Ferill 574. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 997  —  574. mál.




Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Rannveigar Guðmundsdóttur um fjármögnun vetnisrannsókna.

     1.      Hvernig er háttað aðild ríkisins að rannsóknum vegna hugsanlegrar vetnisframleiðslu hérlendis?
    Að undanskildum rannsóknum Braga Árnasonar prófessors o.fl. við Háskóla Íslands, sem staðið hafa yfir frá því á sjöunda áratugnum, kemur ríkið fyrst og fremst að vetnisrannsóknum með aðild að fyrirtækinu VistOrku. VistOrka á 51% hlut í Íslenskri NýOrku ehf., sem annast framkvæmd þeirra vetnisverkefna sem iðnaðarráðuneytið tengist. Einnig hefur iðnaðarráðuneytið lýst yfir stuðningi við rannsóknar- og þróunarverkefni sem miða að því að nýta vetni sem orkubera framtíðarinnar. Slík yfirlýsing hefur ekki haft í för með sér beinar fjárhagslegar skuldbindingar en er engu að síður afar verðmæt fyrir alla íslenska aðila sem vilja stuðla að framgangi málsins eða koma að því með einhverjum hætti. Óbeinn stuðningur ráðuneytisins við Íslenska NýOrku hefur t.d. styrkt stöðu fyrirtækisins mjög í samskiptum við erlend stórfyrirtæki og ekki síst við Evrópusambandið. Utanríkisþjónustan hefur einnig verið vel vakandi yfir málinu og sendiráð Íslands (t.d. í Belgíu, Þýskalandi, Japan og Bandaríkjunum) hafa veitt ómælda aðstoð sem ekki er hægt að verðmeta.
    Fyrir utan vetnisrannsóknir sem stundaðar hafa verið við Háskóla Íslands hafa Iðntæknistofnun, Landsvirkjun, Hitaveita Suðurnesja og Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins beint og óbeint tekið þátt í rannsókna- og þróunarverkefnum tengdum vetnisrannsóknum. Þessir aðilar eru allir hluthafar í VistOrku, og taka flestir virkan þátt í rannsóknarverkefnum sem unnin eru í samvinnu við Íslenska NýOrku.

     2.      Hversu miklu fé hefur ríkisstjórnin veitt til rannsókna eða verkefna til að kanna vetnisvæðingu bifreiða- og skipaflota?
    Fyrir hönd ríkisstjórnarinnar hefur iðnaðarráðuneytið lýst yfir vilja sínum til að gerast beinn aðili að VistOrku með því að leggja fram 80 millj. kr. til hlutafjárkaupa og eignast þar með 14,3% hlut í fyrirtækinu. Þetta framlag hefur ekki enn verið greitt en þess er að vænta að tveir þriðju hlutar þess verði greiddir á þessu ári og þriðjungur árið 2003. Þetta framlag hefur allt verið eyrnamerkt svokölluðu ECTOS-verkefni, sem er uppbygging vetnisstöðvar og tilraunaakstur með þrjá vetnisvagna. Framlag ríkisins var háð því að önnur fjármögnun verkefnisins væri tryggð og var þá fyrst og fremst horft til þess að verkefnið fengi verulega styrki frá Evrópusambandinu, sem gekk eftir eins og væntingar stóðu til. Að auki hefur ríkið komið að fjármögnuninni með aðild annarra opinberra aðila sem eru hluthafar í VistOrku. Þeir eru Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins, Landsvirkjun, Iðntæknistofnun og Háskólasjóður.

     3.      Hvaða styrkir hafa fengist til þessara verkefna og hvernig er þeim styrkveitingum varið?
    Fyrrnefnt ECTOS-verkefni fékk 2,85 milljónir evra frá Evrópusambandinu og eru þeir fjármunir notaðir við framkvæmd verkefnisins. Aðrir styrkir frá Evrópusambandinu eru 300.000 evrur sem gengið hafa til ýmissa verkefna (athugunar á hagkvæmni vetnisútflutnings, uppbyggingar innviða á Íslandi til vetnisdreifingar, o.fl.). Styrkir frá öðrum aðilum, innlendum sem erlendum, nema á bilinu 2–3 millj. kr. og hafa verið notaðir að hluta í sömu verkefni en einnig til undirbúnings verkefna, t.d. við að koma saman verkefnahóp um að vetnisvæða fiskiskipaflotann.