Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1030  —  503. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Iðnaðarnefnd fjallaði um málið og fékk á sinn fund Þorgeir Örlygsson, Guðjón Axel Guðjónsson, Helga Bjarnason og Kristján Skarphéðinsson frá iðnaðarráðuneyti, Friðrik Sophusson, Jóhann Má Maríusson, Bjarna Bjarnason, Agnar Olsen, Stefán Pétursson og Kristján Gunnarsson frá Landsvirkjun, Jóhannes Geir Sigurgeirsson, stjórnarformann Landsvirkjunar, Yngva Harðarson frá Ráðgjöf og efnahagsspám ehf., Þorkel Helgason og Hákon Aðalsteinsson frá Orkustofnun, Þórð Friðjónsson, Magnús Harðarson og Pál Harðarson frá Þjóðhagsstofnun, Stefán Thors frá Skipulagsstofnun, Geir A. Gunnlaugsson frá Reyðaráli hf., Magnús Jóhannesson frá umhverfisráðuneyti, Árna Bragason frá Náttúruvernd ríkisins, Kristján Hauk Skarphéðinsson frá Náttúrufræðistofnun, Má Guðmundsson frá Seðlabanka Íslands og Theódór Bjarnason frá Byggðastofnun, Svein Sigurbjarnarson og Skúla Björn Gunnarsson frá Markaðsstofu Austurlands, Arnór Benediktsson, Bjarna Björgvinsson og Guðgeir Ragnarsson frá Norður-Héraði, Gunnþórunni Ingólfsdóttur, Kristin Bjarnason og Þórarin Rögnvaldsson frá Fljótsdalshreppi, Einar Rafn Haraldsson frá Afli fyrir Austurland, Smára Geirsson frá Samtökum sveitarfélaga á Austurlandi, Guðmund Bjarnason frá Fjarðabyggð, Tryggva Felixson frá Landvernd og Þórólf Matthíasson. Umsagnir bárust um málið frá Skútustaðahreppi, Rafmagnsveitum ríkisins, Skipulagsstofnun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Fjarðabyggð, Sambandi íslenskra sveitarfélaga, Landvernd, Náttúruvernd ríkisins, Náttúruverndarsamtökum Austurlands, Hinu íslenska náttúrufræðifélagi, Orkubúi Vestfjarða, Samtökum iðnaðarins, Reyðaráli hf., Hæfi hf., Fljótsdalshreppi, Seðlabanka Íslands, Orkustofnun, Norður-Héraði, Norðurorku, Samtökum um náttúruvernd á Norðurlandi, Landsvirkjun, Þjóðhagsstofnun, Austur-Héraði og Sambandi sveitarfélaga á Austurlandi. Einnig bárust gögn frá Landsvirkjun, Orkustofnun, samstarfshópi Markaðsstofu Austurlands og Afli fyrir Austurland. Leitað var eftir áliti efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis á efnahagslegum áhrifum og arðsemi virkjunarinnar. Enn fremur var leitað eftir áliti umhverfisnefndar Alþingis á umhverfisþáttum málsins.
    Í ljósi frétta sem borist hafa síðustu daga telur minni hlutinn að fresta beri ákvarðanatöku um heimild til handa Landsvirkjun til þess að virkja Jökulsá á Brú og Jökulsá í Fljótsdal svo og til stækkunar Kröfluvirkjunar.
    Því hefur margsinnis verið lýst yfir að ekki verði hafist handa við virkjanaframkvæmdir við Kárahnjúka nema fyrir liggi hvernig orkan verði nýtt og eins og allir vita hefur álver í Reyðarfirði verið forsendan sem allt hefur miðast við. Samkvæmt staðfestri tímaáætlun átti ákvörðun um byggingu álvers í Reyðarfirði að liggja fyrir 1. september 2002 en nú er ljóst að Norsk Hydro vill endurskoða þá tímaáætlun. Vegna þeirra frétta fór minni hlutinn fram á að iðnaðarráðherra og fulltrúar frá Norsk Hydro kæmu á fund nefndarinnar og greindu frá nýrri stöðu málsins. Þeirri málaleitan hafnaði meiri hlutinn á fundi 18. mars sl. Á þingfundi 20. mars gerðist það svo að iðnaðarráðherra kvaddi sér hljóðs og greindi Alþingi frá því að Norsk Hydro hefði upplýst ráðherra um að vegna viðamikilla fjárfestinga fyrirtækisins í Þýskalandi gæti svo farið að það mundi óska eftir viðræðum um endurskoðun á tímaáætlun fyrir fyrirhugað álver í Reyðarfirði. Í yfirlýsingu sinni boðaði ráðherra að frekari upplýsingar yrðu gefnar í næstu viku.
    Með tilliti til þessa er það ákveðin krafa minni hlutans að málinu verði vísað frá og það endurunnið í ljósi breyttra aðstæðna.

Kárahnjúkavirkjun.
    Hinn 20. apríl 2001 lagði Landsvirkjun fram til Skipulagsstofnunar skýrslu um mat á umhverfisáhrifum fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar allt að 750 MW. Skýrslan var auglýst opinberlega 4. maí 2001. Frestur til athugasemda var til 15. júní 2001. Alls bárust 362 athugasemdir. Skipulagsstjóri kvað upp úrskurð sinn 1. ágúst 2001 þar sem lagst var gegn virkjuninni vegna umtalsverðra umhverfisáhrifa og ófullnægjandi upplýsinga um einstaka þætti framkvæmdarinnar og umhverfisáhrif hennar. Úrskurður Skipulagsstofnunar var kærður til umhverfisráðherra. Í úrskurði umhverfisráðherra sem birtur var 20. desember 2001 er úrskurður Skipulagsstofnunar felldur úr gildi og fallist á fyrirhugaða Kárahnjúkavirkjun með ákveðnum skilyrðum. Í athugasemdum með frumvarpinu (bls. 4–6) eru skilyrði umhverfisráðherra sett fram.
    Að teknu tilliti til skilyrða umhverfisráðherra reiknar Landsvirkjun með að fyrirhuguð Kárahnjúkavirkjun verði hönnuð þannig að settar verði upp sex aflvélar og verði framleiðslugeta þeirra um 690 MW. Þannig er gert ráð fyrir að aflgeta fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar verði um 5% minni en áður var áætlað, þegar tekið hefur verið tillit til skilyrða umhverfisráðherra.
    Ljóst er að stórvægileg óafturkræf náttúruspjöll munu eiga sér stað verði af áformum um Kárahnjúkavirkjun. Um yrði að ræða meiri umhverfisspjöll, vatnaflutninga, jarðrask og breytingar á landslagi og náttúru en áður hefur þekkst hér á landi. Þessar gríðarlegu framkvæmdir hefðu í för með sér eyðingu friðlands, röskun beitar- og burðarsvæða hreindýra og skerðingu búsvæða plantna og dýra. Með Hálslóni færu undir vatn einstæðir sethjallar, bæði að jarðgerð og fyrir jarðsögu, svo og sérstök gróðurvistkerfi, í sumarveðursælum háfjalladal fjarri sjó, sem eru hluti af órofa gróðurlendi frá sjó og upp að jökli. Hætta á áfoki frá Hálslóni og aurum þeim sem myndast við og út í lónið er af mörgum fræðimönnum talin veruleg, og stafar jarðvegi og gróðurfari á Vestur-Öræfum mikil hætta af þessu áfoki.
    Með Hálslóni færi sérstætt landslag undir vatn og yrði veruleg breyting á ásýnd og hrifum Jökuldals og Fljótsdals og þar með Lagarfljóti við vatnabreytingarnar. Stórkostlegar breytingar yrðu á vatnafari Jökulánna beggja, þegar annarri væri breytt í mun vatnsminni bergvatnsá löngum stundum að sumarlagi, en framhald hinnar í Lagarfljóti yrði að aurskolugu vatni með öllum þeim breytingum á farvegi þeirra sem því fylgja. Þá hefðu slíkar framkvæmdir þau áhrif að fjölmargir fossar skertust verulega og sumir hreinlega hyrfu.
    Heild óbyggðra og mannvirkjasnauðra svæða (ósnortinna víðerna) norðan Vatnajökuls, sem margir hafa talið forsendu fyrir skynsamlega mörkuðum þjóðgarði á þessu svæði, yrði rofin. Rétt er að benda á að Jökulsá á Dal skilur nokkurn veginn á milli tveggja landgerða, þar sem er basaltstafli með niðurgröfnum dölum og víðum gróðurlendum með tjörnum austan ár, en móbergsland með upphlöðnum fjöllum, uppblásnu landi og gróðurvinjum í vatnsauðugum dölum að vestanverðu, en Ódáðahraun með eldstöðvum sínum og hraunum vestar.
    Minni hlutinn mótmælir sérstaklega þeirri túlkun stjórnvalda að með Kárahnjúkavirkjun væri verið að nýta endurnýjanlegar auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran hátt. Kárahnjúkavirkjun fullnægir ekki nauðsynlegum skilyrðum til þess að hún geti talist sjálfbær og að hægt sé að tala um virkjun í sátt við umhverfið. Með tímanum fyllist Hálslón af aur og gert er ráð fyrir að eftir 100 ár verði afkastageta virkjunarinnar orðin verulega skert. Á endanum hættir lónið að geta tekið við vatnsforða vegna aursöfnunar.

Kröfluvirkjun.
    Í 2. gr. frumvarpsins er lagt til að iðnaðarráðherra fái heimild til þess að veita Landsvirkjun leyfi til að stækka Kröfluvirkjun í allt að 220 MW, svo framarlega sem mat á umhverfisáhrifum liggi fyrir. Í lögum um mat á umhverfisáhrifum kemur fram að ekki skuli gefið út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir. Minni hlutinn telur augljóst að slíkt mat verði að liggja fyrir áður en heimild til handa iðnaðarráðherra til að gefa út virkjanaleyfi er bundin í lagatexta.
    Kröfluvirkjun í Skútustaðahreppi hefur verið starfrækt frá árinu 1977. Með samningi milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar frá 26. júlí 1985 keypti Landsvirkjun virkjunina ásamt ýmsum réttindum á Kröflusvæðinu, þ.m.t. rétti til að hagnýta jarðhitaorku til raforkuframleiðslu allt að 70 MW. Fram til ársins 1997 var einungis önnur af tveimur 30 MW vélum virkjunarinnar í rekstri. Boranir eftir aukinni gufu á svæðinu frá 1996 hafa hins vegar gengið vel og frá 1999 hefur virkjunin verið rekin á fullum afköstum, þ.e. 60 MW.
    Í frumvarpinu er kveðið á um stækkun Kröfluvirkjunar því að í áætlunum Landsvirkjunar um orkuöflun fyrir álver í Reyðarfirði hefur Landsvirkjun miðað við orku frá Kröflu og Bjarnarflagi, auk Kárahnjúkavirkjunar. Landsvirkjun telur að við úrskurð umhverfisráðherra um mat á umhverfisáhrifum fyrir Kárahnjúkavirkjun hafi mikilvægi orkuöflunar á Kröflusvæðinu aukist. Ljóst er þó að þeir fyrirvarar sem umhverfisráðherra hefur sett við virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár á Fljótsdal leiða af sér aðeins um 5% minna afl virkjunarinnar, eða sem nemur um 20–30 MW. Þannig liggur nokkurn veginn fyrir að undir öllum kringumstæðum hefði þurft viðbótarafl annars staðar frá sem nemur um 100 MW miðað við þau áform sem uppi eru um stærð álvers í Reyðarfirði.
    Minni hlutinn telur að þar sem umhverfismat hefur ekki farið fram nema á litlum hluta stækkunar Kröfluvirkjunar (40 MW) og að frekari stækkun kallar að öllum líkindum á nýja 120 MW virkjun við Kröflu sé algjörlega óásættanlegt að veita iðnaðarráðherra heimild skv. 2. gr. frumvarpsins hvað varðar Kröfluvirkjun áður en mat á umhverfisáhrifum virkjunarinnar hefur farið fram.
    Leirhnjúkur og nágrenni eru eitt aðgengilegasta svæði flekaskila á jörðinni. Það svæði mun skemmast verði Landsvirkjun leyft að fara nálægt því eins og líklegt er að gerist, verði svo mikil stækkun Kröfluvirkjunar leyfð sem um er rætt í frumvarpinu. Svæðið mun skemmast af mannvirkjagerð, svo sem borstæðum og vegagerð yfir misgengi, og ekki er heldur fullljóst hvað getur gerst í sambandi við jarðhitann ef borað verður nálægt Leirhnjúk eða undir hann.
    Þá má benda á að Leirhnjúkur og gönguleið þaðan niður í Reykjahlíð veita ferðafólki, erlendu sem innlendu, sterka upplifun um að það gangi um óspillta og villta íslenska öræfa- og eldfjallanáttúru þrátt fyrir bæði Kröfluvirkjun og byggðina í Mývatnssveit sem er ekki langt undan. Framkvæmdir of nálægt Leirhnjúk, aðrar en lágmarksmerkingar á stígum af öryggisástæðum, yllu ferðaþjónustu í Mývatnssveit umtalsverðu tjóni sem ekki verður bætt með álveri, hvorki á Austurlandi né í Hvalfirði.
    Minni hlutinn telur að áform um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í Suður-Þingeyjarsýslu eigi að skoða í því samhengi að orkuvinnsla á svæðinu nýtist heima fyrir til atvinnuuppbyggingar. Nú er unnið að hafnarframkvæmdum á Húsavík sem að öllum líkindum verða til þess að fýsilegt verður að koma upp orkufrekum atvinnurekstri í grenndinni.

Flutningslínur.
    Eins og fram kemur í athugasemdum með frumvarpinu munu tvær háspennulínur, 420 kV hvor um sig og 53 km að lengd, flytja raforkuna frá tengivirki í Fljótsdal til álverksmiðjunnar. Skipulagsstjóri hefur fallist á línulögnina, en með skilyrðum. Úrskurður Skipulagsstjóra var kærður til umhverfisráðherra sem staðfesti úrskurð skipulagsstjóra 23. nóvember 2000 með einu viðbótarskilyrði.
    Í greinargerðinni kemur fram að línurnar munu liggja frá tengivirki í Fljótsdal þvert fyrir Múlann, út Fljótsdal að austanverðu, þaðan upp Víðivallaháls, Hallormsstaðaháls og austur í Skriðdal. Úr Skriðdal liggja línurnar hvor sína leið um Hallsteinsdal annars vegar og Þórudal hins vegar þar til þær koma saman í Áreyrardal í Reyðarfirði. Línurnar munu síðan fara þvert yfir botn fjarðarins og liggja ofan byggðar að iðnaðarlóð fyrirhugaðrar álverksmiðju að Hrauni í Reyðarfirði.
    Með síðari áfanga fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar verður nauðsynlegt að stækka 245 kV tengivirki í Fljótsdal. Einnig kemur fram í greinargerðinni að ef Bjarnarflagsvirkjun verður reist eða Kröfluvirkjun stækkuð þarf að byggja nýja 245 kV háspennulínu frá Kröflu (lína 3) frá 245 kV tengivirki sem byggt yrði við Kröflu, væntanlega í Hlíðardal. Línan yrði um 121 km á lengd. Áætlað er að línan mundi að mestu liggja samhliða núverandi Kröflulínu 2. Vinna við gerð umhverfismats fyrir þessa línu er í gangi, en henni er ekki lokið. Þess vegna átelur minni hlutinn harðlega þau vinnubrögð að veita lagaheimild fyrir virkjanaleyfi, sem augljóslega mun leiða af sér miklar línulagnir sem ekki hafa farið í mat á umhverfisáhrifum.

Efnahagslegur þáttur.
    Mat Seðlabankans er byggt á úttekt Þjóðhagsstofnunar í fylgiskjali með frumvarpinu. Í mati Seðlabankans segir að ekki sé reiknað með neinum mótvægisaðgerðum í ríkisfjármálum. Einn stærsti óvissuþátturinn í tengslum við framkvæmdina er áhrif á gengi krónunnar. Í framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi. Allar niðurstöður verður að skoða í ljósi þess.
    Stefna Seðlabankans er að vinna að því að verðbólga verði sem næst 2,5% á ári. Framkvæmdirnar munu því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og meðan þær eru í hámarki. Seðlabandinn telur að búast megi við að vextir hækki um 2,5% við upphaf fyrirhugaðra framkvæmda. Þá er líklegt að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær.
    Vegna fyrirhugaðrar vaxtahækkunar Seðlabankans, ef af virkjunar- og álversframkvæmdum verður, er ljóst að um svokallaðar „ruðningsaðgerðir“ verður að ræða. Með því er átt við að þeim fyrirtækjum sem veikast standa yrði einfaldlega rutt úr vegi. Þetta á ekki hvað síst við um svokölluð sprotafyrirtæki sem geta skapað arðsöm störf til framtíðar ef þau fá tíma og aðstæður til að vaxa úr grasi. Þannig mundi þessi einstaka risaframkvæmd, ef af yrði, ryðja úr vegi mörgum fyrirtækjum sem annars gætu vaxið og dafnað. Samdráttur í opinberum framkvæmdum nægði einn og sér engan veginn til að vega á móti þeim miklu framkvæmdum tengdum álveri sem hér um ræðir. Til viðbótar þessu kæmu síðan auknar álögur á almenning í formi mikilla vaxtahækkana. Þá verður að teljast mjög hæpið að markmið Seðlabankans um 2,5% verðbólgu á ári næðist á sama tíma og yfir stæði slík risaframkvæmd sem á margvíslegan hátt hefði mjög mikil áhrif til spennuaukningar í hagkerfinu.
    Minni hlutinn átelur harðlega þau vinnubrögð að ekki skuli gerð heildstæð úttekt á afleiðingum slíkrar stórframkvæmdar fyrir samfélagið.

Rammaáætlun um virkjun vatnsafls og jarðvarma.
    Minni hlutinn telur að með frestun á afgreiðslu frumvarpsins gefist ráðrúm til þess að vinna faglega að nauðsynlegri stefnumörkun til framtíðar varðandi nýtingu orkuauðlinda landsins. Orkan í fallvötnum landsins er takmörkuð auðlind. Settar hafa verið fram tölur um að fræðilega sé gerlegt að framleiða í landinu um 50 TWst af raforku, 30 TWst með vatnsafli og 20 TWst með jarðgufu. Krafan um varúð í umhverfismálum verður stöðugt háværari og hefur breyst mikið á fáum árum. Í ljósi þess er það sem lengi hefur verið talið ásættanlegt að virkja af vatnsafli, að teknu tilliti til umhverfisþátta, mun minna nú en fyrir áratug. Ljóst er að hér er aðeins um lauslegt mat að ræða og því mikilvægt að vinnu við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma sé hraðað.
    Ríkisstjórn Íslands samþykkti árið 1977 að hafin skyldi vinna við rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Þar er iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, falið að láta gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skuli henni lokið fyrir árið 2000. Áætluninni er ætlað að vera í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í áætluninni skal sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi og í því sambandi skulu sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.
    Verkið hefur reynst mun umfangsmeira og tímafrekara en ríkisstjórnin gerði sér grein fyrir. Þannig lá það fyrir haustið 1999 að fara þyrfti yfir rúmlega 60 mögulegar hugmyndir að vatnsaflsvirkjunum og um 30 hugmyndir að jarðvarmavirkjunum. Áður en vinnan hófst gerði verkefnisstjórnin sér vonir um að hægt yrði að ljúka vinnu við 25 hugmyndir sem kynntar yrðu haustið 2002. Þetta mun ekki geta gengið eftir og er nú svo komið að iðnaðarráðherra hefur lagt hart að verkefnisstjórninni að skila einhvers konar „tilraunamati“ í haust á virkjanakostum á miðhálendi Íslands.
    Það er álit minni hlutans að vinnu við rammaáætlun þurfi að hraða og að heildaráætlun liggi fyrir sem fyrst, þannig að grundvöllur sé til þess að taka ákvarðanir um nýtingu vatnsafls og jarðvarma í landinu.
    Með vísun til framangreindrar umfjöllunar leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað frá með svofelldri

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Í ljósi þess að allt er í óvissu með framvindu Noral-verkefnisins, stórfelld umhverfisspjöll sem af Kárahnjúkavirkjun hljótast eru óverjandi, mikið skortir á að arðsemi verkefnisins sé fullnægjandi, deildar meiningar eru um hvort verkefnið yrði jákvætt fyrir byggðaþróun á Austurlandi í heild þegar til lengri tíma er litið og ólokið er gerð rammaáætlunar um forgangsröðun virkjunarkosta, samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.

Alþingi, 20. mars 2002.



Árni Steinar Jóhannsson.



Fylgiskjal.


Umsagnir um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.


Umsögn 2. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Í ljósi þess að mjög alvarleg varnaðarorð hafa komið fram um grundvöll þann sem áætlanir Landsvirkjunar byggjast á hvað varðar álverð á komandi árum og áratugum og áætlaðan byggingarkostnað Kárahnjúkavirkjunar og óvissu henni tengd vegna mjög viðamikilla jarðganga og stíflugerðar, auk mótvægisaðgerða til verndar náttúru svæðisins, er hér með lagt til að forsendur arðsemisútreikninga Landsvirkjunar verði ítarlega endurskoðaðar. Jafnframt verði leitað enn frekari upplýsinga til viðbótar þeim sem að undanförnu hafa borist um ástand á álmörkuðum og framtíðarhorfur í áliðnaði heimsins.
    Í umræðum á fundum efnahags- og viðskiptanefndar vegna fyrirhugaðrar Kárahnjúkavirkjunar með fulltrúa Landsvirkjunar, embættismönnum frá Þjóðhagsstofnun, Seðlabanka og Hagfræðistofnunar HÍ, auk fulltrúa atvinnulífsins, ASÍ og nokkurra óháðra aðila, kom mjög greinilega fram að opinberar stofnanir leggja til grundvallar sínum umsögnum í einu og öllu áætlanir Landsvirkjunar.
    Í umsögn Seðlabankans kemur fram að um sé að ræða stærstu fjárfestingu í raforkukerfi landsmanna í sögu þjóðarinnar sem óhjákvæmilega snerti margvísleg svið, svo sem atvinnumál, umhverfismál, arðsemi og áhættu fjárfestingar Landsvirkjunar, byggðamál, ríkisábyrgðir og fjárhagslegt skipulag í tengslum við áhættufjárfestingu í raforkukerfinu og tengdri stóriðju, þjóðarbú og hagstjórn. Jafnframt að þar sem ekki hafi tekist í tíma að fá aðgang að öllum gögnum sem nauðsynleg eru til að leggja sjálfstætt mat á áhrif verkefnisins byggist álit bankans í veigamiklum atriðum á athugunum Þjóðhagsstofnunar á þjóðhagslegum áhrifum Noral-verkefnisins. Seðlabankinn leggur á þessu stigi ekkert mat á þessar niðurstöður. Hann tekur þær einfaldlega sem gefnar sem undirstöður undir mat sitt á því hvaða áhrif verkefnið kann að hafa á peningastefnuna, vexti, gengi og aðra þá þætti sem snerta bankann. Seðlabankinn virðist ekki líta á það sem hlutverk sitt að taka afstöðu til málsins í heild enda eru margir þættir þess utan verksviðs hans. Það sé fyrst og fremst verksvið þeirra sem standa að byggingu álverksmiðju á Reyðarfirði að taka ákvörðun um hvort þeir vilji ráðast í verkefnið í ljósi væntanlegrar ávöxtunar og áhættu. Með sama hætti yrði það viðfangsefni þeirra sem fá það hlutverk að selja álverinu raforku að meta hvort arðsemi og áhætta verður verjanleg. Alþingi yrði að meta hvort veita beri málinu brautargengi þar sem vegnir yrðu saman hugsanlegur ávinningur í hærri þjóðartekjum og byggðarþróun og hugsanleg þjóðhagsleg áhætta og neikvæð umhverfisáhrif. Seðlabankinn bendir hins vegar á að rök kunni að vera til að skoða hvort ekki sé unnt að takmarka áhættu almennings af verkefninu með því að takmarka með einhverjum hætti þær ábyrgðir opinberra aðila sem verða á lánsfjáröflun til orkuframkvæmda að öðru óbreyttu. Seðlabankinn hefur almennt verið á móti víðtækri notkun ríkisábyrgða í áhætturekstri og fjármálastarfsemi enda geta þær skekkt áhættumat og samkeppnisstöðu.
    Í mati Seðlabankans er byggt á úttekt Þjóðhagsstofnunar sem er fylgiskjal með frumvarpinu. Seðlabankinn segir enn fremur: „Ekki er reiknað með neinum mótvægisaðgerðum í rískisfjármálum. Leggja verður ríka áherslu á að matið er mikilli óvissu háð og aðeins til viðmiðunar. Ástandið getur að verulegu leyti ráðist af ástandi þjóðarbúskaparins þegar framkvæmdir hefjast og öðrum ytri áhrifum sem þjóðarbúið verður fyrir meðan á þeim stendur … Einn stærsti óvissuþátturinn sem tengist framkvæmdunum er áhrif þeirra á gengi krónunnar. Í þeim framreikningi Þjóðhagsstofnunar sem hér er stuðst við er reiknað með óbreyttu gengi krónunnar. Allar niðurstöður hér á eftir verður að skoða í ljósi þess. Sennilegt er að umtalsverðar gengisbreytingar verði fylgifiskur framkvæmdanna, þótt erfitt sé að sjá þær nákvæmlega fyrir, hvað þá að tímasetja þær … Seðlabankinn mun vinna að því að verðbólga verði sem næst 2½% á ári. Framkvæmdirnar munu því krefjast aukins aðhalds peningastefnunnar áður en og meðan þær eru sem mestar…“ Fram kemur hjá Seðlabankanum að gera megi ráð fyrir 2½% hækkun vaxta við upphaf framkvæmda.
    Vegna þessarar fyrirhuguðu vaxtahækkunar Seðlabankans, ef af virkjunar- og álversframkvæmdum verður, er ljóst að um svokallaðar ruðningsaðgerðir verður að ræða. Með hugtakinu „ruðningsaðgerðir“ er átt við að þeim fyrirtækjum sem veikast standa yrði einfaldlega rutt úr vegi. Þetta á ekki hvað síst við um svokölluð „sprotafyrirtæki“ sem geta skapað arðsöm störf til framtíðar litið ef þau fá tíma og aðstæður til að vaxa úr grasi. Þannig mundi þessi einstaka risaframkvæmd, ef af yrði, ryðja úr vegi mörgum fyrirtækjum sem annars gætu vaxið og dafnað. Samdráttur í opinberum framkvæmdum einn og sér nægði engan veginn til að vega á móti þeim miklu framkvæmdum tengdum álveri sem hér um ræðir. Til viðbótar þessu kæmu síðan auknar álögur á almenning í formi mikilla vaxtahækkana, auk þess að mjög hæpið verður að teljast að markmið Seðlabankans um 2½% verðbólgu á ári náist á sama tíma og á slíkri risaframkvæmd stæði, sem með margvíslegum hætti mundi hafa mjög mikil áhrif til spennuaukningar í hagkerfinu.
    Á framangreindum fundum komu fram athyglisverðar upplýsingar um þróun álframleiðslu og hvernig hún færist í síauknum mæli til iðnþróunarþjóðanna, ekki hvað síst til Kína. Þannig er nú áætlað að Kína, sem að undanförnu hefur verið stærsti álinnflytjandi heims, verði að 3–5 árum liðnum orðið að nettó-útflutningslandi á áli. Þessar viðamiklu breytingar hafa mjög mikil áhrif á þróun álverðs til framtíðar litið. Í sambandi við álverð og álverðsþróun væri vert að fá upplýsingar um hvað helstu sérfræðingar heims hafi gert ráð fyrir að álverð væri um þessar mundir, þegar fyrir 2–3 árum var verið að leggja grunn að þeim útreikningum sem nú er stuðst við.
    Órjúfandi tengsl eru á milli ákvörðunar um byggingu Kárahnjúkavirkjunar og byggingu álverksmiðju og tilheyrandi kolskautaverksmiðju. Í því sambandi væri mjög mikilvægt að fram kæmi við hvaða álverð væri áætlað að væntanleg Reyðarálsverksmiðja væri rekin á „núlli“.
    Vegna þeirra frétta er nú berast um að Norsk Hydro hafi gefið íslenskum stjórnvöldum til kynna að fyrirtækið geti ekki staðið við þann tímaramma sem ráð var fyrir gert vegna fyrirhugaðra framkvæmda við álver í Reyðarfirði og jafnframt sé það ekki tilbúið að ganga frá nýrri tímaáætlun er sjálfgert að fresta málinu af hálfu Alþingis meðan frekari gagna er aflað og hætta öllum frekari undirbúningi framkvæmda vegna Kárahnjúkavirkjunar að sinni.

Alþingi, 18. mars 2002.



Ögmundur Jónasson.


Umsögn 2. minni hluta umhverfisnefndar.


    „Allt þetta ofbeldi manns á náttúru: Sjá ég er herra sköpunarverksins, vötnin skulu ekki ná að frjósa gegn vilja mínum, sjálfur skal ég ráða hvar skógar vaxa og akrar spretta, vilji dýrin fá hlutdeild í þeirri veröld sem ég ræð, þá skal það allt á mínum forsendum, standi fjöllin í vegi mínum ryð ég þeim burt, streymi fljótin móti þörf minni sný ég þeim aftur að uppsprettunum. [….] Flestir kalla þetta framfarir. Ég kalla það ofbeldi. Ofbeldi manns á náttúru. Það er náskylt ofbeldi manns á manni og situr til borðs með sorginni.“
Lífsins tré eftir Böðvar Guðmundsson.


Tímapressa og áhugaleysi.
    Það er álit 2. minni hluta að áhugaleysi meiri hlutans hafi orðið til þess að málið var ekki skoðað til hlítar af nefndinni. Málið var einungis á dagskrá tveggja funda nefndarinnar og eingöngu voru þrír aðilar kallaðir fyrir nefndina. Ekki var áhugi fyrir því að fara sameiginlega yfir umsagnir þær sem iðnaðarnefnd bárust heldur var ákveðið að nefndarmönnum væri í sjálfsvald sett með hvaða hætti þeir kynntu sér framkomnar umsagnir. Meiri hlutinn taldi ekki ástæðu til að fara yfir skýrslu þá sem samin var í nafni umsjónarnefndar verkefnisstjórnar rammaáætlunar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Þá var ekki áhugi fyrir því hjá meiri hlutanum að kalla til fleiri sérfróða gesti um málefnið þó að í orði kveðnu hafi nefndarmönnum verið gefinn kostur á slíku. Það er mat 2. minni hluta að hér sé um svo viðamikið mál að ræða að frestur sá sem gefinn var til umfjöllunar um málið hafi verið skammarlega stuttur og að umhverfisnefnd hafi í ljósi þess ekki lagt meira á sig við umfjöllunina en raun ber vitni.

Takmörkuð auðlind.
    Orkan í fallvötnum landsins er takmörkuð auðlind. Í umsögn Orkustofnunar frá í febrúar 2002, sem fylgir frumvarpinu, kemur fram að lengi hafi verið talið að framleiða megi 50 TWh/a af raforku, 30 með vatnsafli og 20 með jarðgufu. Það er alkunna að kröfurnar um varúð í umhverfismálum fara stöðugt vaxandi og hafa breyst mikið á fáum árum. Í ljósi þess má ætla að það sem lengi hefur verið talið ásættanlegt að virkja af vatnsafli að teknu tilliti til umhverfisþátta sé minna í dag en fyrir áratug. Auk þess ber að minna á að fullyrðing Orkustofnunar byggist eingöngu á lauslegu mati stofnunarinnar en ekki á vísindalegri úttekt á borð við þá sem nú er unnið að undir merkjum rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Það er því mat 2. minni hluta að stjórnvöld setji stefnu sína í stóriðjumálum fram með þeim hætti að þjóðinni sé talin trú um að virkjanlegt vatnsafl sé meira en hægt verður að fallast á með nokkurri sanngirni út frá umhverfissjónarmiðum. Enda kemur fram í umsögn Orkustofnunar, sem fylgir frumvarpinu, að raforkuþörf hins almenna markaðar auk stóriðjuáforma þeirra sem nú virðast í pípunum sé rúmar 22 TWh/a.

Rammaáætlun til málamynda.
    Það er nöturleg staðreynd að ríkisstjórnin skuli leggja fram frumvarp til laga um virkjun á borð við Kárahnjúkavirkjun og gífurlega stækkun Kröfluvirkjunar áður en fyrir liggur endanleg niðurstaða úr verkefni því sem ríkisstjórnin setti sjálf á laggirnar árið 1997, rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma. Á heimasíðu rammaáætlunarinnar má lesa eftirfarandi tilvitnun í framkvæmdaáætlun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun til aldamóta: Iðnaðarráðherra, í samráði við umhverfisráðherra, láti gera rammaáætlun til langs tíma um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og skal henni lokið fyrir árið 2000. Áætlunin sé í samræmi við samhæfða stefnu í umhverfis-, orku-, iðnaðar- og efnahagsmálum. Í henni verði sérstaklega fjallað um verndargildi einstakra vatnasvæða og niðurstöður færðar að skipulagi. Í því sambandi verði sérstaklega könnuð áhrif smárra virkjana.
    Það kom í ljós strax í upphafi að verkið yrði mun umfangsmeira og tímafrekara en ríkisstjórnin hefði óskað sér. Þannig lá það fyrir haustið 1999 að fara þyrfti yfir rúmlega 60 mögulegar hugmyndir að vatnsaflsvirkjunum og um 30 hugmyndir að jarðvarmavirkjunum og áður en vinnan hófst gerði verkefnisstjórnin sér vonir um að af þessum hugmyndum yrði hægt að ljúka vinnu við 25 hugmyndir sem kynntar yrðu haustið 2002. Þetta hefur ekki gengið eftir og nú er svo komið að iðnaðarráðherra hefur lagt hart að verkefnisstjórninni að skila einhvers konar „tilraunamati“ í haust á virkjanakostum á miðhálendi Íslands. Slík krafa gerir það eitt að rýra trúverðugleika verkefnisins og staðfesta það mat 2. minni hluta að verið sé að breyta öflugu tæki til áætlanagerðar í sýndarmennsku og málamyndaáætlun.

Ekkert gert með mat á þjóðgarðshugmyndinni.
    Fyrir þrýsting frá umhverfis- og náttúruverndarsamtökum og frá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði varð iðnaðarráðherra við beiðni umhverfisráðherra (bréf dags. 21. september 2000) um að fela verkefnisstjórn rammaáætlunar að leggja sérstakt mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð. Hinn 19. maí 2001 var dreift á Alþingi svari iðnaðarráðherra við spurningu Kolbrúnar Halldórsdóttur um þetta mat. Í svarinu kemur í ljós sú ætlun/von ráðherrans að mat þetta ætti að geta legið fyrir á sama tíma og skýrsla Landsvirkjunar um umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar, þ.e. í maí 2001. Svo fór þó ekki, heldur var ráðherranum afhent skýrsla umsjónarnefndar verkefnisstjórnarinnar um mat á gildi lands norðan Vatnajökuls fyrir náttúruvernd og þjóðgarð ásamt greinargerð Þjóðhagsstofnunar um efnahagslegt umfang þjóðgarðs norðan Vatnajökuls 9. október 2001. Í því kemur fram að verndar- og útivistargildi lands norðan Vatnajökuls gefur fullt tilefni til að þar verði stofnaður þjóðgarður í tengslum við væntanlegan Vatnajökulsþjóðgarð og að hann mundi auka vinnsluvirði þeirra tekna sem þjóðin hefur af ferðaþjónustu. Þar kemur einnig fram að ef til Kárahnjúkavirkjunar kæmi mundi hún rýra verndar- og útivistargildi svæðisins. Mat þetta hefur aldrei verið kynnt. Það er mat 2. minni hluta að vinnubrögð af þessu tagi séu fyrir neðan allar hellur og skammarlegt að mat þetta skuli ekki hafa verið formlega kynnt Alþingi eða þeim aðilum sem upphaflega gerðu kröfu um að það færi fram. Það er mat 2. minni hluta að Alþingi beri skylda til að bera saman þessa tvo ólíku kosti til landnýtingar á svæðinu norðan Vatnajökuls og ekkert réttlæti það að ákvörðun verði tekin um Kárahnjúkavirkjun áður en vitað er hverju menn eru að hafna með því.

Auðlindastefna ekki til staðar.
    Í skýrslu auðlindanefndar (september 2000) er gerð ítarleg grein fyrir þeirri skoðun nefndarinnar að móta beri stefnu varðandi auðlindarentu sem nýting vatnsafls í eigu þjóðarinnar skapar (sjá álitsgerð nefndarinnar, bls. 55–61), enda sé orka fallvatnanna ein helsta auðlind þjóðarinnar. 2. minni hluti gagnrýnir harðlega að álit auðlindanefndarinnar hvað þetta varðar skuli ekki hafa verið tekið til sérstakrar umfjöllunar í tengslum við frumvarpið sem hér um ræðir. Þá gagnrýnir 2. minni hluti að ekki skuli hafa verið gerð nein tilraun til þess af stjórnvöldum að láta meta verðgildi þess lands sem ljóst er að muni tapast og eyðileggjast við væntanlegar framkvæmdir.
    Í skýrslu auðlindanefndar (bls. 70) er það álit nefndarinnar ítrekað að til að ákvarða fjárhæð eða hlutfall auðlindaskatts sé nauðsynlegt að framkvæma yfirgripsmikið mat á þeim verðmætum sem um er að tefla, ekki síst umhverfisverðmætum, og eru nefndar í því sambandi tvær af aðferðum hagfræðinnar til að mæla slík verðmæti, annars vegar skilyrt verðmætamat („contingent valuation“) og hins vegar ánægjuverð („hedonic prices“). Þá vill 2. minni hluti benda á það að Nele Linehoop, sem stundar nám í umhverfishagfræði við Háskólann í Aberdeen, Skotlandi, hefur beitt aðferðum skilyrts verðmætamats á náttúruverðmæti þess svæðis sem tapast mundi við Hálslón og komist að þeirri niðurstöðu að verðgildi landsins sem þar fer undir vatn sé tæpar 400 millj. kr. (sjá grein í Glettingi, 11. árg., 2.–3. tbl. 2001). Af þessu dregur 2. minni hluti þá ályktun að verði allt það landsvæði sem skaðast mundi við væntanlegar framkvæmdir reiknað til verðgildis með sömu aðferðum og það síðan tekið til greina í heildarkostnaðarábatagreiningu verkefnisins gætu framkvæmdirnar aldrei talist hagkvæmar.

Ekkert bólar á átaki til orkusparnaðar.
    Þá gagnrýnir 2. minni hluti einnig að ekki skuli bóla á átaki til orkusparnaðar sem stjórnvöld hafa boðað í samþykktri framkvæmdaáætlun um sjálfbæra þróun til andamóta. Þá er rétt að benda á þann seinagang sem einkennt hefur áframhaldandi vinnu við slíka stefnumörkun. Á umhverfisþingi sem haldið var í janúar 2001 lagði umhverfisráðherra fram drög að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar um sjálfbæra þróun á nýrri öld (2001–2020). Ekkert virðist þeirri vinnu hafa miðað áfram þar sem ekki er annað að hafa á heimasíðu umhverfisráðuneytisins varðandi þá stefnumörkun en drögin sem hafa lúrt þar óbreytt í á annað ár. Í drögunum má líka sjá að umhverfisráðherra hefur gleymt öllum hugmyndum um átak til orkusparnaðar sem fjallað var um í eldri stefnumörkun. Einnig er ljóst á drögunum að hagsmunir og sjónarmið orkuvinnslufyrirtækja eiga að vera leiðarljós ríkisstjórnarinnar í umhverfismálum á nýrri öld en ekki sjónarmið náttúruverndar. 2. minni hluti telur slík sjónarmið einkennandi fyrir alla meðferð og umfjöllun um frumvarp um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Umhverfismat á forræði umhverfisráðherra.
    Annar minni hluti hefur gagnrýnt þá ákvörðun umhverfisráðherra að efna til framhalds-umhverfismats á eigin forræði og talið að slíkt samrýmist ekki lögum um mat á umhverfisáhrifum, nr. 106/2000. Þannig kaus ráðherrann að fjalla efnislega um umhverfisþætti málsins eftir að 122 aðilar höfðu kært úrskurð Skipulagsstofnunar til ráðherra í stað þess að fjalla um kærurnar á grundvelli þeirra gagna sem fyrir Skipulagsstofnun lágu og voru grundvöllur úrskurðar stofnunarinnar. Engin fordæmi eru fyrir matsferli af þessu tagi og engir forskrift um slíkt viðbótarmat í lögum um mat á umhverfisáhrifum. Þá ber að mati 2. minni hluta einnig að líta til þess við endanlega ákvörðun um framkvæmdirnar að í úrskurði sínum andmælir ráðherrann ekki efnislega rökstuðningi Skipulagsstofnunar eða lýsir sig ósammála málefnalegum rökum stofnunarinnar um neikvæð óafturkræf umhverfisáhrif. Þvert á móti tekur umhverfisráðherra undir og jafnvel vísar til röksemda Skipulagsstofnunar.
    Í þessu ljósi telur 2. minni hluti stórfurðulegt að mat umhverfisráðherrans skuli vera að heimila skuli virkjunina, þrátt fyrir gífurleg óafturkræf umhverfisáhrif hennar, jafnvel eftir að meginréttlætingu framkvæmdaraðila, meintum efnahagslegum ávinningi, hefur verið kippt undan matinu. Það er mat 2. minni hluta að úrskurður umhverfisráðherra sé pólitískur úrskurður en ekki málefnalegur og hann gangi gegn markmiðum alþjóðasamninga og tilskipana sem lög um mat á umhverfisáhrifum byggjast á.

Landsvirkjun tók áhættuna.
    Það kom fram í máli skipulagsstjóra þegar hann kom fyrir nefndina að Landsvirkjun hefði verið fullkunnugt um sjónarmið Skipulagsstofnunar varðandi skort á gögnum um mögulegar mótvægisaðgerðir vegna áfoks og jarðvegsrofs við Hálslón og hefði gert kröfu um að matsskýrslan yrði auglýst þrátt fyrir að þessi gögn skorti. Með því er augljóst að Landsvirkjun tók þá áhættu að í úrskurði Skipulagsstofnunar yrði krafist frekari gagna. Þegar þetta er ljóst verður allur málatilbúnaður Landsvirkjunar í kringum þetta atriði hinn fáránlegasti (sjá einnig grein Hreins Loftssonar í Mbl. 25. ágúst 2001). Það er mat 2. minni hluta að Landsvirkjun hefði mátt vita að krafist yrði frekari gagna um mótvægisaðgerðir og að umhverfisráðherra hefði á grundvelli þess hversu mikið af gögnum barst í kæruferlinu haft fulla ástæðu til að vísa málinu aftur á byrjunarreit. Það kom fram í máli fulltrúa umhverfisráðuneytisins sem kom fyrir nefndina að slíkt hefði að öllum líkindum tafið málið um of og auk þess hefðu starfsmenn umhverfisráðuneytisins talið sér skylt að rannsaka fram komin viðbótargögn og rannsaka vel alla þætti málsins á grundvelli lögfræðiálits Eiríks Tómassonar. 2. minni hluti gagnrýnir það að ekki skyldu kallaðir til fleiri aðilar en Eiríkur Tómasson til að skera úr um það hvers konar meðferð viðbótargögnin ættu að fá í ráðuneytinu.

Mat Náttúruverndar ríkisins.
    Árni Bragason, forstöðumaður Náttúruverndar ríkisins, kom á fund nefndarinnar og í máli hans kom fram gagnrýni á það að ekki skyldi vera gert ráð fyrir því í frumvarpi iðnaðarráðherra að framkvæmdaraðila yrði skylt að fara eftir skilyrðunum í úrskurði umhverfisráðherra yrði af framkvæmdum. Sömuleiðis mótmælti Árni ummælum í greinargerð Orkustofnunar, sem fyrr er getið og fylgir frumvarpinu, um að erfitt sé að meta Kárahnjúkavirkjun inn í rammaáætlun um nýtingu vatnsafls og jarðvarma (bls. 18). Árni telur fullkomlega eðlilegt að Kárahnjúkavirkjun verði metin með öðrum virkjanakostum í rammaáætluninni. Þá lýsti Árni sig einnig ósammála niðurstöðu Orkustofnunar í 7. kafla í greinargerðinni þar sem fjallað er um mögulega sambúð friðlanda og virkjana á svæðinu norðan Vatnajökuls. 2. minni hluti tekur undir sjónarmið Náttúruverndar ríkisins sem koma skýrt fram í skriflegri umsögn stofnunarinnar til nefndarinnar (1. mars 2002).

Kröfluvirkjun.
    Sá hluti frumvarpsins sem fjallar um Kröfluvirkjun er eðli málsins samkvæmt harla rýr, enda hefur ekki farið fram mat á umhverfisáhrifum þeirrar stækkunar sem um er rætt. 2. minni hluti tekur undir sjónarmið þau sem koma fram í umsögnum Náttúruverndar ríkisins, Landverndar og SUNN, Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi. Þessir aðilar benda á að samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum megi ekki gefa út leyfi fyrir framkvæmd fyrr en úrskurður um mat á umhverfisáhrifum liggur fyrir (1. gr). Þá er þess einnig getið í umsögnum þessara aðila að um Kröfluvirkjun beri að fjalla á vettvangi rammaáætlunar um nýtingu vatnsafls og jarðvarma og tekur 2. minni hluti undir varnaðarorð SUNN vegna mögulegs umhverfisskaða ef borað verður á viðkvæmu svæði vestan undir Leirhnjúk og í hrauni frá Mývatnseldum. 2. minni hluti telur að fresta beri leyfisveitingum um stækkun Kröfluvirkjunar þar til farið hefur fram mat á umhverfisáhrifum slíkrar stækkunar. Þá er einnig full ástæða til að benda á að Kröflusvæðið er friðlýst samkvæmt lögum.

Álitsgerð NAUST o.fl.
    Í umsögn Náttúruverndarsamtaka Austurlands er gerð krafa um að mótvægisaðgerðir vegna áfoks við Hálslón og Kárahnjúkavegur sæti sjálfstæðu mati á umhverfisáhrifum, enda sé hér um að ræða viðamiklar framkvæmdir sem ekki hafi verið metnar á sama hátt og aðrir þættir sem tengjast framkvæmdum Kárahnjúkavirkjunar. 2. minni hluti tekur undir þessi sjónarmið og vísar í því sambandi til umsagnar Skipulagsstofnunar um kærur við úrskurð Skipulagsstofnunar um mat á umhverfisáhrifum Kárahnjúkavirkjunar (bls. 9), en þar eru ummæli sem styðja þessi sjónarmið NAUST. Þá tekur 2. minni hluti jafnframt undir áhyggjur NAUST vegna áhættu af áhrifum flóða í Jökulsá á Dal (m.a. vegna jökulhlaupa) á hugmynd umhverfisráðherra um breytt fyrirkomulag á yfirfalli úr Hálslóni og telur 2. minni hluti hér vera um að ræða atriði sem óljóst sé hvernig verði í framkvæmd. Er þetta atriði til marks um það hversu óljós áhrifin eru af þeim framkvæmdum sem umhverfisráðherra fjallaði um í viðbótarmati sínu. Þá vekur NAUST athygli á því að ekki hafi verið gefnar neinar skýringar á misvísandi upplýsingum um virkjað rennsli í fyrri áfanga Kárahnjúkavirkjunar. Í athugasemdum með frumvarpinu (bls. 8) kemur fram að í fyrri áfanga verði virkjað 120 rúmmetra rennsli á sekúndu, en í matsskýrslu Landsvirkjunar (bls. 4) er gert ráð fyrir að í fyrri áfanga verði virkjað 90 rúmmetra rennsli á sekúndu. Í sama streng tekur Landvernd í sinni umsögn.

Álit Landverndar.
    Í umsögn Landverndar er tekið undir með Náttúruvernd ríkisins, SUNN og NAUST varðandi þá umhverfisþætti sem getið er hér að framan og lúta að stækkun Kröfluvirkjunar. Að öðru leyti fjallar umsögn Landverndar um jarðminjar, áfok, endurheimt gróðurs, hönnun virkjunarinnar, virkjunarleyfi og efnahagsmálin. Hún hefur að geyma þarfar áminningar til þingmanna sem undirstrika það álit 2. minni hluta að með áformum um Kárahnjúkavirkjun og álver á Austurlandi séu stjórnvöld að tjalda til einnar nætur og láti undir höfuð leggjast að gera áætlanir til langs tíma. Á vegum Landverndar fór fram öflug rýni fjölmargra sérfræðinga í matsskýrslur Landsvirkjunar og Reyðaráls sumarið 2001. Afrakstur þeirrar vinnu hefur verið gefinn út í skýrslu sem fylgdi umsögninni til þingnefnda. Niðurstaða þeirrar skoðunar var sú að umhverfisáhrif Kárahnjúkavirkjunar væru umtalsverð og óafturkræf. 2. minni hluti tekur undir þá niðurstöðu og leggur áherslu á að það er sama niðurstaða og matsskýrsla Landsvirkjunar leiddi í ljós og varð sömuleiðis niðurstaða Skipulagsstofnunar.

Kárahnjúkavirkjun er ekki sjálfbær.
    Það hefur komið fram í umfjöllun um málið að Kárahnjúkavirkjun fullnægi ekki skilyrðum sem nauðsynleg eru til að hún geti talist sjálfbær og að hægt sé að tala um að hún sé í sátt við umhverfið. 2. minni hluti mótmælir þeirri túlkun stjórnvalda að hér sé verið að nýta endurnýjanlegar auðlindir þjóðarinnar á sjálfbæran hátt. Sannleikurinn er sá að með tímanum fyllist Hálslón af aur og gert er ráð fyrir að eftir 100 ár verði afkastageta virkjunarinnar orðin verulega skert. Á endanum hættir lónið að geta tekið við vatnsforða vegna aursöfnunar. Þegar svo verður komið verður sjálfhætt allri raforkuframleiðslu Kárahnjúkavirkjunar. Ekki liggja fyrir nákvæmir útreikningar um það á hve löngum tíma þetta gerist, en ekki er því mótmælt að þessi verði endirinn. Þá hefur einnig verið á það bent að hraðari bráðnun Vatnajökuls í seinni tíð gæti mögulega haft áhrif á vatnsbúskap eða rennsli jökulvatnanna norðan hans. Í viðtali í Fréttablaðinu 21. janúar 2002 var upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar inntur eftir því hvort utanaðkomandi áhrif af þessu tagi gætu ekki sett strik í reikninga Landsvirkjunar. Hann taldi svo ekki vera þar sem Landsvirkjun miðaði við að vera búin að greiða virkjunina upp á 40 árum. Í tilefni af þessu svari varpar 2. minni hluti fram þeirri spurningu til iðnaðarnefndar hvort ekki sé þá rétt að gera kröfu um að inn í stofnkostnað virkjunarinnar verði settur sá kostnaður sem hlytist af niðurrifi hennar og allra mannvirkja sem henni tengjast auk kostnaðar við að færa náttúru landsins aftur til fyrra horfs.

Lokaorð.
    Í umsögnum nokkurra aðila kom fram gagnrýni á 4. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Það er skoðun 2. minni hluta að stytta beri tímamörkin verði frumvarpið að lögum og áskilur sér rétt til að leggja fram breytingartillögu þess efnis komi málið til áframhaldandi umfjöllunar á þessu löggjafarþingi. Í ljósi fréttaflutnings af mögulegu bakslagi í framkvæmdahug Norsk Hydro telur 2. minni hluti að fresta beri afgreiðslu þessa frumvarps þar sem engin glóra hefur hingað til verið talin vera í því ráðslagi að samþykkja virkjunarleyfi fyrir stórvirkjanir sem hafa engan tryggan orkukaupanda.

Reykjavík, 16. mars 2002.

Kolbrún Halldórsdóttir.



Umsögn stjórnar Landverndar.
(1. mars 2002.)



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Tryggvi Felixson,
framkvæmdastjóri Landverndar.



Fskj. 1.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Fskj. 2.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Hins íslenska náttúrufræðifélags (HÍN).
(27. febrúar 2001.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Freysteinn Sigurðsson,
formaður HÍN.


Umsögn sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps.
(3. mars 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



F.h. sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps,

Gunnþórunn Ingólfsdóttir,
oddviti.


Umsögn Seðlabanka Íslands.
(1. mars 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,
Seðlabanki Íslands,


    Birgir Ísl. Gunnarsson,     Eiríkur Guðnason,
    formaður bankastjórnar.     bankastjóri.

Umsögn meiri hluta sveitarstjórnar Norður-Héraðs.
(28. febrúar 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


F.h. meiri hluta sveitarstjórnar Norður-Héraðs,

Jónas Þór Jóhannsson,
sveitarstjóri.
Umsögn minni hluta sveitarstjórnar Norður-Héraðs.
(1. mars 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Bjarni G. Björgvinsson,
hdl.


Umsögn Samtaka um náttúruvernd á Norðurlandi (SUNN).
(Febrúar 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



Umsögn Náttúruverndarsamtaka Austurlands (NAUST).
(28. febrúar 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


F.h. stjórnar NAUST,

     Halla Eiríksdóttir.     Helgi Hallgrímsson.
    Guðbjörg G. Kolka.     Halldór W. Stefánsson.


Umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands.
(10. mars 2002.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Virðingarfyllst,

Jón Gunnar Ottósson,
forstjóri.