Vísinda- og tækniráð

Þriðjudaginn 21. janúar 2003, kl. 14:13:50 (2829)

2003-01-21 14:13:50# 128. lþ. 61.1 fundur 336. mál: #A Vísinda- og tækniráð# frv. 2/2003, 357. mál: #A opinber stuðningur við vísindarannsóknir# (heildarlög) frv. 3/2003, 345. mál: #A opinber stuðningur við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins# frv. 4/2003, Frsm. meiri hluta ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 61. fundur, 128. lþ.

[14:13]

Frsm. meiri hluta allshn. (Þorgerður K. Gunnarsdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. meiri hluta hv. allshn. um frv. til laga um Vísinda- og tækniráð. Frv. var einnig lagt fram í fyrra en varð þá ekki útrætt.

Við í nefndinni fjölluðum náið um þetta mál í samstarfi við menntmn. og iðnn. þingsins. Frv. er samtvinnað 357. máli, um opinberan stuðning við vísindarannsóknir, sem menntmn. hefur til umfjöllunar og 345. máli, um opinberan stuðning við tækniþróun og nýsköpun í þágu atvinnulífsins, sem iðnn. hefur til umfjöllunar.

Við fengum umsagnir frá fjöldamörgum aðilum sem getið er um í nál. meiri hluta allshn. og fengum jafnframt til okkar marga góða gesti sem komu með góðar og þarflegar ábendingar til okkar. Með þessu frv. er lagður grunnur að nýskipan vísindarannsókna, vísindamenntunar og tækniþróunar í landinu. Markmiðum frumvarpanna er lýst í 1. gr. Þar kemur skýrt fram, með leyfi forseta:

,,Markmið laga þessara er að efla vísindarannsóknir og vísindamenntun á Íslandi með því að styrkja grunnrannsóknir og hagnýtar rannsóknir og stuðla að samvinnu þeirra aðila sem starfa að vísindarannsóknum jafnframt því að tryggja áreiðanleika og gæði upplýsinga um vísindi og rannsóknir hér á landi.``

[14:15]

Sem sagt, ætlunin er að stuðla að því að vísindarannsóknir og tækniþróun eflist og dafni í samræmi við þjóðlífið. Áhrif rannsókna á þjóðarhag og hagvöxt verða þá um leið sýnileg og fá aukna opinbera umfjöllun sem að mínu mati er þarft mál.

Í fyrra, eins og ég gat um áðan, var þetta frv. lagt fram en helstu breytingu sem hefur orðið á milli þinga má finna í 2. mgr. 3. gr. þar sem segir, með leyfi forseta:

,,Auk framangreindra skulu forsætisráðherra, fjármálaráðherra, iðnaðarráðherra og menntamálaráðherra eiga föst sæti í ráðinu, en þar að auki skal forsætisráðherra vera heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn. Forsætisráðherra er formaður ráðsins.``

Hér er farið m.a. eftir ábendingu sem nefndirnar fengu því að þetta lýtur að því að málefni hinna ýmsu atvinnuvega komi til álita í Vísinda- og tækniráði og þá ekki bara þeir atvinnuvegir sem falla undir þá ráðherra sem þeir heyra undir og getið er um í liðum a--i í 3. gr., heldur getur forsrh. kvatt til fleiri ráðherra ef svo ber undir, til að mynda ef málefnið félli undir samgöngumál svo dæmi sé nefnt.

Líklegt er að með þessum frv. verði hægt að tengja enn frekar rannsóknir innan háskólanna og rannsóknarstofnana og tryggja náin tengsl við atvinnulífið og notendur. Í máli gesta þótti oft skorta á þessa tengingu. Því vona menn að þessi frv., m.a. með tilliti til reynslu Finna, leysi þetta vandamál en almennt eru menn ánægðir með að litið skuli vera til reynslu Finna og tekið það besta frá þeirra reynsluheimi og reynt að yfirfæra á íslenskan veruleika.

Ábyrgð á þessum málum hefur til þessa hvílt á einstökum fagráðuneytum en að mestu án heildarsamræmingar þeirra á milli. Og það er rétt að geta þess að þegar unnið var að gerð þessara frv. var unnið þvert á faglega skiptingu Stjórnarráðsins til að skapa sem heildstæðasta löggjöf og umgjörð.

Með hliðsjón af breyttum aðstæðum er nú lagt til að samræmd umfjöllun um málefni vísinda og tækni verði færð á efsta stig stjórnsýslunnar og málaflokkurinn þannig efldur til muna líkt og var gert í Finnlandi á sínum tíma. Mikilvægt þykir að ákvarðanir séu teknar með heildarsýn í fyrirrúmi á grundvelli stefnu sem mörkuð er af stjórnvöldum. Með frv. er þannig lagt til að stefnumótun í málefnum vísindarannsókna og tækniþróunar fari fram í Vísinda- og tækniráði sem skipað verði 14 einstaklingum, vísindamönnum og fulltrúum atvinnulífsins auk þess sem fjórir ráðherrar munu eiga fast sæti í ráðinu. Aðrir ráðherrar sem tengjast rannsóknum að umtalsverðu leyti tilnefna í ráðið. Jafnframt er forsrh. heimilt að kveðja allt að tvo ráðherra til setu í ráðinu í senn, en það eru nýmælin sem ég gat um áðan.

Ef ríkisstjórnin vill leggja sérstaka áherslu í málum sem snerta ráðherra, aðra en þá sem eiga fast sæti í ráðinu, geta viðkomandi ráðherrar tekið þátt í störfum ráðsins þegar þeirra mál eru til umfjöllunar. Þeir gætu síðan horfið úr ráðinu og aðrir tveir tekið við ef svo bæri undir. Með tilliti til heildarsamsetningar ráðsins var ekki talin ástæða til þess að fleiri en sex ráðherrar væru í því hverju sinni. Með þessu er verið að reyna að stilla saman strengi vísindamanna, atvinnulífs og stjórnmálamanna.

Þegar litið er til samantektar Vilhjálms Lúðvíkssonar, framkvæmdastjóra Ranníss, sem var gerð um Finnlandsferð segir m.a., með leyfi forseta:

,,Allir viðmælendur hópsins,`` --- þess hóps sem fór til Finnlands á sínum tíma --- ,,töldu að Vísinda- og tækniráð`` --- ég vil geta þess að það voru mjög hæfir einstaklingar sem tóku á móti okkur, toppmenn á sínu sviði, yfirmenn Sitra, Tekes og finnska vísindaráðsins. Ég sé að hér í þessum sal glotta ákveðnir aðilar, og við höfum áður rætt það að það var því miður ekki hægt að koma því þannig fyrir að fleiri en formenn viðkomandi nefnda gætu komist í þessa ágætu ferð. En ég held að það sé samhugur meðal þingmanna hvað þau mál varðar (Gripið fram í: Að formennirnir séu góðir?) að formenn séu umfram allt góðir --- það er samhugur meðal formanna sem annarra nefndarmanna að þingnefndum sé gert kleift að senda þingmenn í slíkar fræðsluferðir sem þessa. Það má alveg í sjálfu sér segja að það er ekki gott þegar eingöngu annaðhvort stjórnarandstaða eða stjórnarmeirihluti fer. Ég get því tekið undir þau tilmæli sem hafa borist formanni allshn. hvað þetta varðar.

Engu að síður var þetta tækifæri nýtt af þeim nefndarformönnum sem fóru í þessa ferð sem var afskaplega fræðandi (Gripið fram í: Og skemmtileg.) og það segir, eins og ég gat um áðan, m.a. í orðum og samantekt Vilhjálms Lúðvíkssonar:

,,Allir viðmælendur hópsins töldu að Vísinda- og tækniráð undir formennsku forsætisráðherra hafi skilað mikilvægum árangri í samræmdri stefnumótun og samstillingu sem skýri að verulegu leyti sóknarárangur og efnahagsframfarir í Finnlandi á undanförnum árum. Framlög til vísinda og tækni hafa aukist hröðum skrefum, einnig eftir hrun Sovétríkjanna þrátt fyrir efnahagssamdráttinn sem þá varð. Þau námu 3,6% af vergri þjóðarframleiðslu á sl. ári.`` --- Þess ber að geta að fjármagn okkar Íslendinga til rannsókna og vísinda eru um 3% af vergri þjóðarframleiðslu. Við erum því ekki langt á eftir Finnum þó að þeir séu aðeins á undan okkur en þess ber að geta að í löndum Evrópusambandsins er, að mig minnir, 2% varið til vísinda og tækni miðað við verga þjóðarframleiðslu.

Síðan segir áfram, herra forseti:

,,Þetta er talið hafa átt meginþáttinn í þeim breytingum í átt til hátækni- og þekkingarþjóðfélags sem orðið hafa í Finnlandi síðustu 15--20 árin. Forsætisráðherrar hafa sýnt störfum ráðsins mikla athygli ásamt mennta- og iðnaðarráðherrum. Aðrir ráðherrar koma að einstökum málum sem þá varða sérstaklega.``

Síðan er annar nokkuð athyglisverður punktur sem kom líka fram í þessari samantekt. Þar er verið að fjalla um að finnska þingið hefur haft frá árinu 1994 starfandi nefnd um framtíðarmálefni Finnlands. Ég er ekki endilega að taka undir að við eigum að taka þá hugmynd hráa upp en það hefur m.a. verið viðrað í óformlegum samræðum við gesti nefndarinnar að það væri gott ef það væri hægt að skapa hér samræðugrundvöll milli þingmanna, vísindamanna og atvinnulífs, og það yrði hugsanlega skipuð hér ,,ad hoc-nefnd`` á vegum þingsins sem mundi fara þá yfir framtíðarmálefni vísinda, hvað gert hefur verið í þeirri þróun og hvað hægt er að gera. En þetta er einungis hugmynd sem hefur verið viðruð meðal okkar ágætu gesta.

Umsagnir, herra forseti, sem nefndinni bárust lutu meira og minna að tilnefningum þeirra sem vildu fá sæti í bæði Vísinda- og tækniráði og síðan vísindanefndinni og tækninefndinni. Kannski má segja að það sé ávallt vandrataður hinn gullni meðalvegur en við í meiri hluta allshn. leggjum til að þetta verði óbreytt.

Þess ber að geta að Kennaraháskóli Íslands benti á að félagsvísindi hefðu hugsanlega ekki nægilegan hljómgrunn hjá Vísinda- og tækniráði. Við inntum gesti okkar sérstaklega eftir því, fórum vel yfir þessi mál, og það er engan veginn verið að undanskilja félagsvísindin og þær rannsóknir sem þeim fylgja enda er menntmrh. tengdur vel inn í þetta og á að bera ábyrgð á því að félagsvísindum sem öðrum vísindum sé gert hátt undir höfði.

Einnig hefur í þessu frv. verið farið vel yfir það hvað vel hefur verið gert hjá Rannís og reynt hefur verið að viðhalda þeim þáttum sem vel hafa verið gerðir á þeim bænum. Þess má geta að Rannsóknasjóður verður til úr Tæknisjóði, og Vísindasjóður verður rekinn á sama grunni og fyrirrennari hans. Tækniþróunarsjóður styður þróunarstarf og tæknirannsóknir sem miða að nýsköpun í atvinnulífinu. Fagráð, en þau eru skipuð til tveggja ára í senn eins og í núverandi fyrirkomulagi, tryggir þetta jafningjamat sem er viðurkennd aðferð í vísinda- og tæknisamfélaginu til að meta umsóknir. Þessi fagráð munu leggja mat á umsóknir í Tækniþróunarsjóð líkt og í Rannsóknasjóð. Tækniþróunarsjóður getur líka átt aðild að uppbyggingu sprotafyrirtækja og gegnir kannski svipuðu hlutverki og að mig minnir Sitra í Finnlandi en það fyrirtæki hefur eflt mjög nýsköpunarfyrirtæki eða sprotafyrirtæki.

Það er ekki ætlunin og engan veginn tilgangurinn að skilja að grunnrannsóknir, hagnýtar rannsóknir og nýsköpun og þróun, það var margundirstrikað af hálfu gesta okkar. Í ljósi alls þessa, þegar litið er til umsagna, vinnu og í rauninni þeirra undirtekta sem þessi frv. fengu meðal gesta, er ljóst að það er víðtækur stuðningur við þessi frv. og því mælir meiri hlutinn með því að þetta frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem getið er um á þingskjali. Meiri hlutinn tekur sem sagt undir markmið frv. og telur að með því sé tryggður aukinn stuðningur við vísindarannsóknir og tækniþróun í landinu.