Ferill 705. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1129  —  705. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum nr. 120/2001, um heimild ríkissjóðs til þess tímabundið að takast á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika, með síðari breytingum.

Flm.: Vilhjálmur Egilsson, Einar K. Guðfinnsson, Kristinn H. Gunnarsson,


Sigríður A. Þórðardóttir, Ögmundur Jónasson,
Gunnar Birgisson, Hjálmar Árnason.


l. gr.

    Í stað orðanna „10. apríl 2002“ í 1. mgr. 2. gr. laganna kemur: ársloka 2002.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Eins og kunnugt er hafa vátryggingafélög, í kjölfar hryðjuverkanna í Bandaríkjunum 11. september, sagt upp ábyrgðartryggingum flugrekenda og hefur það leitt til þess að ríkisstjórnir um heim allan hafa orðið að takast á hendur slíkar tryggingar til þess að flugrekendur næðu að uppfylla þær tryggingakröfur sem gerðar eru á hendur þeim og þannig forðað því að alþjóðlegar flugsamgöngur stöðvist. Bráðabirgðalög um slíka heimild ríkissjóðs Íslands voru sett 23. september 2001 og lagaheimildin staðfest með lögum nr. 120/2001 og síðar breytt með lögum nr. 5/2002. Samkvæmt lögunum á trygging sem ríkissjóður veitir ekki að gilda lengur en til 10. apríl 2002.
    Endurtrygging ríkissjóðs hefur, eins og sambærilegar tryggingar annarra ríkja, verið veitt til takmarkaðs tíma í einu þar sem vonir hafa verið bundnar við að vátryggjendur tækju að bjóða fullnægjandi vátryggingar á viðunandi kjörum. Til skamms tíma hefur verið talið að vátryggingamarkaðurinn mundi ekki síðar en 31. mars 2002 taka að bjóða nauðsynlegar ábyrgðartryggingar til viðbótar við þær takmörkuðu grunntryggingar sem þar bjóðast nú. Þetta hefur hins vegar ekki gengið eftir þar sem tryggingamarkaðurinn er enn í nokkru uppnámi vegna atburðanna hinn 11. september sl.
    Á fundi samgönguráðs Evrópusambandsins, 25. til 26. mars 2002, var ákveðið að framlengja heimild aðildarríkjanna til að veita umræddar tryggingar um 60 daga en að öðru óbreyttu hefði heimildin runnið út 31. mars. Stjórnvöld í Bandaríkjunum höfðu skömmu áður framlengt tryggingaverndina um 60 daga.
    Önnur Evrópuríki hafa í samræmi við framangreint ákveðið að framlengja enn þá vátryggingavernd sem þau hafa veitt flugrekendum. Þótt íslenskir flugrekendur geti nú keypt á markaði hærri grunntryggingar en unnt var fyrst eftir setningu bráðabirgðalaganna í september 2001 og þeim hafi einnig tekist að fá fram lækkun á þeim tryggingakröfum sem gerðar eru á hendur þeim, liggur fyrir að enn bjóðast ekki fullnægjandi markaðslausnir. Nauðsyn ber því til þess að ríkissjóður geti áfram tekist á hendur tryggingu eða endurtryggingu á bótaábyrgð sem íslenskir flugrekendur kunna að baka sér gagnvart þriðja aðila vegna tjóns er hlýst af notkun loftfars vegna hernaðaraðgerða, hryðjuverka eða áþekkra atvika.
    Af ofangreindum ástæðum er því þörf á framlengingu heimildar samkvæmt lögum nr. 120/2001, með síðari breytingum, til þess að ríkissjóður geti enn um sinn veitt flugrekendum nauðsynlega vátryggingavernd. Útilokað er að segja til um það á þessu stigi hvort áframhaldandi þörf verður talin á aðkomu ríkja að tryggingamálum flugrekenda eftir að gildistíma þeirrar vátryggingaverndar, sem Evrópusambandið, Bandaríkin og fleiri ríki hafa nú heimilað, lýkur. Vegna þeirrar óvissu og til þess að lagaheimild sé fyrir hendi ef frekari framlengingar verður þörf er í frumvarpi þessu lagt til að heimild ríkissjóðs verði framlengd til ársloka 2002.