fjarflutning, sendingu eða móttöku tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers kyns boð eftir vírum, radíó, ljósgeislum eða öðrum rafsegulkerfum;

(d)    „fyrirtækið“ einkarekið fyrirtæki eða fyrirtæki sem sett er á stofn samkvæmt lögum eins eða fleiri ríkja sem geimskor alþjóðastofnunar fjarskipta um gervitungl er framselt til, þar á meðal þeirra er kynnu að taka við réttindum þeirra;
(e)    „á viðskiptagrundvelli“ að samræmis sé gætt við almennar og hefðbundnar viðskiptavenjur í fjarskiptaiðnaðinum;
(f)    „almenn fjarskiptaþjónusta“ fasta eða færanlega fjarskiptaþjónustu, sem hægt er að láta í té með gervihnöttum og er til afnota fyrir almenning, svo sem talsími, ritsími, telex, myndsími, gagnasendingar, sending á hljóðvarps- eða sjónvarpsdagskrám milli viðurkenndra jarðstöðva, sem aðgang hafa að geimskori fyrirtækisins til sendingar til almennings, og leigðar fjarskiptarásir í sérhverju slíku skyni, en tekur þó ekki til þeirrar færanlegu þjónustu sem bráðabirgðasamkomulagið og sérstaka samkomulagið, er gerð voru áður en samningur þessi var lagður fram til undirritunar, ná ekki til og veitt er gegnum hreyfanlegar stöðvar sem hafa beint samband við gervitungl og ætlað er að einhverju leyti eða öllu að láta í té þjónustu er varðar öryggi eða flugumsjón flugvéla eða radíóleiðsögn flugfara eða skipa;

(g)    „bráðabirgðasamkomulag“ samkomulagið, sem kemur á fót bráðabirgðaskipan alþjóðlegs viðskiptafjarskiptakerfis um gervitungl, sem undirritað var af ríkisstjórnum í Washington hinn 20. ágúst 1964;
(h)    „líflínutengingarskylda“ eða „LCO“ skylduna sem fyrirtækið tekst á hendur samkvæmt LCO-samningnum um að bjóða LCO-viðskiptavinum fjarskiptaþjónustu áfram;

(i)    „hið sérstaka samkomulag“ samkomulagið sem undirritað var 20. ágúst 1964 af ríkisstjórnum eða fjarskiptastofnunum, tilnefndum af ríkisstjórnum samkvæmt ákvæðum bráðabirgðasamkomulagsins;
(j)    „samkomulag um almenningsþjónustu“ það skjal sem að lögum er bindandi og ITSO notar til þess að tryggja að fyrirtækið haldi í heiðri meginreglurnar;
(k)    „meginreglur“ reglurnar sem settar eru fram í 3. gr.;
(l)    „sameiginleg arfleifð“ þær tíðniúthlutanir sem tengjast staðsetningu á baugum um jörðu og eru í flýtibirtingu, samræmingu eða skráningu hjá Alþjóðafjarskiptasambandinu fyrir hönd aðildarríkjanna samkvæmt ákvæðum radíóreglugerðar sambandsins og eru framseldar til eins eða fleiri aðildarríkja samkvæmt 12. gr.;


(m)    „alheimsumfang“ stærsta mögulega svæði á jörðinni sem næst til milli norðlægustu og suðlægustu breiddarbauga frá gervihnöttum sem sett eru á kyrrstöðubaug miðað við jörðu;

(n)    „alheimstenging“ möguleika til tenginga sem standa viðskiptavinum fyrirtækisins til boða gegnum alheimsumfangið sem fyrirtækið veitir í þeim tilgangi að gera fjarskipti möguleg innan og á milli hinna fimm svæða Alþjóðafjarskiptasambandsins sem skilgreind voru af aðalþingi sambandsins í Montreux árið 1965;

(o)    „aðgangur án mismununar“ sanngjörn og jöfn tækifæri til aðgangs að kerfi fyrirtækisins;

(p)    „aðili“ ríki sem samningurinn hefur öðlast gildi gagnvart eða hefur beitt honum til bráðabirgða;

(q)    „eign“ hvað eina sem orðið getur andlag eignarréttinda sem og andlag samningsbundinna réttinda;
(r)    „LCO-viðskiptavinir“ alla viðskiptavini sem uppfylla skilyrði til að gera LCO-samninga og gera slíka samninga; og
(s)    „stjórnvald“ öll ráðuneyti eða opinberar stofnanir sem bera ábyrgð á því að þær skyldur er leiðir af stofnreglum Alþjóðafjarskiptasambandsins, sáttmála Alþjóðafjarskiptasambandsins og stjórnvaldsreglum þess séu uppfylltar.



Stofnun ITSO.
2. gr.

    Að teknu fullu tilliti til þeirra markmiða sem sett eru fram í inngangi samnings þessa, setja aðilar á stofn alþjóðastofnun fjarskipta um gervitungl, hér eftir nefnd ITSO.

Megintilgangur og meginreglur ITSO.
3. gr.

(a)    Með hliðsjón af stofnun fyrirtækisins er það megintilgangur ITSO að tryggja, með samkomulaginu um almenningsþjónustu, að fyrirtækið láti í té á viðskiptagrundvelli alþjóðlega fjarskiptaþjónustu við almenning til að tryggja að farið sé að meginreglunum.

(b)    Meginreglurnar eru:
    (i)    að viðhalda alheimstengingum og alheimsumfangi;
    (ii)    að þjóna líflínuviðskiptavinum; og

    (iii)    veita aðgang að kerfi fyrirtækisins án mismununar.

Fjarskiptaþjónusta til
almennings innan lands.

4. gr.

    Eftirfarandi skal koma til álita í þeim tilgangi að beita 3. gr. á sama hátt og við alþjóðlega fjarskiptaþjónustu til almennings:
(a)    fjarskiptaþjónusta til almennings innan lands milli svæða sem eru aðgreind af svæðum utan lögsögu viðkomandi ríkis eða milli svæða sem eru aðgreind af opnu hafi; og
(b)    fjarskiptaþjónusta til almennings innan lands milli svæða sem eru ekki tengd með jarðlægum breiðbandsmannvirkjum og eru sundurskilin af náttúrulegum hindrunum þess eðlis að þær koma í veg fyrir uppsetningu jarðlægra breiðbandsmannvirkja milli svæðanna, að því gefnu að samþykki réttra aðila hafi verið veitt.


Eftirlit.
5. gr.

    ITSO skal gera allar viðeigandi ráðstafanir, þ.m.t. að gera samkomulag um almenningsþjónustu, til að hafa eftirlit með því hvernig fyrirtækið fylgir meginreglunum, einkum reglunni um aðgang án mismununar að kerfi fyrirtækisins fyrir þá fjarskiptaþjónustu við almenning sem veitt er nú og þá sem fyrirtækið mun bjóða þegar flutningsgeta er fáanleg á viðskiptagrundvelli í geimskori fyrirtækisins.

Lögaðili.
6. gr.

(a)    ITSO skal vera lögaðili. Það skal vera að fullu bært til að reka starfsemi sína og ná markmiðum sínum, þar á meðal til að:

    (i)    gera samninga við ríki eða alþjóðastofnanir;
    (ii)    gera samninga;
    (iii)    kaupa og segja eignir; og
    (iv)    eiga aðild að málaferlum.
(b)    Hver aðili skal gera nauðsynlegar ráðstafanir innan lögsögu sinnar til að ákvæði þessarar greinar taki gildi samkvæmt lögum lands hans.


Fjármál.
7. gr.

(a)    Á því tólf ára tímabili, sem 21. gr. kveður á um verður ITSO fjármagnað með því að haldið er eftir ákveðnum fjármunum þegar framsal á geimskori ITSO til fyrirtækisins fer fram.
(b)    Ef starfsemi ITSO varir lengur en tólf ár skal ITSO fá fjármögnun samkvæmt samkomulaginu um almenningsþjónustu.

Skipulag ITSO.
8. gr.

    Innan ITSO skulu starfa:
(a)    þing aðila; og
(b)    framkvæmdastjórn stýrt af framkvæmdastjóra, sem ber ábyrgð gagnvart þingi aðila.

Þing aðila.
9. gr

(a)    Á þingi aðila eiga allir aðilar sæti og er þingið aðalstofnun ITSO.

(b)    Þing aðila skal fjalla um almenna stefnu og langtímamarkmið ITSO.

(c)    Þing aðila skal fjalla um þau mál sem fyrst og fremst varða aðilana sem fullvalda ríki og einkum tryggja að fyrirtækið bjóði á viðskiptagrundvelli alþjóðlega fjarskiptaþjónustu til almennings í þeim tilgangi að:

    (i)    viðhalda alheimstengingu og alheimsumfangi;
    (ii)    þjóna líflínuviðskiptavinum; og

    (iii)    veita aðgang að kerfi fyrirtækisins án mismununar.
(d)    Þing aðila skal hafa eftirfarandi starfssvið og umboð til að:
    (i)    stýra framkvæmdastjórn ITSO eins og það telur viðeigandi, einkum að því er varðar endurskoðun framkvæmdastjórnarinnar á þeirri starfsemi fyrirtækisins sem lýtur beinlínis að meginreglunum;
    (ii)    fara yfir og taka ákvarðanir um tillögur til breytinga á samningi þessum samkvæmt 15. gr. hans;

    (iii)    skipa framkvæmdastjórann og veita honum lausn frá störfum samkvæmt 10. gr.;
    (iv)    fara yfir og meta skýrslur framkvæmdastjórans um hvernig fyrirtækið fylgir meginreglunum;

    (v)    athuga og taka sjálfstæðar ákvarðanir um tilmæli framkvæmdastjórans;

    (vi)    taka ákvarðanir samkvæmt b-lið 14. gr. samnings þessa í sambandi við úrsögn aðila úr ITSO;

    (vii)    taka ákvarðanir um álitaefni varðandi formlegt samband milli ITSO og ríkja hvort sem þau eru aðilar eða ekki, eða alþjóðastofnana;
    (viii)    fara yfir kvartanir frá aðilum;

    (ix)    fara yfir mál sem varða sameignilega arfleifð aðila;
    (x)    taka ákvarðanir varðandi samþykki sem vísað er til í b-lið 4. gr. samnings þessa;

    (xi)    fara yfir og samþykkja fjárhagsáætlun ITSO fyrir það tímabil þingið ákveður;

    (xii)    taka nauðsynlegar ákvarðanir með tilliti til ófyrirséðra atburða sem ekki er gert ráð fyrir í samþykktri fjárhagsáætlun;
    (xiii)    skipa endurskoðanda til þess að yfirfara útgjöld og reikninga ITSO;
    (xiv)    velja lögfræðinga samkvæmt 3. gr. fylgiskjals A við samning þennan;
    (xv)    ákveða með hvaða skilyrðum framkvæmdastjórinn megi leggja mál gegn fyrirtækinu í gerð samkvæmt samkomulaginu um almenningsþjónustu;

    (xvi)    taka ákvörðun um tillögur til breytinga á samningnum um almenningsþjónustu;
    (xvii)    gegna öðrum hlutverkum sem falla undir það samkvæmt öðrum ákvæðum samnings þessa.
(e)    Þing aðila skal koma saman til almenns fundar annað hvort ár, í fyrsta sinn eigi síðar en tólf mánuðum eftir framsal á geimskori ITSO til fyrirtækisins. Auk almennra funda aðila getur þing aðila komið saman til aukafunda sem boða má til að beiðni framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt k-lið 10. gr., eða að skriflegri beiðni eins eða fleiri aðila til framkvæmdastjóra þar sem gerð er grein fyrir tilgangi fundarins og með samþykki a.m.k. eins þriðja aðilanna að þeim aðilum meðtöldum sem leggja fram beiðnina. Þing aðila skal setja skilyrðin fyrir því að framkvæmdastjórinn megi boða til aukafundar í þingi aðila.



(f)    Fundur þings aðila er lögmætur ef fulltrúar meirihluta aðila sækja hann. Ákvarðanir um efnisatriði skulu teknar með atkvæðum a.m.k. tveggja þriðju hluta aðila þeirra sem fulltrúa eiga á fundinum og greiða atkvæði. Ákvarðanir um þingsköp skulu teknar með atkvæði einfalds meirihluta aðila sem fulltrúa eiga og atkvæði greiða. Ágreiningur um hvort málefni telst til þingskapa eða efnislegt málefni skal leystur með atkvæðum einfalds meirihluta þeirra aðila sem eiga fulltrúa á fundinum og greiða atkvæði. Aðilum skal gefinn kostur á að greiða atkvæði samkvæmt umboði eða með öðrum hætti sem þing aðila telur viðeigandi og skulu aðilar fá fullnægjandi upplýsingar um það fyrir fund í þingi aðila.



(g)    Á öllum fundum í þingi aðila skal hver aðili hafa eitt atkvæði.
(h)    Þing aðila setur sér sjálft þingsköp og skal þar kveðið á um kjör forseta og annarra embættismanna sem og þátttöku og atkvæðagreiðslu.


(i)    Hver aðili skal standa straum af kostnaði fulltrúa sinna á fundi þings aðila. Litið skal á útgjöld af fundum þings aðila sem stjórnunarkostnað ITSO.


Framkvæmdastjóri.
10. gr.

(a)    Framkvæmdastjóri skal veita framkvæmdastjórninni forstöðu og bera beina ábyrgð gagnvart þingi aðila.
(b)    Framkvæmdastjórinn skal
    (i)    vera forstjóri og fulltrúi ITSO að lögum og bera ábyrgð á allri stjórnun, þ.m.t. að nýta réttindi samkvæmt samningum;


    (ii)    starfa í samræmi við stefnu og fyrirmæli þings aðila;
    (iii)    skipaður af þingi aðila til fjögurra ára eða annars tímabils sem þingið ákveður. Þingið getur vikið framkvæmdastjóranum frá störfum ef tilefni er til þess. Framkvæmdastjóri verður ekki skipaður til lengri tíma en átta ára.


(c)    Meginatriði við skipun framkvæmdastjóra og val annars starfsliðs framkvæmdastjórnarinnar skal vera nauðsyn þess að tryggja sem best ráðvendni, hæfni og dugnað að teknu tilliti til hugsanlegra kosta af ráðningu starfsmanna af mismunandi svæðum og frá mismunandi löndum. Framkvæmdastjórinn og starfslið framkvæmdastjórnarinnar skulu forðast athafnir sem ekki samræmast ábyrgð þeirra gagnvart ITSO.


(d)    Framkvæmdastjórinn skal ákveða samsetningu, fjölda og ráðningarskilyrði yfirmanna og annarra starfsmanna, og skal skipa starfslið framkvæmdastjórnarinnar samkvæmt leiðbeiningum og fyrirmælum frá þingi aðila. Framkvæmdastjórinn getur valið ráðgefandi sérfræðinga og aðra ráðgjafa framkvæmdastjórnarinnar.

(e)    Framkvæmdastjórinn skal hafa eftirlit með fylgni fyrirtækisins við meginreglurnar.
(f)    Framkvæmdastjórinn skal
    (i)    fylgjast með því hvernig fyrirtækið fer eftir grunnreglunni um að þjóna LCO-viðskiptavinum með því að halda í heiðri LCO-samninga;
    (ii)    taka til athugunar ákvarðanir fyrirtækisins með tilliti til beiðna um hæfni til að gera LCO-samning;
    (iii)    aðstoða LCO viðskipatvini við að leysa ágreining þeirra við fyrirtækið með því að bjóða aðstoð við sáttagerð;
    (iv)    veita ráðgjöf um val á ráðgjöfum og gerðardómurum ef LCO-viðskiptavinur ákveður að reka mál fyrir gerðardómi gegn fyrirtækinu.
(g)    Framkvæmdastjórinn skal gefa skýrslu til aðila um málefni sem vísað er til í d–f-liðum.

(h)    Framkvæmdastjórinn getur hafið málsókn fyrir gerðardómi gegn fyrirtækinu samkvæmt samningnum um almenningsþjónustu á grundvelli skilmála sem þing aðila setur.

(i)    Framkvæmdastjórinn skal fjalla um málefni fyrirtækisins samkvæmt samningnum um almenningsþjónustu.
(j)    Framkvæmdastjórinn skal, fyrir hönd ITSO, taka til athugunar öll mál sem leiðir af sameiginlegri arfleifð aðila og senda álit aðila til tilkynningarstjórnvaldsins eða -stjórnvalda.

(k)    Ef framkvæmdastjórinn telur að vanefnd aðila á að gera ráðstafanir samkvæmt c-lið 11. gr. hafi skaðað hæfni fyrirtækisins til að fylgja meginreglunum, skal framkvæmdastjórinn hafa samband við aðilann til að leita lausnar á ástandinu og getur kallað saman fund í þingi aðila samkvæmt þeim skilyrðum sem þing aðila hefur sett samkvæmt e-lið 11. gr.


(l)    Þing aðila skal tilnefna háttsettan yfirmann í framkvæmdastjórninni til að vera staðgengill framkvæmdastjóra ef framkvæmdastjórinn er fjarverandi eða ófær um að gegna skyldum sínum eða ef staða framkvæmdastjóra losnar. Staðgengill framkvæmdastjóra skal vera fær um að sinna öllum störfum framkvæmdastjóra samkvæmt þessum samningi. Ef staðan losnar skal staðgengill framkvæmdastjóra gegna störfum hans þar til framkvæmdastjóri hefur verið skipaður og tekur við starfinu, eins fljótt og mögulegt er, samkvæmt b-lið, iii í þessari grein.



Réttindi og skyldur aðila.
11. gr.

(a)    Aðilar skulu njóta réttinda sinna og bera skyldur samkvæmt þessum samningi í fullu samræmi við reglur þær sem greindar eru í inngangi, meginreglunum í 3. gr. og öðrum ákvæðum samnings þessa.

(b)    Öllum aðilum er heimilt að sækja og taka þátt í öllum ráðstefnum og fundum sem þeir mega hafa fulltrúa á samkvæmt ákvæðum samnings þessa svo og hverjum öðrum fundum sem ITSO boðar til eða eru haldnir á vegum þess í samræmi við þá skipan sem ITSO ákveður fyrir slíka fundi hvar sem þeir eru haldnir. Framkvæmdastjórnin skal tryggja að í samkomulagi við þann aðila sem heldur slíka ráðstefnu eða fund sé kveðið á um komu fulltrúa allra aðila sem heimild hafa til þátttöku til gestgjafaríkisins og dvöl þar meðan á ráðstefnunni eða fundinum stendur.

(c)    Allir aðilar skulu gera þær ráðstafanir sem krafist er, á gagnsæjan hátt og svo að gætt sé jafnræðis og samkeppnissjónarmiða samkvæmt gildandi landslögum og þjóðréttarsamningum sem þeir eru aðilar að svo að fyrirtækið geti farið að meginreglunum.

Tíðniúthlutun.
12. gr.

(a)    Aðilar ITSO skulu halda staðsetningu á geimbaug og tíðniúthlutunum meðan á samræmingu eða skráningu af hálfu aðila hjá ITU stendur samkvæmt ákvæðum radíóreglugerðar ITU þangað til tilkynningarstjórnvaldið eða -stjórnvöldin, sem valin hafa verið, hafa afhent vörsluaðila tilkynningu sína um að þau hafi samþykkt, staðfest eða fullgilt núgildandi samning. Aðilar skulu velja úr hópi ITSO-meðlima aðila til að vera fulltrúi allra aðila, sem eru meðlimir í ITSO, hjá ITU á því tímabili þegar aðilar ITSO halda eftir slíkum úthlutunum.

(b)    Aðili sem valinn er samkvæmt a-lið til að vera fulltrúi allra aðila á því tímabili, sem ITSO heldur eftir úthlutunum skal, eftir móttöku tilkynningar frá vörsluaðila um samþykki, staðfestingu eða fullgildingu núgildandi samnings frá þeim aðila sem þing aðila hefur valið til að vera tilkynningarstjórnvald fyrir fyrirtækið, framselja slíkar úthlutanir til tilkynningarstjórnvalds eða -stjórnvalda sem valin hafa verið.

(c)    Aðili sem valinn er til að vera tilkynningarstjórnvald fyrirtækisins skal samkvæmt gildandi landslögum:
    (i)    heimila notkun slíkra tíðniúthlutana af hálfu fyrirtækisins svo framfylgja megi meginreglunum; og
    (ii)    afturkalla slíka tíðniúthlutun samkvæmt reglum ITU ef slík notkun er ekki lengur heimil eða fyrirtækið þarf ekki lengur á slíkum tíðniúthlutunum að halda.

(d)    Ef aðili sem valinn hefur verið til að vera tilkynningarstjórnvald fyrir fyrirtækið hættir að vera meðlimur í ITSO samkvæmt 14. gr. skal slíkur aðili, þrátt fyrir önnur ákvæði samnings þessa, vera bundinn af og háður þeim ákvæðum í þessum samningi og radíóreglugerð ITU sem við eiga þar til tíðniúthlutanir eru framseldar til annars aðila samkvæmt reglum ITU.

(e)    Aðili sem valinn er til að vera tilkynningarstjórnvald samkvæmt c-lið skal:
    (i)    gefa skýrslu a.m.k. árlega til framkvæmdastjórans um þá meðferð sem tilkynningarstjórnvaldið lætur fyrirtækinu í té, með sérstöku tilliti til efnda slíks aðila á skuldbindingnum sínum samkvæmt c-lið 11. gr.;
    (ii)    leita álits framkvæmdastjórans fyrir hönd ITSO á þeim ráðstöfunum sem krafist er til að fyrirtækið framfylgi grunnreglunum;
    (iii)    vinna með framkvæmdastjóranum fyrir hönd ITSO að framtíðaráformum tilkynningarstjórnvaldsins til þess að auka aðgang að líflínulöndum;
    (iv)    tilkynna og ráðfæra sig við framkvæmdastjórann um samræmingu á gervihnattakerfum ITU sem unnið er að fyrir hönd fyrirtækisins til að tryggja að alheimstengingu og þjónustu við líflínunotendur sé viðhaldið; og
    (v)    ráðfæra sig við ITU um þarfir líflínunotenda fyrir gervihnattafjarskipti.


Höfuðstöðvar ITSO, fríðindi, undanþágur, friðhelgi.
13. gr.

(a)    Höfuðstöðvar ITSO skulu vera í Washington DC nema þing aðila ákveði annað.

(b)    ITSO og eignir þess skulu undanþegnar álagningu hvers konar tekju- og eignarskatts í öllum aðildarríkjum samnings þessa vegna þeirrar starfsemi sem heimiluð er í samningnum. Hver aðili mun gera sitt ýtrasta til að afla frekari undanþága fyrir ITSO og eignir þess samkvæmt gildandi landslögum frá álagningu tekju- og eignarskatts og tolla, eftir því sem æskilegt þykir með hliðsjón af hinu sérstaka eðli ITSO.


(c)    Hver aðili annar en sá, sem hefur höfuðstöðvar ITSO á landsvæði sínu, skal samkvæmt bókun þeirri sem vísað er til í þessari málsgrein, og sá aðili sem hefur höfuðstöðvar ITSO á landsvæði sínu skal, samkvæmt höfuðstöðvasamningnum sem vísað er til í þessari málsgrein, veita ITSO, yfirmönnum þess og þeim starfsmönnum, sem skilgreindir eru í bókuninni og höfuðstöðvasamningnum og aðilum og fulltrúum aðila viðeigandi fríðindi, undanþágur og friðhelgi. Sérstaklega skal hver aðili veita þessum einstaklingum undanþágu frá lögsókn vegna verknaðar eða ummæla, skriflegra eða munnlegra, við skyldustörf og innan þess sviðs sem þau afmarka að því marki og í þeim tilvikum sem kveða skal á um í höfuðstöðvasamningnum og bókuninni sem vísað er til í þessari málsgrein. Sá aðili sem hefur aðalstöðvar ITSO á landsvæði sínu skal svo fljótt sem verða má gera höfuðstöðvasamning við ITSO um fríðindi, undanþágur og friðhelgi. Aðrir aðilar skulu einnig svo fljótt sem verða má gera bókun um fríðindi, undanþágur og friðhelgi. Höfuðstöðvasamningurinn og bókunin eru sjálfstæð gagnvart þessum samningi og skal hvor þeirra fela í sér ákvæði um niðurfellingu samningsins og bókunarinnar.



Úrsögn.
14. gr.

(a)    (i)    Hver aðili getur ákveðið að segja sig úr ITSO. Aðili skal afhenda vörsluaðila skriflega tilkynningu um úrsögn sína.

    (ii)    Vörsluaðili skal senda tilkynningu um ákvörðun aðila um úrsögn samkvæmt a-lið, i í þessari grein til allra aðila og framkvæmdastjórnarinnar.

    (iii)    Úrsögn að eigin ósk skal taka gildi og samningur þessi falla úr gildi gagnvart aðila þremur mánuðum eftir móttöku tilkynningarinnar sem vísað er til í a-lið, i í þessari grein, þó með fyrirvara um d-lið 12. gr.
(b)    (i)    Ef aðili virðist hafa vanefnt skyldur sínar samkvæmt þessum samningi, getur þing aðila, að fenginni tilkynningu um það eða af eigin frumkvæði og eftir athugun á skýringum aðilans, ákveðið að líta skuli svo á að aðilinn hafi sagt sig úr ITSO enda álíti þingið að vanefndir hafi í raun átt sér stað. Samningur þessi fellur úr gildi gagnvart þeim aðila frá þeim degi sem ákvörðunin er tekin. Boða má til aukafundar í þingi aðila í þessu skyni.



    (ii)    Ef þing aðila ákveður að líta skuli svo á að aðili hafi sagt sig úr ITSO samkvæmt b-lið, i skal framkvæmdastjórnin tilkynna vörsluaðila um það, sem skal senda tilkynninguna til allra aðila.

(c)    Við móttöku vörsluaðila eða framkvæmdastjórnar, eftir því sem við á, á tilkynningu um úrsögn samkvæmt a-lið, i í þessari grein, skal aðili sem tilkynningu sendir ekki lengur eiga fulltrúa og atkvæðisrétt á þingi aðila og skal ekki bera skyldur eða ábyrgð eftir móttöku tilkynningarinnar.

(d)    Ef þing aðila lítur svo á að aðili hafi sagt sig úr ITSO samkvæmt b-lið þessarar greinar, skal sá aðili ekki bera skyldur eða ábyrgð eftir að slík ákvörðun er tekin.
(e)    Þess verður ekki krafist að aðili segi sig úr ITSO vegna breytingar á stöðu hans gagnvart Sameinuðu þjóðunum eða Alþjóðafjarskiptasambandinu.


Breytingar.
15. gr.

(a)    Hver aðili getur borið fram breytingartillögur við samning þennan. Breytingartillögum ber að skila til framkvæmdastjórnarinnar, sem sendir þær án tafar til allra aðila.
(b)    Þing aðila skal fjalla um hverja breytingartillögu á fyrsta almennum fundi þess eftir að framkvæmdastjórnin hefur dreift henni eða á fyrri aukafundi, sem boðað er til samkvæmt reglum 9. gr. samnings þessa, enda hafi framkvæmdastjórnin dreift breytingartillögunni a.m.k. 90 dögum áður en fundurinn hefst.


(c)    Þing aðila skal taka ákvörðun um hverja breytingartillögu samkvæmt 9. gr. samnings þessa um lögmæti fundar og atkvæðagreiðslu. Það getur breytt breytingartillögu, sem dreift er samkvæmt b-lið þessarar greinar, og getur einnig tekið ákvörðun um breytingartillögu, sem ekki hefur verið dreift, en tengist breytingartillögu eða breytingu á henni.


(d)    Breytingartillaga, sem samþykkt hefur verið af þingi aðila, gengur í gildi samkvæmt e-lið þessarar greinar eftir að vörsluaðili hefur móttekið tilkynningu um samþykki, staðfestingu eða fullgildingu breytingartillögunnar frá tveimur þriðju þeirra ríkja sem voru aðilar á þeim degi sem breytingartillagan var samþykkt af þingi aðila.
(e)    Vörsluaðili skal tilkynna öllum aðilum jafnskjótt og það hefur tekið við skjölum um staðfestingu, samþykki eða fullgildingu sem krafist er samkvæmt d-lið þessarar greinar til að breytingin taki gildi. Breytingin skal taka gildi gagnvart öllum aðilum 90 dögum eftir útgáfu slíkrar tilkynningar, einnig gagnvart þeim sem ekki hafa enn staðfest, samþykkt eða fullgilt hana og hafa ekki sagt sig úr ITSO.
(f)    Þrátt fyrir ákvæði d- og e-liða í þessari grein skal breyting ekki taka gildi fyrr en átta mánuðum eftir þann dag er hún hlaut samþykki þings aðila.


Lausn ágreiningsmála.
16. gr.

(a)    Lagalegum ágreiningsmálum, sem rísa milli aðila innbyrðis eða milli ITSO og eins eða fleiri aðila um réttindi og skyldur aðila samkvæmt samningi þessum, skal vísa til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fylgiskjals A samnings þessa, ef ekki er unnt að leysa þau á annan hátt innan hæfilegs tíma.
(b)    Lagalegum ágreiningsmálum, sem rísa milli aðila og ríkis sem er ekki lengur aðili eða milli ITSO og ríkis sem er ekki lengur aðili og risið hafa eftir að ríki hætti að vera aðili, um réttindi og skyldur samkvæmt samningi þessum skal vísa til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fylgiskjals A samnings þessa ef ekki er unnt að leysa þau á annan hátt innan hæfilegs tíma, enda fallist ríki sem ekki á aðild lengur á það. Ef ríki hættir að vera aðili eftir að ágreiningi sem það á hlut að hefur verið vísað til gerðardóms samkvæmt a-lið þessarar greinar, skal gerðardómur halda áfram störfum sínum og ljúka þeim.


(c)    Með lagaleg ágreiningsmál sem rísa vegna samninga milli ITSO og einhvers aðila skal farið eftir ákvæðum þeirra samninga um úrlausn deilumála. Ef slík ákvæði eru ekki fyrir hendi, má vísa ágreiningsmálum til gerðardóms samkvæmt ákvæðum fylgiskjals A samnings þessa, ef deiluaðilar eru sammála um það og ekki er unnt að leysa þau á annan hátt.

Undirritun.
17. gr

(a)    Samningur þessi skal liggja frammi til undirritunar í Washington frá 20. ágúst 1971 þar til hann tekur gildi eða þar til níu mánuðir eru liðnir, hvort sem fyrr gerist:
    (i)    fyrir ríkisstjórn hvers ríkis sem er aðili að bráðabirgðasamkomulaginu;
    (ii)    fyrir ríkisstjórn hvers annars ríkis sem er aðili að Sameinuðu þjóðunum eða Alþjóðafjarskiptasambandinu.
(b)    Ríkisstjórn sem undirritar samning þennan getur gert það án þess að undirskrift hennar sé háð fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eða með yfirlýsingu um að hún sé háð fullgildingu, staðfestingu eða samþykki.
(c)    Ríki sem vísað er til í a-lið þessarar greinar getur gerst aðili að samningnum eftir að hann hættir að liggja frammi til undirskriftar.
(d)    Enga fyrirvara má gera við samning þennan.

Gildistaka.
18. gr.

(a)    Samningur þessi skal taka gildi sextíu dögum eftir að hann hefur verið undirritaður án fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki eða þegar tveir þriðju hlutar þeirra ríkja sem voru aðilar að bráðabirgðasamkomulaginu þann dag sem samningur þessi var lagður fram til undirritunar hafa fullgilt, staðfest, samþykkt eða orðið aðilar að honum, enda séu á meðal þeirra aðilar að bráðabirgðasamkomulaginu sem áttu a.m.k. tvo þriðju hluta af kvóta samkvæmt sérstaka samkomulaginu.
         Þrátt fyrir ákvæðin hér á undan skal samningur þessi ekki ganga í gildi fyrr en að liðnum átta mánuðum og eigi síðar en átján mánuðum eftir þann dag sem hann er lagður fram til undirritunar.
(b)    Samningur þessi skal ganga í gildi gagnvart ríki sem afhendir skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild eftir gildistöku samnings þessa samkvæmt a-lið þessarar greinar, þann dag er slík skjöl eru afhent.

(c)    Við gildistöku samnings þessa samkvæmt a-lið þessarar greinar, má láta hann taka gildi til bráðabirgða gagnvart ríki ef ríkisstjórn þess hefur undirritað hann með fyrirvara um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki, og sú ríkisstjórn óskar þess við undirritun eða síðar en þó áður en samningurinn tekur gildi. Bráðabirgðagildistaka fellur niður:

    (i)    við afhendingu skjals um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki samnings þessa af hálfu viðkomandi ríkisstjórnar;
    (ii)    þegar tvö ár eru liðin frá því að samningurinn gekk í gildi án þess að viðkomandi ríkisstjórn hafi fullgilt hann, staðfest eða samþykkt; eða

    (iii)    hafi viðkomandi ríkisstjórn tilkynnt þá ákvörðun sína að hún muni ekki fullgilda, staðfesta eða samþykkja þennan samning innan þeirra tímamarka sem greind eru í ii í þessari grein.     Ef bráðabirgðagildistaka fellur niður samkvæmt ii eða iii í þessum lið skulu ákvæði c-liðar 14. gr. samnings þessa gilda um réttindi og skyldur aðilans.

(d)    Við gildistöku samnings þessa skal hann koma í stað bráðabirgðasamkomulagsins og það falla niður.

Ýmis ákvæði.
19. gr

(a)    Hin opinberu og faglegu tungumál ITSO skulu vera enska, franska og spænska.
(b)    Í starfsreglum framkvæmdastjórnarinnar skal kveðið á um tafarlausa dreifingu á ITSO-skjölum til allra aðila samkvæmt beiðni þeirra.

(c)    Framkvæmdastjórnin skal senda aðalframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna og hlutaðeigandi sérstofnunum ársskýrslu um starfsemi ITSO til upplýsinga samkvæmt ákvæðum ályktunar 1721 XVI. allsherjarþings Sameinuðu þjóðanna.


Vörsluaðili.
20. gr.

(a)    Ríkisstjórn Bandaríkjanna skal vera vörsluaðili samnings þessa og skal afhenda henni yfirlýsingar sem gerðar eru samkvæmt b-lið 17. gr. samnings þessa, skjöl um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, beiðni um gildistöku til bráðabirgða og tilkynningar um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki breytinga, ákvarðanir um úrsögn úr ITSO eða lok gildistöku samnings þessa til bráðabirgða.


(b)    Samningur þessi sem gerður er á ensku, frönsku og spænsku sem allir eru jafngildir, skal varðveittur í skjalasafni vörsluaðila. Vörsluaðili skal senda staðfest afrit af samningstextanum til allra ríkisstjórna sem hafa undirritað hann eða afhent aðildarskjöl vegna hans og til Alþjóðafjarskiptasambandsins og skal tilkynna þessum ríkisstjórnum og Alþjóðafjarskiptasambandinu um undirritanir, yfirlýsingar samkvæmt b-lið 17. gr. samnings þessa, afhendingu skjala um fullgildingu, staðfestingu, samþykki eða aðild, beiðni um gildistöku til bráðabirgða, upphaf sextíu daga frestsins sem vísað er til í a-lið 17. gr. samnings þessa, gildistöku hans, tilkynningar um fullgildingu, staðfestingu eða samþykki breytinga, gildistöku breytinga, ákvarðanir um úrsögn úr ITSO, afturköllun og lok gildistöku samnings þessa til bráðabirgða. Tilkynning um upphaf sextíu daga tímabilsins skal gefin út á fyrsta degi þess tímabils.





(c)    Þegar samningur þessi hefur tekið gildi, skal vörsluaðili skrá hann hjá skrifstofu Sameinuðu þjóðanna samkvæmt 102. gr. sáttmála Sameinuðu þjóðanna.

Gildistími.
21. gr.

    Samningur þessi skal gilda í a.m.k. tólf ár frá þeim degi þegar geimskor ITSO er framselt fyrirtækinu. Þing aðila getur fellt samning þennan úr gildi frá og með þeim tíma er tólf ár eru liðin frá framsali á geimskori ITSO til fyrirtækisins með atkvæðagreiðslu aðila samkvæmt f-lið 9. gr. Slíka ákvörðun ber að líta á sem efnislega.


    Þessu til staðfestu hafa fulltrúar ríkjanna, sem saman eru komnir í borginni Washington og hafa lagt fram full umboð sem reynst hafa rétt og fullgild, undirritað samning þennan.

    Gjört í Washington, hinn 20. ágúst 1971.



ÁKVÆÐI UM MÁLSMEÐFERÐTIL LAUSNAR Á DEILUMÁLUM
FYLGISKJAL A


1. gr.


    Deiluaðilar í gerðardómsmáli sem stofnað er til samkvæmt þessu fylgiskjali skulu þeir einir vera sem kveðið er á um í 16. gr. samnings þessa.

2. gr.


    Gerðardómur þriggja manna sem komið er á fót samkvæmt ákvæðum fylgiskjals þessa skal bær um að fella úrskurð í sérhverju deilumáli sem fellur undir 16. gr. samkomulags þessa.


3. gr.


(a)    Eigi síðar en sextíu dögum fyrir setningu fyrsta og hvers eftirfarandi almenns fundar í þingi aðila getur hver aðili tilkynnt framkvæmdastjórninni nöfn eigi fleiri en tveggja lögfræðinga sem leita má til frá lokum slíks fundar til loka fundar tveimur almennum fundum seinna til að taka að sér að vera forseti eða meðlimur gerðardóms sem stofnaður er í samræmi við fylgiskjal þetta. Framkvæmdastjórnin skal gera lista yfir alla þá sem þannig eru tilnefndir og láta listanum fylgja æviatriði sem látin eru í té af aðila þeim sem tilnefnt hefur og dreifa slíkum lista til allra aðila eigi síðar en þrjátíu dögum fyrir setningu hlutaðeigandi fundar. Ef tilnefndur maður verður ekki af einhverjum ástæðum til taks vegna útnefningar í gerðardóminn á sextíu daga tímabilinu fyrir fundarsetningu þings aðila, getur sá aðili sem tilnefnt hefur eigi síðar en fjórtán dögum fyrir setningu fundar í þingi aðila tilnefnt annan lögfræðing.




(b)    Þing aðila skal velja ellefu menn af þeim lista sem getið er um í a-lið þessarar greinar til að vera á lista sem forsetar gerðardóma skulu valdir af og einnig velja varamann fyrir hvern þeirra. Meðlimir og varamenn skulu starfa á því tímabili sem nefnt er í a-lið þessarar greinar. Ef meðlimur getur ekki starfað skal varamaður koma í hans stað.


(c)    Vegna tilnefningar á forseta skal framkvæmdastjórnin boða menn á listanum til fundar svo fljótt sem verða má eftir að listinn er tilbúinn. Menn á listanum mega taka þátt í fundinum í eigin persónu eða með rafrænum hætti. Slíkur fundur er lögmætur ef níu af hinum ellefu meðlimum eru mættir. Hópurinn skal tilnefna einn af meðlimum sínum sem formann með ákvörðun sem tekin skal með atkvæðum a.m.k. sex meðlima í einni leynilegri atkvæðagreiðslu eða fleiri ef nauðsynlegt reynist. Formaður sá sem þannig er tilnefndur skal vera formaður þar til tímabili hans sem meðlimur í hópnum er lokið. Kostnaður við fundi hópsins skal teljast til stjórnunarkostnaðar ITSO.

(d)    Ef hvorki meðlimur né varamaður hans geta starfað, skal þing aðila velja mann í þeirra stað af lista þeim sem rætt er um í a-lið þessarar greinar. Maður sem valinn er til að koma í stað meðlims eða varamanns sem enn hefur ekki lokið starfstímabili skal halda starfi sínu það sem eftir er af starfstímabili fyrirrennara hans. Ef staða formanns verður laus, skal hópurinn tilnefna einn af meðlimum sínum í samræmi við þá aðferð sem mælt er fyrir um í c-lið þessarar greinar.


(e)    Við val á meðlimum hópsins og varamanna í samræmi við b- eða d-liði þessarar greinar skal þing aðila reyna að tryggja að samsetning hópsins verði ávallt í samræmi við fulltrúaval frá ýmsum löndum heims og fyrir helstu lagakerfi aðila.


(f)    Hver meðlimur hópsins eða varamaður sem sæti á í gerðardómi, er kjörtímabil hans rennur út, skal halda áfram starfi sínu þar til lokið er gerð sem fyrir gerðardómi er.


4. gr.


(a)    Hver umsækjandi sem óskar að leggja lagalegan ágreining í gerð skal láta hverjum málsaðila og framkvæmdastjórninni í té skjal sem skal hafa að geyma:
    (i)    greinargerð er lýsi nákvæmlega ágreiningi þeim sem lagður er í gerð, ástæður fyrir því að málsaðilar skuli taka þátt í slíkri gerð og úrbætur þær sem óskað er eftir;
    (ii)    greinargerð sem lýsir hvers vegna málsatvik deilunnar heyra undir gerðardóm sem komið sé á fót í samræmi við fylgiskjal þetta og hvers vegna úrbætur þær sem óskað er eftir, skulu veittar af þeim gerðardómi, ef hann er sammála umsækjanda;
    (iii)    greinargerð um hvers vegna umsækjandi hafi ekki getað fengið lausn á ágreiningnum innan sanngjarns tíma með samningaumleitunum eða öðrum aðferðum án gerðardóms;
    (iv)    ef um er að ræða deilu þar sem ákvæði 16. gr. samnings þessa gera það að skilyrði að samþykki deiluaðila liggi fyrir til þess að gerð geti farið fram samkvæmt fylgiskjali þessu, skal leggja fram sannanir fyrir slíku samþykki; og
    (v)    nafn þess sem umsækjandi tilnefnir til að taka þátt í gerðardóminum.

(b)    Framkvæmdastjórnin skal tafarlaust láta hverjum aðila og formanni hópsins í té afrit af skjali því sem lagt er fram samkvæmt a-lið þessarar greinar.

5. gr.


(a)    Innan sextíu daga frá þeim degi sem afrit af skjali því sem lýst er í a-lið 4. gr. fylgiskjals þessa hefur verið móttekið af öllum varnaraðilum skulu varnaraðilar tilnefna mann til að taka þátt í störfum gerðardómsins. Innan þess tíma geta varnaraðilar hver um sig eða saman látið hverjum deiluaðila og framkvæmdastjórninni í té skjal varðandi svör sín við skjali því sem nefnt er í a-lið 4. gr. fylgiskjals þessa og tekið fram um gagnkröfur er varða efnisatriði deilunnar. Framkvæmdastjórnin skal tafarlaust láta formanni hópsins í té afrit af hverju slíku skjali.

(b)    Ef varnaraðilar tilnefna ekki mann innan þeirra tímatakmarka sem tiltekin eru, skal formaður hópsins tilnefna mann úr hópi þeirra sérfræðinga sem tilkynntir hafa verið framkvæmdastjórninni samkvæmt a-lið 3. greinar fylgiskjals þessa.

(c)    Innan 30 daga frá útnefningu hinna tveggja meðlima gerðardómsins skulu þeir koma sér saman um þriðja aðila er valinn skal úr hópnum sem komið er á fót samkvæmt 3. gr. fylgiskjals þessa og skal hann vera forseti gerðardómsins. Ef ekki næst samkomulag innan þess tíma, getur hvor hinna tveggja aðila sem tilnefndir eru, tilkynnt það formanni hópsins sem innan tíu daga skal tilnefna mann úr hópnum annan en sjálfan sig til að vera forseti gerðardómsins.

(d)    Gerðardómurinn er skipaður, þegar forseti hefur verið valinn.

6. gr.


(a)    Ef forföll verða í gerðardóminum af ástæðum sem forseti eða aðrir meðlimir dómsins ákveða að sé ekki að kenna deiluaðilum eða samrýmast réttri meðferð gerðardóms, skal ráðstafa hinu lausa sæti í samræmi við eftirfarandi ákvæði:


    (i)    ef sætið losnar vegna þess að meðlimur tilnefndur af málsaðila dregur sig til baka, getur sá aðili valið annan dómara innan tíu daga frá því að sætið losnaði;

    (ii)    ef sætið losnar vegna þess að forseti gerðardómsins eða meðlimur sem forseti hefur skipað dregur sig til baka, skal velja mann í staðinn úr hópi þeim sem rætt er um í c- eða b-liðum, eftir atvikum, 5. gr. fylgiskjals þessa.

(b)    Ef sæti losnar í gerðardóminum af öðrum ástæðum en þeim sem greindar eru í a-lið þessarar greinar eða ef ekki er skipað í sætið sem losnar samkvæmt þeirri málsgrein, skulu þeir dómarar sem eftir eru, þrátt fyrir ákvæði 2. gr. fylgiskjals þessa, hafa vald til að halda áfram málsmeðferð og kveða upp endanlega niðurstöðu gerðardómsins ef annar málsaðili óskar þess.

7. gr.


(a)    Gerðardómurinn ákveður tíma og stað fyrir réttarhöldin.
(b)    Réttarhöldin skulu haldin fyrir lokuðum dyrum og allt efni sem lagt er fyrir gerðardóminn skal skoðað sem trúnaðarmál, en þó skulu ITSO og aðilar sem eru deiluaðilar í málaferlunum hafa rétt til að vera viðstaddir og hafa aðgang að því efni sem lagt er fram. Þegar ITSO er deiluaðili að máli, skulu allir aðilar eiga rétt á að vera viðstaddir og hafa aðgang að efni því sem fram er lagt.
(c)    Ef deila rís um lögsögu gerðardómsins, skal gerðardómurinn fjalla um það mál fyrst og komast að niðurstöðu svo fljótt sem verða má.

(d)    Málflutningur skal fara fram skriflega og hvor aðili um sig hefur rétt til að leggja fram skrifleg sönnunargögn til stuðnings staðhæfingum sínum um málsatvik og lögfræðileg atriði. Málflutningur og vitnaleiðslur geta þó farið fram munnlega, ef gerðardómurinn telur það hagkvæmt.
(e)    Réttarhöldin skulu hefjast með því að sækjandi leggur fram mál sitt, málsatvik studd sönnunargögnum og meginreglur laga sem byggt er á. Þegar málflutningi sækjanda er lokið, skal málflutningur varnaraðila fylgja á eftir. Sóknaraðili getur svarað málflutningi varnaraðila. Annar málflutningur skal því aðeins fara fram að gerðardómurinn álíti það nauðsynlegt.


(f)    Gerðardómurinn getur tekið fyrir og úrskurðað gagnkröfur sem standa í beinu sambandi við efni deilunnar enda falli gagnkröfur undir lögsögu hans samkvæmt 16. gr. samnings þessa.

(g)    Ef deiluaðilar ná samkomulagi á meðan á málsmeðferð stendur, skal skrá efni samkomulagsins í formi úrskurðar gerðardómsins með samþykki deiluaðila.
(h)    Hvenær sem er meðan á réttarhöldunum stendur getur gerðardómurinn lokið málsmeðferð, ef hann álítur að deilan heyri ekki undir lögsögu hans samkvæmt 16. gr. samnings þessa.
(i)    Fundur gerðardómsins um málið skal vera fyrir luktum dyrum.
(j)    Niðurstöður gerðardómsins skulu vera skriflegar og studdar skriflegri álitsgerð. Úrskurðir hans og niðurstöður skulu samþykktar af a.m.k. tveimur meðlimum. Meðlimur sem er ósammála niðurstöðunni getur lagt fram skriflegt sérálit.

(k)    Gerðardómurinn skal senda niðurstöður sínar til framkvæmdastjórnarinnar og skal hún dreifa honum til allra aðila.
(l)    Gerðardómurinn getur sett fleiri réttarfarsreglur í samræmi við þær sem lýst er í fylgiskjali þessu eftir því sem nauðsynlegt er vegna málsmeðferðar.

8. gr.


    Ef annar málsaðili flytur ekki mál sitt, getur hinn málsaðilinn óskað þess að gerðardómurinn dæmi honum í vil. Áður en gerðardómurinn kemst að niðurstöðu skal hann ganga úr skugga um að hann hafi lögsögu og málið sé á rökum reist varðandi málsatvik og lög.

9. gr.


    Ef aðili sem ekki er málsaðili, eða ITSO, telur sig eiga verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins, getur hann sótt um það til gerðardómsins að fá að ganga inn í málið og verða aðili að því. Ef gerðardómurinn kemst að þeirri niðurstöðu að umsækjandi eigi verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu málsins, skal hann fallast á umsóknina.

10. gr.


    Gerðardómurinn getur að beiðni málsaðila eða af sjálfsdáðum skipað sérfræðinga eftir þörfum sér til aðstoðar.

11. gr.


    Hver aðili og ITSO skulu láta í té allar upplýsingar sem gerðardómurinn óskar eftir, annaðhvort að beiðni deiluaðila eða af sjálfsdáðum eftir því sem þörf krefur vegna málsmeðferðar og niðurstöðu málsins.

12. gr.


    Meðan á málsmeðferð stendur getur gerðardómurinn, þar til niðurstaða liggur fyrir, ákveðið bráðabirgðaráðstafanir sem hann telur nauðsynlegar til að vernda hagsmuni deiluaðila.


13. gr.


(a)    Niðurstaða gerðardómsins skal byggð á:
    (i)    samningi þessum; og
    (ii)    almennt viðurkenndum meginreglum laga.
(b)    Niðurstaða gerðardómsins, þar á meðal niðurstaða sem byggð er á samkomulagi deiluaðila samkvæmt g-lið 7. gr. fylgiskjals þessa, skal vera bindandi fyrir alla deiluaðila og skulu þeir framfylgja honum samviskusamlega. Komist gerðardómurinn að þeirri niðurstöðu í máli sem ITSO er aðili að, að ákvörðun einhverrar stofnunar þess sé ógild þar sem ekki hafi verið heimilt að taka hana eða hún ekki verið í samræmi við samning þennan, skal niðurstaða gerðardómsins vera bindandi fyrir alla aðila.
(c)    Ef ágreiningur rís um túlkun á niðurstöðu gerðardómsins, skal hann skýra hana að beiðni málsaðila sem þess óskar.

14. gr.


    Ef gerðardómurinn ákveður ekki annað vegna sérstakra atvika í máli, skulu báðir aðilar bera kostnað gerðardómsins að jöfnu, þar á meðal laun til þeirra sem sitja í gerðardóminum. Ef málsaðilar eru fleiri en einn öðrum megin, skal gerðardómurinn skipta kostnaði þeirra á milli málsaðila þeim megin. Þegar ITSO er deiluaðili, skal líta á útgjöld þess vegna gerðardóms sem stjórnunarkostnað ITSO.




BREYTINGAR Á REKSTRARSAMKOMULAGINU


Eingöngu eru gerðar breytingar á 23. gr. (Gildistaka) rekstrarsamkomulagsins, öll önnur ákvæði eru óbreytt:

Gildistaka.
23. gr.

(a)    Rekstrarsamkomulag þetta tekur gildi fyrir undirritunaraðila þann dag sem samkomulagið gengur í gildi samkvæmt a- og b-liðum eða b- og d-liðum 18. gr. samningsins fyrir hlutaðeigandi aðila.

(b)    Rekstrarsamkomulagi þessu skal beitt til bráðabirgða fyrir undirritunaraðila frá þeim degi sem samkomulaginu er beitt til bráðabirgða fyrir hlutaðeigandi hluthafa samkvæmt c- og d-liðum 18. gr. samningsins.

(c)    Rekstrarsamkomulag þetta fellur úr gildi annaðhvort þegar samningurinn fellur úr gildi eða þegar breytingar á samningnum sem eyða tilvísunum í rekstrarsamkomulagið öðlast gildi, hvort sem fyrr á sér stað.

AGREEMENT
RELATING TO THE INTERNATIONAL
TELECOMMUNICATIONS SATELLITE ORGANIZATION


Originally done at Washington, 20 August 1971, and entered into force 12 February 1973. Including all amendments related to INTELSAT's privatization, as approved by the Twenty-fifth Assembly of Parties (Extraordinary) in Washington, D.C., U.S.A., on 17 November 2000.

PREAMBLE


The States Parties to this Agreement,

    Considering the principle set forth in Resolution 1721 (XVI) of the General Assembly of the United Nations that communication by means of satellites should be available to the nations of the world as soon as practicable on a global and non-discriminatory basis,

    Considering the relevant provisions of the Treaty on Principles Governing the Activities of States in the Exploration and Use of Outer Space, Including the Moon and Other Celestial Bodies, and in particular Article I, which states that outer space shall be used for the benefit and in the interests of all countries,

    Recognizing that the International Telecommunications Satellite Organization has, in accordance with its original purpose, established a global satellite system for providing telecommunications services to all areas of the world, which has contributed to world peace and understanding,

    Taking into account that the 24 th Assembly of Parties of the International Telecommunications Satellite Organization decided to restructure and privatize by establishing a private company supervised by an intergovernmental organization,

    Acknowledging that increased competition in the provision of telecommunications services has made it necessary for the International Telecommunications Satellite Organization to transfer its space system to the Company defined in Article I(d) of this Agreement in order that the space system continues to be operated in a commercially viable manner,

    Intending that the Company will honor the Core Principles set forth in Article III of this Agreement and will provide, on a commercial basis, the space segment required for international public telecommunications services of high quality and reliability,

    Having determined that there is a need for an intergovernmental supervisory organization, to which any State member of the United Nations or the International Telecommunication Union may become a Party, to ensure that the Company fulfills the Core Principles on a continuing basis,

    Agree as follows:

Definitions
ARTICLE I

    For the purposes of this Agreement:
(a)    “Agreement” means the present agreement, including its Annex, and any amendments thereto, but excluding all titles of Articles, opened for signature by Governments at Washington on August 20, 1971, by which the international telecommunications satellite organization is established;
(b)    “Space segment” means the telecommunications satellites, and the tracking, telemetry, command, control, monitoring and related facilities and equipment required to support the operation of these satellites;
(c)    “Telecommunications” means any transmission, emission or reception of signs, signals, writing, images and sounds or intelligence of any nature, by wire, radio, optical or other electromagnetic systems;
(d)    “Company” means the private entity or entities established under the law of one or more States to which the international telecommunications satellite organization's space system is transferred and includes their successors-in-interest;
(e)    “On a Commercial Basis” means in accordance with usual and customary commercial practice in the telecommunications industry;
(f)    “Public telecommunications services” means fixed or mobile telecommunications services which can be provided by satellite and which are available for use by the public, such as telephony, telegraphy, telex, facsimile, data transmission, transmission of radio and television programs between approved earth stations having access to the Company's space segment for further transmission to the public, and leased circuits for any of these purposes; but excluding those mobile services of a type not provided under the Interim Agreement and the Special Agreement prior to the opening for signature of this Agreement, which are provided through mobile stations operating directly to a satellite which is designed, in whole or in part, to provide services relating to the safety or flight control of aircraft or to aviation or maritime radio navigation;
(g)    “Interim Agreement” means the Agreement Establishing Interim Arrangements for a Global Commercial Communications Satellite System signed by Governments at Washington on August 20, 1964;
(h)    “Lifeline Connectivity Obligation” or “LCO” means the obligation assumed by the Company as set out in the LCO contract to provide continued telecommunications services to the LCO customer;
(i)    “Special Agreement” means the agreement signed on August 20, 1964, by Governments or telecommunications entities designated by Governments, pursuant to the provisions of the Interim Agreement;
(j)    “Public Services Agreement” means the legally binding instrument through which ITSO ensures that the Company honors the Core Principles;

(k)    “Core Principles” means those principles set forth in Article III;
(l)    “Common Heritage” means those frequency assignments associated with orbital locations in the process of advanced publication, coordination or registered on behalf of the Parties with the International Telecommunication Union (“ITU”) in accordance with the provisions set forth in the ITU's Radio Regulations which are transferred to a Party or Parties pursuant to Article XII;
(m)    “Global coverage” means the maximum geographic coverage of the earth towards the northernmost and southernmost parallels visible from satellites deployed in geostationary orbital locations;
(n)    “Global connectivity” means the interconnection capabilities available to the Company's customers through the global coverage the Company provides in order to make communication possible within and between the five International Telecommunication Union regions defined by the plenipotentiary conference of the ITU, held in Montreux in 1965;
(o)    “Non-discriminatory access” means fair and equal opportunity to access the Company's system;
(p)    “Party” means a State for which the Agreement has entered into force or has been provisionally applied;
(q)    “Property” includes every subject of whatever nature to which a right of ownership can attach, as well as contractual rights;
(r)    “LCO customers” means all customers qualifying for and entering into LCO contracts; and

(s)    “Administration” means any governmental department or agency responsible for compliance with the obligations derived from the Constitution of the International Telecommunication Union, the Convention of the International Telecommunication Union, and its Administrative Regulations.

Establishment of ITSO
ARTICLE II

         The Parties, with full regard for the principles set forth in the Preamble to this Agreement, establish the International Telecommunications Satellite Organization, herein referred to as “ITSO”.

Main Purpose and Core Principles of ITSO
ARTICLE III

(a)    Taking into account the establishment of the Company, the main purpose of ITSO is to ensure, through the Public Services Agreement, that the Company provides, on a commercial basis, international public telecommunications services, in order to ensure performance of the Core Principles.
(b)    The Core Principles are:
    (i)    maintain global connectivity and global coverage;
    (ii)    serve its lifeline connectivity customers; and
    (iii)    provide non-discriminatory access to the Company's system.

Covered Domestic Public
Telecommunications Services

ARTICLE IV

    The following shall be considered for purposes of applying Article III on the same basis as international public telecommunications services:
(a)    domestic public telecommunications services between areas separated by areas not under the jurisdiction of the State concerned, or between areas separated by the high seas; and
(b)    domestic public telecommunications services between areas which are not linked by any terrestrial wideband facilities and which are separated by natural barriers of such an exceptional nature that they impede the viable establishment of terrestrial wideband facilities between such areas, provided that the appropriate approval has been given.

Supervision
ARTICLE V

    ITSO shall take all appropriate actions, including entering into the Public Services Agreement, to supervise the performance by the Company of the Core Principles, in particular, the principle of non-discriminatory access to the Company's system for existing and future public telecommunications services offered by the Company when space segment capacity is available on a commercial basis.

Juridical Personality
ARTICLE VI

(a)    ITSO shall possess juridical personality. It shall enjoy the full capacity necessary for the exercise of its functions and the achievement of its purposes, including the capacity to:
    (i)    conclude agreements with States or international organizations;
    (ii)    contract;
    (iii)    acquire and dispose of property; and
    (iv)    be a party to legal proceedings.
(b)    Each Party shall take such action as is necessary within its jurisdiction for the purpose of making effective in terms of its own law the provisions of this Article.

Financial Principles
ARTICLE VII

(a)    ITSO will be financed for the twelve year period established in Article XXI by the retention of certain financial assets at the time of transfer of ITSO's space system to the Company.
(b)    In the event ITSO continues beyond twelve years, ITSO shall obtain funding through the Public Services Agreement.

Structure of ITSO
ARTICLE VIII

    ITSO shall have the following organs:
(a)    the Assembly of Parties; and
(b)    an executive organ, headed by the Director General, responsible to the Assembly of Parties.

Assembly of Parties
ARTICLE IX

(a)    The Assembly of Parties shall be composed of all the Parties and shall be the principal organ of ITSO.
(b)    The Assembly of Parties shall give consideration to general policy and long-term objectives of ITSO.
(c)    The Assembly of Parties shall give consideration to matters which are primarily of interest to the Parties as sovereign States, and in particular ensure that the Company provides, on a commercial basis, international public telecommunications services, in order to:
    (i)    maintain global connectivity and global coverage;
    (ii)    serve its lifeline connectivity customers; and
    (iii)    provide non-discriminatory access to the Company's system.
(d)    The Assembly of Parties shall have the following functions and powers:
    (i)    to direct the executive organ of ITSO as it deems appropriate, in particular regarding the executive organ's review of the activities of the Company that directly relate to the Core Principles;
    (ii)    to consider and take decisions on proposals for amending this Agreement in accordance with Article XV of this Agreement;
    (iii)    to appoint and remove the Director General in accordance with Article X;
    (iv)    to consider and decide on reports submitted by the Director General that relate to the Company's observance of the Core Principles;
    (v)    to consider and, in its discretion, take decisions on recommendations from the Director General;
    (vi)    to take decisions, pursuant to paragraph (b) of Article XIV of this Agreement, in connection with the withdrawal of a Party from ITSO;
    (vii)    to decide upon questions concerning formal relationships between ITSO and States, whether Parties or not, or international organizations;
    (viii)    to consider complaints submitted to it by Parties;
    (ix)    to consider issues pertaining to the Parties' Common Heritage;
    (x)    to take decisions concerning the approval referred to in paragraph (b) of Article IV of this Agreement;
    (xi)    to consider and approve the budget of ITSO for such period as agreed to by the Assembly of Parties;
    (xii)    to take any necessary decisions with respect to contingencies that may arise outside of the approved budget;
    (xiii)    to appoint an auditor to review the expenditures and accounts of ITSO;
    (xiv)    to select the legal experts referred to in Article 3 of Annex A to this Agreement;
    (xv)    to determine the conditions under which the Director General may commence an arbitration proceeding against the Company pursuant to the Public Services Agreement;
    (xvi)    to decide upon amendments proposed to the Public Services Agreement; and
    (xvii)    to exercise any other functions conferred upon it under any other Article of this Agreement.
(e)    The Assembly of Parties shall meet in ordinary session every two years beginning no later than twelve months after the transfer of ITSO's space system to the Company. In addition to the ordinary meetings of the Parties, the Assembly of Parties may meet in extraordinary meetings, which may be convened upon request of the executive organ acting pursuant to the provisions of paragraph (k) of Article X, or upon the written request of one or more Parties to the Director General that sets forth the purpose of the meeting and which receives the support of at least one-third of the Parties including the requesting Parties. The Assembly of Parties shall establish the conditions under which the Director General may convene an extraordinary meeting of the Assembly of Parties.
(f)    A quorum for any meeting of the Assembly of Parties shall consist of representatives of a majority of the Parties. Decisions on matters of substance shall be taken by an affirmative vote cast by at least two-thirds of the Parties whose representatives are present and voting. Decisions on procedural matters shall be taken by an affirmative vote cast by a simple majority of the Parties whose representatives are present and voting. Disputes whether a specific matter is procedural or substantive shall be decided by a vote cast by a simple majority of the Parties whose representatives are present and voting. Parties shall be afforded an opportunity to vote by proxy or other means as deemed appropriate by the Assembly of Parties and shall be provided with necessary information sufficiently in advance of the meeting of the Assembly of Parties.
(g)    For any meeting of the Assembly of Parties, each Party shall have one vote.
(h)    The Assembly of Parties shall adopt its own rules of procedure, which shall include provision for the election of a Chairman and other officers as well as provisions for participation and voting.
(i)    Each Party shall meet its own costs of representation at a meeting of the Assembly of Parties. Expenses of meetings of the Assembly of Parties shall be regarded as an administrative cost of ITSO.

Director General
ARTICLE X

(a)    The executive organ shall be headed by the Director General who shall be directly responsible to the Assembly of Parties.
(b)    The Director General shall
    (i)    be the chief executive and the legal representative of ITSO and shall be responsible for the performance of all management functions, including the exercise of rights under contract;
    (ii)    act in accordance with the policies and directives of the Assembly of Parties; and
    (iii)    be appointed by the Assembly of Parties for a term of four years or such other period as the Assembly of Parties decides. The Director General may be removed from office for cause by the Assembly of Parties. No person shall be appointed as Director General for more than eight years.
(c)    The paramount consideration in the appointment of the Director General and in the selection of other personnel of the executive organ shall be the necessity of ensuring the highest standards of integrity, competency and efficiency, with consideration given to the possible advantages of recruitment and deployment on a regionally and geographically diverse basis. The Director General and the personnel of the executive organ shall refrain from any action incompatible with their responsibilities to ITSO.
(d)    The Director General shall, subject to the guidance and instructions of the Assembly of Parties, determine the structure, staff levels and standard terms of employment of officials and employees, and shall appoint the personnel of the executive organ. The Director General may select consultants and other advisers to the executive organ.
(e)    The Director General shall supervise the Company's adherence to the Core Principles.
(f)    The Director General shall
    (i)    monitor the Company's adherence to the Core Principle to serve LCO customers by honoring LCO contracts;

    (ii)    consider the decisions taken by the Company with respect to petitions for eligibility to enter into an LCO contract;
    (iii)    assist LCO customers in resolving their disputes with the Company by providing conciliation services; and
    (iv)    in the event an LCO customer decides to initiate an arbitration proceeding against the Company, provide advice on the selection of consultants and arbiters.
(g)    The Director General shall report to the Parties on the matters referred to in paragraphs (d) through (f).
(h)    Pursuant to the terms to be established by the Assembly of Parties, the Director General may commence arbitration proceedings against the Company pursuant to the Public Services Agreement.
(i)    The Director General shall deal with the Company in accordance with the Public Services Agreement.
(j)    The Director General, on behalf of ITSO, shall consider all issues arising from the Parties' Common Heritage and shall communicate the views of the Parties to the Notifying Administration(s).
(k)    When the Director General is of the view that a Party's failure to take action pursuant to Article XI(c) has impaired the Company's ability to comply with the Core Principles, the Director General shall contact that Party to seek a resolution of the situation and may, consistent with the conditions established by the Assembly of Parties pursuant to Article IX(e), convene an extraordinary meeting of the Assembly of Parties.
(l)    The Assembly of Parties shall designate a senior officer of the executive organ to serve as the Acting Director General whenever the Director General is absent or is unable to discharge his duties, or if the office of Director General should become vacant. The Acting Director General shall have the capacity to exercise all the powers of the Director General pursuant to this Agreement. In the event of a vacancy, the Acting Director General shall serve in that capacity until the assumption of office by a Director General appointed and confirmed, as expeditiously as possible, in accordance with subparagraph (b) (iii) of this Article.

Rights and Obligations of Parties
ARTICLE XI

(a)    The Parties shall exercise their rights and meet their obligations under this Agreement in a manner fully consistent with and in furtherance of the principles stated in the Preamble, the Core Principles in Article III and other provisions of this Agreement.
(b)    All Parties shall be allowed to attend and participate in all conferences and meetings, in which they are entitled to be represented in accordance with any provisions of this Agreement, as well as any other meeting called by or held under the auspices of ITSO, in accordance with the arrangements made by ITSO for such meetings regardless of where they may take place. The executive organ shall ensure that arrangements with the host Party for each such conference or meeting shall include a provision for the admission to the host country and sojourn for the duration of such conference or meeting, of representatives of all Parties entitled to attend.
(c)    All Parties shall take the actions required, in a transparent, non-discriminatory, and competitively neutral manner, under applicable domestic procedure and pertinent international agreements to which they are party, so that the Company may fulfill the Core Principles.

Frequency Assignments
ARTICLE XII

(a)    The Parties of ITSO shall retain the orbital locations and frequency assignments in process of coordination or registered on behalf of the Parties with the ITU pursuant to the provisions set forth in the ITU's Radio Regulations until such time as the selected Notifying Administration(s) has provided its notification to the Depositary that it has approved, accepted or ratified the present Agreement. The Parties shall select among the ITSO members a Party to represent all ITSO member Parties with the ITU during the period in which the Parties of ITSO retain such assignments.
(b)    The Party selected pursuant to paragraph (a) to represent all Parties during the period in which ITSO retains the assignments shall, upon the receipt of the notification by the Depositary of the approval, acceptance or ratification of the present Agreement by a Party selected by the Assembly of Parties to act as a Notifying Administration for the Company, transfer such assignments to the selected Notifying Administration(s).
(c)    Any Party selected to act as the Company's Notifying Administration shall, under applicable domestic procedure:
    (i)    authorize the use of such frequency assignment by the Company so that the Core Principles may be fulfilled; and
    (ii)    in the event that such use is no longer authorized, or the Company no longer requires such frequency assignment(s), cancel such frequency assignment under the procedures of the ITU.
(d)    Notwithstanding any other provision of this Agreement, in the event a Party selected to act as a Notifying Administration for the Company ceases to be a member of ITSO pursuant to Article XIV, such Party shall be bound and subject to all relevant provisions set forth in this Agreement and in the ITU's Radio Regulations until the frequency assignments are transferred to another Party in accordance with ITU procedures.
(e)    Each Party selected to act as a Notifying Administration pursuant to paragraph (c) shall:
    (i)    report at least on an annual basis to the Director General on the treatment afforded by such Notifying Administration to the Company, with particular regard to such Party's adherence to its obligations under Article XI(c);
    (ii)    seek the views of the Director General, on behalf of ITSO, regarding actions required to implement the Company's fulfillment of the Core Principles;
    (iii)    work with the Director General, on behalf of ITSO, on potential activities of the Notifying Administration(s) to expand access to lifeline countries;
    (iv)    notify and consult with the Director General on ITU satellite system coordinations that are undertaken on behalf of the Company to assure that global connectivity and service to lifeline users are maintained; and
    (v)    consult with the ITU regarding the satellite communications needs of lifeline users.

ITSO Headquarters, Privileges, Exemptions, Immunities
ARTICLE XIII

(a)    The headquarters of ITSO shall be in Washington, D.C. unless otherwise determined by the Assembly of Parties.
(b)    Within the scope of activities authorized by this Agreement, ITSO and its property shall be exempt in all States Party to this Agreement from all national income and direct national property taxation. Each Party undertakes to use its best endeavors to bring about, in accordance with the applicable domestic procedure, such further exemption of ITSO and its property from income and direct property taxation, and customs duties, as is desirable, bearing in mind the particular nature of ITSO.
(c)    Each Party other than the Party in whose territory the headquarters of ITSO is located shall grant in accordance with the Protocol referred to in this paragraph, and the Party in whose territory the headquarters of ITSO is located shall grant in accordance with the Headquarters Agreement referred to in this paragraph, the appropriate privileges, exemptions and immunities to ITSO, to its officers, and to those categories of its employees specified in such Protocol and Headquarters Agreement, to Parties and representatives of Parties. In particular, each Party shall grant to these individuals immunity from legal process in respect of acts done or words written or spoken in the exercise of their functions and within the limits of their duties, to the extent and in the cases to be provided for in the Headquarters Agreement and Protocol referred to in this paragraph. The Party in whose territory the headquarters of ITSO is located shall, as soon as possible, conclude a Headquarters Agreement with ITSO covering privileges, exemptions and immunities. The other Parties shall, also as soon as possible, conclude a Protocol covering privileges, exemptions and immunities. The Headquarters Agreement and the Protocol shall be independent of this Agreement and each shall prescribe the conditions of its termination.

Withdrawal
ARTICLE XIV

(a)    (i)    Any Party may withdraw voluntarily from ITSO. A Party shall give written notice to the Depositary of its decision to withdraw.
    (ii)    Notification of the decision of a Party to withdraw pursuant to subparagraph (a)    (i) of this Article shall be transmitted by the Depositary to all Parties and to the executive organ.
    (iii)    Subject to Article XII(d), voluntary withdrawal shall become effective and this Agreement shall cease to be in force, for a Party three months after the date of receipt of the notice referred to in subparagraph (a)    (i) of this Article.
(b)    (i)    If a Party appears to have failed to comply with any obligation under this Agreement, the Assembly of Parties, having received notice to that effect or acting on its own initiative, and having considered any representations made by the Party, may decide, if it finds that the failure to comply has in fact occurred, that the Party be deemed to have withdrawn from ITSO. This Agreement shall cease to be in force for the Party as of the date of such decision. An extraordinary meeting of the Assembly of Parties may be convened for this purpose.
    (ii)    If the Assembly of Parties decides that a Party shall be deemed to have withdrawn from ITSO pursuant to subparagraph (i) of this paragraph (b), the executive organ shall notify the Depositary, which shall transmit the notification to all Parties.
(c)    Upon the receipt by the Depositary or the executive organ, as the case may be, of notice of decision to withdraw pursuant to subparagraph (a) (i) of this Article, the Party giving notice shall cease to have any rights of representation and any voting rights in the Assembly of Parties, and shall incur no obligation or liability after the receipt of the notice.
(d)    If the Assembly of Parties, pursuant to paragraph (b) of this Article, deems a Party to have withdrawn from ITSO, that Party shall incur no obligation or liability after such decision.
(e)    No Party shall be required to withdraw from ITSO as a direct result of any change in the status of that Party with regard to the United Nations or the International Telecommunication Union.

Amendment
ARTICLE XV

(a)    Any Party may propose amendments to this Agreement. Proposed amendments shall be submitted to the executive organ, which shall distribute them promptly to all Parties.
(b)    The Assembly of Parties shall consider each proposed amendment at its first ordinary meeting following its distribution by the executive organ, or at an earlier extraordinary meeting convened in accordance with the procedures of Article IX of this Agreement, provided that the proposed amendment has been distributed by the executive organ at least ninety days before the opening date of the meeting.
(c)    The Assembly of Parties shall take decisions on each proposed amendment in accordance with the provisions relating to quorum and voting contained in Article IX of this Agreement. It may modify any proposed amendment, distributed in accordance with paragraph (b) of this Article, and may also take decisions on any amendment not so distributed but directly consequential to a proposed or modified amendment.
(d)    An amendment which has been approved by the Assembly of Parties shall enter into force in accordance with paragraph (e) of this Article after the Depositary has received notice of approval, acceptance or ratification of the amendment from two-thirds of the States which were Parties as of the date upon which the amendment was approved by the Assembly of Parties.
(e)    The Depositary shall notify all the Parties as soon as it has received the acceptances, approvals or ratifications required by paragraph (d) of this Article for the entry into force of an amendment. Ninety days after the date of issue of this notification, the amendment shall enter into force for all Parties, including those that have not yet accepted, approved, or ratified it and have not withdrawn from ITSO.
(f)    Notwithstanding the provisions of paragraphs (d) and (e) of this Article, an amendment shall not enter into force less than eight months after the date it has been approved by the Assembly of Parties.

Settlement of Disputes
ARTICLE XVI

(a)    All legal disputes arising in connection with the rights and obligations under this Agreement between Parties with respect to each other, or between ITSO and one or more Parties, if not otherwise settled within a reasonable time, shall be submitted to arbitration in accordance with the provisions of Annex A to this Agreement.
(b)    All legal disputes arising in connection with the rights and obligations under this Agreement between a Party and a State which has ceased to be a Party or between ITSO and a State which has ceased to be a Party, and which arise after the State ceased to be a Party, if not otherwise settled within a reasonable time, shall be submitted to arbitration in accordance with the provisions of Annex A to this Agreement, provided that the State which has ceased to be a Party so agrees. If a State ceases to be a Party, after a dispute in which it is a disputant has been submitted to arbitration pursuant to paragraph (a) of this Article, the arbitration shall be continued and concluded.
(c)    All legal disputes arising as a result of agreements between ITSO and any Party shall be subject to the provisions on settlement of disputes contained in such agreements. In the absence of such provisions, such disputes, if not otherwise settled, may be submitted to arbitration in accordance with the provisions of Annex A to this Agreement if the disputants so agree.

Signature
ARTICLE XVII

(a)    This Agreement shall be open for signature at Washington from August 20, 1971 until it enters into force, or until a period of nine months has elapsed, whichever occurs first:
    (i)    by the Government of any State party to the Interim Agreement;
    (ii)    by the Government of any other State member of the United Nations or the International Telecommunication Union.
(b)    Any Government signing this Agreement may do so without its signature being subject to ratification, acceptance or approval or with a declaration accompanying its signature that it is subject to ratification, acceptance or approval.
(c)    Any State referred to in paragraph (a) of this Article may accede to this Agreement after it is closed for signature.
(d)    No reservation may be made to this Agreement.

Entry Into Force
ARTICLE XVIII

(a)    This Agreement shall enter into force sixty days after the date on which it has been signed not subject to ratification, acceptance or approval, or has been ratified, accepted, approved or acceded to, by two-thirds of the States which were parties to the Interim Agreement as of the date upon which this Agreement is opened for signature, provided that such two-thirds include parties to the Interim Agreement which then held at least two-thirds of the quotas under the Special Agreement.
         Notwithstanding the foregoing provisions, this Agreement shall not enter into force less than eight months or more than eighteen months after the date it is opened for signature.

(b)    For a State whose instrument of ratification, acceptance, approval or accession is deposited after the date this Agreement enters into force pursuant to paragraph (a) of this Article, this Agreement shall enter into force on the date of such deposit.
(c)    Upon entry into force of this Agreement pursuant to paragraph (a) of this Article, it may be applied provisionally with respect to any State whose Government signed it subject to ratification, acceptance or approval if that Government so requests at the time of signature or at any time thereafter prior to the entry into force of this Agreement. Provisional application shall terminate:
    (i)    upon deposit of an instrument of ratification, acceptance or approval of this Agreement by that Government;
    (ii)    upon expiration of two years from the date on which this Agreement enters into force without having been ratified, accepted or approved by that Government; or
    (iii)    upon notification by that Government, before expiration of the period mentioned in subparagraph (ii) of this paragraph, of its decision not to ratify, accept or approve this Agreement. If provisional application terminates pursuant to subparagraph (ii) or (iii) of this paragraph, the provisions of paragraph (c)    of Article XIV of this Agreement shall govern the rights and obligations of the Party
(d)    Upon entry into force, this Agreement shall replace and terminate the Interim Agreement.


Miscellaneous Provisions
ARTICLE XIX

(a)    The official and working languages of ITSO shall be English, French and Spanish.
(b)    Internal regulations for the executive organ shall provide for the prompt distribution to all Parties of copies of any ITSO document in accordance with their requests.
(c)    Consistent with the provisions of Resolution 1721 (XVI) of the General Assembly of the United Nations, the executive organ shall send to the Secretary General of the United Nations, and to the Specialized Agencies concerned, for their information, an annual report on the activities of ITSO.

Depositary
ARTICLE XX

(a)    The Government of the United States of America shall be the Depositary for this Agreement, with which shall be deposited declarations made pursuant to paragraph (b) of Article XVII of this Agreement, instruments of ratification, acceptance, approval or accession, requests for provisional application, and notifications of ratification, acceptance or approval of amendments, of decisions to withdraw from ITSO, or of termination of the provisional application of this Agreement.
(b)    This Agreement, of which the English, French and Spanish texts are equally authentic, shall be deposited in the archives of the Depositary. The Depositary shall transmit certified copies of the text of this Agreement to all Governments that have signed it or deposited instruments of accession to it, and to the International Telecommunication Union, and shall notify those Governments, and the International Telecommunication Union, of signatures, of declarations made pursuant to paragraph (b) of Article XVII of this Agreement, of the deposit of instruments of ratification, acceptance, approval or accession, of requests for provisional application, of commencement of the sixty-day period referred to in paragraph (a) of Article XVIII of this Agreement, of the entry into force of this Agreement, of notifications of ratification, acceptance or approval of amendments, of the entry into force of amendments, of decisions to withdraw from ITSO, of withdrawals and of terminations of provisional application of this Agreement. Notice of the commencement of the sixty-day period shall be issued on the first day of that period.
(c)    Upon entry into force of this Agreement, the Depositary shall register it with the Secretariat of the United Nations in accordance with Article 102 of the Charter of the United Nations.

Duration
ARTICLE XXI

    This Agreement shall be in effect for at least twelve years from the date of transfer of ITSO's space system to the Company. The Assembly of Parties may terminate this Agreement effective upon the twelfth anniversary of the date of transfer of ITSO's space system to the Company by a vote pursuant to Article IX(f) of the Parties. Such decision shall be deemed to be a matter of substance.

    IN WITNESS WHEREOF the Plenipotentiaries gathered together in the city of Washington, who have submitted their full powers, found to be in good and due form, have signed this Agreement.

    DONE at Washington, on the 20 th day of August, one thousand nine hundred and seventy one.


PROVISIONS ON PROCEDURES RELATING TO SETTLEMENT OF DISPUTES
ANNEX A


ARTICLE 1


    The only disputants in arbitration proceedings instituted in accordance with this Annex shall be those referred to in Article XVI of this Agreement.

ARTICLE 2


    An arbitral tribunal of three members duly constituted in accordance with the provisions of this Annex shall be competent to give a decision in any dispute cognizable pursuant to Article XVI of this Agreement.

ARTICLE 3


(a)    Not later than sixty days before the opening date of the first and each subsequent ordinary meeting of the Assembly of Parties, each Party may submit to the executive organ the names of not more than two legal experts who will be available for the period from the end of such meeting until the end of the second subsequent ordinary meeting of the Assembly of Parties to serve as presidents or members of tribunals constituted in accordance with this Annex. From such nominees the executive organ shall prepare a list of all the persons thus nominated and shall attach to this list any biographical particulars submitted by the nominating Party, and shall distribute such list to all Parties not later than thirty days before the opening date of the meeting in question. If for any reason a nominee becomes unavailable for selection to the panel during the sixty-day period before the opening date of the meeting of the Assembly of Parties, the nominating Party may, not later than fourteen days before the opening date of the meeting of the Assembly of Parties, substitute the name of another legal expert.
(b)    From the list mentioned in paragraph (a) of this Article, the Assembly of Parties shall select eleven persons to be members of a panel from which presidents of tribunals shall be selected, and shall select an alternate for each such member. Members and alternates shall serve for the period prescribed in paragraph (a) of this Article. If a member becomes unavailable to serve on the panel, he shall be replaced by his alternate.
(c)    For the purpose of designating a chairman, the panel shall be convened to meet by the executive organ as soon as possible after the panel has been selected. Members of the panel may participate in this meeting in person, or through electronic means. The quorum for a meeting of the panel shall be nine of the eleven members. The panel shall designate one of its members as its chairman by a decision taken by the affirmative votes of at least six members, cast in one or, if necessary, more than one secret ballot. The chairman so designated shall hold office as chairman for the rest of his period of office as a member of the panel. The cost of the meeting of the panel shall be regarded as an administrative cost of ITSO.
(d)    If both a member of the panel and the alternate for that member become unavailable to serve, the Assembly of Parties shall fill the vacancies thus created from the list referred to in paragraph (a) of this Article. A person selected to replace a member or alternate whose term of office has not expired shall hold office for the remainder of the term of his predecessor. Vacancies in the office of the chairman of the panel shall be filled by the panel by designation of one of its members in accordance with the procedure prescribed in paragraph (c) of this Article.
(e)    In selecting the members of the panel and the alternates in accordance with paragraph (b) or (d) of this Article, the Assembly of Parties shall seek to ensure that the composition of the panel will always be able to reflect an adequate geographical representation, as well as the principal legal systems as they are represented among the Parties.
(f)    Any panel member or alternate serving on an arbitral tribunal at the expiration of his term shall continue to serve until the conclusion of any arbitral proceeding pending before such tribunal.

ARTICLE 4


(a)    Any petitioner wishing to submit a legal dispute to arbitration shall provide each respondent and the executive organ with a document which contains:
    (i)    a statement which fully describes the dispute being submitted for arbitration, the reasons why each respondent is required to participate in the arbitration, and the relief being requested;
    (ii)    a statement which sets forth why the subject matter of the dispute comes within the competence of a tribunal to be constituted in accordance with this Annex, and why the relief being requested can be granted by such tribunal if it finds in favor of the petitioner;
    (iii)    a statement explaining why the petitioner has been unable to achieve a settlement of the dispute within a reasonable time by negotiation or other means short of arbitration;
    (iv)    in the case of any dispute for which, pursuant to Article XVI of this Agreement, the agreement of the disputants is a condition for arbitration in accordance with this Annex, evidence of such agreement; and
    (v)    the name of the person designated by the petitioner to serve as a member of the tribunal.
(b)    The executive organ shall promptly distribute to each Party, and to the chairman of the panel, a copy of the document provided pursuant to paragraph (a) of this Article.

ARTICLE 5


(a)    Within sixty days from the date copies of the document described in paragraph (a) of Article 4 of this Annex have been received by all the respondents, the side of the respondents shall designate an individual to serve as a member of the tribunal. Within that period, the respondents may, jointly or individually, provide each disputant and the executive organ with a document stating their responses to the document referred to in paragraph (a) of Article 4 of this Annex and including any counter-claims arising out of the subject matter of the dispute. The executive organ shall promptly furnish the chairman of the panel with a copy of any such document.
(b)    In the event of a failure by the side of the respondents to make such a designation within the period allowed, the chairman of the panel shall make a designation from among the experts whose names were submitted to the executive organ pursuant to paragraph (a) of Article 3 of this Annex.
(c)    Within thirty days after the designation of the two members of the tribunal, they shall agree on a third person selected from the panel constituted in accordance with Article 3 of this Annex, who shall serve as the president of the tribunal. In the event of failure to reach agreement within such period of time, either of the two members designated may inform the chairman of the panel, who, within ten days, shall designate a member of the panel other than himself to serve as president of the tribunal.
(d)    The tribunal is constituted as soon as the president is selected.

ARTICLE 6


(a)    If a vacancy occurs in the tribunal for reasons which the president or the remaining members of the tribunal decide are beyond the control of the disputants, or are compatible with the proper conduct of the arbitration proceedings, the vacancy shall be filled in accordance with the following provisions:
    (i)    if the vacancy occurs as a result of the withdrawal of a member appointed by a side to the dispute, then that side shall select a replacement within ten days after the vacancy occurs;
    (ii)    if the vacancy occurs as a result of the withdrawal of the president of the tribunal or of another member of the tribunal appointed by the chairman, a replacement shall be selected from the panel in the manner described in paragraph (c) or (b) respectively of Article 5 of this Annex.
(b)    If a vacancy occurs in the tribunal for any reason other than as described in paragraph (a) of this Article, or if a vacancy occurring pursuant to that paragraph is not filled, the remainder of the tribunal shall have the power, notwithstanding the provisions of Article 2 of this Annex, upon the request of one side, to continue the proceedings and give the final decision of the tribunal.

ARTICLE 7


(a)    The tribunal shall decide the date and place of its sittings.
(b)    The proceedings shall be held in private and all material presented to the tribunal shall be confidential, except that ITSO and the Parties who are disputants in the proceedings shall have the right to be present and shall have access to the material presented. When ITSO is a disputant in the proceedings, all Parties shall have the right to be present and shall have access to the material presented.
(c)    In the event of a dispute over the competence of the tribunal, the tribunal shall deal with this question first, and shall give its decision as soon as possible.
(d)    The proceedings shall be conducted in writing, and each side shall have the right to submit written evidence in support of its allegations of fact and law. However, oral arguments and testimony may be given if the tribunal considers it appropriate.

(e)    The proceedings shall commence with the presentation of the case of the petitioner containing its arguments, related facts supported by evidence and the principles of law relied upon. The case of the petitioner shall be followed by the counter-case of the respondent. The petitioner may submit a reply to the counter-case of the respondent. Additional pleadings shall be submitted only if the tribunal determines they are necessary.
(f)    The tribunal may hear and determine counter-claims arising directly out of the subject matter of the dispute, provided the counter-claims are within its competence as defined in Article XVI of this Agreement.
(g)    If the disputants reach an agreement during the proceedings, the agreement shall be recorded in the form of a decision of the tribunal given by consent of the disputants.
(h)    At any time during the proceedings, the tribunal may terminate the proceedings if it decides the dispute is beyond its competence as defined in Article XVI of the Agreement.
(i)    The deliberations of the tribunal shall be secret.

(j)    The decisions of the tribunal shall be presented in writing and shall be supported by a written opinion. Its rulings and decisions must be supported by at least two members. A member dissenting from the decision may submit a separate written opinion.
(k)    The tribunal shall forward its decision to the executive organ, which shall distribute it to all Parties.
(l)    The tribunal may adopt additional rules of procedure, consistent with those established by this Annex, which are necessary for the proceedings.

ARTICLE 8


    If one side fails to present its case, the other side may call upon the tribunal to give a decision in its favor. Before giving its decision, the tribunal shall satisfy itself that it has competence and that the case is well-founded in fact and in law.


ARTICLE 9


    Any Party not a disputant in a case, or ITSO, if it considers that it has a substantial interest in the decision of the case, may petition the tribunal for permission to intervene and become an additional disputant in the case. If the tribunal determines that the petitioner has a substantial interest in the decision of the case, it shall grant the petition.

ARTICLE 10


    Either at the request of a disputant, or upon its own initiative, the tribunal may appoint such experts as it deems necessary to assist it.

ARTICLE 11


    Each Party and ITSO shall provide all information determined by the tribunal, either at the request of a disputant or upon its own initiative, to be required for the handling and determination of the dispute.

ARTICLE 12


    During the course of its consideration of the case, the tribunal may, pending the final decision, indicate any provisional measures which it considers would preserve the respective rights of the disputants.

ARTICLE 13


(a)    The decision of the tribunal shall be based on
    (i)    this Agreement; and
    (ii)    generally accepted principles of law.

(b)    The decision of the tribunal, including any reached by agreement of the disputants pursuant to paragraph (g) of Article 7 of this Annex, shall be binding on all the disputants and shall be carried out by them in good faith. In a case in which ITSO is a disputant, and the tribunal decides that a decision of one of its organs is null and void as not being authorized by or in compliance with this Agreement, the decision of the tribunal shall be binding on all Parties.
    
(c)    In the event of a dispute as to the meaning or scope of its decision, the tribunal shall construe it at the request of any disputant.

ARTICLE 14


    Unless the tribunal determines otherwise because of the particular circumstances of the case, the expenses of the tribunal, including the remuneration of the members of the tribunal, shall be borne in equal shares by each side. Where a side consists of more than one disputant, the share of that side shall be apportioned by the tribunal among the disputants on that side. Where ITSO is a disputant, its expenses associated with the arbitration shall be regarded as an administrative cost of ITSO.


AMENDMENT TO THE OPERATING AGREEMENT


The only amendment involves Article 23 (Entry Into Force) of the Operating Agreement; all other provisions remain unchanged:

Entry Into Force
ARTICLE 23

(a)    This Operating Agreement shall enter into force for a Signatory on the date on which the Agreement enters into force, in accordance with paragraphs (a) and (d) or paragraphs (b) and (d) of Article XVIII of the Agreement, for the Party concerned.
(b)    This Operating Agreement shall be applied provisionally for a Signatory on the date on which the Agreement is applied provisionally, in accordance with paragraphs (c) and (d) of Article XVIII of the Agreement, for the Party concerned.
(c)    This Operating Agreement shall terminate either when the Agreement ceases to be in force or when amendments to the Agreement deleting references to the Operating Agreement enter into force, whichever is earlier.