Ferill 562. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1294  —  562. mál.




Nefndarálit



um breyt. á l. nr. 38 15. maí 1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Ætla má að sjávarútvegsráðherra telji að frumvarp þetta, eins og ráðherra kynnti það við fyrstu umræðu, sætti hagsmunaaðila og þjóðina. Allir hagsmunaaðilar sem komu fyrir sjávarútvegsnefnd hafna hins vegar meginefni frumvarpsins um veiðigjald á hvert þorskígildi. Landssamband smábátaeigenda hafnar jafnframt því að krókaaflahlutdeild verði aðeins flutt til báta sem eru undir 15 brúttótonnum eins og gert er ráð fyrir, í stað 6 brl. eða brúttótonna áður.
    Samkvæmt frumvarpinu verða sum byggðaákvæði núverandi laga færð inn í lögin en önnur felld brott. Eignarheimildir eins aðila á hlutfalli úr fiskistofni eru hækkaðar um 20% í þorski, 100% í ýsu og 75% í karfa. Eftir þessa breytingu, ef að lögum verður, geta átta eða níu fyrirtæki átt allan þorskstofninn, fimm fyrirtæki allan ýsustofninn og þrjú fyrirtæki allan karfastofninn. Varla leiðir það til aukinna sátta um fiskveiðistjórn.
    Gagnstætt tillögum sjómanna um hækkaða veiðiskyldu er hún lækkuð. Í frumvarpinu og breytingartillögum er gert ráð fyrir auknum byggðakvótum til þess að taka á vanda sem nú er við að glíma vegna kvótasölu úr sjávarbyggðum. Auk þess er sértryggt að fleiri slíkir pottar sem ætlað er að verja byggðir algjöru falli komi inn á næstu árum. Síðasti potturinn kemur inn á nýja fiskveiðiárinu 2006/2007 og verður varla vanþörf á ef stjórn fiskveiða framkallar fleiri vandamál en stjórnarliðar geta séð fyrir og leyst með sérstökum viðlagaákvörðunum.
    Þess sér einnig stað í breytingartillögum að sjávarútvegsráðherra bjó til svo mikil vandamál með stjórnarverkum sínum við kvótasetningu smábátanna á þessu fiskveiðiári að nú þarf sérstaka neyðarlausn svo bjarga megi veiðimöguleikum krókaaflamarksbátanna. Vandi minni aflamarksbáta er alveg óleystur í þessu frumvarpi. Hvað þá að veiðireynsla leiguliða til margra ára sé viðurkennd þótt alltaf sé verið að úthluta til annarra á grundvelli veiðireynslu.
    Frumvarp þetta leysir ekki vandamálin sem samfara eru kvótabraskkerfinu né getur orðið um það nein sátt. Þessi veiðigjaldsleið er ófær, er þá betur heima setið en af stað farið.

Alþingi, 20. apríl 2002.



Guðjón A. Kristjánsson.