Ferill 634. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1361  —  634. mál.




Svar



landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Kristjáns Pálssonar um óðalsjarðir í Reykjavík og Gullbringu- og Kjósarsýslum.

     1.      Hve margar óðalsjarðir eru í Reykjavík og Gullbringu- og Kjósarsýslum?
    Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytið fékk hjá hlutaðeigandi sýslumannsembættum eru átta óðalsjarðir í þeim umdæmum sem fyrirspurnin beinist að.

     2.      Hverjir eiga þessar jarðir og hvar eru þær?
    Samkvæmt upplýsingum úr þinglýsingabókum eru eftirtaldar óðalsjarðir í Reykjavík, Kjósarhreppi og Mosfellsbæ:

    Brautarholt I, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigandi: Páll Ólafsson.
    Brautarholt II, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigandi: Jón Ólafsson.
    Dalsmynni, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigandi: Bjarni Bærings Bjarnason.
    Krókur, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigendur: Gunnar, Ólafur, Anna Margrét, Hólmfríður,
          Guðbjartur og Steinunn Guðbjartsbörn.
    Saurbær, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigandi: Anna Sigurðardóttir.
    Varmidalur I, Kjalarnesi, Reykjavík. Eigandi: Jón Jónsson.
    Meðalfell, Kjósarhreppi. Eigandi: Gísli Ellertsson.
    Hrísbrú, Mosfellsbæ. Eigandi: Ólafur Ingimundarson.

     3.      Hve mörgum þessara jarða hefur verið skipt, hvernig var þeim skipt og milli hverra?
    Samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og veðbókarvottorði frá embætti sýslumannsins í Reykjavík hefur jörðinni Brautarholti verið skipt í Brautarholt I og II með landskiptagerð milli núverandi eigenda. Lóðir hafa verið seldar úr jörðunum Dalsmynni, Saurbæ og Hrísbrú og hafa gengið kaupum og sölum eftir það milli fleiri aðila.