Ferill 688. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1107  —  688. mál.




Skýrsla



samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar flugslysa fyrir árið 2001.

(Lögð fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


Rannsóknarnefnd flugslysa.
    Rannsóknarnefnd flugslysa tók til starfa 28. júní 1996, í samræmi við lög nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa. Rannsóknarnefnd flugslysa tók þá við starfsemi flugslysarannsóknardeildar Flugmálastjórnar og flugslysanefndar sem þá voru lagðar niður.
    Rannsóknarnefnd flugslysa er sjálfstæð stjórnsýslunefnd sem heyrir stjórnsýslulega undir samgönguráðherra, en starfar sjálfstætt og óháð stjórnvöldum og öðrum rannsóknaraðilum, ákæruvaldi og dómstólum, sbr. 6. gr. laganna. Hún annast rannsókn allra flugslysa, þ.m.t. alvarlegra flugatvika svo og flugumferðaratvika. Flugslysarannsóknir miða að því einu að koma í veg fyrir að flugslys endurtaki sig og að auka öryggi í flugi. Um rannsókn á meintri refsiverðri háttsemi í tengslum við flugslys fer samkvæmt lögum nr. 19/1991, um meðferð opinberra mála, og er slík rannsókn óháð rannsókn flugslysa.
    Í skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa er gerð grein fyrir orsök eða líklegri orsök flugslyssins, auk þess sem þar eru ef við á gerðar tillögur um þær varúðarráðstafanir sem gera má til þess að afstýra frekari slysum af sömu eða líkum orsökum, svo og skal rannsóknarnefnd flugslysa gera tillögur um úrbætur í flugöryggismálum eftir því sem rannsókn á orsökum flugslysa gefur tilefni til. Skýrslum rannsóknarnefndar flugslysa skal ekki beitt sem sönnunargögnum í opinberum málum, enda er markmið flugslysarannsókna samkvæmt áðurnefndum lögum að greina orsakaþætti flugslysa í því skyni einu að koma í veg fyrir frekari flugslys. Tilgangurinn er ekki að draga fram sök eða ábyrgð.
    Nefndina skipa nú eftirtaldir fimm menn:
          Þormóður Þormóðsson, B.S. í flugrekstrar- og tæknistjórnun, formaður og rannsóknarstjóri flugslysa,
          Þorkell Ágústsson, verkfræðingur M.Sc., aðstoðarrannsóknarstjóri flugslysa,
          Kristján Guðjónsson, lögfræðingur og framkvæmdastjóri hjá Tryggingastofnun ríkisins,
          Steinar Steinarsson, flugstjóri hjá Flugleiðum hf.,
          Þorsteinn Þorsteinsson, sjálfstætt starfandi flugvélaverkfræðingur.
    Þeir Þormóður og Þorkell eru ráðnir ótímabundið og eru fastir starfsmenn nefndarinnar. Hinir þrír nefndarmennirnir eru skipaðir til fjögurra ára í senn og núverandi skipunartímabil þeirra nær til 1. júlí árið 2004.
    Svo sem fram kom í skýrslu samgönguráðherra fyrir árið 2000 ákvað Skúli Jón Sigurðarson, formaður og rannsóknarstjóri flugslysa, að láta af störfum í lok ársins 2001. Þormóður Þormóðsson var ráðinn í lok ársins 2000 til þess að taka við starfi hans. Hann var í námi og starfsþjálfun framan af árinu og tók við starfinu 1. september 2001.
    Þá sagði Sveinn Björnsson upp starfi sínu sem nefndarmaður í rannsóknarnefnd flugslysa í lok ársins en hann hafði gegnt því frá stofnun hennar og hafði þar áður setið um langt árabil í flugslysanefnd sem starfaði samkvæmt eldri loftferðalögum. Þorsteinn Þorsteinsson, varaformaður og aðstoðarrannsóknarstjóri, sagði starfi sínu lausu í lok ársins 2001 og tók sæti Sveins Björnssonar í nefndinni.
    Í stað Þorsteins Þorsteinssonar var Þorkell Ágústsson verkfræðingur ráðinn aðstoðarrannsóknarstjóri flugslysa frá og með 1. janúar 2002.
    Skrifstofa rannsóknarnefndar flugslysa er í leiguhúsnæði á 2. hæð húss Flugbjörgunarsveitarinnar í Reykjavík, við Flugvallarveg á Reykjavíkurflugvelli. Leigusamningur var gerður árið 1997 til tíu ára.

Kostnaðaryfirlit.
    Í fjárlögum fyrir árið 2001 voru 24 millj. kr. ætlaðar til starfsemi rannsóknarnefndar flugslysa.

Millj. kr.
Fjárlög 2001
24,0
Skuld frá 2000
1,5
Aukafjárveiting 2001 og launabætur
3,4
Fjárheimild 2001
25,9
Heildarkostnaður 2001
28,3
Mismunur, færist til næsta árs
-2,4

    Rannsóknir ársins urðu mun dýrari en ráð var fyrir gert. Nokkur atriði vega þar þungt og má nefna:
          Neðansjávarleit í þrjá daga að flaki erlendrar flugvélar sem fórst við Vestmannaeyjar 6. mars 2001, og flugmanna hennar.
          Greiðslu til tilkvaddra sérfræðinga vegna rannsókna á alvarlegu flugatviki yfir Breiðafirði 15. desember 2000, flugslysi við Þrídranga 6. mars 2001 og alvarlegu flugatviki þyrlu yfir Snæfellsnesi 25. maí 2001.
          Rannsóknarnefnd flugslysa lét tvisvar á árinu lesa ferðarita hjá rannsóknardeild flugslysa í Bretlandi (Air Accident Investigation Branch).

Yfirlit yfir skráð og rannsökuð mál árið 2001.
    Árið 2001 lauk rannsóknarnefnd flugslysa gerð rannsóknarskýrslu í sjö málum sem ólokið var í upphafi ársins. Það voru flugslys TF-FIR á Reykjavíkurflugvelli 16. júlí 2000, flugumferðaratvik CMN-703/AAL-80 við Færeyjar 20. júlí 2000, flugslys TF-GTI í Skerjafirði 7. ágúst 2000, flugumferðaratvik DAF-678/GRL-721 við Grænland 28. ágúst 2000, flugatvik TF-FTE á Reykjavíkurflugvelli 24. september 2000, flugatvik TF-GTR á Reykjavíkurflugvelli 31. október 2000 og flugatvik TF-FIT yfir Breiðafirði 15. desember 2000. Þá lauk rannsóknarnefnd flugslysa fimm öðrum málum frá árinu 2000 með bókun.
    Árið 2001 skráði rannsóknarnefnd flugslysa samtals 89 atvik í flugi íslenskra loftfara hérlendis og erlendis, svo og í flugi erlendra loftfara um íslenska lögsögu og um íslenska flugstjórnarsvæðið. Af þessum atvikum tók rannsóknarnefnd flugslysa samtals 26 atvik sem skilgreind voru sem flugslys, flugumferðaratvik eða alvarleg flugatvik til formlegrar meðferðar og rannsóknar. Nefndin lauk rannsókn á þremur þessara mála með útgáfu rannsóknarskýrslna, 19 málum var lokið með bókun og einu máli var lokið með bókun og sérstöku bréfi til Flugmálastjórnar.
    Engin slys urðu á mönnum í flugi skráðra íslenskra loftfara á árinu, en eitt dauðaslys varð, er tveggja hreyfla bandarísk flugvél fórst með tveimur mönnum nálægt Þrídröngum undan suðurströndinni 6. mars.
    Í árslok átti rannsóknarnefnd flugslysa eftir að ljúka gerð rannsóknarskýrslna vegna þriggja mála sem urðu árið 2001, eða flugslyssins við Þrídranga, flugslys kennsluvélarinnar TF-JMB í Garðsárdal í Eyjafirði 6. ágúst og flugatviks sem varð á Hornafjarðarflugvelli 2. desember, þegar Metro-flugvél Flugfélags Íslands hlekktist þar á í lendingu.
    Rannsóknarnefnd flugslysa átti töluvert samstarf við erlenda rannsakendur flugslysa, en nokkur minni háttar atvik hentu erlendar flugvélar hér á landi á árinu. Þá aðstoðaði nefndin rannsóknarnefnd flugslysa í Danmörku (Havarikommissionen Civil Luftfart) við rannsókn á dauðaslysi sem varð þegar þýsk einkaþota fórst í aðflugi að flugvellinum í Narssarsuaq á Grænlandi 5. ágúst en vélin hafði millilent á Keflavíkurflugvelli.
    Rannsóknarnefnd flugslysa aðstoðaði erlenda rannsakendur við rannsókn á atvikum er hentu flugvélar skráðar á Íslandi erlendis. Rannsóknardeild flugslysa í Bretlandi (Air Accident Investigation Branch) lauk rannsókn og gaf út rannsóknarskýrslu vegna flugatviks sem varð á B-747 flugvél Atlanta hf. við Manchester 22. september 2000. Ólokið var rannsókn rannsóknarnefndar flugslysa í Danmörku á flugatviki er henti B-757 flugvél Flugleiða hf. í Kaupmannahöfn 28. júní 2001 og ólokið var einnig af hálfu rannsóknardeildar flugslysa í Bretlandi rannsókn flugatviks sem henti B-747 flugvél Atlanta hf. yfir Ermarsundi 12. júní 2000.
    Rannsóknarnefnd flugslysa gerði samtals 14 tillögur til úrbóta í öryggisátt við rannsóknir sem hún lauk á árinu 2001 og skrifaði Flugmálastjórn sérstakt bréf vegna tiltekins atviks. Í nokkrum málanna voru að mati nefndarinnar ekki efni til þess að gera tillögur til úrbóta. Tillögum þessum var flestum beint til Flugmálastjórnar Íslands, en skv. 7. gr. laga nr. 59/1996, um rannsókn flugslysa, er flugmálayfirvöldum skylt að sjá til þess að úrbótatillögur rannsóknarnefndar flugslysa séu teknar til formlegrar afgreiðslu. Þá beindi nefndin tillögum til Veðurstofu Íslands, samgönguráðuneytisins og tveggja flugrekenda.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.