Ferill 633. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1168  —  633. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Dóru Líndal Hjartardóttur um aðalnámskrá grunnskóla.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvernig hyggst ráðherra framfylgja markmiðum aðalnámskrár grunnskóla um upplýsinga- og tæknimenntun þar sem ófullnægjandi nettenging er víðast á landinu?

    Í aðalnámskrá grunnskóla er lögð áhersla á þjálfun nemenda í notkun upplýsingatækni og nýtingu tækninnar í námi og kennslu. Menntamálaráðuneytið hefur í stefnumótun sinni, Forskot til framtíðar: verkefnaáætlun í rafrænni menntun 2001–2003, einnig lagt áherslu á nýtingu netsins í skólastarfi. Ráðuneytið telur því mikilvægt að fullnægjandi nettengingar séu fyrir hendi í grunnskólum.
    Menntamálaráðuneytið kannaði í mars sl. hvernig nettengingum er háttað í öllum grunnskólum á landinu. Í þeirri könnun kemur í ljós að í nær öllum grunnskólum eru fyrir hendi nettengingar en að gagnaflutningshraði tenginga er mjög mismunandi eftir landshlutum. Víða á höfuðborgarsvæðinu eru háhraðatengingar frá 2 mb/s til allt að 100 mb/s. Í stærri þéttbýlisstöðum á landsbyggðinni eru í mörgum tilvikum DSL-tengingar með allt að 2 mb/s flutningshraða. Á smærri þéttbýlisstöðum og í dreifbýli eru hins vegar ISDN-tengingar og upphringimótöld algengust. Forsvarsmenn þeirra skóla sem bjuggu við minni en 2 mb/s flutningsgetu töldu í svörum sínum við könnuninni þörf á að bæta tengingarnar.
    Tækjabúnaður og nettengingar grunnskóla eru á ábyrgð sveitarfélaga og þau bera jafnframt ábyrgð á framkvæmd markmiða námskrár grunnskóla. Eins og fram kemur hér að ofan er afar mismunandi eftir sveitarfélögum hversu vel nettengdir grunnskólar eru. Þeir kostir sem sveitarfélög í smærri byggðum hafa til að tengja skóla sína eru víða takmarkaðri en í þéttbýlinu. Þó má nefna að með nettengingum í gegnum gervihnetti, sem nú eru að hasla sér völl hér á landi, eru í boði fremur öflugar tengingar fyrir dreifðar byggðir. Skoða verður tengingar til grunnskóla í samhengi við uppbyggingu nettenginga í sveitarfélaginu almennt og stefnu sveitarfélaga á þessu sviði. Fjarskiptamál heyra undir samgönguráðuneyti.
    Þess má geta að menntamálaráðuneytið undirbýr nú útboð á fjarskiptaþjónustu fyrir framhaldsskóla í samræmi við skýrslu um fjarkennslunet sem ráðuneytið gaf út á síðasta ári. Ráðuneytið getur ekki eitt og sér beitt sér á sama hátt í málefnum grunnskóla þar sem þau heyra undir sveitarfélögin.