Ferill 538. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 1410  —  538. mál.




Nefndarálit



um till. til þál. um stefnu í byggðamálum fyrir árin 2002 2005.

Frá 1. minni hluta iðnaðarnefndar.



    Samkvæmt 7. gr. laga um Byggðastofnun ber iðnaðarráðherra að leggja fyrir Alþingi tillögu til þingsályktunar um stefnumótandi byggðaáætlun fyrir fjögurra ára tímabil. Áætlunin skal lýsa markmiðum og stefnu ríkisstjórnarinnar í byggðamálum, áætlunum um aðgerðir og tengsl byggðastefnu við almenna stefnu í efnahags- og atvinnumálum og áætlunum á sviði opinberrar þjónustu í landinu. Jafnframt skal gerð grein fyrir ástandi og horfum í þróun byggðar í landinu.
    Þingmenn Samfylkingarinnar vekja athygli á því að einungis er verið að samþykkja hin almennu markmið tillögugreinarinnar um stefnu í byggðamálum. Áætlanir um aðgerðir eða útfærslur einstakra þátta eru því ekki hluti stefnunnar hvað sem líður fyrirsögn þeirrar lagagreinar sem byggt er á. Fyrsti minni hluti efast um að hér sé staðið eðlilega að verki og vekur athygli á því að með því að samþykkja einungis hin almennu atriði hafa önnur atriði sem fram koma í athugasemdum og greinargerð ekkert gildi fyrir framkvæmdina, hvað þá þau atriði sem fram koma í nefndaráliti meiri hlutans sem aldrei munu verða afgreidd frá Alþingi og standa því einungis eftir sem óskalisti þeirra þingmanna sem skrifa undir nefndarálitið.
    Þingmenn Samfylkingarinnar geta tekið undir ýmislegt af því sem fram kemur í tillögunni. Þeir hefðu þó kosið að tekið væri heildstætt á byggðamálum og fjallað um stefnu í byggðamálum fyrir landið allt, þar með talið hlutverk höfuðborgar og höfuðborgarsvæðis.
    Sú tillaga sem fyrir liggur lýsir almennum markmiðum án útfærslna. Framkvæmdin er því alfarið á ábyrgð stjórnvalda. Fyrri áætlanir hafa gefið fyrirheit sem ekki reyndist pólitískur vilji til að standa við eða framkvæma. Það fer best á því að þeir sem semja slíka tillögu beri einnig ábyrgð á afgreiðslu hennar, ekki síst þegar engar útfærslur fylgja og óljóst er um alla framkvæmd. Þingflokkur Samfylkingarinnar mun því sitja hjá við afgreiðslu málsins. Samfylkingin mun áfram láta til sín taka í byggðamálum á þeim forsendum sem hún telur réttar og eru raktar að nokkru hér á eftir.

Þessi áætlun og vinnan við hana.
    Gildistími síðustu byggðaáætlunar rann út um síðustu áramót. Tillaga til nýrrar byggðaáætlunar birtist í netútgáfu á vef iðnaðarráðuneytis 8. febrúar og síðan endurskoðuð sem þingskjal 19. þess mánaðar. Sú staðreynd að ný tillaga var ekki til þegar sú á undan rann sitt skeið á enda sýnir best sinnuleysi ríkisstjórnarinnar um byggðamál. Af þessum sökum er t.d. ekki gert ráð fyrir fjármagni í fjárlögum þessa árs til fjölmargra verkefna á sviði byggðamála.
    Í ljós kom við fyrstu umræðu um málið að ekki var einhugur meðal stjórnarliða um það og höfðu margir afgreitt það út úr sínum þingflokki með fyrirvara. Þá hefur það gerst á vinnslutíma tillögunnar í nefnd að tveir hópar, fulltrúar Vestfjarða og Norðurlands vestra, hafa gengið á fund nefndarinnar til að kynna sínar eigin áherslur, sínar eigin byggðaáætlanir, þar sem þeim fannst fram hjá þeim gengið í tillögum ríkisstjórnarinnar.
    Þá liggur það fyrir að í ýmsum atriðum voru tillögur þeirra sem unnu að tillögugerðinni þynntar svo út í meðförum stjórnvalda að þær eru nú ónýtar. Sem dæmi má nefna að í stað þess að samþykkja tillögu um sameiningu sjóða sem veita lán eða fjárhagslegan stuðning til nýsköpunar og atvinnulífs á landsbyggðinni í einn öflugan byggðasjóð, sem hvatt er til af atvinnuþróunarfélögunum um land allt, er látið nægja að biðja um aukið samstarf sjóðanna. Þar sem þröngir hagsmunir rákust á við hagsmuni landsbyggðarinnar var landsbyggðin látin víkja. Það segir meira en mörg orð.

Vinnubrögð og viðhorf Samfylkingarinnar.
    Þessi niðurstaða leiðir hugann að vinnubrögðum við gerð byggðaáætlunar. Samfylkingin telur að við gerð byggðaáætlunar eigi að horfa til landsins alls. Byggðaáætlun á að vera til marks um það hvernig löggjafinn og stjórnmálaöflin vilja að byggð á Íslandi þróist og hvaða aðferðum menn ætla að beita til að ná settum markmiðum. Það þarf bæði að huga að samkeppnishæfni einstakra byggða á Íslandi, að þau fái notið sérstöðu sinnar og möguleika, og samkeppnishæfni landsins alls gagnvart umheiminum. Byggðamál snúast nefnilega ekki bara um landsbyggðina heldur um það hvernig við viljum byggja Ísland. Í þeim anda þarf að vinna ef viðhalda á fjölbreytileik byggðar og menningar á Íslandi.
    Byggðaáætlun þarf síðan að tengja öðrum áætlunum, t.d. í samgöngumálum. Byggðaáætlun þarf að vinnast í eins mikilli sátt og kostur er við þá sem við eiga að búa. Því væri eðlilegt að þegar við upphaf vinnunnar gæfist sveitarfélögum eða samtökum þeirra kostur á því að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Hægt væri að kalla til íbúaþings heima í héraði til að fjalla um stöðu viðkomandi svæðis svo að sem flestum gæfist kostur á að kynna sér stöðu mála og láta álit sitt í ljós.
    Byggðamál eru öll þau mál sem áhrif geta haft á búsetuskilyrði fólks. Ekki tilteknir málaflokkar heldur miklu fremur áherslur og viðhorf, að litið sé til mála af þeim sjónarhóli að fólk um allt land búi við jöfnuð hvað varðar þjónustu hins opinbera; því séu sköpuð jöfn tækifæri til þátttöku. Möguleika til áhrifa á byggðaþróunina verður að skoða út frá þeim stórfelldu breytingum sem hafa orðið og verða í atvinnuháttum og tækni og þeim sóknarfærum sem í breytingunum kunna að felast. Byggðamál snúast þó ekki bara um atvinnuþróun. Þau verður einnig að nálgast út frá menntun, félagsþjónustu, menningu og samgöngum.

Áherslur Samfylkingarinnar.
    Samfylkingin hefur lagt mikla áherslu á byggðamál. Í málflutningi og málatilbúnaði á Alþingi hefur verið lögð mikil áhersla á samgöngumál, ekki bara vegi, jarðgöng og flugsamgöngur heldur ekki síður símasamband, ljósleiðara, háhraðanet og önnur almenn skilyrði til samskipta. Þannig hefur flokkurinn bent á tækifærin sem felast í hinni nýju tækni við vinnu, menntun og afþreyingu. Menningarmál þurfa stuðnings við langt umfram það sem nú er. Það virðist ekki viðurkennt enn að störf að menningarmálum úti á landi geti verið launuð heldur hljóti þau að vera sjálfboðastörf áhugamanna. Því viðhorfi þarf að breyta.
    Samfylkingin hefur líka lagt áherslu á það að menntun sé hið nýja jöfnunartæki og að menntun sé forgangsmál. Fjárhagsaðstæður einstaklinga eða fjölskyldna mega ekki hamla sókn í menntun eða möguleikum til endur- og símenntunar. Allir þurfa að eiga þess kost að mennta sig reglulega til að takast á við síbreytilegt atvinnulíf og einnig vegna þess að menntun hefur gildi í sjálfu sér. Fyrirtækin í landinu ná ekki að þróast með þeim breytingum sem ganga yfir ef þeim er ekki búið gott þekkingarumhverfi. Það fæst með starfrækslu menntastofnana og framboði á þekkingu. Samfylkingin leggur áherslu á eflingu framhaldsskóla sem gætu orðið miðstöð fjarnáms á hverjum stað, háskólamenntunar og símenntunar.
    Samfylkingin hefur sett fram tillögu um fjölmennari sveitarfélög sem eiga að fá fleiri verkefni og styrkari tekjustofna. Kjarna slíkra „stórra“ sveitarfélaga ætti að styrkja sérstaklega til að auka fjölbreytileika atvinnulífsins þar sem þörf krefur. Samfylkingin vill einnig að m.a. framhaldsskólar, málefni fatlaðra, heilbrigðisþjónusta, menningarmál og samgöngur verði að hluta til verkefni sveitarstjórna. Einnig hefur verið sett fram tillaga um hvaða leið mætti fara til að fjölga verkefnum og auka þjónustu ríkisstofnana úti um landið. Samfylkingin hefur einnig flutt þingmál um samkeppnishæfni atvinnulífsins bæði varðandi stofnstyrki og í skattamálum.
    Samfylkingin gerir ekki kröfur til þess að allir búi við sömu aðstæður heldur að öllum verði sköpuð jöfn tækifæri til þátttöku og lífskjör jöfnuð, t.d. varðandi kostnað við menntun og húshitun.

Sóknarfærin eru víða.
    Sóknarfærin eru víða. Þekkingariðnaður, þar sem vinnan felst í hugmyndasköpun, þekkingaröflun og dreifingu þekkingar, tekur við af framleiðslusamfélaginu. Þar eru sóknarfæri. Æ fleiri vilja njóta, ekki bara ósnortinnar náttúru, kyrrðar og fámennis, heldur einnig ómengaðrar fæðu. Aukinn frítími fólks leiðir til meiri ferðalaga. Ferðaþjónustan er vaxandi atvinnugrein. Þar eru sóknarfæri fyrir Ísland og fyrir landsbyggðina sérstaklega.
    Fjölbreytileiki menningar og mannlífs verður mikilvægari í hinu einsleita auglýsinga- og neyslusamfélagi. Þar eru sóknarfæri. Og allt á þetta við um Ísland og landsbyggðina sérstaklega. Við verðum að fylgja þessari þróun ef við viljum ná árangri í því að viðhalda fjölbreytileik byggðar og menningar á Íslandi. Sá er tilgangur byggðastefnu.

Alþingi, 29. apríl 2002.



Svanfríður Jónasdóttir,


frsm.


Bryndís Hlöðversdóttir.