Ferill 503. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1128  —  503. mál.




Framhaldsnefndarálit



um frv. til l. um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar.

Frá minni hluta iðnaðarnefndar.



    Fundur var haldinn í iðnaðarnefnd Alþingis fimmtudaginn 4. apríl 2002 á milli 2. og 3. umræðu um frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú og Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Til fundarins voru boðaðir Friðrik Sophusson, forstjóri Landsvirkjunar, Þórður Friðjónsson, framkvæmdastjóri Verðbréfaþings, Þorgeir Örlygsson, ráðuneytisstjóri í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, og Geir A. Gunnlaugsson, stjórnarformaður Reyðaráls.
    Framangreindir aðilar voru boðaðir á fund iðnaðarnefndar til þess að bregðast við þeim fréttum að sú vitneskja hafi legið fyrir þegar um miðjan febrúar sl. að Norsk Hydro gæti ekki staðið við tímaáætlanir um uppbyggingu álvers í Reyðarfirði og að iðnaðarnefnd hafi ekki verið greint frá stöðu málsins. Farið var yfir málið og gestir fundarins skýrðu það af sinni hálfu. Á þingfundi sem hófst kl. 10.30 í morgun kvaddi Hjálmar Árnason, formaður iðnaðarnefndar, sér hljóðs og greindi Alþingi frá niðurstöðu nefndarinnar um meðferð þessa máls, þ.e. er að fara beri yfir allar tímasetningar og gera skýrslu um málið.
    Minni hlutinn telur mikilvægt að Alþingi læri af þessu máli og hefur lagt fyrir forsætisnefnd tillögu að ályktun þess efnis að forsætisnefnd samþykki að leggja til að Alþingi kjósi nefnd sjö þingmanna sem kanni með hvaða hætti megi best tryggja að umfjöllun um þingmál, störf þingnefnda og önnur þingstörf byggist alltaf á réttum og bestu fáanlegum upplýsingum. Nefndin kanni lagaákvæði og reglur sem um þetta gilda í nálægum þjóðþingum. Einnig hvort ástæða sé til að lögfesta hér reglur í þessu sambandi, þ.m.t. refsiákvæði ef Alþingi eða þingnefndum eru gefnar rangar eða villandi upplýsingar eða þessir aðilar leyndir mikilvægum upplýsingum sem varða efni eða kringumstæður þingmáls eða þingstarfa. Lagt er til að starfsmenn skrifstofu Alþingis og nefndarsviðs verði nefndinni til aðstoðar í störfum. Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs ályktaði einnig sérstaklega um málið og birtist sú ályktun í fylgiskjali með þessu áliti.
    Við 2. umræðu þessa máls lagði minni hlutinn fram svohljóðandi frávísunartillögu: „Í ljósi þess að allt er í óvissu með framvindu Noral-verkefnisins, stórfelld umhverfisspjöll sem af Kárahnjúkavirkjun hljótast eru óverjandi, mikið skortir á að arðsemi verkefnisins sé fullnægjandi, deildar meiningar eru um hvort verkefnið yrði jákvætt fyrir byggðaþróun á Austurlandi í heild þegar til lengri tíma er litið og ólokið er gerð rammaáætlunar um forgangsröðun virkjunarkosta, samþykkir Alþingi að vísa þessu máli frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.“ Tillagan var felld við atkvæðagreiðslu í lok umræðunnar.
    Umræðan um þetta stórmál hefur valdið miklum vonbrigðum. Þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs hafa fært fram ítarlegar og þungvægar röksemdir fyrir því að ekki skuli ráðist í þessar umfangsmiklu og kostnaðarsömu framkvæmdir sem frumvarpið lýtur að. Þeir hafa grundvallað sinn málflutning á óhrekjanlegum staðreyndum um víðtæk óafturkræf umhverfisspjöll og á rökstuddum efasemdum um arðsemi framkvæmdanna. Málefnaleg viðbrögð hafa því miður verið lítt á lofti í umræðunni, sem hefur einkennst af fullyrðingum og afneitun staðreynda.

Alþingi, 4. apríl 2002.



Árni Steinar Jóhannsson.





Fylgiskjal I.


Bókun Árna Steinars Jóhannssonar á fundi forsætisnefndar.
(2. apríl 2002.)


    Nú er á dagskrá þingsins frumvarp til laga um virkjun Jökulsár á Brú, Jökulsár í Fljótsdal og stækkun Kröfluvirkjunar. Í ljósi þess að iðnaðarnefnd afgreiddi frumvarpið frá sér 18. mars sl. án þess að greint væri frá nýrri stöðu varðandi samskipti Norsk Hydro og Reyðaráls tel ég að fresta beri umræðu um frumvarpið og vísa því aftur til nefndarinnar.


Alþingi leynt upplýsingum.
Ályktun þingflokks Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs.

(3. apríl 2002.)


    Þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs fordæmir harðlega að mikilsverðum upplýsingum sem vörðuðu stöðu Noral-verkefnisins svonefnda og stjórnarfrumvarps um Kárahnjúkavirkjun og stækkun Kröfluvirkjunar skuli hafa verið haldið leyndum fyrir Alþingi og viðkomandi þingnefndum meðan málið var þar til umfjöllunar. Það er óverjandi með öllu að ábyrgðaraðilar verkefnisins skuli ekki greina satt og rétt frá stöðu mála á hverjum tíma jafnt Alþingi sem fjölmiðlum og þar með þjóðinni. Þó tekur steininn úr þegar háttsettir opinberir embættismenn og ráðherrar eru staðnir að því að halda mikilsverðum upplýsingum frá Alþingi og þingnefndum. Þessi vinnubrögð fylgja í kjölfar þeirrar pólitísku valdbeitingar sem áður hafði verið ástunduð í málinu af umhverfisráðherra og þess ásetnings iðnaðarráðherra og Landsvirkjunar að umlykja fyrirhugað orkuverð leyndarhjúpi.
    Það er óumflýjanlegt að Alþingi taki nú til skoðunar hvernig tryggja megi að umfjöllun um þingmál og störf þingnefnda geti alltaf byggst á réttum og fullnægjandi upplýsingum. Einnig þarf að huga að því hvort setja beri ákvæði í lög sem taka af skarið um að það sé saknæmt og refsivert að leyna Alþingi og þingnefndir upplýsingum eða greina þeim rangt frá.


Tillaga Árna Steinars Jóhannssonar að ályktun forsætisnefndar.
(3. apríl 2002.)


    Forsætisnefnd samþykkir að leggja til að Alþingi kjósi nefnd sjö þingmanna sem kanni með hvaða hætti megi best tryggja að umfjöllun um þingmál, störf þingnefnda og önnur þingstörf byggist alltaf á réttum og bestu fáanlegum upplýsingum. Nefndin kanni lagaákvæði og reglur sem um þetta gilda í nálægum þjóðþingum. Einnig hvort ástæða sé til að lögfesta hér reglur í þessu sambandi, þ.m.t. refsiákvæði ef Alþingi eða þingnefndum eru gefnar rangar eða villandi upplýsingar eða þessir aðilar leyndir mikilvægum upplýsingum sem varða efni eða kringumstæður þingmáls eða þingstarfa.
    Starfsmenn þingmálaskrifstofu og nefndasviðs skulu vera nefndinni til aðstoðar eftir þörfum.