Ferill 664. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1251  —  664. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um kostnaðarþátttöku sjúklinga við endurhæfingu.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig skiptist kostnaður við endurhæfingu á milli sjúklings og hins opinbera eftir því hvar endurhæfingin er veitt og hvar sjúklingurinn dvelur á meðan meðferð stendur, þ.e. hvort hann:
                  a.      er innritaður á sjúkrahús,
                  b.      dvelur á Rauðakrosshótelinu,
                  c.      dvelur á Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði,
                  d.      er heima hjá sér,
                  e.      dvelur á öldrunarstofnun?
     2.      Hver greiðir hvað hverju sinni, svo sem lyf, læknishjálp, rannsóknir, hjálpartæki, sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, talþjálfun o.s.frv.?


    Sjúklingur sem er innritaður sem sólarhringssjúklingur á sjúkrahús greiðir engan kostnað við endurhæfingu sem hann fær meðan innlögn varir.
    Sjúklingur sem dvelur á Sjúkrahóteli RKÍ greiðir dvalargjald, 700 kr. á sólarhring, samkvæmt samningi við ráðuneytið. Endurhæfing fer ekki fram á sjúkrahótelinu. Ekki er um aðrar greiðslur sjúklinga að ræða fyrir dvöl á sjúkrahótelinu.
    Sjúklingur sem dvelur á Heilsustofnun NLFÍ greiðir dvalargjald, 1.700–3.000 kr. á sólarhring. Dvalargjaldið fer eftir gerð og búnaði herbergja. Ekki er um aðrar greiðslur sjúklinga að ræða fyrir dvöl á heilsustofnuninni. Sjúklingar greiða fyrir lyf í samræmi við reglugerð nr. 948/2000, um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði.
    Sjúklingar sem dvelja heima hjá sér greiða fyrir endurhæfingu og aðra læknishjálp í samræmi við reglugerð nr. 218/2002, um hlutdeild sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu. Sjúklingar greiða sjálfir fyrir lyf en greiðsluþátttaka ríkis er í samræmi við reglugerð nr. 948/2000, um greiðslur almannatrygginga í lyfjakostnaði. Vakin er athygli á að um sjúklinga sem dvelja á Heilsustofnun NLFÍ gilda, rétt eins og um aðra sjúklinga, reglur um hámarksgreiðslu vegna lyfja-, læknis- og þjálfunarkostnaðar.
    Sjúklingur sem dvelur á öldrunarstofnun greiðir engan kostnað við endurhæfingu sem hann fær meðan innlögn varir. Sjúklingar sem dvalið hafa lengur en fjóra mánuði á 24 mánaða tímabili á öldrunarstofnun (þ.e. hjúkrunarheimili eða hjúkrunardeild á sjúkrahúsi) og hefur tekjur yfir 34.659 kr. á mánuði taka þátt í dvalarkostnaði með þeim tekjum sem umfram eru, sbr. reglugerð nr. 47/1990, um stofnanaþjónustu fyrir aldraða. Ekki er um aðrar greiðslur sjúklinga að ræða fyrir dvöl á öldrunarstofnun, sbr. reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu.