Ferill 449. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 998  —  449. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Kolbrúnar Halldórsdóttur um mat á umhverfisáhrifum djúpborunar eftir jarðhita.

     1.      Hvaða djúpborunarverkefni hafa verið tilkynnt Skipulagsstofnun frá því að ný lög um mat á umhverfisáhrifum tóku gildi árið 2000 og í hvaða tilfellum hefur Skipulagsstofnun úrskurðað að þau skuli háð mati á umhverfisáhrifum?
    Samkvæmt upplýsingum Skipulagsstofnunar hafa eftirfarandi framkvæmdir verið tilkynntar vegna matsskyldu skv. 6. gr. laga nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum:
          Borun rannsóknarholu við Trölladyngju á Reykjanesskaga. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var að borunin skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
          Rannsóknarboranir við Kröflu, Skútustaðahreppi. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var að ef rannsóknarholur yrðu boraðar á Leirhnjúkssvæði og vestursvæði við Kröflu kynni það að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og væri því háð mati á umhverfisáhrifum en ef rannsóknarholur yrðu boraðar á austursvæði og suðursvæði við Kröflu væri það ekki líklegt til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
          Borun tveggja rannsóknarhola á Hengilssvæði, Sveitarfélaginu Ölfusi. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
          Borun rannsóknarholu við Þeistareyki, Aðaldælahreppi. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.
          Annar áfangi rannsóknarborana á Hellisheiði, Sveitarfélaginu Ölfusi. Ákvörðun Skipulagsstofnunar var að framkvæmdin væri ekki líkleg til að hafa umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.

     2.      Hvaða djúpborunarverkefni voru háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt eldri lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 63/1993?
          Jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi, 40 MWe, og 132 kV háspennulína að Kröflustöð, Skútustaðahreppi.
          Jarðhitanýting á Reykjanesi. Borun rannsóknarholu og lagning vegar á Ölkelduhálsi.
          Borun rannsóknarholu í Grændal, Ölfusi, lagning vegar, gerð borstæðis og borframkvæmd.

     3.      Hverjar hafa verið niðurstöður mats á umhverfisáhrifum í þeim tilfellum sem það hefur farið fram?
          Jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi, 40 MWe, og 132 kV háspennulína að Kröflustöð. Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum var að fram þyrfti að fara frekara mat.
          Jarðhitanýting á Reykjanesi. Niðurstaða mats á umhverfisáhrifum var að fallist var með skilyrðum á nýtingu orku og förgun affallsvatns úr borholu 9 og 10 og borun innan núverandi iðnaðarsvæðis. Frekara mat skyldi fara fram á jarðnýtingu á Reykjanesi umfram framangreint.
          Ölkelduháls, borun rannsóknarholu og lagning vegar. Fallist var á framkvæmdina með skilyrðum.
          Borun rannsóknarholu í Grændal, Ölfusi, lagning vegar, gerð borstæðis og borframkvæmd. Fallist var á framkvæmdina með skilyrði varðandi rannsóknarholu á borstað A í 85 m hæð yfir sjávarmáli á áreyrum. Ráðast skyldi í frekara mat á borun rannsóknarholu í Grændal, lagningu vegar og gerð borstæðis.

     4.      Hefur verið leitað álits Náttúruverndar ríkisins um þau djúpborunarverkefni sem Skipulagsstofnun hefur fjallað um og hver hafa sjónarmið stofnunarinnar verið samanborið við úrskurði Skipulagsstofnunar?

    Náttúruvernd ríkisins er lögbundinn umsagnaraðili við mat á umhverfisáhrifum framkvæmda samkvæmt lögum nr. 44/1999, um náttúruvernd. Leitað hefur verið umsagnar stofnunarinnar um allar framkvæmdir sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum skv. 1. viðauka við lög nr. 106/2000, um mat á umhverfisáhrifum, og einnig hefur umsagnar verið leitað um matsskyldu framkvæmda sem falla undir 2. viðauka sömu laga.
    Hvað varðar framkvæmdir, þ.e. djúpboranir, sem háðar eru mati á umhverfisáhrifum skv. 1. viðauka hefur verið samræmi milli sjónarmiða Náttúruverndar ríkisins og úrskurða Skipulagsstofnunar. Hvað varðar tilkynningarskyldar framkvæmdir skv. 2. viðauka hefur afstaða Náttúruverndar ríkisins í tveimur tilfellum af fimm og að hluta í einu verið önnur en niðurstaða Skipulagsstofnunar. Í þeim tilvikum taldi Náttúruvernd ríkisins að viðkomandi framkvæmdir ættu að vera háðar mati á umhverfisáhrifum en ákvörðun Skipulagsstofnunar var að svo skyldi ekki vera. Þær framkvæmdir sem hér um ræðir eru:
          Borun rannsóknarholu við Trölladyngju. Náttúruvernd ríkisins taldi að borun rannsóknarholu við Trölladyngju gæti haft í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og ætti að vera háð mati á umhverfisáhrifum samkvæmt lögum nr. 106/2000. Skipulagsstofnun komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að framkvæmdin hefði ekki í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Náttúruvernd ríkisins kærði þann úrskurð til umhverfisráðherra sem staðfesti úrskurð Skipulagsstofnunar með breytingum.
          Boranir á Kröflusvæðinu. Náttúruvernd ríkisins mat málin svo að rannsóknarboranir við Kröflu hefðu í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu háðar mati samkvæmt lögum nr. 106/2000, og að líta yrði á allar framkvæmdir við Kröflusvæðið í samhengi. Skipulagsstofnun taldi að borun rannsóknarhola á Leirhnjúkssvæði og vestursvæði kynnu að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldu því háðar mati á umhverfisáhrifum en borun rannsóknarhola við Kröflu á austursvæði og suðursvæði væru ekki líklegar til þess að hafa umtalsverð umhverfisáhrif í för með sér og skyldu því ekki háðar mati á umhverfisáhrifum.
          Þeistareykir. Náttúruvernd ríkisins taldi að framkvæmdir ættu að vera háðar mati á umhverfisáhrifum en niðurstaða Skipulagsstofnunar var sú að borun rannsóknarholu væri ekki líkleg til að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif og skyldi því ekki háð mati á umhverfisáhrifum.


     5.      Eru einhverjar umsóknir um leyfi til djúpborunar óafgreiddar um þessar mundir?
    Að svo miklu leyti sem djúpboranir eru leyfisskyldar í tengslum við löggjöf sem heyrir undir umhverfisráðuneyti er um að ræða náttúruverndarlög, nr. 44/1999. Náttúruvernd ríkisins er leyfisveitandi fyrir framkvæmdum á friðlýstum svæðum og því þarf leyfi stofnunarinnar fyrir djúpborunum innan þeirra. Samkvæmt upplýsingum Náttúruverndar ríkisins liggja ekki fyrir hjá stofnuninni neinar óafgreiddar umsóknir um djúpboranir á friðlýstum svæðum. Samkvæmt lögum nr. 57/1998, um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, þarf að sækja um rannsóknarleyfi til iðnaðarráðherra vegna rannsókna á jarðhitasvæðum og skal leita umsagnar umhverfisráðuneytis áður en leyfi er veitt. Ráðuneytinu er kunnugt um að bæði Hitaveita Suðurnesja og Orkuveita Reykjavíkur hafa sótt um rannsóknarleyfi á Brennisteinsfjallasvæðinu en þær hafa ekki verið afgreiddar enn. Iðnaðarráðuneyti hefur nú þegar leitað eftir umsögn umhverfisráðuneytis um umsóknir um rannsóknarleyfi á Brennisteinsfjallasvæðinu. Umhverfisráðuneyti leitaði eftir umsögnum Náttúruverndar ríkisins og liggja þær fyrir og er málið til umfjöllunar í ráðuneytinu. Iðnaðarráðuneyti hefur ekki gefið út rannsóknarleyfi til Orkuveitu Reykjavíkur.

     6.      Hvernig hefur verið staðið við verndarákvæði 37. gr. náttúruverndarlaga, nr. 44/1999, í þeim tilfellum sem heimiluð hefur verið djúpborun eftir jarðhita?
    Samkvæmt 37. gr. laga um náttúruvernd skulu eftirfarandi jarðmyndanir og vistkerfi njóta sérstakrar verndar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er:
     a.      eldvörp, gervigígar og eldhraun,
     b.      stöðuvötn og tjarnir, 1.000 m2 að stærð eða stærri,
     c.      mýrar og flóar, 3 hektarar að stærð eða stærri,
     d.      fossar, hverir og aðrar heitar uppsprettur, svo og hrúður og hrúðurbreiður, 100 m2 að stærð eða stærri,
     e.      sjávarfitjar og leirur.
    Framkvæmdir sem tengjast rannsóknarborunum hafa haft áhrif á eldhraun og eldvörp og fyrirhugaðar framkvæmdir munu í einhverjum tilvikum raska eldhraunum, þ.e. hraunum frá nútíma.     
    Náttúruvernd ríkisins hefur fjallað um þær boranir sem falla undir lög um mat á umhverfisáhrifum og raskað hafa eldhraunum/eldvörpum. Um er að ræða borun rannsóknarholu við Trölladyngju, rannsóknarhola á Hellisheiði og rannsóknarboranir við Þeistareyki en í þessum tilvikum er um að ræða lagningu vegar yfir nútímahraun og efnistöku úr gíg í tengslum við rannsóknarholu við Trölladyngju. Í þessum tilvikum hefur verið leitast við að forðast röskun jarðmyndana og vistkerfa eins og kostur er. Við boranir sem ekki eru háðar mati á umhverfisáhrifum hefur í flestum tilfellum ekki verið haft samráð við Náttúruvernd ríkisins og því liggja ekki fyrir upplýsingar um rask sem orðið hefur vegna þeirra framkvæmda.